Verjum trú okkar
Verjum trú okkar
„Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“ — 1. PÉTURSBRÉF 3:15.
1, 2. Af hverju kemur andstaða vottum Jehóva ekki á óvart en hvað vilja þeir helst?
Í FLESTUM löndum heims eru vottar Jehóva almennt viðurkenndir sem heiðarlegt og hreinlíft fólk. Margir líta á þá sem góða og vandræðalausa nágranna. En það skýtur skökku við að þessir friðelskandi kristnu menn skuli hafa verið ofsóttir án saka jafnt á stríðstímum sem friðar. Slík andstaða kemur þeim samt ekki á óvart. Reyndar búast þeir við henni. Þeir vita mætavel að trúfastir kristnir menn á fyrstu öld voru „hataðir.“ Varla er við því að búast að þeir sem leitast við að fylgja Kristi nú á tímum mæti öðru viðmóti. (Matteus 10:22) Auk þess segir Biblían: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:12.
2 Vottar Jehóva sækjast ekki eftir ofsóknum og hafa enga nautn af þeim erfiðleikum sem þær hafa í för með sér — svo sem sektum, fangavist eða illri meðferð. Helst vilja þeir ‚lifa friðsamlegu og rólegu lífi‘ svo að þeir geti prédikað fagnaðarerindið um ríkið hindrunarlaust. (1. Tímóteusarbréf 2:1, 2) Þeir kunna að meta trúfrelsið, sem þeir njóta víðast hvar í heiminum, og þeir reyna samviskusamlega að gera það sem þeir geta til að hafa „frið við alla menn,“ þeirra á meðal mennska valdhafa. (Rómverjabréfið 12:18; 13:1-7) Af hverju eru þeir þá „hataðir“?
3. Nefndu eina ástæðu fyrir því að vottar Jehóva hafa verið ranglega hataðir.
3 Vottar Jehóva hafa verið ranglega hataðir mikið til af sömu orsökum og frumkristnir menn voru ofsóttir. Í fyrsta lagi eru þeir óvinsælir hjá sumum vegna þess að þeir lifa eftir trú sinni. Til dæmis prédika þeir fagnaðarerindið um Guðsríki af kostgæfni, en stundum misskilur fólk kostgæfnina og lítur á prédikun þeirra sem „ágengt trúboð.“ (Samanber Postulasöguna 4:19, 20.) Þeir eru hlutlausir í stjórnmálum og styrjöldum þjóðanna og það hefur stundum verið ranglega túlkað á þann veg að þeir séu ekki þjóðhollir þegnar. — Míka 4:3, 4.
4, 5. (a) Hvernig hafa vottar Jehóva sætt röngum áburði? (b) Hverjir hafa oft verið helstu hvatamenn ofsókna á hendur þjónum Jehóva?
4 Í öðru lagi hafa vottar Jehóva sætt röngum áburði — óskammfeilnum lygum og rangfærslum á trúarkenningum sínum. Fyrir vikið hafa þeir orðið fyrir óréttmætum árásum sums staðar í heiminum. Og þeir hafa ranglega verið stimplaðir „barnamorðingjar“ og „sjálfsmorðsregla“ af því að þeir óska eftir læknismeðferð án blóðgjafar í samræmi við fyrirmæli Biblíunnar um að ‚halda sig frá blóði.‘ (Postulasagan 15:29) En sannleikurinn er sá að vottar Jehóva meta lífið mjög mikils og leita bestu fáanlegu læknismeðferðar handa sér og börnum sínum. Sú ásökun er algerlega tilhæfulaus að ár hvert deyi fjöldi barna votta Jehóva vegna þess að þeim sé neitað um blóðgjöf. Og vottarnir hafa verið sakaðir um að sundra fjölskyldum af því að sannleikur Biblíunnar hefur ekki sömu áhrif á alla í fjölskyldunni. En þeir sem þekkja til votta Jehóva vita að fjölskyldan er þeim mikils virði og að þeir reyna að fylgja þeim fyrirmælum Biblíunnar að hjón elski og virði hvort annað og börn hlýði foreldrum sínum, hvort sem þau eru trúuð eða ekki. — Efesusbréfið 5: 21–6:3.
