Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að standast hollustuprófið

Að standast hollustuprófið

Að standast hollustuprófið

‚Íklæðist nýja persónuleikanum sem var skapaður eftir vilja Guðs í sönnu réttlæti og hollustu.‘ — EFESUSBRÉFIÐ 4:24, NW.

1. Af hverju skuldum við Jehóva Guði hollustu?

 HOLLUSTUPRÓFIÐ á sér margar hliðar. Mikilvægast af öllu er að standast það próf að vera holl Jehóva Guði. Við skuldum Jehóva hollustu okkar vegna þess hver hann er, hvað hann hefur gert fyrir okkur og vegna þess að við erum vígð honum. Hvernig sýnum við Jehóva Guði hollustu? Fyrst og fremst gerum við það með því að halda réttlátar meginreglur hans dyggilega.

2, 3. Hvaða samband er milli hollustu og réttlætis?

2 Til að standast þetta próf verðum við að fara eftir orðunum í 1. Pétursbréfi 1:15, 16: „Verðið . . . heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ Hollusta við Jehóva Guð fær okkur til að hlýða honum öllum stundum og laga hugsanir okkar, orð og verk að heilögum vilja hans. Hún útheimtir að við varðveitum góða samvisku eins og okkur er fyrirskipað í 1. Tímóteusarbréfi 1:3-5: „Markmið þessarar hvatningar [að kenna ekki annarlegar kenningar eða gefa sig að ævintýrum] er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.“ Víst er ekkert okkar fullkomið, en við ættum að minnsta kosti að gera okkar besta.

3 Hollusta við Jehóva kemur í veg fyrir að við látum eigingirnina sveigja okkur frá réttlátum meginreglum. Já, hollusta hindrar okkur í að vera eitt hið innra og annað hið ytra. Það var hollusta sem sálmaritarinn hafði í huga er hann söng: „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálmur 86:11) Sagt hefur verið að hollusta útheimti ‚hlýðni við það sem menn geta ekki framfylgt.‘

4, 5. Hvað vörumst við ef við sýnum hollustu?

4 Hollusta við Jehóva Guð hindrar okkur líka í að gera nokkuð sem myndi vera nafni hans og ríki til vansa. Tveir kristnir menn lentu svo upp á kant hvor við annan einu sinni að þeir lögðu mál sitt fyrir veraldlegan dómstól sem var auðvitað óviðeigandi. Dómarinn spurði: ‚Eruð þið báðir vottar Jehóva?‘ Hann skildi greinilega ekki hvað þeir voru að gera í réttarsalnum. Sannarlega skammarlegt! Hollusta við Jehóva Guð hefði átt að fá þessa bræður til að fara eftir ráðum Páls postula: „Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?“ (1. Korintubréf 6:7) Hollusta við Jehóva Guð þýðir að bíða heldur tjón sjálfur en vera honum og skipulagi hans til skammar.

5 Hollusta við Jehóva Guð felst líka í því að láta ekki mannsótta ná tökum á sér. „Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 29:25) Við látum því ekki undan þegar við erum ofsótt heldur fylgjum fordæmi votta Jehóva í Sovétríkjunum fyrrverandi, Malaví, Eþíópíu og fjölda annarra landa.

6. Við hverja eigum við ekkert samneyti ef við erum holl?

6 Ef við erum holl Jehóva Guði forðumst við að stofna til vináttu við hvern þann sem er óvinur hans. Þess vegna skrifaði lærisveinninn Jakob: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ (Jakobsbréfið 4:4) Við viljum vera jafnholl og Davíð konungur lýsti er hann sagði: „Ætti ég eigi, [Jehóva], að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.“ (Sálmur 139:21, 22) Við viljum ekki vingast við nokkurn þann sem er þrjóskur syndari því að við eigum ekkert saman við slíka menn að sælda. Ætti ekki hollusta við Jehóva að forða okkur frá því að blanda geði við slíka óvini hans, hvort heldur er í eigin persónu eða gegnum sjónvarpið?

