Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skaparinn getur gert líf þitt innihaldsríkara

Skaparinn getur gert líf þitt innihaldsríkara

Skaparinn getur gert líf þitt innihaldsríkara

„Þau skulu lofa nafn [Jehóva], því að hans boði voru þau sköpuð.“ — SÁLMUR 148:5.

1, 2. (a) Hvaða spurningu ættum við að athuga? (b) Hvernig blandast sköpunin inn í spurningu Jesaja?

 „VEISTU þá ekki?“ Þetta hljómar kannski eins og leiðandi spurning sem fær marga til að spyrja á móti: ‚Veit ég ekki hvað?‘ En spurningin er góð og gild. Við gerum okkur best grein fyrir svarinu við henni ef við skoðum umgjörð hennar — fertugasta kafla Jesajabókar. Forn-Hebreinn Jesaja skrifaði hana og spurningin er því gömul. Hún á samt brýnt erindi við nútímann þar sem hún snertir innsta kjarna mannlífsins.

2 Fyrst spurningin í Jesaja 40:28 er svona mikilvæg er rétt að við gefum henni sérstakan gaum: „Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? [Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar.“ Spurningin: „Veistu þá ekki?“ tengdist því skapara jarðar, og samhengið sýnir að átt er við fleira en jörðina. Tveim versum fyrr skrifaði Jesaja um stjörnurnar: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu . . . Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“

3. Þó að þú vitir mikið um skaparann hvers vegna ættir þú samt að vilja vita meira?

3 Já, spurningin „Veistu þá ekki?“ er einmitt um skapara alheimsins. Þú ert ef til vill sjálfur sannfærður um að Jehóva Guð hafi ‚skapað endimörk jarðarinnar.‘ Þú veist kannski líka talsvert um persónuleika hans og vegu. En hvað nú ef þú hittir karl eða konu sem efast um tilvist skaparans og veit greinilega ekki hvernig hann er? Það ætti ekki að koma á óvart að hitta slíkt fólk því að þeir skipta milljónum sem þekkja hvorki skaparann né trúa á hann. — Sálmur 14:1; 53:2.

4. (a) Hvers vegna er vel við hæfi að velta núna fyrir sér spurningum um skaparann? (b) Hvaða svör geta vísindin ekki veitt?

4 Margir koma út úr skóla vantrúaðir á skapara og halda að vísindin kunni (eða eigi eftir að finna) svörin við því hvernig alheimurinn og lífið varð til. Í bókinni Aux Origines de la Vie (Uppruni lífsins) segja höfundarnir Hagene og Lenay: „Uppruni lífsins er enn ágreiningsefni við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar. Þetta viðfangsefni, sem svo erfitt er að leysa, kallar á rannsóknir á öllum sviðum, allt frá óravíðáttu geimsins til hinna óendanlega litlu einda efnisins.“ Í síðasta kaflanum, „Spurningin stendur enn,“ er engu að síður viðurkennt: „Við höfum kannað nokkur vísindaleg svör við spurningunni ‚Hvernig kom lífið fram á jörðinni?‘ En hvers vegna kom lífið fram? Hefur lífið markmið? Vísindin geta ekki svarað þessum spurningum. Þau leita einungis svara við spurningunni ‚hvernig.‘ ‚Hvernig‘ og ‚hvers vegna‘ eru tvær gerólíkar spurningar. . . . Svarið við spurningunni ‚hvers vegna‘ verða heimspekin og trúarbrögðin að finna — og allra helst við hvert og eitt.“

Að finna svör og tilgang

5. Hvers konar fólk gæti einkum haft gagn af því að læra meira um skaparann?

5 Já, við viljum skilja hvers vegna lífið er til og sér í lagi hvers vegna við erum hér. Auk þess ættum við að hafa áhuga á fólki sem hefur ekki enn dregið þá ályktun að til sé skapari og veit örugglega lítið um vegu hans. Hugsaðu líka um þá sem sökum uppruna síns hafa allt aðra hugmynd um Guð en Biblían setur fram. Milljarðar manna hafa alist upp í Austurlöndum eða annars staðar þar sem flestir hugsa ekki um Guð sem persónu, raunverulega veru með aðlaðandi persónuleika. Orðið „guð“ vekur kannski aðeins hjá þeim hugmynd um eitthvert óljóst afl eða óhlutstæða orsök. Þeir ‚vita ekki‘ hver skaparinn er, hafa hvorki kynnst honum né vegum hans. Ef þeir eða milljónir skoðanabræðra þeirra gætu látið sannfærast um að skaparinn sé til, kæmi það þeim sannarlega að miklu gagni. Þeir öðluðust jafnvel von um eilíft líf! Að auki gætu þeir öðlast nokkuð sem er mjög fágætt — innihaldsríkt líf, raunverulegan tilgang í lífinu og hugarró.