5 Það hefur oft sýnt sig að trúarlegir andstæðingar votta Jehóva hafa verið helstu hvatamenn ofsókna á hendur þeim, og hafa gjarnan beitt áhrifum sínum hjá pólitískum yfirvöldum og fjölmiðlum til að reyna að bæla niður starf þeirra. Hvernig ættum við að bregðast við slíkri andstöðu — hvort heldur hún er sprottin af trú okkar og trúariðkunum eða röngum ásökunum?
„Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum“
6. Af hverju er mikilvægt að hafa öfgalausa afstöðu til utansafnaðarmanna?
6 Í fyrsta lagi þurfum við að hafa rétta afstöðu — afstöðu Jehóva — til þeirra sem eru ekki sömu trúar og við. Að öðrum kosti gætum við að óþörfu kallað yfir okkur fjandskap annarra eða ásakanir. „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum,“ skrifaði Páll postuli. (Filippíbréfið 4:5, NW) Biblían hvetur okkur því til að hafa öfgalausa afstöðu til fólks utan kristna safnaðarins.
7. Hvað er fólgið í því að ‚varðveita sig óflekkaðan af heiminum‘?
7 Á hinn bóginn hvetur Ritningin okkur skýrt og greinilega til að ‚varðveita okkur óflekkuð af heiminum.‘ (Jakobsbréfið 1:27; 4:4) Orðið ‚heimur‘ vísar hér til alls mannheimsins utan sannkristna safnaðarins, eins og víða í Biblíunni. Við lifum í þessu mannfélagi og erum í snertingu við það í vinnunni, skólanum og hverfinu okkar. (Jóhannes 17:11, 15; 1. Korintubréf 5:9, 10) En við varðveitum okkur óflekkuð af heiminum með því að forðast viðhorf hans, málfar og hegðun sem stríðir gegn réttlátum vegum Guðs. Það er einnig mikilvægt að gera sér grein fyrir hættunni samfara nánum félagsskap við heiminn, einkum við fólk sem virðir kröfur Jehóva algerlega að vettugi. — Orðskviðirnir 13:20.
8. Af hverju höfum við ekki ástæðu til að líta niður á aðra, þótt við eigum að varðveita okkur óflekkaða af heiminum?
8 En sú ráðlegging að varðveita okkur óflekkuð af heiminum gefur okkur ekki heimild til að líta niður á þá sem eru ekki vottar Jehóva. (Orðskviðirnir 8:13) Mundu eftir trúarleiðtogum Gyðinga sem rætt var um í greininni á undan. Sú tilbeiðsla, sem þróaðist hjá þeim, ávann þeim ekki velþóknun Jehóva og stuðlaði ekki að góðum samskiptum við menn af öðrum þjóðum. (Matteus 21:43, 45) Í sjálfumgleði sinni hreyktu þessir ofstækismenn sér upp og litu niður á heiðingja. Við erum ekki svona þröngsýnir. Við fyrirlítum ekki utansafnaðarmenn. Við þráum, eins og Páll postuli, að allir sem heyra sannleiksboðskap Biblíunnar hljóti velþóknun Guðs. — Postulasagan 26:29; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
9. Hvernig ætti öfgalaus, biblíuleg afstaða að koma okkur til að tala um þá sem eru annarrar trúar en við?
9 Öfgalaus, biblíuleg afstaða ætti að hafa áhrif á hvernig við tölum um fólk utan safnaðarins. Páll sagði Títusi að minna kristna menn á eynni Krít á að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ (Títusarbréfið 3:2) Við tökum eftir að kristnir menn áttu „engum“ að lastmæla — ekki einu sinni utansafnaðarmönnum á Krít sem voru sumir þekktir fyrir lygar, ofát og leti. (Títusarbréfið 1:12) Það væri því óbiblíulegt að tala niðrandi um þá sem eru ekki sömu trúar og við. Yfirlæti laðar ekki fólk að tilbeiðslunni á Jehóva. Þegar við komum fram við aðra í samræmi við hinar sanngjörnu meginreglur í orði Jehóva erum við að ‚prýða kenningu hans.‘ — Títusarbréfið 2:10.
Að þegja og að tala
10, 11. Hvernig sýndi Jesús að hann vissi hvenær væri (a) ‚tími til að þegja‘? (b) ‚tími til að tala‘?
