„Stundið gestrisni“
„Stundið gestrisni“
„Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:13.
1. Hver er ein af grunnþörfum mannsins og hvernig birtist hún?
MÖRGUM hrýs hugur við því nú orðið að ganga um fáfarna, dimma götu síðla kvölds í ókunnu hverfi. En það getur verið jafnóþægilegt að vera í mannfjölda þar sem þú þekkir engan og enginn þekkir þig. Mannlegt eðli er nefnilega þannig að við þurfum að finna að öðrum sé annt um okkur, þarfnist okkar og elski okkur. Enginn vill láta koma fram við sig eins og ókunnan mann eða utangarðs.
2. Hvernig hefur Jehóva fullnægt þörf okkar fyrir félagsskap?
2 Jehóva Guði, skapara allra hluta, er fullkunnugt um þörf mannsins fyrir félagsskap. Hann er hönnuður mannsins og vissi allt frá upphafi að það var ‚eigi gott að maðurinn væri einsamall‘ og gerði ráðstafanir til að bæta úr því. (1. Mósebók 2:18, 21, 22) Biblíusagan er full af dæmum um góðverk Jehóva og þjóna hans í garð manna. Þannig getum við lært að ‚stunda gestrisni,‘ sjálfum okkur og öðrum til gleði og ánægju. — Rómverjabréfið 12:13.
Að þykja vænt um ókunnuga
3. Útskýrðu grunnmerkingu hugtaksins gestrisni.
3 Orðið „gestrisni,“ eins og það er notað í Biblíunni, er þýðing gríska orðsins fílóxeníʹa sem er samsett úr orðstofnum er merkja „ást“ og „ókunnugur.“ Gestrisni er því í eðli sínu „ást á ókunnugum.“ En hún er ekki bara formsatriði eða kurteisi. Hún snertir tilfinningar okkar og innstu kenndir. Sögnin fíleʹó merkir, samkvæmt biblíuorðabókinni Exhaustive Concordance of the Bible eftir James Strong, „að vera vinur (þykja vænt um [einstakling eða hlut]), þ.e. ástúð (sem gefur til kynna persónulega væntumþykju byggða á kennd eða tilfinningu).“ Gestrisni gengur því lengra en kærleikur byggður á meginreglum sem stafar kannski af skyldurækni. Gestrisni er yfirleitt tjáning ósvikinnar væntumþykju, ástúðar og vináttu.
4. Hverjum ætti að sýna gestrisni?
4 Sá sem er þessarar væntumþykju og ástúðar aðnjótandi er „ókunnugur“ (xeʹnos á grísku). Hver getur það verið? Orðabók Strongs skilgreinir orðið xeʹnos sem ‚framandi (bókstaflega útlendur eða táknrænt nýstárlegur); átt er við gest eða (öfugt) ókunnugan mann.‘ Gestrisni, eins og Biblían lýsir henni, getur því endurspeglað góðvild gagnvart manni sem okkur þykir vænt um eða náð jafnvel til bláókunnugra. Jesús sagði: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?“ (Matteus 5:46, 47) Ósvikin gestrisni er hafin yfir tálma og mismunun af völdum fordóma og ótta.
Jehóva, hinn fullkomni gestgjafi
5, 6. (a) Hvað hafði Jesús í huga þegar hann sagði: „Faðir yðar himneskur er fullkominn“? (b) Á hverju sést örlæti Jehóva?
5 Eftir að Jesús hafði bent á það sem upp á vantaði í kærleika manna hver gagnvart öðrum bætti hann við: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ (Matteus 5:48) Jehóva er auðvitað fullkominn að öllu leyti. (5. Mósebók 32:4) En Jesús var að leggja áherslu á eina ákveðna hlið í fullkomleika Jehóva eins og hann sagði áður: „[Hann] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:45) Góðvild Jehóva þekkir enga hlutdrægni.
6 Jehóva er eigandi alls þar sem hann er skaparinn. „Mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna. Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni,“ segir Jehóva. (Sálmur 50:10, 11) En hann lúrir ekki á því í eigingirni og meinar öðrum að njóta þess. Hann sér með örlæti fyrir öllum sköpunarverum sínum. Sálmaritarinn sagði um Jehóva: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ — Sálmur 145:16.
7. Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva kemur fram við þurfandi og ókunnuga?
7 Jehóva gefur fólki það sem það þarfnast — jafnvel fólki sem þekkir hann ekki, sem er honum ókunnugt. Páll og Barnabas minntu skurðgoðadýrkendur í Lýstruborg á að Jehóva hafi ‚vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hafi gefið þeim regn af himni og uppskerutíðir. Hann hafi veitt þeim fæðu og fyllt hjörtu þeirra gleði.‘ (Postulasagan 14:17) Jehóva er sérstaklega góður og örlátur við þurfandi. (5. Mósebók 10:17, 18) Við getum margt lært af Jehóva um góðvild og örlæti við aðra — um gestrisni.
8. Hvernig hefur Jehóva sýnt örlæti sitt í því að annast andlegar þarfir okkar?
8 Jehóva fullnægir ríkulega bæði efnislegum þörfum sköpunarvera sinna og andlegum. Hann sýndi andlegri velferð okkar göfugustu umhyggjuna, jafnvel áður en nokkru okkar var ljóst að við værum í vonlausri aðstöðu andlega. Við lesum í Rómverjabréfinu 5:8, 10: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. . . . Vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans.“ Þessi ráðstöfun gerir syndugum mönnum kleift að eignast ánægjulegt fjölskyldusamband við himneskan föður okkar. (Rómverjabréfið 8:20, 21) Jehóva sá okkur líka fyrir réttri leiðsögn og handleiðslu þannig að við gætum orðið farsæl í lífinu þrátt fyrir syndugt eðli okkar og ófullkomleika. — Sálmur 119:105; 2. Tímóteusarbréf 3:16.
9, 10. (a) Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé hinn fullkomni gestgjafi? (b) Hvernig ættu sannir tilbiðjendur að líkja eftir Jehóva að þessu leyti?
9 Í ljósi þessa getum við sagt að Jehóva sé virkilega fullkominn gestgjafi á svo marga vegu. Honum sést ekki yfir þurfandi og lágt setta. Hann hefur ósvikinn áhuga á ókunnugum og ber umhyggju fyrir þeim, meira að segja óvinum sínum, og hann væntir ekki efnislegrar umbunar í staðinn. Er hann ekki í öllu þessu fullkomið fordæmi um góðan gestgjafa?
10 Jehóva Guð, sem er svona ástríkur og örlátur, vill að dýrkendur hans líki eftir sér. Alls staðar í Biblíunni sjáum við afbragðsdæmi um þessa vinsemd hans. Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica segir að „í Forn-Ísrael var gestrisni ekki bara góðir mannasiðir heldur siðferðileg hefð . . . Hinn biblíulegi siður að bjóða lúinn ferðalang velkominn og taka vel á móti ókunnugum var sú umgerð sem gestrisni og allt sem henni er skylt óx úr og þróaðist upp í mikils metna dyggð í gyðinglegri hefð.“ Gestrisni ætti ekki bara að vera einkenni ákveðinnar þjóðar eða þjóðarbrots heldur einkennandi fyrir alla sanna tilbiðjendur Jehóva.
Gestgjafi engla
11. Hvaða ágætisdæmi sýnir að gestrisni getur haft óvænta blessun í för með sér? (Sjá einnig 1. Mósebók 19:1-3; Dómarabókina 13:11-16.)
11 Ein þekktasta saga Biblíunnar af gestrisni er sögð af Abraham og Söru er þau bjuggu í tjöldum í Mamrelundi í grennd við Hebron. (1. Mósebók 18:1-10; 23:19) Páll postuli hafði þennan atburð eflaust í huga er hann hvatti: „Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.“ (Hebreabréfið 13:2) Athugun á þessari frásögu sýnir okkur að gestrisni byggist ekki bara á hefð eða uppeldi heldur er hún guðrækilegur eiginleiki sem hefur stórfenglega blessun í för með sér.
