Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjáðu hina hollu!

Sjáðu hina hollu!

Sjáðu hina hollu!

„Hver mun ekki óttast þig, Jehóva, og vegsama nafn þitt, því að þú einn ert hollur?“ — OPINBERUNARBÓKIN 15:4, NW.

1. Hvernig bar J. F. Rutherford vitni um hollustu forvera síns, C. T. Russells?

 JOSEPH F. RUTHERFORD, er tók við sem forseti Varðturnsfélagsins af C. T. Russell árið 1917, hóf ávarp sitt við minningarathöfn um Russell með þessum orðum: „Charles Taze Russell var hollur Guði, hollur Kristi Jesú og hollur málstað Messíasarríkisins. Hann var algerlega hollur — já, hollur til dauða.“ Þetta var falleg umsögn um trúfastan þjón Jehóva Guðs. Við getum ekki farið lofsamlegri orðum um nokkurn mann en segja að hann hafi reynst hollur — algerlega hollur, tryggur og trúr.

2, 3. (a) Af hverju er hollusta ekki auðveld? (b) Hverjir standa líka fylktu liði gegn sannkristnum mönnum og reyna að spilla hollustu þeirra?

2 Hollusta er ekki auðveld. Af hverju? Af því að hollusta stangast á við eiginhagsmuni. Klerkar kristna heimsins eru fremstir í flokki þeirra sem eru Guði ótrúir. Og aldrei hefur ótryggð í hjónabandi verið jafnútbreidd og nú. Hjúskaparbrot eru algeng. Ótrúmennska er einnig mikil og útbreidd í viðskiptalífinu. Okkur er sagt: „Margir stjórnendur og menntamenn nú á tímum . . . eru þeirrar skoðunar að það sé flónska og aulaskapur að vera hollur fyrirtækinu sem maður vinnur hjá.“ Litið er niður á þá sem eru „of hollir.“ „Fyrsta og einasta hollustan ætti að vera við sjálfan sig,“ að sögn forstjóra ráðgjafar- og ráðningarfyrirtækis. En að tala um hollustu við sjálfan sig er að spilla og brengla merkingu orðsins. Það minnir okkur á orðin í Míka 7:2: „Hinn holli er horfinn af jörðinni.“ — NW.

3 En það er við miklu rammari reip að draga þar sem Satan og illir andar hans standa fylktu liði gegn okkur, staðráðnir í að gera okkur ótrúa Guði. Þess vegna er kristnum mönnum sagt í Efesusbréfinu 6:12: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ Já, við þurfum að hlýða viðvöruninni: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

4. Hvaða tilhneigingar gera hollustu svona erfiða?

4 Og eigingjarnar tilhneigingar, sem við höfum erft frá fyrstu foreldrum okkar eins og nefnt er í 1. Mósebók 8:21, gera okkur líka erfitt um vik að sýna hollustu: „Hugrenningar mannshjartans eru illar“ — og eigingjarnar — „frá bernsku hans.“ Við eigum öll við sama vanda að stríða og Páll postuli viðurkenndi að hann ætti við að glíma: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ — Rómverjabréfið 7:19.

Hollusta er einstök

5, 6. Hvernig er hægt að lýsa hollustu og hvernig hefur hún verið skilgreind?

5 „Hollusta“ er mjög sérstakt hugtak. Bókin Innsýn í Ritningarnar segir: „Ekkert . . . orð virðist ná nákvæmlega fram merkingu hebresku og grísku orðanna, en ‚hollusta,‘ sem felur í sér hugmyndina um tryggð og trúfesti þegar það er notað í sambandi við Guð og þjónustu hans, er þokkaleg nálgun.“ * Varðturninn sagði einu sinni um „hollustu“: „Hvað er sameiginlegt með hugtökunum skyldurækni, trúfesti, trúmennska, trúnaður, tryggð, trygglyndi og kærleikur? Þau lýsa öll mismunandi þáttum hollustu.“ Já, nefna má ótalmargar dyggðir sem eru aðeins ólíkir fletir hollustunnar. Það er eftirtektarvert hve oft Biblían setur hollustu í samband við réttlæti.

6 Eftirfarandi skilgreiningar eru einnig til skilningsauka: ‚Hollusta getur lýst áframhaldandi trúfesti og tryggð sem er áreiðanleg og hvorki haggast né lætur freistast.‘ ‚Hollusta gefur í skyn trúfesti við gefin heit eða áframhaldandi tryggð við þá hefð eða meginreglur sem maður finnur sig siðferðilega skuldbundinn; orðið gefur ekki aðeins í skyn fylgi og fastheldni heldur líka mótstöðu gegn því að láta tælast og telja sig af þessari fastheldni.‘ Menn, sem halda trúfastir áfram þrátt fyrir prófraunir, andstöðu og ofsóknir, verðskulda þess vegna einkunnina „hollir.“

7. Hvernig má lýsa muninum á hollustu og trúfesti?

7 Gott er að taka dæmi til að sýna fram á muninn á hollustu og tryggð eða trúfesti. Í vestanverðum Bandaríkjunum er goshver sem gýs á hér um bil klukkustundar fresti. Svo reglufastur er hverinn að hann hefur verið nefndur Tryggur gamli (Old Faithful). Biblían talar um að lífvana fyrirbæri eins og tunglið séu áreiðanleg, það er að segja trúföst. Sálmur 89:38 kallar tunglið ‚áreiðanlegt vitni á himnum.‘ Orð Guðs eru sögð trú eða trúföst. Opinberunarbókin 21:5 segir: „Sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ Þetta eru allt dæmi um trúfesti, tryggð og áreiðanleik, en þessi fyrirbæri eru ekki fær um að sýna væntumþykju eða siðferðilega eiginleika svo sem hollustu.