10 Prédikarinn 3:7 segir að það ‚hafi sinn tíma að þegja og sinn tíma að tala.‘ Okkur er sá vandi á höndum að ákveða hvenær við eigum að hunsa andstæðingana og hvenær við eigum að láta í okkur heyra og verja trúna. Margt má læra af fordæmi Jesú sem sýndi alltaf fullkomna dómgreind. (1. Pétursbréf 2:21) Hann vissi hvenær var ‚tími til að þegja.‘ Þegar höfuðprestarnir og öldungarnir báru hann röngum sökum frammi fyrir Pílatusi ‚svaraði hann engu.‘ (Matteus 27:11-14) Hann vildi ekki segja neitt sem gæti hindrað að vilji Guðs með sig næði fram að ganga. Hann kaus að láta verkin tala. Hann vissi að sannleikurinn myndi ekki einu sinni hafa áhrif á stoltan huga þeirra og hjarta. Hann hunsaði því ásökun þeirra og þagði. — Jesaja 53:7.
11 En Jesús vissi líka hvenær var ‚tími til að tala.‘ Stundum deildi hann opinskátt við gagnrýnendur sína og hrakti rangar ásakanir þeirra. Hann kaus til dæmis að sitja ekki þegjandi undir rangri ásökun fræðimanna og farísea þegar þeir reyndu að gera hann tortryggilegan fyrir fjölda manns með því að saka hann um að reka út illa anda með aðstoð Beelsebúls. Hann hrakti lygi þeirra með óhrekjandi rökum og sterkri líkingu. (Markús 3:20-30; sjá einnig Matteus 15:1-11; 22:17-21; Jóhannes 18:37.) Þegar Jesús var dreginn fyrir æðstaráðið eftir að hann var svikinn og handtekinn spurði Kaífas æðstiprestur lævíslega: „Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?“ Þetta var líka ‚tími til að tala‘ því að hægt hefði verið að túlka þögn sem neitun. Jesús svaraði því: „Ég er sá.“ — Matteus 26:63, 64; Markús 14:61, 62.
12. Hvaða aðstæður fengu Pál og Barnabas til að tala djarflega í Íkóníum?
12 Lítum einnig á fordæmi Páls og Barnabasar. Postulasagan 14:1, 2 segir: „Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú. En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.“ Andstæðingar af hópi Gyðinga létu sér ekki nægja að hafna boðskapnum sjálfir heldur hófu rógsherferð og reyndu að fylla heiðna menn á staðnum fordómum gegn kristnum mönnum. * Hatur þeirra á kristninni hlýtur að hafa verið djúpstætt! (Samanber Postulasöguna 10:28.) Þetta var ‚tími til að tala,‘ að mati Páls og Barnabasar, til að hinir nýju lærisveinar misstu ekki kjarkinn vegna ámælis frá almenningi. „Dvöldust þeir [Páll og Barnabas] þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til [Jehóva]“ sem sýndi velþóknun sína með því að gefa þeim kraft til að gera undraverð tákn. Það varð til þess að sumir voru „með Gyðingum, aðrir með postulunum.“ — Postulasagan 14:3, 4.
13. Hvenær er yfirleitt ‚tími til að þegja‘ andspænis óhróðri?
13 Hvernig eigum við þá að bregðast við óhróðri? Það er undir aðstæðum komið. Stundum eru aðstæður þannig að við þurfum að fylgja meginreglunni um að það sé ‚tími til að þegja,‘ einkum ef einbeittir andstæðingar reyna að draga okkur inn í tilgangslaust þras. Við megum ekki gleyma að sumir vilja hreinlega ekki vita sannleikann. (2. Þessaloníkubréf 2:9-12) Það er tilgangslaust að reyna að rökræða við þrjóska vantrúarmenn. Og ef við yrðum upptekin af því að hrekja allar aðdróttanir í okkar garð gætum við misst sjónar á því sem skiptir miklu meira máli og hefur miklu meiri umbun í för með sér — að hjálpa hjartahreinu fólki sem vill í raun og veru læra sannleika Biblíunnar. Þegar við hittum andstæðinga, sem eru ákveðnir í að útbreiða lygar um okkur, gildir innblásið ráð Biblíunnar: „Sneiðið hjá þeim.“ — Rómverjabréfið 16:17, 18; Matteus 7:6.