12. Hvernig sýndi Abraham kærleika sinn til ókunnugra?
12 Fyrsta Mósebók 18:1, 2 gefur til kynna að Abraham hafi ekki þekkt gestina og ekki átt von á þeim, svo segja má að þetta hafi bara verið þrír ókunnugir menn á leið hjá. Sumir biblíuskýrendur segja að sá hafi verið siður meðal Austurlandabúa að ferðlangur í ókunnu landi gæti ætlast til gestrisni jafnvel þótt hann þekkti engan þar sem hann var á ferð. En Abraham beið ekki eftir að ókunnu mennirnir nýttu sér rétt sinn heldur tók frumkvæðið. Hann „skundaði“ til móts við þessa ókunnu menn sem voru í nokkurri fjarlægð — og þetta gerði hann, 99 ára gamall maðurinn, „í miðdegishitanum“! Sýnir þetta ekki hvers vegna Páll gaf í skyn að Abraham væri fordæmi til eftirbreytni? Það er þetta sem er inntak gestrisninnar, að þykja vænt um eða elska ókunnuga, að láta sér annt um þarfir þeirra. Hún er jákvæður eiginleiki.
13. Hvers vegna ‚laut‘ Abraham gestunum?
13 Frásagan segir einnig að Abraham hafi ‚lotið til jarðar‘ er hann hitti ókunnu mennina. Hvers vegna laut hann bláókunnum mönnum? Að lúta eins og Abraham gerði var leið til að heilsa virtum gesti eða háttsettum manni og má ekki rugla saman við tilbeiðslu sem tilheyrir Guði einum. (Samanber Postulasöguna 10:25, 26; Opinberunarbókina 19:10.) Með því að lúta, ekki aðeins höfði heldur „til jarðar,“ var Abraham að sýna þessum ókunnu mönnum virðingu sem mikilsmetnum mönnum. Hann var höfuð stórrar og efnaðrar ættar en áleit þessa ókunnu menn samt verða meiri heiðurs en hann sjálfur. Þetta er harla ólíkt hinni algengu tortryggni í garð ókunnugra, þeirri hugsun að bíða og sjá til. Abraham sýndi í verki hvað það merkir að vera „fyrri til að veita öðrum virðing.“ — Rómverjabréfið 12:10.
14. Hvaða viðleitni og fórn fólst í gestrisni Abrahams við ókunnugu mennina?
14 Framhald frásögunnar sýnir að tilfinningar Abrahams voru ósviknar. Máltíðin var ekki af lakari endanum. Jafnvel í stórri fjölskyldu með mikinn búpening er ‚ungur og vænn kálfur‘ ekki á borðum daglega. Bókin Daily Bible Illustrations eftir John Kitto segir um ríkjandi siði þar um slóðir: „Munaður þekkist ekki nema á hátíðum eða við gestakomur, og það er aðeins við slík tækifæri sem kjöt er á borðum, jafnvel hjá þeim sem eiga stóran bústofn.“ Viðkvæm matvæli geymast ekki í heitu loftslaginu, þannig að slíka máltíð þarf að tilreiða í snatri. Það kemur ekki á óvart að orðin „flýtti“ og „skjótast“ skuli standa þrisvar í þessari stuttu frásögu, og Abraham hreinlega hljóp til að tilreiða máltíðina! — 1. Mósebók 18:6-8.
15. Hvernig ber að hugsa um efnislega hluti í sambandi við gestrisni eins og sjá má af fordæmi Abrahams?
15 En tilgangurinn er þó ekki sá einn að slá um sig með stórveislu. Enda þótt Abraham og Sara hafi lagt allt þetta á sig til að matreiða og bera fram máltíðina skulum við taka eftir hvernig Abraham talaði um hana áður: „Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, — síðan getið þér haldið áfram ferðinni, — úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar.“ (1. Mósebók 18:4, 5) ‚Brauðbitinn‘ reyndist vera veisla með alikálfi ásamt kökum úr fínu hveitimjöli með smjöri og mjólk — veisla við hæfi konungs. Hvað lærum við af þessu? Þegar gestrisni er sýnd á ekki að leggja aðaláherslu á það hve ljúffengur matur eða drykkur verði á borðum eða hve vandaða skemmtun verði boðið upp á og þar fram eftir götunum. Gestrisni er ekki háð því hvort við höfum efni á dýrum veisluhöldum. Hún byggist á ósvikinni umhyggju fyrir velferð annarra og löngun til að gera öðrum gott í þeim mæli sem við getum. „Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri,“ segir biblíuorðskviður og það er í því sem lykill ósvikinnar gestrisni er fólginn. — Orðskviðirnir 15:17.
