Allir verða að standa Guði reikning
Allir verða að standa Guði reikning
„Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 14:12.
1. Hvaða takmörk voru sett á frelsi Adams og Evu?
JEHÓVA GUÐ áskapaði fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu, frjálsan vilja. Þótt þau væru lægra sett en englarnir voru þau vitsmunaverur og fær um að taka viturlegar ákvarðanir. (Sálmur 8:4, 5, NW) En þetta frelsi, sem Guð gaf, veitti fyrstu mannhjónunum ekki takmarkalausan sjálfsákvörðunarrétt. Þau þurftu að standa skapara sínum reikning og þessi ábyrgð nær til allra afkomenda þeirra.
2. Hvaða reikninga gerir Jehóva bráðlega upp og hvers vegna?
2 Nú dregur senn að endalokum þessa illa heimskerfis er Jehóva gerir upp reikninga á jörðinni. (Samanber Rómverjabréfið 9:28.) Bráðlega verða óguðlegir menn að standa Jehóva Guði reikning fyrir að hafa sólundað auðlindum jarðar og eytt mannslífum, en sérstaklega fyrir að hafa ofsótt þjóna hans. — Opinberunarbókin 6:10; 11:18.
3. Hvaða spurningar skoðum við?
3 Miðað við þessar alvarlegu horfur er gagnlegt fyrir okkur að hugleiða réttlát viðskipti Jehóva við sköpunarverur sínar í fortíðinni. Hvernig getur Ritningin hjálpað okkur persónulega að standa Guði reikningsskap með sóma? Hverjir geta verið okkur fordæmi til eftirbreytni og hverjir víti til varnaðar?
Englar þurfa að standa Guði reikning
4. Hvernig vitum við að Guð lætur englana standa reikningsskap gerða sinna?
4 Englar Jehóva á himni þurfa að standa honum reikningsskap til jafns við okkur. Fyrir flóðið á dögum Nóa óhlýðnuðust sumir englar og holdguðust til að geta átt kynmök við konur. Þessar andaverur höfðu frjálsan vilja og gátu tekið slíka ákvörðun, en Guð gerði þær ábyrgar fyrir henni. Þegar óhlýðnu englarnir sneru aftur yfir á andlegt tilverusvið leyfði Jehóva þeim ekki að endurheimta fyrri stöðu. Lærisveinninn Júdas segir að þeir séu ‚í myrkri geymdir í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.‘ — Júdasarbréfið 6.
5. Hvernig hafa Satan og illir andar hans fallið og hvernig verða reikningsskil gerð fyrir uppreisn þeirra?
5 Þessir óhlýðnu englar eða illu andar eiga sér Satan djöfulinn sem höfðingja. (Matteus 12:24-26) Þessi illi engill gerði uppreisn gegn skapara sínum og véfengdi að Jehóva bæri drottinvaldið með réttu. Satan leiddi fyrstu foreldra okkar út í synd sem varð til þess að þau dóu um síðir. (1. Mósebók 3:1-7, 17-19) Enda þótt Guð hafi leyft Satan að hafa aðgang að hinum himnesku hirðsölum um tíma eftir það, boðaði Opinberunarbókin að á tilteknum tíma Guðs yrði hinum vonda varpað niður til nágrennis jarðar. Öll rök hníga að því að þetta hafi átt sér stað skömmu eftir að Jesús Kristur tók völd sem konungur Guðsríkis árið 1914. Að síðustu verður djöflinum og illum öndum hans eytt fyrir fullt og allt. Þegar deilan um drottinvaldið hefur verið endanlega útkljáð verður búið að gera réttlátlega upp reikninga vegna uppreisnarinnar. — Jobsbók 1:6-12; 2:1-7; Opinberunarbókin 12:7-9; 20:10.
Sonur Guðs þarf að standa honum reikning
6. Hvernig lítur Jesús á það að standa föður sínum reikningsskap?
6 Sonur Guðs, Jesús Kristur, er afbragðsfordæmi til eftirbreytni. Hann var fullkominn maður, jafnoki Adams, og hafði yndi af því að gera vilja Guðs. Hann var líka ánægður að standa Guði reikning fyrir að fylgja lögum hans. Sálmaritarinn spáði mjög viðeigandi um hann: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“ — Sálmur 40:9; Hebreabréfið 10:6-9.
7. Hvers vegna gat Jesús sagt orðin í Jóhannesi 17:4, 5 í bæn kvöldið fyrir dauða sinn?
7 Þrátt fyrir hatrið og andstöðuna, sem Jesús varð fyrir, gerði hann vilja Guðs og varðveitti ráðvendni allt til dauða á kvalastaur. Þar með greiddi hann lausnargjaldið sem þurfti til að kaupa mannkynið undan banvænum afleiðingum syndar Adams. (Matteus 20:28) Þess vegna gat Jesús beðið með öryggi kvöldið áður en hann dó: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna. Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ (Jóhannes 17:4, 5) Jesús gat sagt þessi orð við himneskan föður sinn af því að hann var að standa honum reikning með sóma og var honum þóknanlegur.
