Fjölskylda Jehóva nýtur dýrmætrar einingar
Fjölskylda Jehóva nýtur dýrmætrar einingar
„Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [„í einingu,“ NW].“ — SÁLMUR 133:1.
1. Hvernig er ástatt í mörgum fjölskyldum nú á dögum?
FJÖLSKYLDAN er í kreppu nú á dögum. Mörg hjónabönd eru við það að bresta. Hjónaskilnaðir gerast æ algengari og börn fráskilinna hjóna eru mörg hver afskaplega döpur. Milljónir fjölskyldna eru sundraðar og óhamingjusamar. Ein er þó sú fjölskylda sem þekkir sanna gleði og einingu. Það er alheimsfjölskylda Jehóva Guðs. Þar vinna ótal ósýnilegir englar hver sitt verk í samræmi við vilja Guðs. (Sálmur 103:20, 21) En er til fjölskylda á jörðinni sem býr við slíka einingu?
2, 3. (a) Hverjir tilheyra alheimsfjölskyldu Guðs núna og við hvað mætti líkja öllum vottum Jehóva nú á tímum? (b) Hvaða spurningar fjöllum við um?
2 Páll postuli skrifaði: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni [„fjölskylda,“ NW] fær nafn af á himni og jörðu.“ (Efesusbréfið 3:14, 15) Sérhver ætt á jörðinni á nafn sitt Guði að þakka því að hann er skaparinn. Á himni eru engar mennskar fjölskyldur en í táknrænni merkingu er Guð kvæntur himnesku skipulagi sínu, og Jesús á að eiga andlega brúði sameinaða sér á himnum. (Jesaja 54:5; Lúkas 20:34, 35; 1. Korintubréf 15:50; 2. Korintubréf 11:2) Trúfastir smurðir menn á jörðinni eru hluti af alheimsfjölskyldu Guðs núna og ‚aðrir sauðir‘ Jesú, sem hafa jarðneska von, eiga það í vændum. (Jóhannes 10:16; Rómverjabréfið 8:14-17; Varðturninn (enska útgáfa), 15. janúar 1996, bls. 31) Engu að síður má líkja öllum vottum Jehóva nútímans við sameinaða heimsfjölskyldu.
3 Tilheyrir þú hinni frábæru alþjóðafjölskyldu þjóna Guðs? Ef svo er nýturðu einhverrar mestu blessunar sem hægt er að njóta. Milljónir manna geta vottfest að heimsfjölskylda Jehóva — sýnilegt skipulag hans — er friðar- og einingarvin í átaka- og sundrungareyðimörk heimsins. Hvernig mætti lýsa einingu heimsfjölskyldu Jehóva? Og hvað stuðlar að slíkri einingu?
Hversu fagurt og yndislegt!
4. Hvernig geturðu lýst með eigin orðum því sem Sálmur 133 segir um bróðureiningu?
4 Sálmaritarinn Davíð kunni vel að meta slíka bróðureiningu. Honum var jafnvel innblásið að syngja um hana! Reyndu að sjá hann fyrir þér syngja og leika undir á hörpu: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [„í einingu,“ NW], eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans, eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir [Jehóva] boðið út blessun, lífi að eilífu.“ — Sálmur 133:1-3.
