Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna Guð blessar sanna tilbeiðslu

Hvers vegna Guð blessar sanna tilbeiðslu

Hvers vegna Guð blessar sanna tilbeiðslu

„Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans.“ — OPINBERUNARBÓKIN 19:1, 2.

1. Hvernig mun Babýlon hin mikla líða undir lok?

 „BABÝLON HIN MIKLA“ er fallin í augum Guðs og eyðing blasir við henni. Biblíuspádómarnir gefa til kynna að pólitískir friðlar þessarar alþjóðlegu trúarskækju muni bráðlega gereyða henni; endalok hennar verða skyndileg og snögg. Í opinberun Jesú til Jóhannesar er þessi spádómsorð að finna: „Einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: ‚Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.‘“ — Opinberunarbókin 18:2, 21.

2. Hvernig munu þjónar Jehóva bregðast við eyðingu Babýlonar?

2 Sum öfl í heimi Satans munu harma eyðingu Babýlonar hinnar miklu, en ekki þjónar Guðs á himni eða jörð. Þeir munu æpa gleðióp fyrir Guði: „Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ — Opinberunarbókin 18:9, 10; 19:1, 2.

Hvaða ávöxt verður sönn trú að bera?

3. Hvaða spurningum þarf að svara?

3 Hvers konar tilbeiðsla verður eftir á jörðinni fyrst það á að afmá alla falsdýrkun af henni? Hvernig getum við gengið úr skugga um hvaða trúarhópur lifir af þegar falstrúarheimsveldi Satans verður eytt? Hvaða réttlætisávöxt verður þessi hópur að bera? Það eru að minnsta kosti tíu skilyrði sem sönn tilbeiðsla á Jehóva þarf að uppfylla. — Malakí 3:18; Matteus 13:43.

4. Hvert er fyrsta skilyrðið, sem sönn tilbeiðsla þarf að uppfylla, og hvernig gaf Jesús fordæmið þar að lútandi?

4 Fyrst og fremst verða sannkristnir menn að halda á loft drottinvaldinu sem Jesús dó fyrir — drottinvaldi föður hans. Jesús lét ekki lífið fyrir nokkurn pólitískan, þjóðernislegan eða félagslegan málstað. Hann tók ríki föður síns fram yfir allar pólitískar vonir eða byltingarhugmyndir Gyðinga. Hann svaraði tilboði Satans um veraldlegt vald: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ Hann vissi að Jehóva er raunverulegur drottinvaldur allrar jarðarinnar eins og Hebresku ritningarnar kenna. Hvaða trúfélag styður ótvírætt stjórn Jehóva frekar en stjórnmálakerfi þessa heims? — Matteus 4:10; Sálmur 83:19.

5. (a) Hvaða augum ættu sannir tilbiðjendur að líta nafn Guðs? (b) Hvað sýnir að vottar Jehóva heiðra þetta nafn?

5 Önnur krafan er sú að sönn tilbeiðsla verður að mikla og helga nafn Guðs. Hinn alvaldi opinberaði þjóð sinni Ísrael nafn sitt, Jehóva (stafsett Jahve í sumum biblíuþýðingum), og það er notað mörg þúsund sinnum í Hebresku ritningunum á frummálinu. Jafnvel fyrir daga Ísraels þekktu Adam, Eva og aðrir nafnið, enda þótt þeir virtu það ekki alltaf. (1. Mósebók 4:1; 9:26; 22:14; 2. Mósebók 6:2) Biblíuþýðendur kristna heimsins og Gyðingdómsins hafa yfirleitt sleppt nafni Guðs úr biblíum sínum en vottar Jehóva hafa hins vegar veitt þessu nafni sinn réttmæta sess og virðingu í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar. Þeir heiðra þetta nafn alveg eins og frumkristnir menn. Jakob sagði: „Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans. Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, . . . svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti [Jehóva], allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir [Jehóva], sem gjörir þetta.“ — Postulasagan 15:14-17; Amos 9:11, 12.