14. Hvernig getum við varið trú okkar fyrir öðrum?
14 Þetta þýðir auðvitað ekki að við verjum ekki trú okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft er líka ‚tími til að tala.‘ Við höfum réttilega áhyggjur af einlægu fólki sem hefur heyrt eða lesið niðrandi gagnrýni á okkur. Við erum fús til að gefa öðrum greinagóðar skýringar á sannfæringu okkar og fögnum því reyndar að fá tækifæri til þess. Pétur skrifaði: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Þegar áhugasamt fólk biður í fullri einlægni um sannanir fyrir þeim trúaratriðum sem eru okkur kær, og þegar það spyr um rangar ásakanir andstæðinga, þá er það ábyrgð okkar að verja trúna og bera fram skýr biblíusvör. Og góð framkoma okkar getur jafnast á við mörg orð. Þegar fordómalaust fólk sér að við lifum í samræmi við réttlátar kröfur Guðs gerir það sér auðveldlega grein fyrir að ásakanirnar á hendur okkur eru rangar. — 1. Pétursbréf 2:12-15.
Hvað um róg í fjölmiðlum?
15. Nefndu dæmi um rangfærslur um votta Jehóva í fjölmiðlum.
15 Stundum hafa vottar Jehóva orðið fyrir óhróðri í fjölmiðlum. Til dæmis birtist rætin grein í rússnesku dagblaði hinn 1. ágúst 1997 þar sem meðal annars var sagt að vottarnir krefðust þess skilyrðislaust að safnaðarmenn ‚afneituðu maka sínum og foreldrum ef þeir skildu ekki trúna eða aðhylltust hana ekki.‘ Allir sem þekkja til votta Jehóva vita að þetta er rangt. Biblían segir að kristnir menn eigi að sýna vantrúuðum maka og ættingjum ást og virðingu og vottarnir leitast við að gera það. (1. Korintubréf 7:12-16; 1. Pétursbréf 3:1-4) En greinin birtist engu að síður og margir lesendur fengu rangar upplýsingar. Hvernig getum við varið trú okkar þegar við verðum fyrir ósönnum áburði?
16, 17 og rammagrein á bls. 16. (a) Hvað sagði Varðturninn einu sinni um viðbrögð við rangfærslum í fjölmiðlum? (b) Undir hvaða kringumstæðum gætu vottar Jehóva svarað óhróðri í fjölmiðlum?
16 Enn sem fyrr hefur það ‚sinn tíma að þegja og sinn tíma að tala.‘ Varðturninn lýsti því einu sinni þannig: „Aðstæður, frumkvöðull gagnrýninnar og markmið hans ráða því hvort við hunsum rangfærslur í fjölmiðlum eða beitum viðeigandi ráðum til að verja sannleikann.“ Í sumum tilvikum er best að hunsa óhróðurinn til að vekja ekki frekari athygli á lygunum.
17 Í öðrum tilvikum er ‚tími til að tala.‘ Ábyrgir blaðamenn eða fréttaritarar hafa kannski fengið rangar upplýsingar um votta Jehóva og taka feginshendi réttum upplýsingum um okkur. (Sjá rammagreinina „Rangfærsla leiðrétt.“) Ef óhróður fjölmiðla vekur upp fordóma sem tálma prédikunarstarfi okkar má vera að fulltrúar útibús Varðturnsfélagsins taki frumkvæðið að því að verja sannleikann með einhverjum viðeigandi ráðum. * Hæfir öldungar gætu til dæmis fengið það verkefni að koma staðreyndum á framfæri, svo sem í sjónvarpsviðtali, ef túlka mætti þögn þannig að vottar Jehóva gætu ekki svarað fyrir sig. Rétt er að einstakir vottar fari eftir leiðbeiningum Varðturnsfélagsins og fulltrúa þess um slík mál. — Hebreabréfið 13:17.
Að verja fagnaðarerindið með lögum
18. (a) Af hverju þurfum við ekki leyfi stjórnvalda til að prédika? (b) Hvaða stefnu tökum við þegar okkur er synjað um leyfi til að prédika?
