Mannkynið þarfnast þekkingar á Guði
Mannkynið þarfnast þekkingar á Guði
„Þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 2:5.
1. Hvers vegna má segja að mannshjartað sé verkfræðilegt meistaraverk Guðs?
Á ÞESSARI stundu slá um það bil 5.600.000.000 mannshjörtu á jörðinni. Hjarta þitt slær 100.000 slög á hverjum sólarhring og dælir sem samsvarar 7600 lítrum af blóði um 100.000 kílómetra langt æðakerfi þitt. Enginn annar vöðvi vinnur af slíkri elju sem þetta meistaraverk Guðs.
2. Hvernig lýsirðu hinu óeiginlega hjarta?
2 Það eru líka 5.600.000.000 óeiginleg hjörtu að störfum á jörðinni. Í hinu óeiginlega hjarta búa tilfinningar okkar, hvatir og langanir. Það er aðsetur hugsana okkar, skilnings og vilja. Hið óeiginlega hjarta getur verið hógvært eða hrokafullt, glatt eða dapurt, upplýst eða í myrkri. — Nehemíabók 2:2; Orðskviðirnir 16:5; Matteus 11:29; Postulasagan 14:17; 2. Korintubréf 4:6; Efesusbréfið 1:16-18.
3, 4. Hvað er gert til að fagnaðarerindið nái til hjartna manna?
3 Jehóva Guð getur lesið mannshjartað. Orðskviðirnir 17:3 segja: „Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en [Jehóva] prófar hjörtun.“ Í stað þess bara að lesa hvert hjarta og kveða upp dóm notar hann votta sína til að ná til hjartna fólks með fagnaðarerindið. Það er í samræmi við orð Páls postula: „‚Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘ En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ — Rómverjabréfið 10:13-15.
4 Jehóva hefur þóknast að senda votta sína til endimarka jarðar til að „færa fagnaðarboðin góðu“ og finna þá sem hafa móttækileg hjörtu. Við erum núna yfir 5.000.000 talsins — hlutfallið er 1 vottur fyrir hverja 1200 jarðarbúa. Það er ekki auðvelt að ná til milljarðanna á jörðinni með fagnaðarerindið. En Guð stjórnar þessu starfi fyrir milligöngu Jesú Krists og dregur hreinhjartaða menn til sín. Þannig er spádómurinn, sem skráður er í Jesaja 60:22, að rætast: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“
5. Hvað er þekking og hvað er hægt að segja um visku heimsins?
5 Sá tími er núna kominn og eitt er ljóst: Milljarðarnir á jörðinni þarfnast þekkingar. Þekking er það að kunna skil á staðreyndum sökum reynslu, athugunar eða náms. Heimurinn hefur viðað að sér mikilli þekkingu. Framfarir hafa orðið á ýmsum sviðum eins og samgöngum, heilsugæslu og fjarskiptum. En er það veraldleg þekking sem mannkynið þarf mest á að halda? Varla! Styrjaldir, kúgun, sjúkdómar og dauði halda áfram að þjá mannkynið. Viska heimsins hefur oft reynst vera eins og eyðimerkursandur sem fýkur til í hverjum stormi.
6. Hvernig er þekkingin á Guði í samanburði við veraldlega visku hvað varðar blóð?
6 Tökum dæmi: Fyrir tveimur öldum var það alvanalegt læknisráð að taka mönnum blóð. Síðustu klukkustundirnar, sem George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna, lifði, var honum hvað eftir annað tekið blóð. Í eitt skiptið sagði hann: „Látið mig fara hljóðlega; ég endist ekki lengi.“ Hann hafði rétt fyrir sér því að hann dó þennan sama dag — 14. desember árið 1799. En nú er mönnum ekki tekið blóð heldur lögð áhersla á dæla blóði inn í mannslíkamann. Báðar aðferðirnar hafa alla tíð verið stórhættulegar. Allan þennan tíma stóð hins vegar í orði Guðs: „Haldið yður frá . . . blóði.“ (Postulasagan 15:29) Þekkingin á Guði er alltaf rétt, áreiðanleg og í takt við tímann.
