Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njóttu hins ‚sanna lífs‘

Njóttu hins ‚sanna lífs‘

Njóttu hins ‚sanna lífs‘

JEHÓVA GUÐ hefur gefið manninum skynbragð á eilífðina. (Prédikarinn 3:11) Þess vegna finnst mönnum þeir vanmegna gagnvart dauðanum, en á sama tíma vekur þetta með þeim áleitna lífslöngun.

Innblásið orð Guðs, heilög Biblía, veitir okkur stórfenglega von. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Það er óhugsandi að Jehóva, sem er ímynd kærleikans, hafi gefið manninum hæfileikann til að bera skyn á eilífðina en síðan dæmt hann til að lifa í aðeins fáein ár. Það gengur hreinlega í berhögg við persónuleika Guðs að hann hafi skapað okkur til að þjást sökum hlutskiptis okkar. Við erum ekki sköpuð eins og „skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast.“ — 2. Pétursbréf 2:12.

Þegar Jehóva Guð áskapaði Adam og Evu skynbragð á eilífðina var verk hans ‚harla gott‘ því að hann gerði þau þannig úr garði að þau gátu lifað að eilífu. (1. Mósebók 1:31) En því miður misnotuðu fyrstu mannhjónin frjálsan vilja sinn, óhlýðnuðust afdráttarlausu banni skaparans og glötuðu fullkomleikanum sem þau höfðu í upphafi. Þar af leiðandi dóu þau og gáfu afkomendum sínum ófullkomleika og dauða í vöggugjöf. — 1. Mósebók 2:17; 3:1-24; Rómverjabréfið 5:12.

Tilgangur lífsins og dauðinn er ekki hjúpaður neinni dulúð í Biblíunni. Hún segir að í dauðanum sé „hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“ og að hinir dánu ‚viti ekki neitt.‘ (Prédikarinn 9:5, 10) Með öðrum orðum, dáinn maður er dáinn. Biblían kennir ekki að sálin sé ódauðleg þannig að það er enginn djúpstæður leyndardómur hvernig komið er fyrir þeim sem dánir eru. — 1. Mósebók 3:19; Sálmur 146:4; Prédikarinn 3:19, 20; Esekíel 18:4. *

Guð hafði tilgang með sköpun jarðar; hann skapaði hana ekki til þess „að hún væri auðn“ heldur til að vera „byggileg“ og byggð fullkomnum mönnum. Jörðin átti að vera paradís og Guð hefur ekki breytt þeim tilgangi sínum. (Jesaja 45:18; Malakí 3:6) Hann sendi son sinn til jarðar til að þessi tilgangur næði fram að ganga. Með trúfesti sinni allt til dauða greiddi Jesús Kristur það lausnargjald sem þurfti til að leysa mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. Jesús sagði reyndar: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.

Guð hét endur fyrir löngu að skapa „nýjan himin og nýja jörð.“ (Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:13) Það fól í sér að takmarkaður hópur trúfastra kristinna manna yrði útvalinn til að lifa á himnum og stjórna með Jesú Kristi. Biblían kallar þessa stjórn „himnaríki“ eða „Guðs ríki“ sem fer með stjórn þess „sem er á jörðu.“ (Matteus 4:17; 12:28; Efesusbréfið 1:10; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3) Eftir að hafa eytt öllu guðleysi á jörðinni og hreinsað hana skapar Guð réttlátt, nýtt mannfélag eða ‚nýja jörð.‘ Í þessu mannfélagi verður fólk sem Guð verndar þegar hinu illa heimskerfi verður eytt í náinni framtíð. (Matteus 24:3, 7-14, 21; Opinberunarbókin 7:9, 13, 14) Þar við bætast svo þeir sem lifna á ný í upprisunni sem heitið er. — Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15.

