Við þörfnumst sannra vina
Við þörfnumst sannra vina
JENNÝ og Sigrún eru að tala saman. Samræðurnar eru líflegar, þær brosa og augun tindra — allt fas þeirra ber vott um ósvikinn áhuga á því sem hin segir. Þær eiga greinilega margt sameiginlegt þótt þær séu af ólíkum uppruna, og þær bera mikla virðingu hvor fyrir annarri.
Eiríkur og Dagbjartur eru að vinna saman að verkefni, einu af mörgum á áralöngu samstarfi. Þeir eru afslappaðir og grunnt á hlátrinum. Þegar samræðurnar beinast að alvarlegri málum skiptast þeir einlæglega á skoðunum. Þeir virða hvor annan. Eiríkur og Dagbjartur eru sannir vinir líkt og Jenný og Sigrún.
Þessar lýsingar snerta kannski streng í hjarta þér og koma þér til að hugsa um þína eigin vini. Hitt getur líka verið að þær veki með þér löngun til að eiga slíka vini. Og þú getur eignast þá!
Hvers vegna við þörfnumst sannra vina
Heilbrigð vinátta er okkur nauðsynleg til að líða vel andlega og líkamlega. En það er þó ekki endilega neitt að okkur þótt við séum einmana. Sumir rannsóknarmenn segja að einmanakennd sé eins og hungur, náttúrleg áminning um að við þörfnumst félagsskapar. Að minnsta kosti geta rétt vináttutengsl dregið úr einmanakennd eða jafnvel eytt henni, alveg eins og matur dregur úr hungri eða eyðir því. Að eiga góða vini er ekki fágætur munaður sem aðeins fáeinir geta leyft sér.
Mennirnir voru skapaðir með þörf fyrir félagsskap. (1. Mósebók 2:18) Biblían segir að sannur vinur eða félagi sé ‚sem bróðir þegar við erum í nauðum.‘ (Orðskviðirnir 17:17) Þess vegna ættu sannir vinir að geta beðið hver annan um hjálp þegar þörf er á. En vinátta er meira en það að eiga sér félaga í starfi eða leik, eða til að leita hjálpar hjá. Góðir vinir laða fram hið besta hver í fari annars. Orðskviðirnir 27:17 segja: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ Á sama hátt og járn getur brýnt hníf úr sama efni getur maður brýnt vin sinn andlega og hugarfarslega. Ef við erum niðurdregin sökum vonbrigða getur samúðarsvipur góðs vinar og biblíuleg hvatning verið mjög upplífgandi.
Í Biblíunni er vinátta tengd kærleika, kunningsskap, trúnaðartrausti og félagsskap. Vinir geta verið úr hópi nágranna, vinnufélaga og svo framvegis. Sumir líta á ættingja sem nánustu vini sína. En mörgum finnst erfitt að eignast sanna vini nú á dögum og halda vináttu þeirra. Af hverju stafar það? Getur þú eignast sanna og trausta vini?