5. Hvaða samanburð er hægt að gera á Ísraelsmönnum og nútímaþjónum Guðs með hliðsjón af Sálmi 133:1, 2?
5 Þessi orð lýsa bróðureiningu þjóna Guðs til forna, Ísraelsmanna. Er þeir dvöldust í Jerúsalem við hinar þrjár árlegu hátíðir bjuggu þeir saman í einingu. Þeir voru ein fjölskylda þótt þeir væru af ýmsum ættkvíslum. Samveran hafði heilnæm áhrif á þá líkt og hressandi og ilmgóð smurningarolía. Þegar slíkri olíu var hellt á höfuð Arons rann hún niður skeggið og draup niður á kyrtilfaldinn. Samveran hafði góð áhrif sem gagntóku allan mannfjöldann. Misskilningi var eytt og eining efld. Sams konar eining ríkir í heimsfjölskyldu Jehóva nú á dögum. Regluleg samvera hefur heilnæm andleg áhrif á alla í fjölskyldunni. Sérhver misskilningur eða ágreiningur eyðist þegar farið er eftir ráðleggingum orðs Guðs. (Matteus 5:23, 24; 18:15-17) Fólk Jehóva metur mjög mikils hina gagnkvæmu uppörvun sem bróðureining þeirra hefur í för með sér.
6, 7. Hvernig var eining Ísraels eins og döggin á Hermonfjalli og hvar getum við fundið blessun Guðs nú á dögum?
6 Hvernig var samvera og eining Ísraelsmenna eins og dögg af Hermonfjalli? Fjallstindurinn teygir sig rúmlega 2800 metra yfir sjávarmál og er snæviþakinn næstum árið um kring. Að næturlagi þéttist vatnsgufan í andrúmsloftinu við snækrýnt fjallið og myndar ríkulega dögg sem viðheldur gróðrinum á löngu þurrkatímabilinu. Kaldir loftstraumar frá Hermonfjallgarðinum geta borið slíka gufu allt suður til Jerúsalemsvæðisins þar sem hún þéttist og myndar dögg eða náttfall. Sálmaritarinn talaði því réttilega um „dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll.“ Þetta er góð áminning um hin hressandi áhrif sem stuðla að einingu tilbiðjenda Jehóva.
7 Fyrir stofnun kristna safnaðarins var Síon eða Jerúsalem miðstöð sannrar tilbeiðslu. Það var því þar sem Guð fyrirskipaði að blessunin skyldi vera. Þar eð uppspretta allrar blessunar bjó táknrænt séð í helgidóminum í Jerúsalem myndi blessunin streyma þaðan. En núna er sönn tilbeiðsla ekki lengur bundin við neinn ákveðinn stað þannig að finna má blessun, kærleika og einingu þjóna Guðs um allan heim. (Jóhannes 13:34, 35) Hvað stuðlar meðal annars að þessari einingu?
Það sem stuðlar að einingu
8. Hvað lærum við um einingu í Jóhannesi 17:20, 21?
8 Eining tilbiðjenda Jehóva er byggð á hlýðni við orð hans og réttum skilningi á því, þar á meðal kenningum Jesú Krists. Með því að senda son sinn í heiminn til að bera sannleikanum vitni og deyja fórnardauða opnaði Jehóva leiðina til að myndaður yrði sameinaður, kristinn söfnuður. (Jóhannes 3:16; 18:37) Ljóst er af bæn Jesú að ósvikin eining átti að ríkja meðal safnaðarmanna: „Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.“ (Jóhannes 17:20, 21) Fylgjendur Jesú eignuðust sams konar einingu og Guð og sonur hans njóta vegna þess að þeir fóru eftir orði Guðs og kenningum Jesú. Þetta sama viðhorf er aðalástæðan fyrir einingu heimsfjölskyldu Jehóva nú á dögum.
9. Hvaða hlutverki gegnir heilagur andi í einingu fólks Jehóva?
9 Annað, sem sameinar okkur, fólk Jehóva, er það að við höfum heilagan anda hans eða starfskraft. Heilagur andi gerir okkur kleift að skilja hinn opinberaða sannleika orðs Jehóva og þjóna honum í einingu. (Jóhannes 16:12, 13) Andinn hjálpar okkur að forðast sundrandi verk holdsins svo sem deilur, meting, reiði og eigingirni. Andi Guðs skapar í fari okkar hinn sameinandi ávöxt kærleika, gleði, friðar, langlyndis, gæsku, góðvildar, trúmennsku, hógværðar og sjálfstjórnar. — Galatabréfið 5:19-23.