„Hið sanna líf“ sem þá verður

Guð segir: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,“ til að staðfesta hina hrífandi lýsingu á lífinu eins og það verður í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 21:5) Mannshugurinn getur ekki meðtekið að fullu hin stórfenglegu verk sem Guð mun vinna fyrir mannkynið. Guð skapar paradís um allan heiminn sem líkist Edengarðinum. (Lúkas 23:43) Allt umhverfið verður fagurt og unaðslegt eins og í Eden. Fátækt og matarskortur verður ekki framar til því að Biblían segir: „Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4; Sálmur 72:16) Enginn maður mun nokkurn tíma segja: „Ég er sjúkur,“ því að sjúkdómar verða upprættir fyrir fullt og allt. (Jesaja 33:24) Já, allt sem veldur sársauka hverfur, meira að segja dauðinn, hinn langstæði óvinur mannkyns. (1. Korintubréf 15:26) Í ótrúlegri sýn sá Jóhannes postuli „nýja jörð,“ hið nýja mannfélag undir stjórn Krists, og heyrði rödd sem sagði: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Er hægt að hugsa sér meiri gleði og hughreystingu en að sjá þetta loforð Guðs rætast?

Í lýsingum sínum á lífinu í framtíðinni leggur Biblían sérstaka áherslu á þau skilyrði sem fullnægja siðferðilegum og andlegum löngunum mannsins. Allar þær réttmætu hugsjónir, sem mannkynið hefur án árangurs barist fyrir fram til þessa, verða að veruleika. (Matteus 6:10) Þeirra á meðal verður þrá mannsins eftir réttlæti sem hefur aldrei uppfyllst af því að maðurinn hefur löngum búið við áþján grimmra kúgara sem hafa drottnað yfir þeim sem minna mega sín. (Prédikarinn 8:9) Sálmaritarinn spáði um ástandið eins og það verður undir stjórn Krists: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar.“ — Sálmur 72:7.

Margir hafa fært fórnir til að koma á jafnrétti. Guð afnemur allt misrétti ‚þegar allt verður endurfætt.‘ (Matteus 19:28) Allir njóta sömu reisnar. Þarna er ekki um að ræða jafnrétti sem einhver harðneskjuleg alræðisstjórn þröngvar upp á þegna sína heldur verða orsakir misréttis uprættar, þeirra á meðal græðgin og drambið sem kemur mönnum til að reyna að drottna yfir öðrum og sölsa undir sig sem mest verðmæti. Jesaja spáði: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ — Jesaja 65:21, 22.

Allt frá morðinu á Abel fram til styrjalda okkar tíma hefur maðurinn mátt þola gríðarlegar blóðsúthellingar, bæði í einkahernaði og fjöldahernaði. Hversu lengi hafa menn ekki vonað og beðið eftir friði, að því er virðist án árangurs. Í endurreistri paradís verða allir menn hógværir og friðsamir og „njóta unaðsemdar af þeim mikla friði.“ — Sálmur 37:11, Biblían 1859.

Jesaja 11:9 segir: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ Arfgengur ófullkomleiki okkar og ýmislegt annað kemur í veg fyrir að við skiljum inntak þessara orða til hlítar á þessu stigi. Við eigum enn ólært hvernig fullkomin þekking á Guði sameinar okkur honum og hvernig það á eftir að fullkomna gleði okkar. En þar eð Ritningin upplýsir okkur um að Jehóva sé stórkostlegur að krafti, visku, réttvísi og kærleika megum við vera viss um að hann heyrir allar bænir sem íbúar ‚nýju jarðarinnar‘ bera fram fyrir hann.

„Hið sanna líf“ er öruggt — gríptu það!

Í hugum margra er eilíft líf í betri heimi aðeins draumur eða tálvon. En í hugum þeirra sem trúa raunverulega á loforð Biblíunnar er þetta örugg von. Hún er eins og akkeri í lífi þeirra. (Hebreabréfið 6:19) Rétt eins og akkeri heldur skipi kyrru og kemur í veg fyrir að það reki, eins veitir vonin um eilíft líf stöðugleika og öryggi og gerir fólk fært um að takast á við hina alvarlegu erfiðleika lífsins og sigrast á þeim.