6. (a) Hver er þriðja krafan til sannrar tilbeiðslu? (b) Hvernig lögðu Jesús og Daníel áherslu á stjórn Guðsríkis? (Lúkas 17:20, 21, neðanmáls)

6 Þriðja krafan til sannrar tilbeiðslu er sú að hún ætti að upphefja ríki Guðs sem einu lögmætu og raunhæfu lausnina á stjórnarvanda mannkyns. Jesús kenndi fylgjendum sínum greinilega að biðja þess að þetta ríki kæmi, að stjórn Guðs tæki völdin yfir jörðinni. Daníel var blásið í brjóst að spá um hina síðustu daga: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi [veraldlegu, pólitísku] ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ Hverjir hafa sýnt með lífsstefnu sinni núna á 20. öldinni að þeir styðja Guðsríki heilshugar? Eru það trúarbrögð Babýlonar hinnar miklu eða vottar Jehóva? — Daníel 2:44; Matteus 6:10; 24:14.

7. Hvernig líta sannir guðsdýrkendur á Biblíuna?

7 Fjórða skilyrðið fyrir velþóknun Guðs er að sannir þjónar hans ættu að halda Biblíunni á loft sem innblásnu orði Guðs. Þeir ættu því ekki að verða fórnarlömb æðri biblíugagnrýni sem reynir að rýra gildi Biblíunnar á þeirri forsendu að hún sé bara bókmenntaverk manna, með öllum þeim göllum sem því fylgja. Vottar Jehóva trúa að Biblían sé innblásið orð Guðs eins og Páll skrifaði Tímóteusi: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ * Vottar Jehóva líta því á Biblíuna sem leiðsögubók sína, handbók fyrir daglegt líf og vonaruppsprettu. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

Kærleikstrú, ekki haturs

8. Hvert er fimmta skilyrðið sem sönn trú þarf að uppfylla?

8 Hvernig aðgreindi Jesús sanna fylgjendur sína frá öðrum? Svar hans bendir okkur á fimmta og mjög svo mikilvægt auðkenni sannrar tilbeiðslu. Jesús sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Hvernig sýndi Jesús kærleika sinn? Með því að gefa líf sitt sem lausnarfórn. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Af hverju er nauðsynlegt að sannkristnir menn sýni ósvikinn kærleika? Jóhannes svarar: „Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn . . . Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8.

9. Hverjir hafa sýnt sannan kærleika og hvernig?

9 Hverjir hafa sýnt þess konar kærleika nú á tímum, jafnvel andspænis kynþátta- og þjóðernishatri? Hverjir hafa staðist erfiðasta prófið, jafnvel þótt það kostaði þá lífið, til að kærleikurinn mætti ríkja? Getum við sagt að það séu kaþólsku prestarnir og nunnurnar sem óneitanlega bera nokkra ábyrgð á þjóðarmorðinu sem átti sér stað í Rúanda árið 1994? Eru það rétttrúnaðarmenn í Serbíu eða kaþólikkarnir í Króatíu sem hafa tekið þátt í „þjóðernishreinsunum“ og öðrum ókristilegum verkum í borgarastríðinu á Balkanskaga? Eða eru það klerkar kaþólskra og mótmælenda sem hafa kynt undir fordómum og hatri á Norður-Írlandi síðastliðna áratugi? Vissulega er ekki hægt að saka votta Jehóva um þátttöku í neinum slíkum átökum. Þeir hafa frekar setið í fangelsum og þolað fangabúðavist en að hvika frá kristnum kærleika sínum, jafnvel þótt það kostaði þá lífið. — Jóhannes 15:17.

10. Af hverju eru sannkristnir menn hlutlausir?

10 Sjötta skilyrði trúar, sem er Guði þóknanleg, er hlutleysi gagnvart stjórnmálum þessa heims. Af hverju eiga kristnir menn að vera hlutlausir í stjórnmálum? Páll, Jakob og Jóhannes gefa okkur ærna ástæðu fyrir þeirri afstöðu. Páll postuli skrifar að Satan sé „guð þessarar aldar“ sem beitir öllum tiltækum ráðum, meðal annars sundrandi stjórnmálum, til að blinda hugi þeirra sem trúa ekki. Lærisveinninn Jakob skrifar að ‚vinátta við heiminn sé fjandskapur gegn Guði‘ og Jóhannes postuli segir að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda.‘ Sannkristinn maður má því ekki slaka á hollustu sinni við Guð með því að skipta sér af stjórnmálum og valdabaráttu í spilltum heimi Satans. — 2. Korintubréf 4:4; Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