6. Hvernig svipar lífi margra nú á tímum til reynslu Pauls Gauguins og eins af málverkum hans?

6 Lýsum þessu með dæmi: Árið 1891 leitaði franski listamaðurinn Paul Gauguin sér lífsfyllingar í Frönsku-Pólýnesíu sem var nánast eins og paradís. En fljótlega lagðist á hann og aðra sjúkdómur sem rekja mátti til lastafullrar fortíðar hans. Þegar hann fann dauðann nálgast málaði hann stórt olíumálverk þar sem hann virðist ‚túlka lífið sem mikla ráðgátu.‘ Veistu hvað Gauguin kallaði málverkið? „Hvaðan komum við? Hvað erum við? Hvert förum við?“ Þú hefur sjálfsagt heyrt aðra spyrja í þessum dúr. Margir gera það. En þegar þeir finna engin viðunandi svör — engan raunverulegan tilgang í lífinu — hvert geta þeir þá snúið sér? Þeir álykta kannski sem svo að lítill munur sé á lífi þeirra og dýranna. — 2. Pétursbréf 2:12. *

7, 8. Af hverju duga rannsóknir vísindanna ekki einar og sér?

7 Þú skilur því hvers vegna maður eins og eðlisfræðiprófessorinn Freeman Dyson gat skrifað: „Ég er í góðum félagsskap þegar ég spyr enn á ný spurninganna sem Job spurði: Af hverju þjáumst við? Af hverju er heimurinn svona ranglátur? Hver er tilgangur sársauka og harmleikja?“ (Jobsbók 3:20, 21; 10:2, 18; 21:7) Eins og áður er nefnt snúa margir sér til vísindanna í leit að svörum í stað Guðs. Líffræðingar, haffræðingar og fleiri auka við þekkingu manna á hnettinum okkar og lífinu á honum. Stjarnfræðingar og eðlisfræðingar leita út í geiminn og verða sífellt fróðari um sólkerfið, stjörnurnar og jafnvel fjarlægar vetrarbrautir. (Samanber 1. Mósebók 11:6.) Hvaða rökréttar ályktanir má draga af því sem þeir hafa fundið?

8 Sumir vísindamenn tala um „huga“ Guðs eða þá „rithönd“ sem birtist í alheiminum. En er þar kannski skotið yfir markið? Í tímaritinu Science er sagt: „Þegar vísindamenn segja að heimsmyndarfræðin opinberi ‚huga‘ eða ‚rithönd‘ Guðs eru þeir að eigna hinum guðlega mætti það sem verður kannski, þegar upp er staðið, álitið síðri hliðin á alheiminum — hin efnislega samsetning hans.“ Reyndar skrifaði eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Steven Weinberg: „Því skiljanlegri sem alheimurinn virðist vera, þeim mun tilgangslausari virðist hann jafnframt vera.“

9. Hvaða staðreyndir geta hjálpað okkur og öðrum að fræðast um skaparann?

9 Þú ert samt kannski í hópi þeirra milljóna sem hafa kynnt sér málið vandlega og gera sér ljóst að raunverulegur tilgangur í lífinu tengist því að þekkja skaparann. Þú manst hvað Páll postuli skrifaði: „Menn geta ekki sagt að þeir þekki ekki Guð. Frá upphafi heimsins hafa menn getað séð hvernig Guð er af því sem hann hefur skapað. Þetta sýnir mátt hans sem varir að eilífu. Það sýnir að hann er Guð.“ (Rómverjabréfið 1:20, Holy Bible, New Life Version) Já, ýmsar staðreyndir um heiminn og um okkur sjálf geta hjálpað fólki að viðurkenna skaparann og finna tilgang í tengslum við hann. Lítum á þrjár hliðar þessa máls: alheiminn umhverfis okkur, uppruna lífsins og hæfni mannshugans.