8. (a) Hvernig benti Páll á að við yrðum að standa Jehóva Guði reikning fyrir sjálfa okkur? (b) Hvað hjálpar okkur að njóta viðurkenningar Guðs?
8 Við erum ófullkomin, ólíkt hinum fullkomna manni Jesú Kristi. Samt þurfum við að standa Guði reikning. Páll postuli sagði: „Hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs. Því að ritað er: ‚Svo sannarlega sem ég lifi, segir [Jehóva], fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.‘ Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 14:10-12) Til að geta gert það og hlotið viðurkenningu Jehóva hefur hann í kærleika sínum gefið okkur bæði samvisku og innblásið orð sitt, Biblíuna, til að leiðbeina okkur í því hvað skuli segja og gera. (Rómverjabréfið 2:14, 15; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Ef við notfærum okkur til fulls andlegar ráðstafanir Jehóva og fylgjum biblíufræddri samvisku okkar hjálpar það okkur að öðlast viðurkenningu Guðs. (Matteus 24:45-47) Einnig má sækja styrk og leiðsögn til heilags anda eða starfskraftar Jehóva. Ef við förum eftir leiðsögn andans og biblíufræddrar samvisku okkar sýnum við að við ‚fyrirlítum ekki Guð‘ sem við verðum að standa reikningsskap allra gerða okkar. — 1. Þessaloníkubréf 4:3-8; 1. Pétursbréf 3:16, 21.
Þjóðir þurfa að standa Guði reikning
9. Hverjir voru Edómítar og hvernig fór fyrir þeim vegna framkomu þeirra við Ísrael?
9 Jehóva krefur þjóðirnar reikningsskapar. (Jeremía 25:12-14; Sefanía 3:6, 7) Tökum sem dæmi hið forna Edómríki er lá suður af Dauðahafi og norður af Akabaflóa. Edómítar voru Semítar, náskyldir Ísraelsmönnum. Þótt Esaú, sonarsonur Abrahams, væri ættfaðir Edómíta var Ísraelsmönnum meinað að fara „Konungsveg“ gegnum Edóm á leið sinni til fyrirheitna landsins. (4. Mósebók 20:14-21) Í aldanna rás magnaðist óvild Edómíta upp í miskunnarlaust hatur á Ísrael. Að lokum voru Edómítar krafðir reikningsskapar fyrir að hafa hvatt Babýloníumenn til að eyða Jerúsalem árið 607 f.o.t. (Sálmur 137:7) Á sjöttu öld f.o.t. lögðu babýlonskar hersveitir, undir stjórn Nabónídusar konungs, Edóm undir sig og landið lagðist í eyði eins og Jehóva hafði fyrirskipað. — Jeremía 49:20; Óbadía 9-11.
10. Hvernig komu Móabítar fram við Ísraelsmenn og hvernig lét Guð þá standa reikningsskap?
10 Móab fékk sömu útreið. Móabítaríkið lá norður af Edóm austan við Dauðahaf. Áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið sýndu Móabítar þeim litla gestrisni og létu þeim í té brauð og vatn aðeins í hagnaðarskyni. (5. Mósebók 23:3, 4) Balak Móabskonungur réð spámanninn Bíleam til að bölva Ísrael og móabískar konur voru notaðar til að tæla ísraelska karlmenn út í siðleysi og skurðgoðadýrkun. (4. Mósebók 22:2-8; 25:1-9) En Jehóva lokaði ekki augunum fyrir hatri Móabs á Ísrael. Eins og spáð var eyddu Babýloníumenn Móab. (Jeremía 9:25, 26; Sefanía 2:8-11) Já, Guð krafði Móab reikningsskapar.
11. Hvaða örlög hentu Móab og Ammón og til hvers benda biblíuspádómarinir í sambandi við hið núverandi illa heimskerfi?
11 Ammon þurfti einnig að standa Guði reikning gerða sinna. Jehóva hafði sagt fyrir: „Fara [skal] fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar.“ (Sefanía 2:9) Móabsland og Ammón voru lögð í eyði alveg eins og Guð hafði eytt borgunum Sódómu og Gómorru. Að sögn Landafræðifélags Lundúna telja vísindamenn sig hafa fundið rústir Sódómu og Gómorru á austurströnd Dauðahafs. Sérhver áreiðanleg gögn, sem enn kunna að koma í ljós þar um, munu aðeins renna enn frekari stoðum undir spádóma Biblíunnar þess efnis að hið núverandi illa heimskerfi verði líka að standa Jehóva Guði reikningsskap. — 2. Pétursbréf 3:6-12.