10. (a) Hvaða samlíkingu má finna milli kærleikans í sameinaðri, mennskri fjölskyldu og kærleikans sem sýnir sig meðal vígðra þjóna Jehóva? (b) Hvað finnst einum meðlimi hins stjórnandi ráðs um að hitta andlega bræður sína?
10 Í sameinaðri fjölskyldu elska menn hver annan og njóta þess að vera saman. Þeir sem tilheyra sameinaðri fjölskyldu dýrkenda Jehóva elska hann, son hans og trúbræður sína. (Markús 12:30; Jóhannes 21:15-17; 1. Jóhannesarbréf 4:21) Alveg eins og ástrík fjölskylda nýtur þess að borða saman hafa þeir sem eru helgaðir Guði yndi af því að vera saman á kristnum samkomum og mótum til að njóta góðs af heilnæmum félagsskap og afbragðsgóðri andlegri fæðu. (Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 10:24, 25) Einn meðlimur hins stjórnandi ráðs votta Jehóva lýsti því einu sinni þannig: „Það er fátt í lífinu sem veitir mér meiri gleði og hvatningu en að hitta bræðurna. Ég nýt þess að mæta meðal þeirra fyrstu í ríkissalinn og fara með þeim síðustu ef ég get. Ég finn til innri gleði þegar ég tala við þjóna Guðs. Þegar ég er meðal þeirra finnst mér ég vera í faðmi fjölskyldu minnar.“ Er þér þannig innanbrjósts? — Sálmur 27:4.
11. Hvaða starf veitir vottum Jehóva sérstaklega gleði og hvaða áhrif hefur það þegar þjónustan við Guð er þungamiðjan í lífi okkar?
11 Sameinuð fjölskylda hefur ánægju af því að gera ýmislegt saman. Eins hafa þeir sem tilheyra tilbiðjendafjölskyldu Jehóva ánægju af því að prédika Guðsríki saman og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Regluleg þátttaka í þessu starfi styrkir böndin milli okkar og annarra votta Jehóva. Það eflir líka fjölskylduandann meðal okkar þegar við gerum þjónustuna við Guð að þungamiðju lífsins og styðjum starf fólks hans í öllum greinum.
Guðræðisleg regla er nauðsynleg
12. Hvað einkennir sameinaða og hamingjusama fjölskyldu og hvaða fyrirkomulag stuðlaði að einingu kristnu safnaðanna á fyrstu öld?
12 Fjölskylda undir sterkri og kærleiksríkri forystu er að öllum líkindum sameinuð og hamingjusöm. (Efesusbréfið 5:22, 33; 6:1) Jehóva er Guð friðar og reglu og allir í fjölskyldu hans líta á hann sem ‚Hinn hæsta.‘ (Daníel 7:18, 22, 25, 27; 1. Korintubréf 14:33) Þeim er líka ljóst að hann hefur skipað son sinn, Jesú Krist, erfingja allra hluta og hefur veitt honum allt vald á himni og jörð. (Matteus 28:18; Hebreabréfið 1:1, 2) Með Krist sem höfuð er kristni söfnuðurinn agað og sameinað skipulag. (Efesusbréfið 5:23) Á fyrstu öld hafði stjórnandi ráð postula og annarra andlega þroskaðra ‚öldunga‘ umsjón með starfi safnaðanna. Í einstökum söfnuðum voru skipaðir umsjónarmenn eða öldungar og safnaðarþjónar. (Postulasagan 15:6; Filippíbréfið 1:1, NW) Hlýðni við þá sem fóru með forystuna stuðlaði að einingu. — Hebreabréfið 13:17.
