Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ræktaðu guðhræðslu

Ræktaðu guðhræðslu

Ræktaðu guðhræðslu

„Óttast [Jehóva] og forðast illt.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 3:7.

1. Fyrir hverja voru Orðskviðirnir skrifaðir?

 ORÐSKVIÐIRNIR í Biblíunni innihalda mikinn sjóð andlegra ráða. Jehóva gaf þessa leiðsögubók upphaflega til að fræða táknræna þjóð sína, Ísrael. Núna gefur hún viturleg heilræði handa heilagri, kristinni þjóð hans „sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:11; Orðskviðirnir 1:1-5; 1. Pétursbréf 2:9.

2. Hvers vegna er aðvörun Orðskviðanna 3:7 mjög tímabær núna?

2 Við lesum í Orðskviðunum 3:7: „Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast [Jehóva] og forðast illt.“ Allt frá tímum fyrstu foreldra okkar, þegar höggormurinn tældi Evu með loforði um að þau hjónin myndu „vita skyn góðs og ills,“ hefur lítilmótleg viska manna ekki megnað að svara þörfum mannkynsins. (1. Mósebók 3:4, 5; 1. Korintubréf 3:19, 20) Á engu tímabili mannkynssögunnar hefur það verið augljósara en núna á 20. öldinni — á hinum „síðustu dögum“ þegar mannkynið hefur verið að uppskera ávexti guðlausrar hugsunar og þróunarkenningar og er þjakað kynþáttahatri, ofbeldi og hvers kyns siðleysi. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; 2. Pétursbréf 3:3, 4) Þetta er ‚ný óreiðuheimsskipan‘ sem hvorki Sameinuðu þjóðirnar né hin sundurleitu trúarbrögð heimsins geta greitt úr.

3. Hvaða þróun var spáð um okkar daga?

3 Spádómsorð Guðs upplýsir okkur um að illir andar hafi gengið út til „konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. . . . á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“ (Opinberunarbókin 16:14, 16) Bráðlega mun skelfing frá Jehóva umvefja þessa konunga eða stjórnendur. Hún verður eins og óttinn sem kom yfir Kanverja þegar Jósúa og Ísraelsmenn komu til að fullnægja dómi á þeim. (Jósúabók 2:9-11) En núna er það hann sem Jósúa táknaði, Kristur Jesús — „Konungur konunga og Drottinn drottna“ — sem mun ‚slá þjóðirnar og stjórna þeim með járnsprota‘ og með því sýna „heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ — Opinberunarbókin 19:15, 16.

4, 5. Hvejir munu hljóta hjálpræði og hvers vegna?

4 Hverjir munu hljóta hjálpræði á þeim tíma? Þeir sem frelsast eru ekki þeir sem láta skelfingu gagntaka sig heldur þeir sem hafa ræktað lotningarfullan ótta við Jehóva. Í stað þess að vera vitrir í eigin augum ‚forðast þeir illt.‘ Í auðmýkt næra þeir hugi sína á því sem er gott þannig að illar hugsanir komast ekki að. Þeir bera í brjósti heilnæma virðingu fyrir alvöldum Drottni Jehóva, ‚dómara alls jarðríkis,‘ sem er í þann mund að lífláta hvern þann sem heldur sér fast við illskuna, alveg eins og hann eyddi hinum gerspilltu Sódómubúum. (1. Mósebók 18:25) Fyrir þjóna Guðs er „ótti [Jehóva] . . . lífslind til þess að forðast snörur dauðans.“ — Orðskviðirnir 14:27.

5 Á þessum dómsdegi Guðs munu allir, sem helga sig Jehóva algerlega í ótta við að misþóknast honum nokkurn tíma, gera sér grein fyrir þeim sannleika sem tjáður er á táknmáli í Orðskviðunum 3:8: „Það [að óttast Jehóva] mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.“

Að heiðra Jehóva

6. Hvað ætti að hvetja okkur til að hlýða Orðskviðunum 3:9?

6 Ótti okkar við Jehóva, samfara þakklæti og brennandi kærleika til hans, ætti að hvetja okkur til að hlýða Orðskviðunum 3:9: „Tigna [Jehóva] með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar.“ Við erum ekki þvinguð til að heiðra Jehóva með fórnargjöfum okkar. Þær ættu að vera sjálfviljagjafir eins og gefið er til kynna um 12 sinnum frá 2. Mósebók 35:29 til 5. Mósebókar 23:23 í sambandi við fórnir í Ísrael til forna. Þessi frumgróði, sem færður er Jehóva, ætti að vera það albesta sem við getum boðið fram til að viðurkenna þá gæsku og elskuríku góðvild sem við höfum notið af hans hendi. (Sálmur 23:6) Þær ættu að endurspegla þann ásetning okkar að halda áfram að ‚leita fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Og hvað hefur það í för með sér að tigna Jehóva með eigum okkar? „Þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.“ — Orðskviðirnir 3:10.

