Hafðu gát á sjálfum þér og kennslunni
Hafðu gát á sjálfum þér og kennslunni
„Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:16.
1, 2. Af hverju er brýn þörf á kostgæfnum kennurum núna?
„FARIÐ . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Í ljósi þessara fyrirmæla Jesú Krists ættu allir kristnir menn að leitast við að verða kennarar. Þörf er á kostgæfnum kennurum til að hjálpa hjartahreinu fólki að kynnast Guði meðan tími er til. (Rómverjabréfið 13:11) Páll postuli hvatti: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Þetta kallar á kennslu bæði innan safnaðar og utan. Sjálft prédikunarumboðið felur meira í sér en aðeins að kunngera boðskap Guðs, því að áhrifarík kennsla er líka nauðsynleg til að gera áhugasamt fólk að lærisveinum.
2 Við lifum „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Veraldleg heimspeki og falskar kenningar hafa heilaþvegið fólk. Margir eru ‚blindaðir‘ í hugsun og „tilfinningalausir“ í siðferðismálum. (Efesusbréfið 4:18, 19) Sumir bera kvalafull tilfinningaleg sár. Fólk er svo sannarlega ‚hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ (Matteus 9:36) En með fagmannlegri kennslu getum við hjálpað hjartahreinu fólki að gera nauðsynlegar breytingar.
Kennarar innan safnaðarins
3. (a) Hvað er fólgið í kennslufyrirmælum Jesú? (b) Hverjir bera aðalábyrgð á kennslunni innan safnaðarins?
3 Milljónir manna fá einkakennslu á heimabiblíunámskeiðum. En eftir skírn þurfa nýir að fá áframhaldandi hjálp til að verða „rótfestir og grundvallaðir.“ (Efesusbréfið 3: 17) Þegar við framfylgjum fyrirmælum Jesú í Matteusi 28:19, 20 og beinum nýjum til skipulags Jehóva njóta þeir góðs af kennslunni innan safnaðarins. Samkvæmt Efesusbréfinu 4:11-13 hafa karlmenn verið skipaðir til að þjóna sem „hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.“ Stundum felur fræðslustarf þeirra í sér að ‚vanda um, ávíta og áminna með öllu langlyndi.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Kennarar voru svo þýðingarmiklir að Páll nefnir þá næst á eftir postulum og spámönnum í bréfi til Korintumanna. — 1. Korintubréf 12:28.
4. Hvernig getum við beitt kennsluhæfileikum okkar til að fara eftir hvatningu Páls í Hebreabréfinu 10:24, 25?
4 Að vísu eru ekki allir safnaðarmenn öldungar eða umsjónarmenn, en allir eru hins vegar beðnir um að hvetja hver annan „til kærleika og góðra verka.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Vel undirbúin og einlæg svör á safnaðarsamkomum er þáttur í því að byggja upp og hvetja. Þegar reyndir boðberar fara með nýjum í boðunarstarfið geta þeir líka ‚hvatt þá til góðra verka‘ með því að láta þá njóta góðs af reynslu sinni og þekkingu. Hægt er að veita verðmæta kennslu við slík tækifæri og önnur. Þroskaðar konur eru til dæmis hvattar til að ‚kenna gott frá sér.‘ — Títusarbréfið 2:3.
Að sannfæra
5, 6. (a) Hvernig er sönn kristni í samanburði við falska tilbeiðslu? (b) Hvernig hjálpa öldungar nýjum að taka skynsamlegar ákvarðanir?
5 Sönn kristni er að þessu leyti gerólík falstrúarbrögðum sem reyna, mörg hver, að ráða yfir hugsun áhangenda sinna. Þegar Jesús var á jörðinni reyndu trúarleiðtogar að stjórna lífi fólks á nálega öllum sviðum með þjakandi erfikenningum og mannasetningum. (Lúkas 11:46) Klerkar kristna heimsins hafa oft farið svipað að.
6 En sönn tilbeiðsla er ‚heilög þjónusta‘ byggð á „skynsemi“ okkar. (Rómverjabréfið 12:1, NW) Þjónar Jehóva hafa „sannfærst um“ trú sína. (2. Tímóteusarbréf 3:14, NW) Stundum þurfa þeir sem fara með forystuna að setja einhverjar viðmiðunar- og starfsreglur til að stuðla að hnökralausu safnaðarstarfi. En öldungarnir taka ekki ákvarðanir fyrir trúbræður sína heldur kenna þeim „að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:14) Það er fyrst og fremst gert með því að næra söfnuðinn á „orði trúarinnar og góðu kenningarinnar.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:6.