13. Hvernig dregur Jehóva fólk til sín og hvaða afleiðingar hefur það?
13 En gefur öll þessi regla til kynna að tilbiðjendur Jehóva megi þakka einingu sína sterkri, ópersónulegri forystu? Alls ekki! Það er ekkert kærleikslaust við Guð eða skipulag hans. Jehóva dregur fólk til sín með því að sýna kærleika, og ár hvert ganga hundruð þúsundir manna fúslega og fagnandi til liðs við skipulag hans með því að skírast til tákns um heilshugar vígslu sína við hann. Þeir sýna sama hug og Jósúa sem hvatti ísraelska bræður sína: „Kjósið . . . í dag, hverjum þér viljið þjóna . . . En ég og mínir ættmenn munum þjóna [Jehóva].“ — Jósúabók 24:15.
14. Hvers vegna getum við sagt að skipulag Jehóva sé guðræðislegt?
14 Við erum ekki aðeins glöð að vera hluti af fjölskyldu Jehóva heldur finnum líka til öryggis. Það stafar af því að skipulag hans er guðræðislegt. Ríki Guðs er guðveldi. Það er stjórnarfyrirkomulag Guðs, skipað og stofnsett af honum. Hin smurða ‚heilaga þjóð‘ Jehóva er undirgefin stjórn hans og er því líka guðræðisleg. (1. Pétursbréf 2:9) Þar sem Jehóva, guðvaldurinn mikli, er dómari okkar, löggjafi og konungur höfum við fulla ástæðu til að finna til öryggis. (Jesaja 33:22) En hvað nú ef upp kæmi einhver deila sem ógnaði gleði okkar, öryggi og einingu?
Hið stjórnandi ráð tekur á málum
15, 16. Hvaða deila kom upp á fyrstu öldinni og hvers vegna?
15 Af og til getur þurft að útkljá deilu til að varðveita einingu í fjölskyldu. Setjum sem svo að þurft hafi að leysa andlegt vandamál til að varðveita einingu tilbiðjendafjölskyldu Guðs á fyrstu öld. Hvað var þá gert? Hið stjórnandi ráð lét málið til sín taka og felldi úrskurði í andlegum málum. Við höfum dæmi úr Ritningunni um slíka málsmeðferð.
16 Um árið 49 kom hið stjórnandi ráð saman í Jerúsalem til að ráða fram úr alvarlegu vandamáli og varðveita þannig einingu ‚heimamanna Guðs.‘ (Efesusbréfið 2:19) Um 13 árum áður hafði Pétur postuli prédikað fyrir Kornelíusi og fyrstu heiðingjarnir eða menn af þjóðunum tóku trú og skírðust. (Postulasagan 10. kafli) Á fyrstu trúboðsferð Páls tóku margir heiðingjar kristni. (Postulasagan 13:1–14:28) Meira að segja hafði verið stofnaður söfnuður kristinna manna af heiðnum uppruna í Antíokkíu í Sýrlandi. Sumum kristnum Gyðingum fannst að heiðingjar, sem tóku trú, ættu að láta umskerast og halda Móselögin en aðrir voru á öndverðum meiði. (Postulasagan 15:1-5) Þessi deila hefði getað valdið algerri sundrungu, jafnvel klofningi í aðskilda gyðinga- og heiðingjasöfnuði. Hið stjórnandi ráð gerði því snarlega ráðstafanir til að varðveita kristna einingu.
17. Hvaða samstilltum og guðræðislegum starfsháttum er lýst í 15. kafla Postulasögunnar?
17 Að sögn Postulasögunnar 15:6-22 komu „postularnir og öldungarnir . . . saman til að líta á þetta mál.“ Fleiri voru viðstaddir, þeirra á meðal fulltrúar frá Antíokkíu. Fyrst útskýrði Pétur að ‚fyrir hans munn hefðu heiðingjarnir heyrt orð fagnaðarerindisins og tekið trú.‘ Síðan hlýddi ‚allur hópurinn‘ á Barnabas og Pál er þeir greindu frá „hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.“ Því næst stakk Jakob upp á hvernig útkljá mætti deiluna. Eftir að hið stjórnandi ráð komst að niðurstöðu er sagt: „Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu.“ Þessir ‚kosnu menn‘ — Júdas og Sílas — færðu trúbræðrum sínum hvetjandi bréf.
