Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Umgöngumst heiminn viturlega

Umgöngumst heiminn viturlega

Umgöngumst heiminn viturlega

„Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:5.

1. Hverju stóðu frumkristnir menn frammi fyrir og hvað ráðlagði Páll söfnuðinum í Kólossu?

 FRUMKRISTNIR menn, sem bjuggu í borgum hins rómverska heims, stóðu í sífellu frammi fyrir skurðgoðadýrkun, siðlausri skemmtanafíkn og heiðnum helgiathöfnum og venjum. Vafalaust blasti móðurgyðjudýrkun og spíritismi hinna innfæddu Frýgíumanna, heiðin heimspeki hinna aðfluttu Grikkja og gyðingdómur Gyðinganýlendunnar við þeim sem bjuggu í Kólossu, borg í vestanverðum miðhluta Litlu-Asíu. Páll postuli ráðlagði kristna söfnuðinum að ‚umgangast viturlega‘ slíka menn ‚sem fyrir utan voru.‘ — Kólossubréfið 4:5.

2. Hvers vegna þurfa vottar Jehóva nú á tímum að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru?

2 Nú á dögum standa vottar Jehóva frammi fyrir áþekkum röngum iðkunum og jafnvel fleiru. Þeir þurfa líka þess vegna að sýna visku í sambandi sínu við þá sem eru utan sannkristna safnaðarins. Margir eru þeim andsnúnir, bæði í fjölmiðlaheiminum og meðal presta og stjórnmálamanna. Sumir þessara aðila reyna, annaðhvort með beinum árásum en þó oftar með aðdróttunum, að sverta mannorð votta Jehóva og vekja fordóma gegn þeim. Á sama hátt og frumkristnir menn voru ranglega álitnir ofstækisfullur og jafnvel hættulegur ‚villuflokkur‘ eru vottar Jehóva nú á tímum oft skotspónn fordóma og ranghugmynda. — Postulasagan 24:14, Bi. 1912; 1. Pétursbréf 4:4.

Sigrast á fordómum

3, 4. (a) Hvers vegna mun heimurinn aldrei elska sannkristna menn en hvað ættum við að reyna að gera? (b) Hvað skrifaði rithöfundur um votta Jehóva sem voru í fangabúðum nasista?

3 Sannkristnir menn búast ekki við því að heimurinn elski þá en hann „er á valdi hins vonda“ að sögn Jóhannesar postula. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Engu að síður hvetur Biblían kristna menn til að leitast við að vinna einstaklinga til fylgis við Jehóva og hreina tilbeiðslu hans. Það gerum við bæði með beinum vitnisburði og góðri hegðun okkar. Pétur postuli skrifaði: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ — 1. Pétursbréf 2:12.

4 Í bók sinni Forgive — But Do Not Forget segir höfundurinn, Sylvia Salvesen, um konur sem voru vottar Jehóva og samfangar hennar í fangabúðum nasista: „Þessar tvær, Käthe og Margarethe og margar aðrar, hjálpuðu mér heilmikið, ekki aðeins með trú sinni heldur líka í hagnýtum málum. Þær útveguðu okkur fyrstu hreinu tuskurnar sem við höfðum til að binda um sár okkar . . . Í stuttu máli sagt vorum við meðal fólks sem vildi okkur vel og sýndi vinsamlegar tilfinningar sínar í verki.“ Þetta er góður vitnisburður frá þeim „sem fyrir utan eru“!

5, 6. (a) Hvaða verki er Kristur að áorka nú á tímum og hverju ættum við ekki að gleyma? (b) Hvaða viðhorf ættum við að hafa til fólks í heiminum og hvers vegna?

5 Við getum gert margt til að brjóta niður fordóma með viturlegri hegðun okkar gagnvart þeim sem fyrir utan eru. Að vísu lifum við þann tíma þegar ríkjandi konungur okkar, Kristur Jesús, aðgreinir menn af þjóðunum „eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ (Matteus 25:32) En gleymum aldrei að Kristur er dómarinn; það er hann sem ákveður hverjir eru ‚sauðir‘ og hverjir ‚hafrar.‘ — Jóhannes 5:22.