7. Hvernig er nákvæm biblíuþekking í samanburði við veraldlega visku um barnauppeldi?
7 Skoðum annað dæmi um óáreiðanlega speki heimsins. Um langt árabil mæltu sálfræðingar með undanlátssemi við uppeldi barna. En einn af talsmönnum þess viðurkenndi síðar að það væru mistök. Þýska málvísindafélagið sagði einu sinni að undanlátssemi væri „að minnsta kosti óbeint ábyrg fyrir þeim erfiðleikum sem við eigum í með ungt fólk núna.“ Veraldleg viska getur sveiflast til og frá eins og fyrir vindi, en nákvæm biblíuþekking hefur reynst óhagganleg. Biblían veitir öfgalaus ráð um barnauppeldi. „Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni,“ segja Orðskviðirnir 29:17. Slíkum aga á að beita með kærleika því að Páll skrifaði: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.
„Þekking á Guði“
8, 9. Hvernig útskýrir þú það sem Orðskviðirnir 2:1-6 segja um þá þekkingu sem mannkynið virkilega þarfnast?
8 Þótt Páll væri menntaður maður sagði hann: „Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur. Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði.“ (1. Korintubréf 3:18, 19) Aðeins Guð getur látið í té þá þekkingu sem mannkynið þarfnast í alvöru. Orðskviðirnir 2:1-6 segja um hana: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði. Því að [Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“
9 Þeir sem hvattir eru áfram af góðu hjarta ljá spekinni athygli sína með því að beita þekkingunni, sem Guð gefur, á réttan hátt. Þeir hneigja hjarta sitt að hyggindum, vega og meta vandlega staðreyndirnar sem þeir eru að læra. Í raun kalla þeir á skynsemina eða skilninginn, hæfnina til að sjá hvernig hinir ýmsu efnisþættir tengjast hver öðrum. Þeir sem hafa réttlátt hjarta vinna eins og þeir séu að leita að silfri og grafa eftir fólgnum fjársjóðum. En hvaða mikla fjársjóði finna þeir sem hafa móttækileg hjörtu? Það er „þekking á Guði.“ Hvað er það? Í stuttu máli sagt er það þekkingin sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni.
10. Hvað verðum við að gera til að njóta góðrar andlegrar heilsu?
10 Þekkingin á Guði er áreiðanleg, ófallvölt, lífgandi. Hún stuðlar að andlegu heilbrigði. Páll hvatti Tímóteus: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13) Tungumál er safn orða. Og hið ‚hreina tungumál‘ biblíulegs sannleika hefur að geyma safn ‚heilnæmra orða‘ sem eru aðallega byggð á biblíuþemanu um réttlætingu drottinvalds Jehóva fyrir atbeina Guðsríkis. (Sefanía 3:9, NW) Við verðum að hafa þetta safn heilnæmra orða í huga og hjarta. Eina leiðin til að forðast táknræna hjartveiki og halda sér andlega heilbrigðum er að fara eftir Biblíunni í daglega lífinu og notfæra sér til fulls hinar andlegu ráðstafanir sem Guð gerir fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47; Títusarbréfið 2:2) Gleymum aldrei að við þörfnumst þekkingarinnar á Guði til að varðveita góða andlega heilsu.
11. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að mannkynið þarfnast þekkingarinnar á Guði.
11 Hugleiðum aðrar ástæður fyrir því að milljarðarnir á jörðinni þarfnast þekkingar á Guði. Vita menn almennt hvernig jörðin og mannkynið varð til? Nei, það gera þeir ekki. Þekkja allir menn hinn sanna Guð og son hans? Er öllum mönnum kunnugt um deilumálið sem Satan vakti upp um drottinvald Guðs og ráðvendni manna? Svarið er aftur nei. Veit fólk almennt hvers vegna við hrörnum og deyjum? Enn á ný verðum við að segja nei. Er öllum jarðarbúum ljóst að ríki Guðs stjórnar núna og að við lifum á síðustu dögum? Er þeim kunnugt um tilvist illra andavera? Búa allir menn yfir áreiðanlegri þekkingu á því hvernig gera megi fjölskyldulífið hamingjuríkt? Og veit allur fjöldi manna að ánægjulegt líf í paradís er það sem skapari okkar ætlar hlýðnum mönnum? Svarið er líka nei við þessum spurningum. Ljóst er því að mannkynið þarfnast þekkingar á Guði.
