Ertu að hugleiða hjónaband?
Ertu að hugleiða hjónaband?
Ef líkja má skilnaðarplágunni um heim allan við jarðskjálfta eru Bandaríkin í skjálftamiðju. Árið 1996 skildi rösklega ein milljón hjóna þar í landi — um tvenn hjón að jafnaði á hverri mínútu. En þér er eflaust fullkunnugt að Bandaríkin eru ekki eina landið þar sem hjónabandið á verulega undir högg að sækja.
SAMKVÆMT einni rannsókn hefur tíðni hjónaskilnaða meira en tvöfaldast í Frakklandi, Englandi og Wales, Grikklandi, Hollandi og Kanada síðan árið 1970.
Eflaust ganga flestir í hjónaband af því að þeir elska aðra manneskju og vilja eyða ævinni með henni. En draumurinn um hamingjuríkt hjónaband reynist því miður oft ekki annað en draumur. Margir hafa vaknað upp við vondan draum og sagt að þeir hafi gift sig of fljótt, giftst rangri manneskju eða hvort tveggja.
Af hverju misheppnast svona mörg hjónabönd? „Undirbúningsskortur er meginástæðan,“ segir höfundur bókar um tilhugalíf. Hann bætir við: „Þegar ég er að aðstoða hjón í sambúðarerfiðleikum vakna með mér tvenns konar tilfinningar — meðaumkun og reiði. Ég finn til meðaumkunar af því að draumur þeirra um hjónaband, sem fullnægir þörfum beggja, hefur ekki orðið að veruleika. Ég finn til reiði sökum fáfræði þeirra um hve margslungið þetta er.“
Margir ganga í hjónaband án þess að gera sér nokkra hugmynd um hvað þurfi til að láta það heppnast. En það kemur tæplega á óvart. Kennari nokkur segir: „Hve mörg ungmenni ætli fari í gegnum framhaldsskóla og kynnist atferli rotta og eðla án þess að læra nokkuð um háttalag tveggja vera sem kallast eiginmaður og eiginkona?“
Ertu að hugsa um hjónaband — annaðhvort að giftast í framtíðinni eða hjónabandið sem þú ert í núna? Ef svo er ættirðu að gera þér grein fyrir að raunverulegt samband hjóna er gerólíkt þeirri mynd sem brugðið er upp í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og ástarsögum. Á hinn bóginn má líta á hjúskap þroskaðra og ástfanginna hjóna sem blessun frá Guði. (Orðskviðirnir 18:22; 19:14) Hvernig geturðu verið viss um að þú sért undir það búinn að standast kröfurnar sem gerðar eru til þín í hjónabandi? Hvað ættirðu að hafa í huga þegar þú velur þér maka? Eða sértu þegar giftur, hvernig geturðu aukið líkurnar á að höndla varanlega hamingju í hjónabandinu?