6 Þetta ætti að hafa áhrif á viðhorf okkar til þeirra sem eru ekki hluti af skipulagi Jehóva. Við lítum kannski á þá sem veraldlegt fólk, en þeir eru hluti af mannheiminum sem ‚Guð elskaði svo mikið að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.‘ (Jóhannes 3:16) Það er miklu betra að líta á fólk sem væntanlega sauði en ætla sér þá dul að dæma það sem hafra. Sumir sem voru einu sinni heiftarlega mótfallnir sannleikanum eru núna vígðir vottar. Og það voru góð verk sem unnu marga fyrst til fylgis við sannleikann, áður en þeir brugðust jákvætt við nokkrum beinum vitnisburði. Sjá til dæmis myndina á blaðsíðu 17 þar sem sannkristnir menn í Frakklandi hjálpa nágrönnum sínum eftir flóð.

Kostgæfir, ekki ágengir

7. Hvaða gagnrýni kom páfinn með en hvaða spurningar gætum við spurt?

7 Jóhannes Páll páfi II gagnrýndi sértrúarflokka almennt og votta Jehóva sérstaklega er hann sagði: „Hin nánast ágenga kostgæfni sumra í að leita nýrra áhangenda, með því að ganga hús úr húsi eða stöðva vegfarendur á götuhornum, er léleg eftirlíking sértrúarflokka á postullegum trúarhita og trúboðsákafa.“ En spyrja mætti: Hvar er sannan kristniboðseldmóð að finna ef kostgæfni okkar er ‚léleg eftirlíking á postullegum trúarhita og trúboðsákafa‘? Svo sannarlega ekki meðal kaþólskra manna og reyndar ekki heldur meðal mótmælenda eða rétttrúnaðarmanna.

8. Hvernig ættum við að bera vitni hús úr húsi og með von um hvaða árangur?

8 Hvað sem því líður ættum við alltaf að vera vingjarnleg, háttvís og kurteis þegar við tökum fólk tali, þannig að við getum hrakið sérhverja ásökun um að við séum ágeng í trúboði okkar. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.“ (Jakobsbréfið 3:13) Páll postuli hvetur okkur til að „vera ódeilugjarnir.“ (Títusarbréfið 3:2) Hvers vegna ekki að sýna skoðunum þess sem við erum að bera vitni fyrir einlægan áhuga í stað þess að fordæma trúarviðhorf hans umbúðalaust? Síðan getum við sagt honum frá fagnaðarerindinu eins og það er að finna í Biblíunni. Með því að tileinka okkur jákvætt viðmót og sýna fólki, sem er annarrar trúar, tilhlýðilega virðingu hjálpum við því að vera fúsara til að hlusta og kannski mun það koma auga á gildi boðskapar Biblíunnar. Árangurinn gæti orðið sá að sumir fari að ‚vegsama Guð.‘ — 1. Pétursbréf 2:12.

9. Hvernig getum við heimfært ráðleggingar Páls í (a) Kólossubréfinu 4:5 (b) Kólossubréfinu 4:6?

9 Páll postuli ráðlagði: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.“ (Kólossubréfið 4:5) J. B. Lightfoot skýrir síðari hluta versins þannig: „Látið ekkert tækifæri ganga ykkur úr greipum til að segja og gera hvaðeina sem getur orðið málstað Guðs til framdráttar.“ (Leturbreyting okkar.) Já, við verðum að vera tilbúin með orð og athafnir á hverri stund. Slík viska felur einnig í sér að velja viðeigandi tíma dags til að fara í heimsóknir. Ef boðskap okkar er hafnað, er það þá vegna þess að fólk kann ekki að meta hann eða er það vegna þess að við komum í heimsókn á tíma sem var líklega óheppilegur? Páll skrifaði líka: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kólossubréfið 4:6) Þetta kallar á fyrirhyggju og sannan náungakærleika. Við skulum alltaf koma boðskap Guðsríkis ljúflega eða vinsamlega á framfæri.

Kurteis og ‚reiðubúin til sérhvers góðs verks‘

10. (a) Hvað ráðlagði Páll postuli kristnum mönnum sem bjuggu á Krít? (b) Hvernig hafa vottar Jehóva verið til fyrirmyndar í því að fylgja ráðleggingum Páls?