12. Hvernig getum við tilbeðið Guð „í anda og sannleika“?
12 Mannkynið þarfnast líka þekkingar á Guði vegna þess sem Jesús sagði í bæn síðustu nóttina er hann lifði hér á jörð. Það hlýtur að hafa haft djúp áhrif á postula hans að heyra hann segja: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Eina leiðin til að tilbiðja Guð eins og honum er þóknanlegt er sú að nota slíka þekkingu. „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika,“ sagði Jesús. (Jóhannes 4:24) Við tilbiðjum Guð „í anda“ þegar við erum knúin af hjörtum sem eru full trúar og kærleika. Hvernig tilbiðjum við hann ‚í sannleika‘? Með því að nema orð hans og tilbiðja hann í samræmi við opinberaðan sannleika hans — ‚þekkinguna á Guði.‘
13. Hvaða atviki er greint frá í Postulasögunni 16:25-34 og hvað getum við lært af því?
13 Þúsundir manna byrja að tilbiðja Jehóva ár hvert. En þarf að nema Biblíuna lengi með áhugasömu fólki, eða er hægt að hjálpa hreinhjörtuðu fólki að ná fljótar því stigi að láta skírast? Nú, athugum hvað gerðist í tengslum við fangavörðinn og heimafólk hans sem minnst er á í Postulasögunni 16:25-34. Páli og Sílasi hafði verið varpað í fangelsi í Filippí en um miðnætti opnaði mikill jarðskjálfti fangelsisdyrnar. Fangavörðurinn hélt að allir fangarnir væru flúnir og að honum yrði refsað harðlega, og hann var að því kominn að fyrirfara sér þegar Páll sagði honum að þeir væru þar allir. Páll og Sílas „fluttu honum orð [Jehóva] og öllum á heimili hans.“ Fangavörðurinn og fjölskylda hans voru heiðingjar sem þekktu ekkert til Heilagrar ritningar. Samt tóku þau trú á þessari einu nóttu „og var [fangavörðurinn] þegar skírður og allt hans fólk.“ Þetta voru óvenjulegar aðstæður, en hinum nýju voru kennd undirstöðusannindi og síðan lærðu þeir meira á safnaðarsamkomum. Það ætti að vera hægt að gera eitthvað sambærilegt nú á dögum.
Uppskeran er mikil!
14. Af hverju þarf að stjórna fleiri árangursríkum biblíunámum á skemmri tíma en fram til þessa?
14 Það væri gott ef vottar Jehóva gætu stýrt fleiri árangursríkum biblíunámum á skemmri tíma en fram til þessa. Þörfin er brýn. Í Austur-Evrópulöndum og víða annars staðar þarf að setja fólk á biðlista eftir biblíunámum. Í bæ einum í Dóminíska lýðveldinu fengu fimm vottar svo margar beiðnir um nám að þeir gátu ekki annað þeim öllum. Hvað gerðu þeir? Þeir hvöttu áhugasama til að sækja samkomurnar í ríkissalnum og skrá sig á biðlista eftir biblíunámum. Eins er ástatt víða annars staðar á jörðinni.
15, 16. Hvað hefur verið látið í té til að útbreiða þekkinguna á Guði hraðar, og hvað má nefna í sambandi við þetta verkfæri?
15 Gríðarstór svæði — víðáttumiklir akrar til uppskeru — eru að opnast fólki Guðs. Enda þótt Jehóva, „herra uppskerunnar,“ sé að senda fleiri verkamenn er mikið ógert enn. (Matteus 9:37, 38) Hinn ‚trúi þjónn‘ hefur nú látið í té verkfæri til að útbreiða þekkinguna á Guði hraðar, bók sem kemur nákvæmum upplýsingum skýrt og skorinort til skila þannig að biblíunemendur geti tekið andlegum framförum í hvert sinn sem numið er. Hægt er að fara fremur hratt yfir þessa nýju bók í heimabiblíunámum — kannski á fáeinum mánuðum. Og hún fer vel í starfstöskum okkar, handtöskum eða jafnvel vasanum! Þau hundruð þúsunda manna, sem komu saman á umdæmismótum votta Jehóva, „Glaðir menn sem lofa Guð,“ voru himinlifandi að fá í hendur þessa 192 blaðsíðna bók er nefnist Þekking sem leiðir til eilífs lífs.