7. Hvaða frumgróða ættum við að fórna Jehóva og með hvaða afleiðingum?

7 Jehóva blessar okkur fyrst og fremst andlega. (Malakí 3:10) Þess vegna ætti frumgróðinn, sem við fórnum honum, fyrst og fremst að vera andlegur. Við ættum að nota tíma okkar, krafta og lífsþrótt í að gera vilja hans. Það mun síðan næra okkur á sama hátt og slík starfsemi varð styrkjandi „matur“ fyrir Jesú. (Jóhannes 4:34) Andlegar hlöður okkar munu verða nægtafullar og gleði okkar, táknuð með nýjum vínberjalegi, verða yfirfljótanleg. Auk þess getum við, um leið og við biðjum þess með trúartrausti að við megum hafa nægan mat til hvers dags, jafnt og þétt gefið örlátlega af efnum okkar til stuðnings starfi Guðsríkis um heim allan. (Matteus 6:11) Allt sem við eigum, þar á meðal efnislegar eigur okkar, höfum við fengið frá ástríkum, himneskum föður okkar. Hann mun úthella enn frekari blessun, svo fremi sem við notum þessar eigur okkar honum til lofs. — Orðskviðirnir 11:4; 1. Korintubréf 4:7.

Kærleiksríkar áminningar

8, 9. Hvernig ættum við að líta á áminningar og aga?

8 Í 11. og 12. versi talar 3. kafli Orðskviðanna aftur um hamingjuríkt samband föður og sonar sem fyrirfinnst í guðhræddum fjölskyldum, svo og milli Jehóva og ástkærra, andlegra barna hans á jörðinni. Við lesum: „Son minn, lítilsvirð eigi ögun [Jehóva] og lát þér eigi gremjast umvöndun hans, því að [Jehóva] agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til [„áminnir,“ NW], sem hann hefir mætur á.“ Fólk heimsins hefur andstyggð á áminningum. Þjónar Jehóva ættu að taka þeim fagnandi. Páll postuli vitnaði í þessi orð Orðskviðanna og sagði: „Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu [Jehóva], og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að [Jehóva] agar þann, sem hann elskar, . . . Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:5, 6, 11.

9 Já, áminningar og agi eru nauðsynlegur þáttur í þjálfun okkar allra, hvort heldur við fáum þær frá foreldrum okkar, gegnum kristna söfnuðinn eða þegar við íhugum Ritninguna í einkanámi okkar. Það skiptir sköpum um líf og dauða fyrir okkur að taka aga eins og Orðskviðirnir 4:1, 13 segja líka: „Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi! Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.“

Mesta hamingjan

10, 11. Nefndu nokkra þætti hinna fögru orða í Orðskviðunum 3:13-18.

10 Það eru falleg orð sem nú fylgja, já, vissulega ‚fögur orð og sannleiksorð.‘ (Prédikarinn 12:10) Þetta eru innblásin orð Salómons sem lýsa sannri hamingju. Þetta eru orð sem við ættum að rita í hjörtu okkar. Við lesum:

11 „Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull. Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar. Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni. Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Orðskviðirnir 3:13-18.

12. Hvernig ætti viska og hyggindi að verða okkur til gagns?

12 Speki eða viska — hversu oft er ekki minnst á hana í Orðskviðunum eða alls 46 sinnum! „Ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“ Þetta er guðleg, hagnýt viska byggð á þekkingu á orði Guðs sem gerir þjónum hans kleift að sigla óhultir gegnum hið hættulega óveður sem geisar í heimi Satans. (Orðskviðirnir 9:10) Hyggindi, sem eru nefnd oft í Orðskviðunum, eru hjálparhella viskunnar og hjálpa okkur að berjast gegn kænskubrögðum Satans. Andstæðingurinn mikli hefur árþúsundalanga reynslu í að beita vélabrögðum sínum. En við höfum miklu verðmætari kennara en reynsluna — guðleg hyggindi sem eru hæfnin til að greina rétt frá röngu og velja rétta leið til að fara. Það er þetta sem Jehóva kennir okkur gegnum orð sitt. — Orðskviðirnir 2:10-13; Efesusbréfið 6:11.