Komum Jehóva til varnar

7. Hvað gerum við fyrir Jehóva ef við erum honum holl og hvernig gerði Elíhú það?

7 Hollusta fær okkur til að koma Jehóva Guði til varnar. Þar var Elíhú gott fordæmi. Jobsbók 32:2, 3 segir okkur: „Þá upptendraðist reiði Elíhú. . . . Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði. Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör [„heldur lýstu Guð vondan,“ NW].“ Í 32. til 37. kafla Jobsbókar heldur Elíhú uppi vörnum fyrir Jehóva. Hann sagði til dæmis: „Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig, því að enn má margt segja Guði til varnar. . . . Ég ætla að . . . sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa. . . . Hann hefir ekki augun af hinum réttláta.“ — Jobsbók 36:2-7.

8. Af hverju þurfum við að koma Jehóva til varnar?

8 Af hverju þarf að koma Jehóva til varnar? Guði okkar, Jehóva, er lastmælt á ótal vegu nú um stundir. Fullyrt er að hann sé ekki til, að hann sé hluti af þrenningu, að hann kvelji fólk að eilífu í logandi helvíti, að hann reyni af veikum mætti að snúa heiminum til trúar, að honum standi á sama um mannkynið og svo framvegis. Við sýnum Jehóva hollustu okkar með því að koma honum til varnar og sanna að hann sé til, að hann sé vitur, réttlátur, almáttugur og kærleiksríkur Guð; að hann hafi ákveðinn tíma til allra hluta, og að á tilsettum tíma sínum bindi hann enda á alla illsku og breyti jörðinni í paradís. (Prédikarinn 3:1) Það kostar að nota hvert tækifæri til að bera vitni um nafn hans og ríki.

Hollusta við skipulag Jehóva

9. Í hvaða málum hafa sumir ekki sýnt hollustu?

9 Þá komum við að spurningunni um hollustu við sýnilegt skipulag Jehóva. Vissulega skuldum við því hollustu, þar á meðal hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ sem miðlar andlegri fæðu til kristna safnaðarins. (Matteus 24:45-47) Setjum sem svo að eitthvað birtist í ritum Varðturnsfélagsins sem við skiljum ekki eða erum ekki sammála þá stundina. Hvað gerum við? Hneykslumst við og yfirgefum skipulagið? Sumir gerðu það þegar Varðturninn heimfærði nýja sáttmálann upp á þúsundáraríkið fyrir mörgum árum. Aðrir hneyksluðust á því sem Varðturninn sagði einu sinni um hlutleysi. Ef þeir sem hneyksluðust á þessu hefðu verið hollir skipulaginu og bræðrum sínum, þá hefðu þeir beðið þess að Jehóva skýrði þessi mál, sem hann og gerði er fram liðu stundir. Hollusta felur því í sér að bíða þolinmóð uns hinn trúi og hyggni þjónn birtir nánari skilning á málum sem við skiljum ekki.

10. Um hvað erum við ekki forvitin ef við sýnum hollustu?

10 Hollusta við sýnilegt skipulag Jehóva er líka fólgin í því að vísa fráhvarfsmönnum einarðlega á bug. Drottinhollir kristnir menn eru ekki forvitnir að vita hvað slíkir menn hafa að segja. Vissulega eru þeir sem Jehóva Guð notar til að stjórna starfi sínu á jörð ekki fullkomnir. En hvað segir orð Guðs okkur að gera? Yfirgefa skipulag hans? Nei, bróðurást ætti að koma okkur til að sýna skipulaginu hollustu og við ættum að halda áfram að ‚elska hver annan af heilu hjarta.‘ — 1. Pétursbréf 1:22.

Hollusta við drottinholla öldunga

11. Hvaða neikvæða hugsun vörumst við ef við sýnum hollustu?

11 Hollusta kemur okkur til að vera ekki dómhörð á hvatir annarra þegar eitthvað er sagt eða gert í söfnuðinum sem við eigum erfitt með að skilja, heldur taka þá afstöðu að kannski sé þetta matsatriði. Er ekki miklu betra að beina athygli okkar að góðum eiginleikum öldunganna og annarra trúbræðra okkar heldur en göllum þeirra? Jú, við viljum varast alla slíka neikvæða hugsun því að hún ber keim af ótryggð eða óhollustu! Hollusta hjálpar okkur líka að hlýða þeirri tilskipun Páls að „lastmæla engum.“ — Títusarbréfið 3:1, 2.