12. Hverju hafði verið spáð um leifar Gyðinga þótt Ísrael yrði að standa Guði reikningsskap synda sinna?
12 Þótt Ísraelsþjóðin hafi notið mikillar velvildar Jehóva þurfti hún einnig að standa Guði reikningsskap af syndum sínum. Þegar Jesús Kristur kom til Ísraelsþjóðarinnar hafnaði fjöldinn honum. Aðeins litlar leifar þjóðarinnar trúðu og gerðust fylgjendur hans. Páll heimfærði ákveðna spádóma á þessar Gyðingaleifar er hann skrifaði: „Jesaja hrópar yfir Ísrael: ‚Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða. [Jehóva] mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,‘ og eins hefur Jesaja sagt: ‚Ef [Jehóva] hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru.‘“ (Rómverjabréfið 9:27-29; Jesaja 1:9; 10:22, 23) Postulinn vitnaði til hinna 7000 á dögum Elía sem höfðu ekki lotið Baal og sagði svo: „Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð.“ (Rómverjabréfið 11:5) Þeir sem mynduðu þessar leifar þurftu persónulega að standa Guði reikningsskap.
Dæmi um persónulega ábyrgð
13. Hvað varð um Kain er Guð lét hann standa reikningsskap morðsins á Abel bróður hans?
13 Biblían nefnir mörg dæmi um að menn hafi þurft að standa Jehóva Guði persónulega reikningsskap. Tökum Kain, frumgetinn son Adams, sem dæmi. Bæði hann og Abel bróðir hans færðu Jehóva fórnir. Guð hafði velþóknun á fórn Abels en ekki Kains. Þegar Kain þurfti að standa Guði reikningsskap vegna morðsins á bróður sínum svaraði hann kuldalega: „Á ég að gæta bróður míns?“ Vegna syndar sinnar var Kain gerður útlægur til ‚landsins Nód fyrir austan Eden.‘ Hann sýndi enga einlæga iðrun vegna glæpsins heldur harmaði það eitt að hann skyldi þurfa að taka út réttláta refsingu. — 1. Mósebók 4:3-16.
14. Hvernig kom persónuleg ábyrgð gagnvart Guði fram í sambandi við Elí æðstaprest og syni hans?
14 Elí, æðstiprestur í Ísrael, er líka dæmi um að menn þurfi að standa Guði reikning persónulega. Synir hans, Hofní og Pínehas, embættuðu sem prestar en „voru sekir um ranglæti gagnvart mönnum, virðingarleysi fyrir Guði og forðuðust enga illsku,“ segir sagnaritarinn Jósefus. Þessi „hrakmenni“ skeyttu ekki um Jehóva, unnu helgispjöll með hegðun sinni og voru sekir um gróft siðleysi. (1. Samúelsbók 1:3; 2:12-17, 22-25) Elí var faðir þeirra og æðstiprestur Ísraels og var þar af leiðandi skylt að aga þá, en hann lét nægja að ávíta þá mildilega. Elí ‚mat syni sína meir en Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 2:29) Hús Elí hlaut makleg málagjöld. Báðir synirnir dóu samdægurs föður sínum og prestaætt þeirra var að síðustu útrýmt algerlega. Þannig voru reikningar gerðir upp. — 1. Samúelsbók 3:13, 14; 4:11, 17, 18.
15. Hvers vegna var Jónatan, syni Sáls konungs, umbunað?
15 Jónatan, sonur Sáls konungs, setti gerólíkt fordæmi. Skömmu eftir að Davíð drap Golíat „lagði Jónatan ást mikla við Davíð“ og þeir gerðu með sér fóstbræðralag. (1. Samúelsbók 18:1, 3) Líklega gerði Jónatan sér grein fyrir að andi Guðs hefði yfirgefið Sál, en það dró ekki úr kostgæfni hans gagnvart sannri guðsdýrkun. (1. Samúelsbók 16:14) Virðing Jónatans fyrir því valdi, sem Guð hafði gefið Davíð, dvínaði aldrei. Jónatan gerði sér grein fyrir að hann þyrfti að standa Jehóva reikning, og Jehóva umbunaði honum heiðarlega breytni hans með því að tryggja að ætt hans héldist við um kynslóðir. — 1. Kroníkubók 8:33-40.