16. Hvernig sýndi Abraham í því sem hann gerði fyrir gestina að hann kunni að meta hið andlega?
16 Við verðum samt að hafa í huga að viðburðurinn var með andlegu ívafi. Abraham gerði sér einhvern veginn grein fyrir að þessir gestir voru sendiboðar frá Jehóva. Það má sjá af ávarpi hans: „[Jehóva], hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum.“ * (1. Mósebók 18:3; samanber 2. Mósebók 33:20.) Abraham vissi ekki fyrir hvort þeir höfðu boðskap að færa honum eða áttu bara leið hjá. Hvað sem því leið gerði hann sér ljóst að tilgangur Jehóva var að ganga fram. Þessir menn voru í einhverri sendiför frá Jehóva. Hans væri ánægjan ef hann gæti á einhvern hátt greitt götu þeirra. Hann gerði sér ljóst að þjónar Jehóva verðskulduðu það besta, og hann ætlaði að gefa það besta miðað við aðstæður. Það myndi hafa andlega blessun í för með sér, annaðhvort fyrir hann eða einhvern annan. Svo fór að Abraham og Sara hlutu ríkulega blessun fyrir einlæga gestrisni sína. — 1. Mósebók 18:9-15; 21:1, 2.
Gestrisið fólk
17. Hvers krafðist Jehóva af Ísraelsmönnum í sambandi við ókunnuga og þurfandi?
17 Þjóðin, sem kom af Abraham, gleymdi ekki hinu framúrskarandi fordæmi hans. Í lögmálinu, sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum, voru ákvæði um gestrisni við ókunnuga. „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er [Jehóva], Guð yðar.“ (3. Mósebók 19:34) Þjóðin átti að taka sérstakt tillit til þeirra sem þörfnuðust efnislegs stuðnings og ekki vísa þeim á bug. Þegar Jehóva blessaði þjóðina með ríkulegri uppskeru, þegar þjóðin gladdist á hátíðum sínum, þegar hún hvíldist af erfiði sínu á hvíldarárunum og við önnur tækifæri, þá átti hún að minnast þeirra sem verr voru settir — ekkna, munaðarleysingja og útlendinga. — 5. Mósebók 16:9-14; 24:19-21; 26:12, 13.
18. Hve mikilvæg er gestrisni í því að öðlast hylli Jehóva og blessun?
18 Sjá má mikilvægi góðvildar, örlætis og gestrisni gagnvart öðrum, einkum þurfandi, af því hvernig Jehóva kom fram við Ísraelsmenn þegar þeir vanræktu að sýna þessa eiginleika. Jehóva tók af öll tvímæli um að hann krefðist góðvildar og örlætis gagnvart ókunnugum og þurfandi ef fólk hans ætti að njóta blessunar hans áfram. (Sálmur 82:2, 3; Jesaja 1:17; Jeremía 7:5-7; Esekíel 22:7; Sakaría 7:9-11) Þegar þjóðin hélt þessar og aðrar kröfur vel, dafnaði hún og naut efnislegra og andlegra nægta. Þegar hún sökkti sér niður í eigingjörn hugðarefni og sýndi þurfandi fólki ekki þessa vinsemd fordæmdi Jehóva hana og fullnægði að lokum hörðum dómi á henni. — 5. Mósebók 27:19; 28:15, 45.
19. Hvað þurfum við að íhuga að auki?
19 Það er því sannarlega mikilvægt að líta í eigin barm og sjá hvort við stöndum undir væntingum Jehóva í þessu efni, sérstaklega nú á tímum í ljósi eigingirni og sundrungar heimsins. Hvernig getum við sýnt kristilega gestristni í sundruðum heimi? Það er efni greinarinnar á eftir.
[Neðanmáls]
^ Ítarlegri umræðu um þetta er að finna í greininni „Hefur nokkur maður séð Guð?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. maí 1988, bls. 21-3.
Manstu?
◻ Hvað merkir biblíuorðið sem þýtt er „gestrisni“?
◻ Á hvaða vegu er Jehóva hið fullkomna fordæmi um gestrisni?
◻ Hversu vel lagði Abraham sig fram um að vera gestrisinn?
◻ Hvers vegna verða allir sannir tilbiðjendur að ‚stunda gestrisni‘?
[Spurningar]