12, 13. Hvernig reynir sérstaklega á hollustu öldunga?

12 Hollusta reynir sérstaklega á öldungana. Eitt, sem reynir á, er þagmælska. Safnaðarmaður trúir öldungi kannski fyrir málum sínum. Hollusta öldungsins við hann kemur í veg fyrir að hann ljósti upp leyndarmálinu. Hann fer eftir heilræðinu í Orðskviðunum 25:9: „Ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns.“ Það þýðir að segja ekki einu sinni konunni sinni frá!

13 Öldungarnir þurfa líka að standast önnur hollustupróf. Ætla þeir að þóknast mönnum eða hjálpa þeir safnaðarmönnum, sem þarfnast leiðréttingar, mildilega en með hugrekki, jafnvel ættingjum sínum eða nánum vinum? Hollusta við skipulag Jehóva fær þá okkar, sem eru öldungar, til að reyna að hjálpa hverjum þeim sem þarfnast andlegrar hjálpar. (Galatabréfið 6:1, 2) Enda þótt við séum vingjarnlegir erum við hreinskilnir við samöldunga okkar eins og Páll var hreinskilinn við Pétur postula. (Galatabréfið 2:11-14) Á hinn bóginn vilja umsjónarmenn gæta þess vandlega að vera ekki hlutdrægir eða hegða sér óskynsamlega eða misbeita valdi sínu á einhvern annan hátt, þannig að þeir geri þeim, sem eru í umsjá þeirra, erfitt fyrir að vera hollir skipulagi Guðs. — Filippíbréfið 4:5.

14, 15. Hvað gæti reynt á hollustu safnaðarmanna?

14 Hollusta við söfnuðinn og öldungana á sér aðrar hliðar. Ef einhverjir erfiðleikar eru í söfnuðinum gefur það okkur tækifæri til að sýna Jehóva og fulltrúum hans hollustu. (Sjá Varðturninn 1. nóvember 1987, bls. 13, 14.) Þegar einhverjum er vikið úr söfnuðinum útheimtir hollusta að við styðjum öldungana en reynum ekki að geta okkur til um hvort það hafi verið næg ástæða fyrir þeim aðgerðum sem gripið var til.

15 Hollusta við söfnuðinn útheimtir líka að við styðjum allar hinar fimm vikulegu samkomur að því marki sem við getum og aðstæður leyfa. Hollusta felur ekki bara í sér að sækja þær að staðaldri heldur líka að búa okkur undir þær og koma með uppbyggjandi svör eftir því sem tækifæri leyfir. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Hollusta í hjónabandinu

16, 17. Hvaða hollustupróf þurfa giftir kristnir menn að standast?

16 Hverjum öðrum skuldum við hollustu? Ef við erum gift verðum við að vera maka okkar trú hvað sem á dynur. Hollusta við maka okkar kemur í veg fyrir að við komum betur fram við aðrar konur eða karla en eigin maka. Það er einnig hollusta við maka okkar að segja ekki öðrum frá veikleikum eða göllum hans. Það er auðveldara að kvarta við aðra en leggja sig fram við að halda tjáskiptaleiðinni við maka sinn opinni, en það ættum við að gera í samræmi við gullnu regluna. (Matteus 7:12) Hjónaband reynir satt að segja töluvert á kristna hollustu okkar.

17 Til að standast þetta hollustupróf verðum við bæði að forðast gróflega ranga breytni og gæta hugsana okkar og tilfinninga. (Sálmur 19:15) Ef svikul hjörtu okkar ágirnast ánægju og spenning getur eigingirni auðveldlega breytt aðdáun í ákafa löngun. Salómon konungur hvetur til tryggðar í hjónabandi og ráðleggur eiginmönnum á táknmáli að ‚drekka vatn úr vatnsþró sinni.‘ (Orðskviðirnir 5:15) Og Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Eiginmaður, sem leyfir sér að lesa eða horfa á klámfengið efni, tekur þá áhættu að hann láti freistast til að fremja hjúskaparbrot og svíki þannig eiginkonu sína. Á sama hátt gæti eiginkona, sem sekkur sér niður í sápuóperur með hórdómssenum, freistast til að vera manni sínum ótrú. Með því að vera fullkomlega trúr maka sínum er hins vegar hægt að styrkja hjónabandið og hjálpa hvort öðru að þóknast Jehóva Guði.

