Ofbeldi er alls staðar
Ofbeldi er alls staðar
BÍLSTJÓRINN sat í bílnum og beið eftir grænu ljósi. Skyndilega kom hann auga á stórvaxinn mann sem nálgaðist og jós yfir hann skömmum og steytti hnefann að honum. Bílstjórinn flýtti sér að læsa dyrum og loka gluggum en stóri maðurinn nálgaðist óðfluga. Hann þreif í bílinn, hristi hann og togaði í bílstjórahurðina. Að síðustu kreppti maðurinn stóran hnefann og rak hann í framrúðuna svo að hún mölbrotnaði.
Er þetta atriði úr spennumynd? Nei, þetta gerðist í umferðinni á eynni Oahu í Hawaiieyjaklasanum sem er rómuð fyrir friðsæld.
En slík atvik koma ekkert á óvart. Lásar á dyrum, rimlar fyrir gluggum, öryggisverðir í byggingum, jafnvel skilti í strætisvögnum með áletruninni: „Vagnstjórar ganga ekki með peninga á sér“ — ber allt að sama brunni: Ofbeldi er alls staðar!
Ofbeldi á heimilinu
Heimilið hefur löngum verið mönnum dýrmætt athvarf og skjól. En friðsæld heimilisins er á hröðu undanhaldi. Heimilisofbeldi, meðal annars misþyrming og kynferðisofbeldi gegn börnum, misþyrming maka og manndráp, eru fréttaefni fjölmiðla um heim allan.
Til dæmis er talin hætta á að „í það minnsta 750.000 börn á Bretlandseyjum bíði varanlegan skaða af því að horfa upp á heimilisofbeldi,“ að sögn vikuritsins Manchester Guardian Weekly. Fréttin var byggð á könnun þar sem einnig kom fram að „þrjár af hverjum fjórum konum, sem spurðar voru, sögðu að börn þeirra hefðu orðið vitni að ofbeldisatvikum, og næstum tveir þriðju barnanna höfðu séð mæður sínar barðar.“ Eins áætlar bandarísk ráðgjafarnefnd um vanrækslu og misnotkun barna að „2000 börn, flest yngri en fjögurra ára, deyi ár hvert fyrir hendi foreldra eða gæslumanna,“ að sögn tímaritsins S.News & World Report. Það eru fleiri en farast í umferðarslysum, drukkna eða hrapa til bana, segir í fréttinni.
Misþyrming maka er einnig heimilisofbeldi og spannar allan skalann frá hrindingum og löðrungum upp í spörk, hálstak, barsmíð, ógnun með hnífi eða byssu eða jafnvel morð. Og nú orðið eru bæði karlar og konur jafnsek um ofbeldið. Í rannsókn nokkurri kom í ljós að karlmenn eiga upptökin að um fjórðungi allra átaka milli hjóna, konur öðrum fjórðungi og að þann helming, sem eftir er, sé réttast að kalla slagsmál sem bæði hjónin eiga sök á.
Ofbeldi á vinnustað
Utan heimilis hafa menn venjulega fundið röð og reglu á vinnustaðnum og notið þar virðingar og kurteisi. En það virðist líka breytt. Til dæmis sýna hagtölur frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu að meira en 970.000 manns verði fyrir ofbeldisglæp á vinnustað ár hvert. Með öðrum orðum eru „fjórðungslíkur á að starfsmenn verði fyrir einhvers konar ofbeldi á vinnustað,“ að sögn skýrslunnar Professional Safety — Journal of the American Society of Safety Engineers.
Hið uggvænlegasta við vinnustaðaofbeldið er að menn láta sér ekki nægja að þræta eða kasta hnútum. „Ofbeldi starfsmanna gegn öðrum starfsmönnum eða vinnuveitendum er sá flokkur manndrápa sem er í hröðustum vexti í Bandaríkjunum,“ segir í sömu skýrslu. Eitt dauðsfall af hverjum sex á vinnustað árið 1992 var manndráp en meðal kvenna annað hvert dauðsfall. Enginn vafi leikur á að ofbeldisalda gengur yfir vinnustaðinn þar sem allt var til skamms tíma með friði og spekt.