11. (a) Hvernig líta kristnir menn á stríð? (b) Hvaða biblíulegar forsendur eru fyrir þessari afstöðu? (2. Korintubréf 10:3-5)

11 Í ljósi tveggja síðastnefndu krafnanna er sú sjöunda augljós, en hún er sú að sannkristnir guðsdýrkendur eiga ekki að taka þátt í hernaði. Þar eð sönn trú er heimsbræðralag byggt á kærleika getur ekkert sundrað eða grafið undan þessu bræðrafélagi okkar um „allan heim.“ Jesús prédikaði kærleika og frið, ekki hatur og stríð. (1. Pétursbréf 5:9; Matteus 26:51, 52) ‚Hinn vondi,‘ Satan, sem kom Kain til að myrða Abel, heldur áfram að sá hatri meðal manna og æsa til átaka og blóðsúthellinga vegna stjórnmála-, þjóðernis- og trúarsundrungar. Sannkristnir menn ‚temja sér ekki hernað framar‘, hvað sem það kostar. Í táknrænum skilningi hafa þeir nú þegar ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.‘ Þeir bera friðsælan ávöxt anda Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; Jesaja 2:2-4; Galatabréfið 5:22, 23.

Guð blessar hreina hegðun og kenningar

12. (a) Hver er áttunda krafan en hvaða trúarsundrung geturðu nefnt dæmi um? (b) Hvernig beindi Páll athygli að áttundu kröfunni?

12 Kristin eining er áttunda krafan sem sönn tilbeiðsla þarf að uppfylla. En sundruð trúarbrögð kristna heimsins hafa ekki stuðlað að einingu. Margar helstu kirkjudeildirnar hafa klofnað í marga ólíka sértrúarflokka með tilheyrandi ringulreið. Tökum baptista í Bandaríkjunum sem dæmi, en þeir eru klofnir í norður-baptista (Amerísku baptistakirkjurnar í Bandaríkjunum) og suður-baptista (Suður-baptistaþingið), og tugi annarra baptistahópa sem hafa orðið til við klofning innan hreyfingarinnar. (World Christian Encyclopedia, bls. 714) Oft hefur klofningur komið til af ágreiningi um kenningar eða kirkjustjórn (til dæmis öldungakirkjan, biskupakirkjan og safnaðarkirkjan). Sundrung kristna heimsins á sér hliðstæðu meðal trúarbragða utan hans — jafnt búddhatrúar, íslams og hindúatrúar. Hvað ráðlagði Páll postuli frumkristnum mönnum? „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10; 2. Korintubréf 13:11.

13, 14. (a) Hvað er átt við með því að ‚vera heilagur‘? (b) Hvernig er sannri tilbeiðslu haldið óspilltri?

13 Hver er níunda krafan sem trú þarf að uppfylla til að vera Guði þóknanleg? Í 3. Mósebók 11:45 er að finna biblíulega meginreglu: „Þér skuluð vera heilagir, því að ég [Guð] er heilagur.“ Pétur postuli endurtók þessa kröfu er hann sagði: „Verðið . . . sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.“ — 1. Pétursbréf 1:15.

14 Hvað er fólgið í þessari heilagleikakröfu? Að tilbiðjendur Jehóva eigi að vera andlega og siðferðilega hreinir. (2. Pétursbréf 3:14) Iðrunarlausir menn, sem syndga af ásetningi og lítilsvirða lausnarfórn Krists með hegðun sinni, eiga ekki heima meðal þeirra. (Hebreabréfið 6:4-6) Jehóva krefst þess að kristna söfnuðinum sé haldið hreinum og heilögum. Hvernig er það hægt? Að nokkru leyti með því víkja úr söfnuðinum þeim sem ella myndu spilla honum. Það er gert að undangenginni dómsmeðferð. — 1. Korintubréf 5:9-13.

15, 16. Hvaða breytingar hafa margir kristnir menn gert á lífi sínu?