18 Umboð okkar til að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs er frá himnum. Jesús fól okkur að vinna þetta verk og honum er ‚allt vald gefið á himni og jörð.‘ (Matteus 28:18-20; Filippíbréfið 2:9-11) Við þurfum því ekki leyfi mennskra stjórnvalda til að prédika. Við vitum hins vegar að trúfrelsi greiðir fyrir útbreiðslu ríkisboðskaparins. Í löndum, þar sem við njótum frelsis til að tilbiðja Guð, notum við réttarkerfið til að verja það. Þar sem okkur er neitað um slíkt frelsi beitum við tiltækum aðferðum innan ramma laga til að fá það. Það er ekki markmið okkar að berjast fyrir þjóðfélagsumbótum heldur að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það“ með lögum. * — Filippíbréfið 1:7.
19. (a) Hvaða afleiðingar getur það haft að við ‚gjöldum Guði það sem Guðs er‘? (b) Hverju erum við staðráðin í?
19 Vottar Jehóva viðurkenna Jehóva sem alheimsdrottin. Lög hans eru æðstu lög. Við hlýðum mennskum stjórnvöldum samviskusamlega og ‚gjöldum þannig keisaranum það sem keisarans er.‘ En við látum ekkert hindra okkur í að rækja miklu alvarlegri ábyrgð — að ‚gjalda Guði það sem Guðs er.‘ (Matteus 22:21) Við skiljum fullkomlega að það kallar yfir okkur ‚hatur‘ þjóðanna, en við tökum það á okkur sem hluta af kostnaðinum af að vera lærisveinn. Vottar Jehóva á 20. öld hafa sýnt og sannað að þeir eru staðráðnir í að verja trú sína með lögum. Með hjálp Jehóva og stuðningi ‚látum við ekki af að kenna og boða fagnaðarerindið.‘ — Postulasagan 5:42.
[Neðanmáls]
^ Biblíuskýringaritið Matthew Henry’s Commentary on the Whole Bible segir að andsnúnir Gyðingar hafi „gagngert komið að máli við slíka [heiðingja], sem þeir höfðu einhver kynni af, og sagt þeim hvaðeina sem þeir gátu upphugsað í illgirni sinni til að vekja með þeim fyrirlitningu á kristninni.“
^ Eftir að rógsgreinin birtist í rússneska dagblaðinu (sem sagt er frá í 15. tölugrein) fóru vottar Jehóva fram á að Fjölmiðladómstóll Rússneska ríkjasambandsins fjallaði um hinar röngu ásakanir greinarinnar. Dómur féll fyrir skömmu þar sem dagblaðið fékk vítur fyrir að birta ærumeiðingarnar. — Sjá Vaknið! (enska útgáfu), 22. nóvember 1998, bls. 26-7.
^ Sjá greinina „Legally Protecting the Good News“ (Að verja fagnaðarerindið með lögum) í Varðturninum (enskri útgáfu), 1. desember 1998, bls. 19-22.
Manstu?
◻ Af hverju eru vottar Jehóva „hat- aðir“?
◻ Hvernig ættum við að líta á þá sem eru annarrar trúar en við?
◻ Hvaða öfgalaust fordæmi gaf Jesús í samskiptum við andstæðinga?
◻ Hvernig getum við fylgt meginreglunni um að það ‚hafi sinn tíma að þegja og sinn tíma að tala‘ þegar við liggjum undir ámæli?
[Spurningar]
[Rammagrein á blaðsíðu 16]
Rangfærsla leiðrétt
„Evangelískur hópur í Yacubia í Bólivíu fékk sjónvarpsstöð til að sýna kvikmynd sem var greinilega gerð af fráhvarfsmönnum. Sýning myndarinnar hafði svo slæm áhrif að öldungarnir ákváðu að heimsækja tvær sjónvarpsstöðvar og bjóða þeim greiðslu fyrir að sýna almenningi myndböndin Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name (Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu) og The Bible — A Book of Fact and Prophecy (Biblían — bók staðreynda og spádóma). Eigandi útvarpsstöðvar, sem sá myndböndin, reiddist svo rangfærslum fráhvarfsmannanna að hann bauðst til að auglýsa væntanlegt umdæmismót votta Jehóva endurgjaldslaust. Aðsóknin var óvenjugóð og margir réttsinnaðir menn tóku að spyrja vottana einlægra spurninga í boðunarstarfinu.“ — Árbók votta Jehóva 1997, bls. 61-2.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Stundum hrakti Jesús rangar ásakanir gagnrýnenda sinna opinberlega.