Hjálp til að varðveita hollustu

18. Nefndu eitt sem hjálpar okkur að sýna hollustu.

18 Hvað hjálpar okkur að standast hollustuprófið á þessum fjórum sviðum: við Jehóva, skipulag hans, söfnuðinn og maka okkar? Ein hjálpin er að skilja að hollusta er nátengd því að réttlæta drottinvald Jehóva. Já, með því að vera drottinholl sýnum við að við lítum á Jehóva sem drottinvald alheimsins. Þannig getum við haft sjálfsvirðingu og von um eilíft líf í nýjum heimi hans. Við getum hjálpað sjálfum okkur að vera drottinholl með því að virða fyrir okkur fordæmi um hollustu, allt frá Jehóva til þeirra sem nefndir eru í Biblíunni og í ritum Varðturnsfélagsins, meðal annars frásögum Árbókarinnar.

19. Hvaða hlutverki gegnir trú í hollustu?

19 Sterk trú á Jehóva Guð og ótti við að misþóknast honum hjálpar okkur að standast hollustuprófið. Við styrkjum trú okkar og ótta við Jehóva með því að rannsaka og nema orð hans kostgæfilega og með því að taka þátt í hinni kristnu þjónustu. Það hjálpar okkur að fara eftir heilræðum Páls í Efesusbréfinu 4:23, 24: „Þið ættuð að endurnýjast í aflvaka hugans og íklæðast nýja persónuleikanum sem var skapaður eftir vilja Guðs í sönnu réttlæti og hollustu.“ — NW.

20. Hvaða eiginleiki öðrum fremur hjálpar okkur að vera holl Jehóva og öllum öðrum sem við skuldum hollustu?

20 Að meta eiginleika Jehóva að verðleikum er okkur hjálp til að sýna hollustu. Óeigingjarn kærleikur til föður okkar á himnum og þakklæti fyrir allt sem hann hefur gert hjálpar okkur öðru fremur að sýna honum hollustu. Við verðum að elska hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. Og kærleikurinn, sem Jesús sagði myndu einkenna fylgjendur hans, hjálpar okkur að sýna öllum kristnum mönnum í söfnuðinum og fjölskyldunni hollustu. Með öðrum orðum er hér eiginlega um það að ræða að vera annaðhvort eigingjarn eða óeigingjarn. Óhollusta er eigingirni; hollusta er óeigingirni. — Markús 12:30, 31; Jóhannes 13:34, 35.

21. Hvernig getum við lýst hollustuprófinu í hnotskurn?

21 Hollusta er sem sagt hinn frábæri eiginleiki Jehóva Guðs, Jesú Krists og allra trúfastra þjóna Jehóva. Til að eiga gott samband við Jehóva Guð verðum við að standast hollustuprófið við hann með því að lifa eftir réttlátum kröfum hans, með því að eiga ekkert saman við óvini hans að sælda og með því að koma honum til varnar með formlegum og óformlegum vitnisburði. Við verðum líka að vera holl sýnilegu skipulagi Jehóva. Við verðum að sýna söfnuðum okkar og maka hollustu. Með því að standast hollustuprófið eigum við þátt í að réttlæta drottinvald Jehóva og tökum málstað hans í deilumálinu. Þannig ávinnum við okkur hylli hans og hljótum launin sem eru eilíft líf. Það sem Páll postuli sagði um guðræknina má alveg eins segja um það að standast hollustuprófið. Það er gagnlegt bæði fyrir þetta líf og hið komandi. — Sálmur 18:25, NW; 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Hverju svarar þú?

◻ Á hvaða vegu getum við staðist hollustuprófið við Guð?

◻ Hvað útheimtir hollusta við skipulag Jehóva af okkur?

◻ Hvernig geta öldungar staðist hollustuprófið?

◻ Hvaða hollustupróf verða giftir kristnir menn að standast?

◻ Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að standast hollustuprófið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hollusta við safnaðarmenn varnar öldungum að bera trúnaðarmál á torg.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hollusta við maka sinn styrkir hjónabandið.