Við getum treyst því fullkomlega að Guð standi við loforð sín. Hann hefur meira að segja tryggt það með eiði sem er óafturkallanleg skuldbinding. Páll postuli skrifaði: „Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun . . . í þeirri sælu von, sem vér eigum.“ (Hebreabréfið 6:17, 18) Þessar ‚tvær óraskanlegu athafnir,‘ sem Guð getur aldrei ógilt, eru fyrirheit hans og eiður sem við byggjum væntingar okkar á.

Trú á fyrirheit Guðs er okkur mikil hughreysting og styrkur. Jósúa, leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar, hafði slíka trú. Hann var orðinn gamall og vissi að hann dæi bráðlega þegar hann flutti kveðjuræðu sína fyrir þjóðinni. Samt sem áður lét hann í ljós sterka og órjúfanlega hollustu sem var sprottin af algeru trausti hans á fyrirheitum Guðs. Eftir að Jósúa hafði sagst ganga „veg allrar veraldar,“ leiðina til dauðans sem liggur fyrir öllum mönnum, sagði hann: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ Jósúa endurtók þrívegis að Guð héldi alltaf öll fyrirheit sín. — Jósúabók 23:14.

Þú getur haft sömu trú á fyrirheit Guðs um að nýr heimur sé í nánd. Með rækilegu biblíunámi lærir þú um Jehóva og ástæðuna fyrir því að hann verðskuldar algert traust þitt. (Opinberunarbókin 4:11) Abraham, Sara, Ísak, Jakob og annað trúfast fólk til forna bjó yfir óhagganlegri trú sem byggðist á persónulegri þekkingu á hinum sanna Guði, Jehóva. Þetta fólk varðveitti sterka trú þótt það ‚öðlaðist ekki fyrirheitin‘ meðan það var á lífi. Það ‚sá þau álengdar og fagnaði þeim.‘ — Hebreabréfið 11:13.

Við skiljum biblíuspádómana og sjáum ‚hinn mikla dag Guðs hins alvalda‘ nálgast en þá verður jörðin hreinsuð af allri illsku. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Líkt og trúfastir menn fortíðar verðum við að vænta atburða framtíðarinnar með öruggu trúartrausti og láta stjórnast af trú og kærleika til Guðs og ást á ‚hinu sanna lífi.‘ Nálægð nýja heimsins er sterkur hvati fyrir þá sem iðka trú á Jehóva og elska hann. Það þarf að rækta slíka trú og slíkan kærleika til að hljóta hylli Guðs og vernd á hinum mikla degi hans sem framundan er. — Sefanía 2:3; 2. Þessaloníkubréf 1:3; Hebreabréfið 10:37-39.

Elskarðu þá lífið? Og þráirðu enn heitar „hið sanna líf“ — að lifa sem velþóknanlegur þjónn Guðs og eiga í vændum hamingjuríka framtíð og eilíft líf? Ef þú sækist eftir því, þá skaltu fara eftir hvatningu Páls postula sem skrifaði að við skyldum ‚ekki treysta fallvöltum auði heldur Guði.‘ Hann heldur áfram og hvetur okkur til að „vera ríkir af góðum verkum“ sem heiðra Guð svo að við getum „höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.

Með því að þiggja biblíunámskeið hjá vottum Jehóva geturðu aflað þér þekkingar sem „er hið eilífa líf.“ (Jóhannes 17:3) Biblían flytur okkur þetta kærleiksríka og föðurlega boð: „Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.“ — Orðskviðirnir 3:1, 2.

[Neðanmáls]

^ Ítarlegar upplýsingar um efnið er að finna í bæklingnum Hvað verður um okkur þegar við deyjum?, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.