16 Mönnum í ýmsum löndum var falið að semja efni sem síðan var fært í endanlega mynd í Þekkingarbókinni. Bókin ætti því að hafa alþjóðlega skírskotun. En líður langur tími uns þessi nýja bók verður gefin út á tungumálum manna um heim allan? Nei, því að hægt er að þýða 192 blaðsíðna bók á skemmri tíma en stærri bækur. Í október síðastliðnum hafði ritnefnd hins stjórnandi ráðs samþykkt þýðingu bókarinnar úr ensku á meira en 130 tungumál.
17. Hvað ætti að gera Þekkingarbókina auðvelda í notkun?
17 Tiltekin atriði í hverjum kafla Þekkingarbókarinnar ættu að gera nemendum kleift að taka frekar hröðum andlegum framförum. Bókin setur sannleikann fram á uppbyggjandi hátt. Hún er ekki langorð um falskenningar. Skýrt mál og rökrétt úrvinnsla ætti að gera þessa bók auðvelda í notkun í biblíunámum og hjálpa fólki að fá góða þekkingu á Guði. Auk ritningarstaða, sem skrifaðir eru út, er vísað í aðra sem hvetja ætti nemandann til að fletta upp þegar hann býr sig undir námið. Þessa ritningarstaði má lesa í náminu eftir því sem tími leyfir. Það er hins vegar ekki skynsamlegt að koma með utanaðkomandi efni sem gæti skyggt á aðalatriðin. Sá sem stjórnar biblíunáminu ætti að leitast við að skilja hvað bókin er að sýna fram á í hverjum kafla og koma því til skila til nemandans. Það þýðir að kennarinn verður fyrst að nema bókina vandlega til að hann hafi meginhugmyndirnar mjög skýrar í huga.
18. Hvað er lagt til í sambandi við notkun Þekkingarbókarinnar?
18 Hvernig getur bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs hraðað því starfi að gera menn að lærisveinum? Hægt er að nema þessa 192 blaðsíðna bók á tiltölulega skömmum tíma, og þeir sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ ættu að geta lært nóg af henni til að vígjast Jehóva og láta skírast. (Postulasagan 13:48, NW) Við skulum því nota Þekkingarbókina vel í boðunarstarfinu. Ef biblíunemandi er langt kominn að nema aðra bók er kannski heppilegt að ljúka við hana. Að öðrum kosti er lagt til að skipt sé yfir í Þekkingarbókina. Ekki er lagt til að haldið sé áfram námi með sama nemanda í annarri bók eftir að þessari nýju bók er lokið. Þeir sem taka við sannleikanum geta aukið við þekkingu sína með því að sækja samkomur votta Jehóva og með því að lesa sjálfir bæði Biblíuna og ýmis biblíutengd rit. — 2. Jóhannesarbréf 1.
19. Hvað væri gott að rifja upp áður en biblíunám er haldið með hjálp Þekkingarbókarinnar?
19 Við samningu Þekkingarbókarinnar var stefnt að því að hjálpa fólki að svara öllum spurningunum sem öldungarnir fara yfir með óskírðum boðberum er vilja láta skírast sem vottar Jehóva. Áður en þú skiptir yfir í þessa nýju bók með þeim sem þú ert að nema með núna, er mælt með að þú notir nokkrar klukkustundir til að rifja upp spurningarnar í bæklingnum Grundvallarkenningar Biblíunnar. * Það hjálpar þér að leggja áherslu á svörin við slíkum spurningum þegar þú notar Þekkingarbókina í biblíunámi.
20. Hvað hyggstu gera með bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs?
20 Alls staðar þarf fólk að heyra fagnaðarerindið. Já, mannkynið þarfnast þekkingar á Jehóva Guði og hann lætur votta sína kunngera hana. Núna höfum við nýja bók sem kærleiksríkur faðir okkar á himnum hefur látið okkur í té fyrir milligöngu hins trúa og hyggna þjóns. Ætlar þú að nota hana til að kenna sannleikann og heiðra heilagt nafn Jehóva? Jehóva mun örugglega blessa þig er þú gerir allt sem þú getur til að gefa fleirum kost á að öðlast þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs.
[Neðanmáls]
^ Gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig lýsirðu hinu óeiginlega hjarta?
◻ Hvað er þekkingin á Guði?
◻ Af hverju þarfnast mannkynið þekkingar á Guði?
◻ Hvaða ný bók er nú fáanleg og hvernig hyggstu nota hana?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 11]
Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að milljarðarnir á jörðinni þarfnast þekkingarinnar á Guði.