Ástæður til að trúa

10. Hvers vegna ættum við að leiða hugann að ‚upphafinu‘? (1. Mósebók 1:1; Sálmur 111:10)

10 Hvernig varð alheimurinn til? Þú þekkir trúlega af fréttum um geimsjónauka og geimrannsóknir að flestum vísindamönnum er ljóst að alheimurinn hefur ekki alltaf verið til. Hann átti sér upphaf og er að þenjast út. Hvað gefur það til kynna? Heyrum hvað stjarnfræðingurinn sir Bernard Lovell segir: „Ef alheimurinn var eitt sinn í fortíðinni nálægt þeirri sérstæðu að vera óendanlega smár og óendanlega þéttur, verðum við að spyrja hvað kom þar á undan . . . Við verðum að horfast í augu við spurninguna um sjálft upphafið.“

11. (a) Hversu víðáttumikill er alheimurinn? (b) Hvað gefur nákvæmnin í alheiminum til kynna?

11 Uppbygging alheimsins, þar á meðal jarðarinnar, ber vott um undraverða fínstillingu. Sólin okkar og aðrar stjörnur hafa til dæmis þá tvo merkilegu eiginleika að geta án afláts framleitt orku á hagkvæman hátt í óralangan tíma. Núna ætla menn að fjöldi vetrarbrauta í hinum sýnilega alheimi sé á bilinu 50 milljarðar (50.000.000.000) til 125 milljarðar. Og stjörnurnar í vetrarbrautinni okkar skipta milljörðum. Hugleiddu nú þetta: Við vitum að hreyfill í bíl þarf að fá eldsneyti og loft í réttum hlutföllum. Ef þú átt bíl færð þú ef til vill bifvélavirkja til að stilla vélina til þess að gangur hennar verði þýðari og hún nýti eldsneytið betur. Ef slík fínstilling er mikilvæg fyrir einfalda bílvél hvað má þá til dæmis segja um hagkvæmu „brennsluna“ í sólinni? Meginkraftarnir, sem þar eru að verki, eru greinilega fínstilltir þannig að líf geti þrifist á jörðinni. Er það hrein tilviljun? Job var spurður endur fyrir löngu: „Lýstir þú yfir hvaða reglur skyldu stýra himnunum eða settir þú náttúrulögmálin á jörðinni?“ (Jobsbók 38:33, The New English Bible) Það gerði enginn maður. Hvaðan er þá þessi nákvæmni komin? — Sálmur 19:2.

12. Hvers vegna er ekki óskynsamlegt að reikna með því að voldug vitsmunavera standi að baki sköpuninni?

12 Gæti hún verið komin frá einhverju eða einhverjum sem mannlegt auga fær ekki séð? Hugleiddu þessa spurningu í ljósi nútímavísinda. Flestir stjörnufræðingar eru núna komnir á þá skoðun að til séu geysiáhrifamikil fyrirbæri í geimnum — svonefnd svarthol. Það er ekki hægt að sjá þessi svarthol en sérfræðingar eru engu að síður sannfærðir um tilvist þeirra. Þetta er sambærilegt við orð Biblíunnar um að á öðru tilverusviði séu til voldugar verur sem við getum ekki séð — andaverur. Ef slíkar voldugar, ósýnilegar verur eru til, er þá ekki trúlegt að nákvæmnin, sem birtist í víðáttumiklum alheiminum, eigi rætur að rekja til voldugrar vitsmunaveru? — Nehemíabók 9:6.

13, 14. (a) Hvað hafa vísindin í raun og veru leitt í ljós um uppruna lífsins? (b) Til hvers bendir tilvist lífsins á jörðinni?

13 Önnur rökleið, sem beita má til að hjálpa fólki að viðurkenna skapara, snýr að uppruna lífsins. Allt frá tímum tilrauna Louis Pasteurs hefur verið viðurkennt að líf geti ekki kviknað af engu. Hvernig varð þá lífið á jörðinni til í upphafi? Á sjötta áratug þessarar aldar reyndu vísindamenn að sanna að það hefði getað kviknað smám saman í einhverju frumhafi þegar eldingar klufu í sífellu frumstætt andrúmsloftið. Nýlegri gögn sýna hins vegar að ósennilegt sé að lífið á jörðinni hafi kviknað á þennan hátt vegna þess að slíkt andrúmsloft var aldrei til. Þar af leiðandi leita ýmsir vísindamenn haldbetri skýringa. En skyldu þeir líka skjóta yfir markið?