18. Hvaða ákvörðun tók hið stjórnandi ráð í sambandi við Móselögin og hvaða áhrif hafði það á kristna Gyðinga og kristna menn af heiðnum uppruna?
18 Bréfið greindi frá úrskurði hins stjórnandi ráðs og hófst með orðunum: „Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.“ Aðrir bræður voru viðstaddir þennan sögufræga fund en það voru greinilega „postularnir og öldungarnir“ sem mynduðu hið stjórnandi ráð. Andi Guðs leiddi þá því að bréfið segir: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:23-29) Kristnir menn þurftu ekki að umskerast og halda lögmál Móse. Þessi úrskurður hjálpaði kristnum mönnum af hópi Gyðinga og af heiðnum uppruna að vera sameinaðir í orði og verki. Söfnuðirnir glöddust og dýrmætri einingu var viðhaldið eins og er einnig núna í heimsfjölskyldu Guðs undir andlegri leiðsögn hins stjórnandi ráðs votta Jehóva. — Postulasagan 15:30-35.
Þjónið í guðræðislegri einingu
19. Af hverju hefur einingin blómgast í tilbiðjendafjölskyldu Jehóva?
19 Eining dafnar þegar fjölskylda vinnur saman. Hið sama má segja um fjölskyldu dýrkenda Jehóva. Öldungarnir og aðrir í söfnuðinum á fyrstu öld voru guðræðislegir og þjónuðu Guði fyllilega samtaka hinu stjórnandi ráði og viðurkenndu ákvarðanir þess. Með hjálp hins stjórnandi ráðs ‚prédikuðu öldungarnir orðið‘ og safnaðarmenn í heild voru „samhuga.“ (2. Tímóteusarbréf 4:1, 2; 1. Korintubréf 1:10) Þannig voru sömu biblíusannindi kynnt í boðunarstarfinu og á kristnum samkomum bæði í Jerúsalem, Antíokkíu, Róm, Korintu og annars staðar. Slík guðræðiseining ríkir nú á dögum.
20. Hvað verðum við að gera til að varðveita kristna einingu okkar?
20 Til að varðveita einingu okkar ættum við öll, sem tilheyrum heimsfjölskyldu Jehóva, að kappkosta að sýna guðræðislegan kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:16) Við þurfum að lúta vilja Guðs og sýna djúpa virðingu fyrir ‚hinum trúa þjóni‘ og hinu stjórnandi ráði. Við hlýðum að sjálfsögðu fúslega og með gleði líkt og við vígjumst Guði. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Sálmaritarinn tengdi gleði og hlýðni vel saman. Hann söng: „Hallelúja. Sæll er sá maður, sem óttast [Jehóva] og hefir mikla unun af boðum hans.“ — Sálmur 112:1.
21. Hvernig getum við sýnt að við séum guðræðisleg?
21 Jesús, höfuð safnaðarins, er fullkomlega guðræðislegur og gerir alltaf vilja föður síns. (Jóhannes 5:30) Við skulum þess vegna fylgja fyrirmynd okkar með því að gera vilja Jehóva í einingu, vera guðræðisleg og fyllilega samtaka skipulagi hans. Þá getum við endurómað söng sálmaritarans í innilegri gleði og þakklæti: ‚Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman í einingu!‘
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig er hægt að tengja kristna einingu okkar Sálmi 133?
◻ Hvað stuðlar meðal annars að einingu?
◻ Hvers vegna er guðræðisleg regla nauðsynleg til að viðhalda einingu fólks Guðs?
◻ Hvaða ráðstafanir gerði hið stjórnandi ráð fyrstu aldar til að varðveita einingu?
◻ Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að þjóna í guðræðislegri einingu?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 23]
Hið stjórnandi ráð gerði ráðstafanir til að varðveita einingu.