Jehóva, trúr og hollur öðrum fremur

8. Hvernig bendir Ritningin á albesta dæmið um hollustu?

8 Á því leikur ekki minnsti vafi að Jehóva Guð er besta dæmið um hollustu. Hann hefur verið mannkyninu trúr og hollur, jafnvel gefið son sinn til að mennirnir gætu öðlast eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Í Jeremía 3:12 lesum við: „Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael — segir [Jehóva] —, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur [„hollur,“ NW].“ Og orðin í Opinberunarbókin 16:5 bera einnig vitni um hollustu Jehóva: „Réttlátur ert þú, . . . þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi [„holli,“ NW].“ Og enn er okkur sagt í Sálmi 145:17: „[Jehóva] er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur [„hollur,“ NW] í öllum sínum verkum.“ Jehóva ber svo af í hollustu sinni að Opinberunarbókin 15:4 segir: „Hver mun ekki óttast þig, Jehóva, og vegsama nafn þitt, því að þú einn ert hollur.“ (NW) Jehóva Guð er afburðahollur.

9, 10. Hvernig sýndi Jehóva hollustu sína í samskiptum við Ísraelsmenn?

9 Saga Ísraelsþjóðarinnar ber ríkulega vitni um hollustu Jehóva við fólk sitt. Á dögum dómaranna féllu Ísraelsmenn hvað eftir annað frá sannri tilbeiðslu, en Jehóva kenndi sífellt í brjósti um þá og frelsaði þá. (Dómarabókin 2:15-22) Þær fimm aldir, sem Ísrael var konungdæmi, sýndi Jehóva Guð þjóðinni hollustu sína.

10 Hollusta Jehóva kom honum til að vera þolinmóður við þjóð sína eins og fram kemur í 2. Kroníkubók 36:15, 16: „[Jehóva], Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“

11. Hvaða fullvissu eða hughreystingu veitir hollusta Jehóva okkur?

11 Þar eð Jehóva er trúr og hollur í æðstu merkingu þess orðs gat Páll postuli skrifað eins og lesa má í Rómverjabréfinu 8:38, 39: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ Já, Jehóva fullvissar okkur: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebreabréfið 13:5) Það er sannarlega hughreystandi að vita að Jehóva Guð skuli alltaf vera trúr og hollur!

Jesús Kristur, trúr og hollur sonur

12, 13. Hvaða vitnisburð höfum við um hollustu sonar Guðs?

12 Jesús Kristur líkti fullkomlega eftir Jehóva með hollustu sinni. Pétur postuli gat því vel vitnað í Sálm 16:10 og heimfært hann á Jesú Krist í Postulasögunni 2:27: „Ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga [„holla,“ NW] verða rotnun að bráð.“ Jesús Kristur er réttnefndur ‚hinn holli.‘ Jesús er og hefur á allan hátt verið hollur föður sínum og fyrirheitnu ríki hans. Satan reyndi fyrst að freista Jesú til að láta af ráðvendni sinni með því að höfða til eiginhagsmuna. Þegar það mistókst greip djöfullinn til ofsókna sem enduðu með því að Jesús dó á aftökustaur. Jesús haggaðist aldrei í hollustu sinni við himneskan föður sinn, Jehóva Guð. — Matteus 4:1-11.

13 Jesús Kristur hefur verið hollur fylgjendum sínum í samræmi við loforðið í Matteusi 28:20: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Hann hefur haldið þetta fyrirheit með því að fara með dyggilega forystu fyrir söfnuði sínum frá hvítasunnunni árið 33 fram til okkar daga.

Ófullkomnir menn sem sýndu hollustu

14. Hvernig er Job gott dæmi um hollustu?

14 En hvað um ófullkomna menn? Geta þeir verið Guði hollir? Job er framúrskarandi dæmi um það. Satan dró skýrt og skilmerkilega fram um hvað málið snerist í hans tilfelli. Var Job hollur Jehóva Guði eða þjónaði hann honum bara af því að hann hafði hag af því sjálfur? Satan stærði sig af því að hann gæti látið Job snúa baki við Jehóva með því að valda honum erfiðleikum. Þegar Job hafði misst allar eigur sínar, öll börn sín og meira að segja heilsuna hvatti konan hans hann: „Formæltu Guði og farðu að deyja!“ En Job var drottinhollur því að hann svaraði: „‚Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?‘ Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.“ (Jobsbók 2:9, 10) Job sagði reyndar við þá sem þóttust ætla að hugga hann: „Þótt hann [Guð] deyði mig vil ég samt vona á hann.“ (Jobsbók 13:15, New International Version) Það er engin furða að Job skyldi njóta velþóknunar Jehóva! Þess vegna sagði Jehóva við Elífas Temaníta: „Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.“ — Jobsbók 42:7, 10-16; Jakobsbréfið 5:11.