Ofbeldi í íþróttum og skemmtunum
Menn hafa löngum stundað íþróttir og ýmiss konar skemmtun sér til dægrastyttingar eða afþreyingar og til að hressa sig upp fyrir alvarlegri hugðarefni. Skemmtanaiðnaðurinn veltir nú milljörðum dollara. Þar reynir hver að ná sem stærstri sneið af kökunni og svífst einskis. Og eitt af brögðunum er ofbeldi.
Viðskiptatímaritið Forbes greinir til dæmis frá því að tölvuleikjaframleiðandi nokkur selji vinsælan stríðsleik þar sem stríðsmaður slítur höfuðið af andstæðingi sínum svo að mænan fylgir, meðan áheyrendur söngla: „Dreptu hann! Dreptu hann!“ Í einni útgáfu af sama leik, sem gerð er fyrir keppinaut þessa framleiðanda, er þessum óhugnanlega hluta sleppt. Og árangurinn? Seld eru þrjú eintök af ofbeldisfyllri útgáfunni á móti hverjum tveim af hinni. Og þarna eru miklir peningar í húfi. Þegar settar voru á markað útgáfur af þessum leikjum til heimanota seldu fyrirtækin leiki fyrir 65 milljónir dollara um heim allan á fyrstu tveim vikunum. Þegar hagnaðarvonin er annars vegar er ofbeldið bara enn eitt agnið fyrir neytendur.
Ofbeldi í íþróttum er allt annað mál. Þátttakendur eru oft stoltir af þeim líkamsmeiðingum sem þeir geta valdið. Til að mynda voru dæmdar 86 villur vegna hegðunar í einum íshokkíleik árið 1990 — sem var nýtt met. Leikurinn tafðist um þrjár og hálfa klukkustund vegna stórfelldra líkamsmeiðinga. Einn leikmannanna þurfti að fá læknismeðferð vegna beinbrots í andliti, rispaðrar hornhimnu og svöðusárs. Af hverju allt þetta ofbeldi? Leikmaður svaraði: „Þegar maður sigrar í mjög tilfinningaþrungnum leik, þar sem kemur til mikilla ryskinga, finnst manni það styrkja tengslin við félagana í liðinu. Mér fannst átökin gera leikinn mjög andlega upplífgandi.“ Í stórum hluta af íþróttum nútímans virðist ofbeldi ekki lengur leið að marki heldur markmið í sjálfu sér.
Ofbeldi í skólanum
Skólinn hefur alltaf verið álitinn eins konar vígi þar sem unga fólkið getur gleymt öllum öðrum áhyggjum og einbeitt sér að því að þroska huga sinn og líkama. En börnin eru ekki lengur óhult í skólanum. Í Gallup-könnun árið 1994 kom í ljós að ofbeldi og óaldarklíkur eru alvarlegasta vandamál almenningsskóla í Bandaríkjunum, alvarlegri en fjárhagsörðugleikar sem voru í efsta sæti árið áður. Hve slæmt er ástandið eiginlega?
Spurt var: „Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir ofbeldisverki í skólanum eða nágrenni skólans?“ Næstum fjórði hver nemandi, sem þátt tók í könnuninni, svaraði játandi. Ríflega tíundi hver kennari svaraði líka játandi. Í sömu könnun kom í ljós að 13 prósent nemenda, bæði drengir og stúlkur, viðurkenndu að hafa einhvern tíma borið vopn í skólanum. Flestir sögðust hafa gert það til að sýnast fyrir öðrum eða vernda sig. En einn 17 ára nemandi skaut kennarann í brjóstið þegar kennarinn reyndi að taka byssuna af honum.
Tíðarandi ofbeldis
Það er engum blöðum um það að fletta að ofbeldi er alls staðar nú á dögum. Tíðarandi ofbeldisins blasir við á heimilinu, á vinnustaðnum, í skólanum og í skemmtanaiðnaðinum. Dagleg nálægð ofbeldisins hefur komið mörgum til að líta á það sem eðlilegt — uns þeir verða sjálfir fyrir barðinu á því. Þá spyrja þeir: Tekur þetta einhvern tíma enda? Langar þig líka til að fá svar við því? Lestu þá næstu grein.