13. Hvað getur verndað okkur þegar illa árar í efnahagsmálum og hvernig?

13 Efnahagsöngþveitið í heimi nútímans er fyrirboði þess að spádómurinn í Esekíel 7:19 rætist: „Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi [Jehóva].“ Sem verndarmáttur kemst allur efnislegur auður jarðar ekki nándar nærri í jafnkvisti við visku og hyggindi. Hinn vitri konungur Salómon sagði við annað tækifæri: „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ (Prédikarinn 7:12) Allir sem núna ganga á yndislegum vegum Jehóva og velja viturlega ‚langa lífdaga,‘ hið eilífa líf sem er gjöf Guðs til allra sem iðka trú á lausnarfórn Jesú, eru sannarlega hamingjusamir! — Orðskviðirnir 3:16; Jóhannes 3:16; 17:3.

Að rækta sanna visku

14. Á hvaða vegu hefur Jehóva sýnt fyrirmyndarvisku?

14 Það er viðeigandi að við mennirnir, sem erum skapaðir í mynd Guðs, kappkostum að rækta með okkur visku og hyggindi, eiginleika sem Jehóva sjálfur sýndi þegar hann vann hin undursamlegu sköpunarverk sín. „[Jehóva] grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.“ (Orðskviðirnir 3:19, 20) Hann myndaði síðan lifandi verur, ekki með einhverju dularfullu, óskýranlegu þróunarferli, heldur með beinni sköpun, hvert „eftir sinni tegund“ og í viturlegum tilgangi. (1. Mósebók 1:25) Þegar maðurinn var loks skapaður með vitsmuni og hæfni langtum æðri dýrunum hljóta fagnaðarlæti englasona Guðs að hafa ómað og endurómað um himin allan. (Samanber Jobsbók 38:1, 4, 7.) Framsýni Jehóva, hyggindi, viska og kærleikur er því auðsær af öllum verkum hans á jörðinni. — Sálmur 104:24.

15. (a) Hvers vegna er ekki nóg einfaldlega að rækta með sér visku? (b) Hvaða trúartraust ættu Orðskviðirnir 3:25, 26 að vekja með okkur?

15 Við þurfum ekki aðeins að rækta með okkur þessa eiginleika Jehóva, viskuna og hyggindin, heldur verðum við líka halda fast í þá og megum aldrei slá slöku við nám okkar í orði hans. Hann hvetur okkur: „Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum, þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.“ (Orðskviðirnir 3:21, 22) Þannig getum við gengið örugg og með hugarró, jafnvel meðan dagur ‚snögglegrar tortímingar,‘ sem mun skella á heimi Satans, nálgast eins og þjófur. (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3) Í þrengingunni miklu þarft þú „ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir. Því að [Jehóva] mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.“ — Orðskviðirnir 3:23-26.

Elskaðu það að gera gott

16. Hvað þurfa kristnir menn að gera auk þess að vera kostgæfir í þjónustunni?

16 Þetta er rétti tíminn til að vera kostgæfinn í að prédika fagnaðarerindið um ríkið til vitnisburðar öllum þjóðum. En önnur kristin starfsemi þarf að styðja þetta vitnisburðarstarf eins og lýst er í Orðskviðunum 3:27, 28: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það. Seg þú ekki við náunga þinn: ‚Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér‘ — ef þú þó átt það til.“ (Samanber Jakobsbréfið 2:14-17.) Stór hluti heimsins er í helgreipum hungurs og fátæktar og borist hafa aðkallandi beiðnir um hjálp handa meðbræðrum okkar, einkum andlegum bræðrum okkar. Hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við?

17-19. (a) Hvaða aðkallandi þörf var fullnægt árið 1993 og hver urðu viðbrögðin? (b) Hvað sýnir að aðþrengdir bræður okkar ‚vinna fullan sigur‘?

17 Tökum eitt dæmi: Á síðasta ári barst aðkallandi hjálparbeiðni frá fyrrverandi Júgóslavíu. Bræðrafélagið í grannlöndunum brást stórkostlega við. Í nístingskulda síðastliðins vetrar tókst að koma nokkrum bílalestum með hjálpargögn inn á átakasvæðin og færa þurfandi vottum nýjustu ritin, hlýjan fatnað, matvæli og lyf. Við eitt tækifæri sóttu bræðurnir um leyfi til að flytja þangað 15 tonn af hjálpargögnum, en þegar leyfið barst hljóðaði það upp á 30 tonn! Vottar Jehóva í Austurríki sendu í skyndingu þrjá flutningabíla í viðbót. Alls komust 25 tonn á tilætlaðan áfangastað. Bræðurnir þar voru sannarlega glaðir að fá þessi andlegu og efnislegu hjálpargögn í ríkulegu magni!