15. Hvernig ber Ritningin vitni um hollustu margra þjóna Jehóva Guðs?

15 Hægt er að segja að allar þær trúuðu konur og karlar, sem talað er um í 11. kafla Hebreabréfsins, hafi verið drottinholl. Þau voru ekki bara trúföst heldur líka drottinholl þegar á móti blés. Við lesum því um þá sem „fyrir trú . . . byrgðu gin ljóna, slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. . . . Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.“ — Hebreabréfið 11:33-37.

16. Hvernig er Páll postuli gott dæmi um hollustu?

16 Kristnu Grísku ritningarnar greina líka frá eftirtektarverðu fordæmi Páls postula. Hann gat vel sagt kristnum mönnum í Þessaloníku um þjónustu sína: „Þér og Guð, eruð vottar þess, hversu heilaglega [„með hvílíkri hollustu,“ NW], réttvíslega og óaðfinnanlega vér hegðuðum oss hjá yður, sem trúið.“ (1. Þessaloníkubréf 2:10) Orð Páls í 2. Korintubréf 6:4, 5 eru einnig sönnun fyrir hollustu hans. Þar lesum við: „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist, undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum.“ Allt ber þetta vitni um að Páll postuli hafi haft sjálfsvirðingu af því að hann var drottinhollur.

Hollusta nú á tímum

17. Hvaða orð J. F. Rutherfords sýna að hann var staðráðinn í að vera drottinhollur?

17 Um hollustu manna nú á tímum hefur þegar verið nefnt dæmi í inngangi greinarinnar. Bókin Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans segir á bls. 146 undir millifyrirsögninni „Hollusta á tímum fangavistar“: „J. F. Rutherford, forseti Varðturnsfélagsins, var hollur skipulagi Jehóva og meðan á fangavistinni stóð skrifaði hann . . . : ‚Ég er í fangelsi fyrir þá sök að ég neitaði að láta undan Babýlon en reyndi trúfastur að þjóna Drottni mínum, og það er ég þakklátur fyrir. . . . Ég kýs miklu fremur hylli hans og bros, og sitja í fangelsi, heldur en að sættast á málamiðlun eða láta undan dýrinu og vera frjáls og eiga hylli alls heimsins.‘“ *

18, 19. Hvaða afbragðsdæmi um hollustu höfum við nú á tímum?

18 Við höfum frábær dæmi um hollustu margra annarra kristinna manna sem hafa þolað ofsóknir. Meðal slíkra drottinhollra manna voru þýskir vottar Jehóva í stjórnartíð nasista, eins og vel er lýst á myndbandinu Fjólubláir þríhyrningar sem dreift hefur verið víða með ensku tali. Margir drottinhollir afrískir vottar Jehóva eru einnig framúrskarandi dæmi, svo sem í Malaví. Þarlendur fangavörður bar vitni um hollustu vottanna er hann sagði: „Þeir láta aldrei undan. Þeim bara fjölgar.“

19 Við lestur Árbóka votta Jehóva undanfarin ár getur maður ekki annað en hrifist af hollustu sannkristinna manna, svo sem í Grikklandi, Mósambík og Póllandi. Margir máttu þola óbærilegar píningar; aðrir voru myrtir. Á bls. 177 í Árbókinni 1992 eru myndir af níu kristnum mönnum í Eþíópíu, sem voru myrtir, en sýndu hollustu allt til dauða. Erum við ekki glöð að eiga okkur svona mörg, góð fordæmi til að hvetja okkur að sýna hollustu?

20. Hvað fylgir í kjölfarið ef við sýnum hollustu?

20 Með því að standast freistingar og þrýsting dyggilega byggjum við upp sjálfsvirðingu. Hvorum megin viljum við þá standa í deilunni um hollustu manna? Með því að standast hollustuprófið tökum við afstöðu með Jehóva í deilunni og sönnum Satan djöfulinn þann foráttulygara sem hann er! Þar með öðlumst við velþóknun skapara okkar, Jehóva Guðs, og eilíft líf og hamingju að launum. (Sálmur 37:29; 144:15b) Í greininni á eftir er fjallað um hvað þurfi til að standast hollustuprófið.

[Neðanmáls]

^ Biblíualfræðibók í tveim bindum, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hverju svarar þú?

◻ Af hverju er hollusta ekki auðveld?

◻ Af hverju er hægt að segja að „hollusta“ sé mjög sérstakt hugtak?

◻ Hvaða biblíuleg dæmi höfum við um ófullkomna menn sem voru drottinhollir?

◻ Hvaða góð nútímadæmi höfum við um hollustu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Charles Taze Russell.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Jesús var sannarlega ‚hinn holli‘ þjónn Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Job sýndi Guði hollustu þótt ófullkominn væri.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Páll gaf gott fordæmi um hollustu við Jehóva.