14 Að loknum áratugalöngum rannsóknum á alheiminum og lífinu í honum sagði breski vísindamaðurinn sir Fred Hoyle: „Í stað þess að viðurkenna þann fjarstæðukennda möguleika að lífið hafi kviknað af völdum blindra náttúruafla virtist betra að ganga út frá því að uppruni lífsins væri úthugsað vitsmunaverk.“ Já, því nánar sem við kynnumst undrum lífsins, þeim mun rökréttara virðist að lífið megi rekja til vitsmunaveru. — Jobsbók 33:4; Sálmur 8:4, 5; 36:10; Postulasagan 17:28.

15. Hvers vegna er hægt að segja að þú sért einstakur?

15 Fyrsta rökleiðin snýst því um alheiminn og önnur rökleiðin um uppruna lífsins á jörðinni. Taktu núna eftir þeirri þriðju — sérstöðu okkar. Á margan hátt eru allir menn sérstakir og þú þar af leiðandi líka. Hvernig þá? Þú hefur sennilega heyrt mannsheilanum líkt við öfluga tölvu. Nýlegar rannsóknir sýna þó að þessi samlíking nær allt of skammt. Vísindamaður við Massachusetts Institute of Technology sagði: „Nútímatölvur nálgast ekki einu sinni fjögurra ára barn í hæfni til að sjá, tala, hreyfa sig eða beita heilbrigðri skynsemi . . . Áætlað hefur verið að upplýsingavinnslugeta öflugustu ofurtölvu jafnist aðeins á við taugakerfi snigils — sem er agnarsmátt brot af afli ofurtölvunnar inni í höfðukúpunni [þinni].“

16. Til hvers benda tungumálahæfileikar manna?

16 Tungumál er einn sá hæfileiki sem þú átt heilanum að þakka. Þótt sumir tali tvö tungumál, þrjú eða fleiri, erum við einstök fyrir það að geta talað þótt ekki sé nema eitt tungumál. (Jesaja 36:11; Postulasagan 21:37-40) Prófessorarnir R. S. og D. H. Fouts spyrja: „Er maðurinn einn . . . fær um að tjá sig með tungumáli? . . . Öll æðri dýr tjá sig vissulega með . . . látbragði, lykt, köllum, öskri og söng, og jafnvel dansi eins og býflugurnar. Önnur dýr en maðurinn virðast þó ekki hafa tungumál sem lúta málfræðilögmálum. Og eitt, sem kann að skipta miklu máli, er það að dýrin teikna ekki hlutlægar myndir. Þegar best lætur krassa þau aðeins.“ Sannleikurinn er sá að engir nema mennirnir geta notað heilann til að tala tungumál og teikna myndir sem vit er í. — Samanber Jesaja 8:1; 30:8; Lúkas 1:3.

17. Hvaða grundvallarmunur er á því þegar dýr lítur í spegil eða maður?

17 Að auki hefur þú sjálfsvitund, þú ert meðvitaður um sjálfan þig. (Orðskviðirnir 14:10) Hefurðu séð fugl, hund eða kött horfa í spegil og síðan gogga, urra eða gera árás? Dýrið heldur sig sjá annað dýr, þekkir ekki spegilmynd sína. Þegar þú aftur á móti horfir í spegil veistu að þú sérð sjálfan þig. (Jakobsbréfið 1:23, 24) Þú skoðar ef til vill útlit þitt eða veltir fyrir þér hvernig þú lítir út eftir fáein ár. Dýr gera það ekki. Já, heilinn gerir þig einstakan. Hver á heiðurinn að því? Hvernig varð heilinn í þér til ef hann er ekki verk Guðs?

18. Hvaða hæfileikar hugans greina okkur frá dýrum?

18 Heilinn gerir þér líka kleift að njóta tónlistar og annarra lista, svo og að búa yfir siðgæðisvitund. (2. Mósebók 15:20; Dómarabókin 11:34; 1. Konungabók 6:1, 29-35; Matteus 11:16, 17) Af hverju getur þú þetta en ekki dýrin? Þau nota heilann fyrst og fremst til að sinna aðkallandi þörfum — að afla sér fæðu, finna sér maka eða hreiðra um sig. Aðeins maðurinn hugsar til lengri tíma. Sumir hugsa jafnvel um hvaða áhrif verk þeirra muni hafa á umhverfið eða afkomendur þeirra um langa framtíð. Hvers vegna? Prédikarinn 3:11 segir um mennina: „Jafnvel eilífðina hefir [skaparinn] lagt í brjóst þeirra.“ Já, hæfni þín til að hugleiða hvað eilífðin merkir eða ímynda þér endalaust líf er einstök.