Hafðu gát á kennslu þinni
7, 8. (a) Hvernig getur fólk með venjulega hæfileika kennt öðrum? (b) Hvað sýnir að við þurfum að leggja okkur fram til að verða góðir kennarar?
7 En snúum okkur aftur að hinu almenna kennsluumboði okkar. Er krafist sérstakrar kunnáttu, menntunar eða hæfni til að taka þátt í þessu starfi? Ekki endilega. Um heim allan er þetta starf að mestu leyti unnið af venjulegu fólki með venjulega hæfileika. (1. Korintubréf 1:26-29) Páll segir: „Þennan fjársjóð [þjónustuna] höfum vér í leirkerum [ófullkomnum líkama], til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Korintubréf 4:7) Prédikun Guðsríkis hefur skilað feikilega góðum árangri um heim allan og það ber vitni um mátt anda Jehóva.
8 Engu að síður þarf að leggja hart að sér til að verða „verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Páll hvatti Tímóteus: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Hvernig höfum við gát á sjálfum okkur og fræðslunni, jafnt utan safnaðar sem innan? Er nauðsynlegt að ráða yfir ákveðinni kunnáttu eða kennslutækni til þess?
9. Hvað er meira virði en meðfæddir hæfileikar?
9 Jesús sýndi vissulega einstaka kennslutækni í sinni frægu fjallræðu. Þegar hann lauk máli sínu „undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans.“ (Matteus 7:28) Ekkert okkar er auðvitað jafngóður kennari og Jesús var, en við þurfum ekki að vera ræðusnillingar til að vera góðir kennarar. Samkvæmt Jobsbók 12:7 geta jafnvel „skepnurnar“ og ‚fuglarnir‘ kennt orðalaust. Meðfæddir hæfileikar og kunnátta skipta vissulega máli, en aðalatriðið er ‚hvernig við göngum fram‘ — hvaða eiginleika við höfum og hvers konar andlegar venjur við höfum tamið okkur sem nemendurnir geta líkt eftir. — 2. Pétursbréf 3:11; Lúkas 6:40.
Nemendur í orði Guðs
10. Hvaða gott fordæmi sýndi Jesús sem nemandi orðs Guðs?
10 Góður biblíukennari þarf að vera vel að sér í orði Guðs. (Rómverjabréfið 2:21) Þar var Jesús Kristur afbragðsfyrirmynd. Á þjónustuskeiði sínu vísaði hann beint eða óbeint í um það bil helming af bókum Hebresku ritninganna. * Það sýndi sig þegar hann var 12 ára gamall að hann var vel heima í orði Guðs, en þá „sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.“ (Lúkas 2:46) Sem fulltíða maður var hann vanur að sækja samkunduna þar sem lesið var upp úr orði Guðs. — Lúkas 4:16.
11. Hvaða góðar námsvenjur ætti kennari að temja sér?
11 Ertu duglegur að lesa í orði Guðs? Með því að grafa ofan í Biblíuna „munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:4, 5) Temdu þér því góðar námsvenjur. Reyndu að lesa kafla í orði Guðs daglega. (Sálmur 1:2) Hafðu fyrir venju að lesa hvert tölublað Varðturnsins og Vaknið! jafnskjótt og þú færð það í hendur. Fylgstu vel með á safnaðarsamkomum. Lærðu að leita og grúska. Ef þú lærir að ‚athuga allt kostgæfilega‘ geturðu forðast ýkjur og ónákvæmni þegar þú kennir. — Lúkas 1:3.
Væntumþykja og virðing fyrir nemendum
12. Hvaða afstöðu hafði Jesús til lærisveina sinna?
12 Afstaða kennarans til nemenda sinna skiptir líka miklu máli. Farísearnir fyrirlitu þá sem hlustuðu á Jesú. „Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ sögðu þeir. (Jóhannes 7:49) En Jesú þótti mjög vænt um lærisveina sína og bar virðingu fyrir þeim. Hann sagði: „Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:15) Þessi orð gáfu til kynna hvernig lærisveinar Jesú áttu að kenna.