Ábyrgð í kristna söfnuðinum
16. Hver var Títus og hvers vegna má segja að hann hafi staðið Guði reikning fyrir sjálfan sig með sóma?
16 Kristnu Grísku ritningarnar fara lofsamlegum orðum um marga karla og konur sem stóðu Guði reikningsskap með sóma. Nefna má grískan kristinn mann er Títus hét. Sumir halda að hann hafi gerst kristinn á fyrstu trúboðsferð Páls til Kýpur. Þar eð Gyðingar og trúskiptingar frá Kýpur kunna að hafa verið í Jerúsalem á hvítasunnunni árið 33 er hugsanlegt að kristnin hafi náð til eyjarinnar skömmu eftir það. (Postulasagan 11:19) Hvað sem því líður reyndist Títus einn hinna trúföstu samverkamanna Páls. Hann fór með Páli og Barnabasi til Jerúsalem um árið 49 þegar skorið var úr hinni alvarlegu umskurnardeilu. Sú staðreynd að Títus var óumskorinn styrkti rök Páls fyrir því að þeir sem snerust til kristni ættu ekki að vera undir Móselögunum. (Galatabréfið 2:1-3) Ritningin vitnar um gott starf Títusar og Páll sendi honum jafnvel guðinnblásið bréf. (2. Korintubréf 7:6; Títusarbréfið 1:1-4) Að öllum líkindum hefur Títus staðið Guði reikning með sóma allt þar til jarðneskri þjónustu hans lauk.
17. Hvernig stóð Tímóteus sig og hvaða gagn getum við haft af fordæmi hans?
17 Tímóteus var annar kostgæfinn maður sem stóð Guði reikning með sóma. Þótt Tímóteus hafi átti við einhver heilsuvandamál að stríða sýndi hann ‚hræsnislausa trú‘ og ‚þjónaði með Páli að boðun fagnaðarerindisins.‘ Postulinn gat því sagt trúbræðrum sínum í Filippí: „Ég hef engan honum [Tímóteusi] líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar.“ (2. Tímóteusarbréf 1:5; Filippíbréfið 2:20, 22; 1. Tímóteusarbréf 5:23) Þrátt fyrir mannlega veikleika og aðrar prófraunir getum við líka haft hræsnislausa trú og staðið Guði reikning fyrir sjálfa okkur með sóma.
18. Hver var Lýdía og hvaða anda sýndi hún?
18 Lýdía var guðrækin kona sem greinilega stóð Guði reikning fyrir sjálfa sig með sóma. Hún og heimilismenn hennar voru meðal fyrstu Evrópubúanna sem tóku kristni vegna starfs Páls í Filippí um árið 50. Lýdía var ættuð frá Þýatíruborg og hafði sennilega tekið gyðingatrú, en hugsanlegt er að fáir Gyðingar hafi búið í Filippí og ekkert samkunduhús verið þar. Hún og aðrar guðræknar konur voru samankomnar við á nokkra þegar Páll talaði við þær. Það varð til þess að Lýdía gerðist kristin og lagði fast að Páli og félögum hans að dvelja hjá sér. (Postulasagan 16:12-15) Gestrisni Lýdíu er enn þann dag í dag eitt aðalsmerki sannrar kristni.
19. Með hvaða góðum verkum stóð Dorkas Guði reikning fyrir sjálfa sig?
19 Dorkas var önnur kona sem stóð Jehóva Guði reikning fyrir sjálfa sig með sóma. Þegar hún dó fór Pétur til Joppe að beiðni lærisveinanna þar. Mennirnir tveir, sem komu til fundar við Pétur, „fóru . . . með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.“ Dorkas var vakin aftur til lífs. En er hennar minnst eingöngu fyrir örlæti sitt? Nei, hún var „lærisveinn“ og tók örugglega sjálf þátt í að gera menn að lærisveinum. Kristnar nútímakonur eru líka ‚örlátar og góðgerðasamar.‘ Þær njóta þess líka að eiga virkan þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. — Postulasagan 9:36-42; Matteus 24:14; 28:19, 20.
20. Hvaða spurninga getum við spurt okkur?
20 Biblían bendir greinilega á að menn og þjóðir verði að standa alvöldum Drottni Jehóva reikningsskap. (Sefanía 1:7) Ef við erum vígð Guði ættum við því að spyrja okkur: ‚Hvernig lít ég á þau sérréttindi og þá ábyrgð sem Guð hefur gefið mér? Hvernig stend ég Jehóva Guði og Jesú Kristi reikning?
Hvernig svarar þú?
◻ Hvernig geturðu sannað að englarnir og sonur Guðs þurfi að standa Guði reikningsskap?
◻ Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna að Guð lætur þjóðir standa reikning?
◻ Hvað segir Biblían um persónulega ábyrgð gagnvart Guði?
◻ Nefndu dæmi úr biblíusögunni um menn og konur sem stóðu Jehóva Guði reikning með sóma.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 18]
Jesús Kristur stóð himneskum föður sínum reikning fyrir sjálfan sig með sóma.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Kristnar nútímakonur standa Jehóva Guði reikning fyrir sjálfa sig með sóma.
[Rétthafi á blaðsíðu 21]
Dauði Abels/The Doré Bible Illustrations/Dover Publications, Inc.