10 Við getum ekki slakað til þar sem meginreglur Biblíunnar eiga í hlut. Á hinn bóginn ættum við ekki að óþörfu að fara út í deilur um málefni sem varða ekki kristna ráðvendni. Páll postuli skrifaði: „Minn þá [kristna menn á Krít] á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks, lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ (Títusarbréfið 3:1, 2) Biblíufræðingurinn E. F. Scott skrifaði um þessa ritningargrein: „Kristnir menn áttu ekki aðeins að hlýða yfirvöldum heldur urðu þeir að vera reiðubúnir til sérhvers góðs verks. Þetta . . . þýðir að þegar aðstæður útheimtu það ættu kristnir menn að vera meðal hinna fyrstu til að sýna samfélagskennd. Eldsvoðar, farsóttir og ógæfa af ýmsu tagi myndi sífellt halda áfram að brjótast út og þá myndi alla góða borgara langa til að hjálpa nágrönnum sínum.“ Hamfarir hafa margsinnis átt sér stað út um heim allan og vottar Jehóva hafa verið meðal þeirra fyrstu til að veita neyðaraðstoð. Þeir hafa ekki aðeins hjálpað bræðrum sínum heldur einnig þeim sem fyrir utan eru.

11, 12. (a) Hvernig ættu kristnir menn að koma fram gagnvart yfirvöldum? (b) Hvað er fólgið í undirgefni við yfirvöld þegar bygging ríkissala er annars vegar?

11 Þessar sömu setningar í bréfi Páls til Títusar undirstrika einnig mikilvægi þess að temja sér virðingu í viðhorfum til yfirvalda. Ungir kristnir menn, sem eru leiddir fyrir dómara vegna hlutleysisafstöðu sinnar, ættu sérstaklega að hafa hugfast að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru. Þeir geta gert mikið til að bæta eða spilla mannorði þjóna Jehóva með útliti sínu, framkomu og því hvernig þeir tala við slík yfirvöld. Þeir ættu að sýna „þeim virðing, sem virðing ber“ og láta í ljós djúpa virðingu er þeir tala máli sínu. — Rómverjabréfið 13:1-7; 1. Pétursbréf 2:17; 3:15.

12 Embættismenn stjórnvalda á hverjum stað eru líka ‚yfirvöld.‘ Samhliða því að byggðir eru fleiri og fleiri ríkissalir er óhjákvæmilegt að eiga samskipti við yfirvöld á staðnum. Oft mæta öldungarnir fordómum. En reynslan hefur sýnt að þar sem fulltrúar safnaðarins koma á góðu sambandi við yfirvöld og eru samstarfsfúsir við skipulagsnefnd bæjarfélagsins er hægt að brjóta þessa fordóma niður. Oft fær fólk, sem áður vissi lítið eða ekkert um votta Jehóva og boðskap þeirra, góðan vitnisburð.

‚Hafið frið við alla menn ef það er unnt‘

13, 14. Hvað ráðlagði Páll kristnum mönnum í Róm og hvernig getum við heimfært það á samband okkar við þá sem fyrir utan eru?

13 Páll ráðlagði kristnum mönnum, sem bjuggu í hinni heiðnu Róm, eftirfarandi: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘ En ‚ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.‘ Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:17-21.

14 Óhjákvæmilegt er að við sem erum sannkristnir menn rekumst á mótstöðumenn í samskiptum okkar við þá sem fyrir utan eru. Páll sýnir í ritningargreininni hér að ofan að það er leið viskunnar að leggja sig fram um að sigra andstöðuna með góðum verkum. Líkt og glóandi kol geta þessi góðverk brætt niður fjandskapinn og unnið mótstöðumanninn til jákvæðara viðhorfs í garð þjóna Jehóva, ef til vill jafnvel vakið áhuga hans á fagnaðarerindinu. Þegar það gerist er hið illa sigrað með góðu.

15. Hvenær ættu kristnir menn að gæta þess sérstaklega að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru?

15 Það er sérstaklega mikilvægt á heimilum, þar sem annað hjónanna hefur enn ekki tekið við sannleikanum, að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru. Það að fylgja meginreglum Biblíunnar gerir fólk að betri eiginmönnum, betri eiginkonum, betri feðrum, betri mæðrum og börnum sem eru hlýðnari og duglegri við skólanámið. Sá sem ekki er í trúnni ætti að geta séð hin heilnæmu áhrif sem meginreglur Biblíunnar hafa á hinn trúaða. Þannig kunna sumir að geta „unnist orðalaust við hegðun“ vígðra fjölskyldumeðlima. — 1. Pétursbréf 3:1, 2.

Að ‚gera öllum gott‘

16, 17. (a) Hvaða fórnir eru Guði þóknanlegar? (b) Hvernig ættum við að gera bræðrum okkar og einnig þeim sem fyrir utan eru gott?