13. Hvernig leit Páll á þá sem hann kenndi?
13 Tökum Pál sem dæmi. Hann var ekki kuldalegur og ópersónulegur við nemendur sína. Hann sagði Korintumönnum: „Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 4:15) Hann táraðist jafnvel stundum þegar hann áminnti þá sem hann var að kenna. (Postulasagan 20:31) Hann var einstaklega þolinmóður og góðviljaður. Þess vegna gat hann sagt Þessaloníkumönnum: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:7.
14. Af hverju skiptir miklu máli að hafa áhuga á biblíunemendum okkar? Skýrðu með dæmi.
14 Líkir þú eftir Jesú og Páli? Einlægur kærleikur til nemenda okkar getur meira en bætt upp það sem okkur kann að skorta af meðfæddum hæfileikum. Skynja biblíunemendur okkar að við höfum einlægan áhuga á þeim persónulega? Tökum við okkur tíma til að kynnast þeim? Kristinni konu gekk illa að hjálpa nemanda sínum að taka andlegum framförum og spurði hana vingjarnlega hvort eitthvað amaði að. Þá tók konan að rekja raunir sínar fyrir henni og sagði henni frá alls konar áhyggjum og kvíða sem þjakaði hana. Þetta samtal markaði tímamót í lífi konunnar. Í tilvikum sem þessu er viðeigandi að hughreysta og hvetja með hjálp Biblíunnar. (Rómverjabréfið 15:4) Ekki má þó gleyma að biblíunemandi getur átt eftir að sigrast á einhverju ókristilegu háttalagi þótt hann taki hröðum framförum. Það getur verið skynsamlegt að eiga ekki of náið félagslegt samneyti við hann, og alltaf ætti að virða viðeigandi kristileg takmörk. — 1. Korintubréf 15:33.
15. Hvernig getum við sýnt biblíunemendum okkar virðingu?
15 Virðing fyrir nemendum okkar felur í sér að reyna ekki að stjórna einkalífi þeirra. (1. Þessaloníkubréf 4:11, NW) Segjum að við séum að leiðbeina konu sem býr í óvígðri sambúð. Hún á kannski börn með sambýlismanni sínum. Nákvæm þekking á Guði veldur því að hún vill fara að koma einkamálum sínum í rétt horf gagnvart Jehóva. (Hebreabréfið 13:4) Á hún að giftast manninum eða slíta sambúðinni? Okkur getur fundist í einlægni að það myndi tálma andlegum framförum hennar í framtíðinni að giftast manni sem hefur lítinn eða engan áhuga á því sem andlegt er. Eða við gerum okkur áhyggjur af velferð hennar og barnanna og finnst að þeim yrði betur borgið ef hún giftist honum. Hvað sem því líður væri það virðingarleysi við nemandann og ekki kærleiksríkt að reyna að ráðskast með líf hans og þröngva upp á hann skoðunum okkar í málinu. Það er konan sem þarf að taka afleiðingum ákvörðunarinnar. Er þá ekki best að kenna slíkum nemanda að nota „skilningarvitin“ eða skynsemina og ákveða sjálfur hvað hann eigi að gera? — Hebreabréfið 5:14.
16. Hvernig geta öldungar sýnt hjörð Guðs kærleika og virðingu?
16 Sérstaklega er mikilvægt að öldungar safnaðarins sýni hjörðinni kærleika og virðingu. Páll sagði í bréfi til Fílemons: „Þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er, þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns.“ (Fílemonsbréfið 8, 9) Stundum koma upp erfiðleikar í söfnuðinum og það getur jafnvel þurft að sýna festu. Páll hvatti Títus til að ‚vanda harðlega um við þá [sem voru á villubraut], til þess að þeir yrðu heilbrigðir í trúnni.‘ (Títusarbréfið 1:13) Umsjónarmenn verða engu að síður að leggja sig í líma við að vera aldrei hranalegir við söfnuðinn. „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði,“ skrifaði Páll, „heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:24; Sálmur 141:3.