18 Hver voru viðbrögð þeirra sem þáðu hjálpina? Fyrr á þessu ári skrifaði öldungur: „Bræðurnir og systurnar í Sarajevo eru á lífi og við góða heilsu, og það sem þýðingarmest er, við erum enn andlega sterk til að þrauka gegnum þetta fáránlega stríð. Ástandið var mjög erfitt hvað snertir mat. Megi Jehóva blessa ykkur og umbuna fyrir það sem þið hafið lagt á ykkur okkar vegna. Yfirvöldin bera sérstaka virðingu fyrir vottum Jehóva vegna fyrirmyndarlífernis þeirra og vegna virðingar þeirra fyrir yfirvöldum. Við erum líka þakklát fyrir andlegu fæðuna sem þið færðuð okkur.“ — Samanber Sálm 145:18.

19 Þessir bræður á hættusvæðunum hafa líka sýnt þakklæti sitt með því að vera kostgæfir í þjónustunni á akrinum. Margir nágrannar koma til þeirra og biðja um heimabiblíunám. Í borginni Tusla, þar sem fimm tonn af hjálpargögnum voru afhent, skýrðu 40 boðberar að meðaltali frá 25 stunda þjónustu yfir mánuðinn sem var góður stuðningur við hina níu brautryðjendur safnaðarins. Aðsóknin að minningarhátíðinni um dauða Jesú var einstök, 243. Þessir ástkæru bræður eru svo sannarlega að ‚vinna fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.‘ — Rómverjabréfið 8:37.

20. Hvaða „jöfnuður“ hefur átt sér stað í Sovétríkjunum fyrrverandi?

20 Það örlæti, sem stórar bílalestir með matvæli og hlýjan fatnað til Sovétríkjanna fyrrverandi endurspegla, á sér líka samsvörun í kostgæfni bræðra okkar þar. Til dæmis var aðsóknin að minningarhátíðinni í Moskvu 7549 á þessu ári í samanburði við 3500 í fyrra. Á sama tíma fjölgaði söfnuðunum þar í borg úr 12 í 16. Í öllum Sovétríkjunum fyrrverandi (að Eystrasaltsríkjunum undanskildum) fjölgaði söfnuðum um 14 af hundraði, boðberum Guðsríkis um 25 af hundraði og brautryðjendum um 74 af hundraði. Hvílík kostgæfni og fórnfýsi! Þetta minnir okkur á fyrstu öldina þegar „jöfnuður“ ríkti. Þeir kristnu menn, sem réðu yfir andlegum og efnislegum nægtum, gáfu þangað sem skortur var og þessir bágstöddu bræður glöddu og uppörvuðu gefendurna með kostgæfni sinni. — 2. Korintubréf 8:14.

Hatið hið illa!

21. Hvernig er hinum vitru og hinum heimsku stillt upp sem andstæðum í lokaorðum 3. kafla Orðskviðanna?

21 Þriðji kafli Orðskviðanna stillir síðan upp röð andstæðna og segir að lokum: „Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans. Því að andstyggð er sá [Jehóva], er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans. Bölvun [Jehóva] er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann. Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð. Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.“ — Orðskviðirnir 3:29-35.

22. (a) Hvernig getum við forðast örlög heimskingjanna? (b) Hvað hata hinir vitru og hvað rækta þeir með sér og með hvaða árangri?

22 Hvernig getum við forðast það að vera talin með heimskingjum? Við verðum að læra að hata hið illa, já, að hafa andstyggð á því sem Jehóva hefur andstyggð á — öllu hinu lævísa háttarlagi þessa ofbeldisfulla, blóðseka heims. (Sjá einnig Orðskviðina 6:16-19.) Ólíkt honum verðum við að glæða með okkur það sem gott er — ráðvendni, réttlæti og mildi — þannig að við getum í auðmýkt og ótta Jehóva öðlast ‚auð, heiður og líf.‘ (Orðskviðirnir 22:4) Það verður umbun okkar allra sem hlýðum með trygglyndi hvatningunni: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig á ritningargreinin, sem er stef þessa námsefnis, við nú á dögum?

◻ Hvernig getum við heiðrað Jehóva?

◻ Hvers vegna ættum við ekki að gera lítið úr aga?

◻ Hvar er mestu hamingjuna að finna?

◻ Hvernig getum við elskað hið góða og hatað hið illa?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 31]

Þeir sem bjóða Jehóva sitt besta að fórn hljóta ríkulega blessun.