16 Það besta sem við getum gert í þágu náunga okkar er að færa honum boðskap lífsins og kenna honum hvernig megi sættast við Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists. (Rómverjabréfið 5:8-11) Þess vegna segir Páll postuli okkur: „Fyrir hann [Krist] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Páll bætir við: „En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebreabréfið 13:16) Auk opinbers vitnisburðar okkar ættum við ekki að gleyma „velgjörðaseminni.“ Hún er óaðskiljanlegur þáttur þeirra fórna sem Guð hefur velþóknun á.

17 Eðlilega gerum við gott andlegum bræðrum okkar sem kunna að vera einhvers þurfandi tilfinningalega, andlega, líkamlega eða efnislega. Páll gaf það til kynna er hann skrifaði: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10; Jakobsbréfið 2:15, 16) Við ættum samt ekki að gleyma orðunum ‚gerum öllum gott.‘ Góðverk í þágu ættingja, nágranna eða vinnufélaga getur átt drjúgan þátt í að brjóta niður fordóma gegn okkur og opna hjarta einstaklingsins fyrir sannleikanum.

18. (a) Hvaða hættur ættum við að forðast? (b) Hvernig getum við notað kristna góðvild okkar til að styðja opinbert vitnisburðarstarf okkar?

18 Til að gera það þurfum við ekki að stofna til náinnar vináttu við þá sem fyrir utan eru. Slíkur félagsskapur getur verið hættulegur. (1. Korintubréf 15:33) Og það er alls ekki ætlunin að við séum vinir heimsins. (Jakobsbréfið 4:4) En kristin góðvild okkar getur stutt prédikun okkar. Í sumum löndum verður æ erfiðara að ná tali af fólki heima hjá því. Í sumum fjölbýlishúsum eru gerðar slíkar öryggisráðstafanir að það er ekki hægt að ná sambandi við íbúana. Í hinum þróuðu löndum býður síminn upp á leið til að prédika. Í flestum löndum er hægt að prédika á götum úti. En í öllum löndum opnar það okkur tækifæri til að brjóta niður fordóma og gefa góðan vitnisburð ef við erum viðmótsþýð, kurteis, góðviljuð og hjálpsöm.

Þaggað niður í mótstöðumönnum

19. (a) Hverju megum við búast við úr því að við sækjumst ekki eftir að þóknast mönnum? (b) Hvernig ættum við að leitast við að fylgja fordæmi Daníels og heimfæra ráðleggingar Péturs?

19 Vottar Jehóva hvorki óttast menn né sækjast eftir að þóknast þeim. (Orðskviðirnir 29:25; Efesusbréfið 6:6) Þeim er fullljóst að þrátt fyrir alla viðleitni sína til að vera fyrirmyndarskattgreiðendur og góðir borgarar munu andstæðingarnir breiða út illkvittnar lygar og tala niðrandi um þá. (1. Pétursbréf 3:16) Þar eð þeir vita þetta reyna þeir að líkja eftir Daníel sem óvinir sögðu um: „Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans.“ (Daníel 6:6) Við slökum aldrei á meginreglum Biblíunnar til að þóknast mönnum. Á hinn bóginn erum við ekki að sækjast eftir píslarvætti. Við gerum okkur far um að lifa friðsamlega og hlýða ráði postulans: „Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.“ — 1. Pétursbréf 2:15.

20. (a) Hvað erum við sannfærð um og hvaða hvatningu gaf Jesús okkur? (b) Hvernig getum við haldið áfram að hegða okkur viturlega gagnvart þeim sem fyrir utan eru?

20 Við erum sannfærð um að sú afstaða okkar að vera aðgreind frá heiminum sé í fullu samræmi við Biblíuna. Það á sér stuðning í sögu kristinna manna á fyrstu öld. Orð Jesú hughreysta okkur: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Við óttumst ekki. „Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er? En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum. En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:13-16) Með því að koma þannig fram höldum við áfram að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru.

Til upprifjunar

◻ Hvers vegna þurfa vottar Jehóva að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru?

◻ Hvers vegna geta sannkristnir menn aldrei vonast eftir því að heimurinn elski þá en hvað ættu þeir að reyna að gera?

◻ Hvert ætti að vera viðhorf okkar til fólks í heiminum og hvers vegna?

◻ Hvers vegna ættum við að ‚gera það sem gott er‘ ekki aðeins trúbræðrum okkar heldur líka þeim sem fyrir utan eru?

◻ Hvernig getur það að umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru hjálpað okkur í opinberu vitnisburðarstarfi okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Kristileg góðverk geta átt drjúgan þátt í að brjóta niður fordóma.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Kristnir menn ættu að vera „reiðubúnir til sérhvers góðs verks.“