17. Hvað varð Móse á og hvað geta öldungar lært af því?
17 Umsjónarmenn þurfa að minna sig stöðugt á að þeir eru að annast ‚hjörð Guðs.‘ (1. Pétursbréf 5:2) Þótt auðmjúkur væri missti Móse sjónar á því um stund. Ísraelsmenn „sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.“ (Sálmur 106:33) Guð hafði mikla vanþóknun á þessari röngu meðferð á hjörð sinni, enda þótt hún væri alls ekki ámælislaus. (4. Mósebók 20:2-12) Þegar öldungar standa frammi fyrir svipuðum vanda nú á dögum ættu þeir að kappkosta að kenna og fræða með skilningi og góðvild. Bræður okkar bregðast best við þegar komið er fram við þá eins og einstaklinga sem þarfnast hjálpar, ekki eins og þeir séu óforbetranlegir. Öldungar þurfa að hafa sömu jákvæðu afstöðuna og Páll sem sagði: „Vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:4.
Að bregðast við þörfum nemandans
18, 19. (a) Hvernig ættum við að laga okkur að þörfum biblíunemenda okkar? (b) Hvernig getum við aðstoðað biblíunemendur sem eiga erfitt með að meðtaka ákveðna hluti?
18 Dugmikill kennari lagar sig að getu og takmörkum nemanda síns. (Samanber Jóhannes 16:12.) Í dæmisögu Jesú um talenturnar veitir húsbóndinn þjónum sínum verkefni „hverjum eftir hæfni.“ (Matteus 25:15) Við getum fylgt þeirri fyrirmynd þegar við stjórnum biblíunámskeiði. Það er auðvitað æskilegt að komast yfir biblíunámsrit á þokkalega stuttum tíma. En því má ekki gleyma að menn eru misjafnlega lesfærir og misfljótir að tileinka sér nýjar hugmyndir. Ef nemandi á erfitt með að fara þokkalega hratt yfir efnið þarf því að meta hverju sinni hvenær tímabært sé að snúa sér að nýju viðfangsefni í náminu. Það er mikilvægara að hjálpa nemandanum að skilja það sem hann er að læra en að komast yfir efnið á stöðugum, ákveðnum hraða. — Matteus 13:51.
19 Hið sama má segja um biblíunemendur sem eiga erfitt með að meðtaka ákveðna hluti, svo sem um þrenningarkenninguna eða trúarlega helgidaga. Þótt yfirleitt sé engin þörf á að bæta biblíutengdu ítarefni inn í námsefnið getum við gert það stundum ef það er greinilega til gagns. Sýna þarf góða dómgreind þar að lútandi til að hægja ekki að þarflausu á framförum nemandans.
Sýndu eldmóð
20. Hvernig sýndi Páll eldmóð og sannfæringu þegar hann kenndi?
20 „Verið brennandi í andanum,“ segir Páll. (Rómverjabréfið 12:11) Já, hvort sem við erum að stjórna biblíunámskeiði eða erum með verkefni á safnaðarsamkomu ættum við að skila því af kostgæfni og eldmóði. Páll sagði Þessaloníkumönnum: „Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu.“ (1. Þessaloníkubréf 1:5) Þannig gáfu Páll og félagar hans ‚ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og sitt eigið líf.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:8.
21. Hvernig getum við sýnt eldmóð gagnvart kennsluverkefnum okkar?
21 Ef við erum algerlega sannfærð um að biblíunemendur okkar þurfi að heyra það sem við höfum fram að færa, þá sýnum við ósvikinn eldmóð. Lítum aldrei á kennsluverkefni sem vanaverk. Fræðimaðurinn Esra hafði vissulega gát á kennslu sinni að þessu leyti. Hann ‚sneri huga sínum að því að rannsaka lögmál Jehóva og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.‘ (Esrabók 7:10) Við ættum að gera slíkt hið sama með því að undirbúa okkur rækilega og íhuga þýðingu efnisins. Biðjum Jehóva að fylla okkur trú og sannfæringu. (Lúkas 17:5) Eldmóður okkar getur hjálpað biblíunemendum að þroska með sér sterka ást á sannleikanum. Að hafa gát á kennslu sinni getur auðvitað falið í sér að beita sérstakri kennslutækni. Næsta grein fjallar um ýmis dæmi.
[Neðanmáls]
^ Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1071, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Af hverju er þörf á færum kennurum núna?
◻ Hvaða góðar námsvenjur getum við tamið okkur?
◻ Af hverju er mikilvægt að sýna þeim sem við kennum kærleika og virðingu?
◻ Hvernig getum við lagað okkur að þörfum biblíunemenda okkar?
◻ Af hverju eru eldmóður og sannfæring mikils virði þegar við kennum öðrum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 8]
Góðir kennarar eru biblíunemendur sjálfir.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Sýndu biblíunemendum einlægan áhuga.