15 Margir voru lastafullir og lifðu fyrir sjálfa sig og nautnir sínar áður en þeir kynntust sannleika kristninnar. En orðið um Krist breytti þeim og þeir hafa hlotið fyrirgefningu synda sinna. Páll orðaði það nokkuð kröftuglega er hann sagði: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.

16 Ljóst er að Jehóva hefur velþóknun á þeim sem iðrast óbiblíulegrar hegðunar sinnar, snúa við og gerast sannir fylgjendur Krists og kenninga hans. Þeir elska náungann eins og sjálfa sig og sýna það á marga vegu, meðal annars með því að þrauka í þjónustu er býður öllum, sem heyra vilja, að hlýða á boðskap lífsins. — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

„Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“

17. Hver er tíunda krafan til sannrar tilbeiðslu? Nefndu dæmi.

17 Þeir sem tilbiðja Jehóva í anda og sannleika þurfa að uppfylla tíundu kröfuna sem er hrein kenning. (Jóhannes 4:23, 24) Jesús sagði fylgjendum sínum: „[Þið] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Sannleikur Biblíunnar frelsar okkur úr fjötrum kenninga sem vanvirða Guð, kenninga svo sem um ódauðlega sál, helvíti og hreinsunareld. (Prédikarinn 9:5, 6, 10; Esekíel 18:4, 20) Hann frelsar okkur frá babýlonskum leyndardómi kristna heimsins um „heilaga þrenningu.“ (5. Mósebók 4:35; 6:4; 1. Korintubréf 15:27, 28) Hlýðni við sannleika Biblíunnar gerir fólk kærleiksríkt, umhyggjusamt, góðviljað og miskunnsamt. Sönn kristni hefur aldrei fóstrað hefnigjarna, umburðarlausa rannsóknardómara eins og Tomás de Torquemada, eða hatursfulla stríðsmangara eins og páfana sem hvöttu til krossferðanna. En Babýlon hin mikla hefur borið þess konar ávöxt alla sögu sína, að minnsta kosti frá tímum Nimrods fram til dagsins í dag. — 1. Mósebók 10:8, 9, NW.

Einkennandi nafn

18. (a) Hverjir uppfylla kröfurnar tíu til sannrar tilbeiðslu og hvernig? (b) Hvað verðum við hvert og eitt að gera til að öðlast blessunina sem er framundan?

18 Hverjir uppfylla virkilega þessar tíu kröfur sannrar guðsdýrkunar nú á tímum? Hverjir eru þekktir fyrir ráðvendni sína og friðsemd? Um heim allan eru vottar Jehóva kunnir fyrir að vera „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19; 17:14, 16; 18:36) Fólk Jehóva nýtur þess heiðurs að bera nafn hans og vera vottar hans, alveg eins og Jesús Kristur var trúr vottur föður síns. Við berum þetta heilaga nafn, meðvita um þá ábyrgð okkar að rísa undir því sem það stendur fyrir. Og framtíðarhorfur okkar, votta hans, eru sannarlega stórkostlegar — að tilheyra hlýðnu, sameinuðu mannkyni sem tilbiður drottinvald alheimsins í endurreistri paradís á jörð. Til að hljóta slíka blessun skulum við halda áfram að taka eindregna afstöðu með sannri guðsdýrkun og stoltir bera nafnið vottar Jehóva, því að „sannir og réttlátir eru dómar hans.“ — Opinberunarbókin 19:2; Jesaja 43:10-12; Esekíel 3:11.

[Neðanmáls]

^ Biblíuþýðingarnar eru ekki innblásnar af Guði. Eðlis síns vegna geta þýðingar endurspeglað breytilegan skilning á frummálum Biblíunnar.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig líta þjónar Jehóva á eyðingu Babýlonar hinnar miklu?

◻ Hverjar eru helstu kröfurnar sem sönn tilbeiðsla þarf að uppfylla?

◻ Hvernig gerir sannleikurinn þig frjálsan?

◻ Hvaða sérstaks heiðurs njótum við, vottar Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Vottar Jehóva prédika og kenna fagnaðarerindið um ríki Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Sannkristnir menn hafa alltaf verið hlutlausir gagnvart veraldlegum stjórnmálum og hernaði.

[Rétthafi]

Flugvél: Með góðfúslegu leyfi Varnarmálaráðuneytisins í Lundúnum.