Láttu skaparann gera líf þitt innihaldsríkara

19. Hvaða röksemdafærslu í þremur liðum gætir þú beitt til að hjálpa öðrum að taka skaparann með í myndina?

19 Við höfum stuttlega nefnt aðeins þrjú svið: nákvæmnina sem birtist í víðáttumiklum alheiminum, uppruna lífsins á jörðinni og óvéfengjanlega sérstöðu mannsheilans með sína margvíslegu hæfileika. Til hvers bendir þetta þrennt? Hér er röksemdaleið, sem þú gætir farið, til að hjálpa öðrum að komast að niðurstöðu. Þú gætir byrjað á því að spyrja: Átti alheimurinn sér upphaf? Flestir myndu svara því játandi. Spyrðu þá: Var engin orsök fyrir því upphafi eða átti það sér orsök? Flestir gera sér ljóst að einhver orsök var fyrir upphafi alheimsins. Það leiðir að síðustu spurningunni: Var það sem orsakaði upphafið eitthvað eilíft eða einhver eilífur? Með því að setja málið fram á svona skýran og rökréttan hátt má fá marga til að draga þá ályktun að það hljóti að vera til skapari. Ætti tilgangur í lífinu ekki að vera mögulegur, að fenginni þessari niðurstöðu?

20, 21. Hvers vegna verðum við að þekkja skaparann til að geta haft tilgang í lífinu?

20 Öll tilvera okkar, þar með talin siðgæðisvitund okkar og siðgæðið sjálft, ætti að tengjast skaparanum. Dr. Rollo May skrifaði eitt sinn: „Eini fullnægjandi mælikvarðinn á siðgæði er sá sem byggður er á grundvallartilgangi lífsins.“ Hvar er þann tilgang að finna? Hann hélt áfram: „Grundvallarmælikvarðinn er eðli Guðs. Frumreglur Guðs eru þær meginreglur sem lífið byggist á frá upphafi sköpunar til enda.“

21 Við getum því vel skilið hvers vegna sálmaritarinn sýndi bæði lítillæti og visku þegar hann sárbændi skaparann: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns.“ (Sálmur 25:4, 5) Með aukinni þekkingu á skaparanum myndi líf sálmaritarans sannarlega verða innihaldsríkara, tilgangsríkara og markvissara. Svo getur einnig orðið um sérhvert okkar. — 2. Mósebók 33:13.

22. Hvað felst í því að kynnast vegum skaparans?

22 Innifalið í því að fræðast um „vegu“ skaparans er að kynnast enn betur hvernig hann er, bæði persónuleika hans og háttum. En hvernig getum við kynnst skaparanum betur þar sem hann er ósýnilegur og ógurlega öflugur? Næsta grein fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ Út frá reynslu manna í fangabúðum nasista gerði Dr. Viktor E. Frankl sér þetta ljóst og sagði: „Leit mannsins að lífsfyllingu er ein af grunnhvötunum í lífi hans en verður ekki skýrð út frá eðlisávísunum eins og dýrin hafa. Hann bætti við að áratugum eftir síðari heimsstyrjöldina hafi könnun í Frakklandi „leitt í ljós að 89% aðspurðra hafi viðurkennt að maðurinn þurfi að hafa ‚eitthvað‘ til að lifa fyrir.“

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna þurfum við að leita lengra en til vísindalegra upplýsinga um alheiminn?

◻ Á hvað gætir þú bent þegar þú ert að hjálpa öðrum að taka skapara með í myndina?

◻ Hvers vegna er þekking á skaparanum lykillinn að því að lifa innihaldsríku lífi?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 26]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Hver er niðurstaða þín?

Alheimurinn

Hafði ekkert upphaf

Hafði upphaf

ÁN ORSAKAR

Orsakaðist af

EINHVERJU EILÍFU

Einhverjum eilífum

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hin gríðarlega nákvæmni, sem birtist í alheiminum, hefur fengið marga til að hugsa um skaparann.

[Rétthafi]

Blaðsíða 24 og 26: Jeff Hester (Arizona State University) og NASA