Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvenær hefst þriðja árþúsundin?

Hvenær hefst þriðja árþúsundin?

Hvenær hefst þriðja árþúsundin?

HEFURÐU heyrt því haldið fram að þriðja árþúsundin hefjist ekki árið 2000 heldur 2001? Það er reyndar rétt — að vissu marki. Ef við gerum ráð fyrir að Jesús Kristur hafi verið fæddur árið sem við köllum 1 f.o.t., eins og sumir héldu einu sinni, þá endar önnur árþúsundin 31. desember árið 2000 (ekki 1999) og þriðja árþúsundin hefst þá 1. janúar árið 2001. * En svo til allir fræðimenn eru sammála um að Jesús Kristur hafi ekki fæðst árið 1 f.o.t. Hvenær fæddist hann þá?

Hvenær fæddist Jesús?

Biblían tiltekur ekki nákvæmlega fæðingardag Jesú en segir þó að hann hafi fæðst „á dögum Heródesar konungs.“ (Matteus 2:1) Margir biblíufræðingar telja að Heródes hafi dáið árið 4 f.o.t. og að Jesús hafi fæðst fyrir þann tíma — kannski árið 5 eða 6 f.o.t. Þeir byggja þessa ályktun á orðum gyðingsins og sagnaritarans Flavíusar Jósefusar á fyrstu öld. *

Jósefus segir frá tunglmyrkva skömmu fyrir dauða Heródesar konungs. Biblíufræðingar benda á deildarmyrkva á tungli 11. mars árið 4 f.o.t. og telja hann sanna að Heródes hafi dáið það ár. En árið 1 f.o.t. var almyrkvi á tungli 8. janúar og deildarmyrkvi 27. desember. Enginn getur sagt með vissu hvort Jósefus var að tala um myrkvana árið 1 f.o.t. eða myrkvann árið 4 f.o.t. Það er því ekki hægt að ákvarða dánarár Heródesar með neinni vissu með hliðsjón af orðum Jósefusar. Og þótt við gætum það gætum við ekki ákvarðað fæðingarár Jesú án ítarlegri upplýsinga.

Áreiðanlegustu vísbendingarnar um fæðingartíma Jesú er að finna í Biblíunni. Hin innblásna frásaga segir að Jóhannes skírari, frændi Jesú, hafi hafið spámannsstarf sitt á 15. stjórnarári Tíberíusar Rómarkeisara. (Lúkas 3:1, 2) Veraldlegar sagnaheimildir staðfesta að Tíberíus hafi verið tilnefndur keisari 15. september árið 14 e.o.t., þannig að 15. stjórnarár hans hefur þá staðið frá síðari hluta ársins 28 e.o.t. til jafnlengdar árið 29 e.o.t. Jóhannes hóf spámannsþjónustu sína á þeim tíma og ljóst er að Jesús hóf starf sitt hálfu ári síðar. (Lúkas 1:24-31) Miðað við þetta og margt annað hóf Jesús þjónustu sína haustið 29. * Biblían segir að hann hafi verið „um þrítugt“ þegar hann hóf starf sitt. (Lúkas 3:23) Hafi hann verið þrítugur haustið 29 e.o.t. hlýtur hann að hafa fæðst haustið 2 f.o.t. Ef við teljum tvö þúsund ár frá haustinu 2 f.o.t. (og við munum að ártalið núll er ekki til, svo að það eru tvö ár frá árinu 2 f.o.t. til ársins 1 e.o.t.), þá er ljóst að annarri árþúsundinni lauk og sú þriðja hófst haustið 1999!

Skiptir þetta máli? Á þúsundáraríki Jesú Krists, sem talað er um í Opinberunarbókinni, að hefjast með þriðju árþúsundinni? Nei, Biblían gefur hvergi til kynna að það séu nokkur tengsl milli þriðju árþúsundarinnar og þúsundáraríkis Krists.

Jesús varaði fylgjendur sína við getgátum um tímasetningar. Hann sagði lærisveinunum: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ (Postulasagan 1:7) Áður hafði hann sagt að hann vissi ekki einu sinni sjálfur hvenær Guð myndi fullnægja dómi á þessu illa heimskerfi sem er undanfari þúsund ára stjórnar Krists. „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn,“ sagði hann. — Matteus 24:36.

Er ástæða til að ætla að Kristur snúi aftur nákvæmlega 2000 árum eftir að hann fæddist sem maður? Nei, hann hlýtur að hafa vitað hvenær hann fæddist og hann kunni örugglega að telja 2000 ár fram í tímann. Þó vissi hann ekki hvaða dag né stund hann kæmi. Það var greinilega ekki svona auðvelt að tímasetja endurkomu hans. ‚Tímar og tíðir‘ voru á valdi föður hans og hann einn þekkti tímaáætlunina.

Og ekki sagði Jesús fylgjendum sínum að bíða sín á ákveðnum stað á jörðinni. Hann sagði þeim ekki að safnast saman og bíða heldur að dreifa sér „allt til endimarka jarðarinnar“ og gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum. Þau fyrirmæli hefur hann aldrei ógilt. — Postulasagan 1:8; Matteus 28:19, 20.

Bregðast árþúsundavonir þeirra?

En sumir bókstafstrúarmenn gera sér miklar vonir um árið 2000. Þeir trúa að á allra næstu mánuðum uppfyllist sumir kaflar Opinberunarbókarinnar bókstaflega, og þeir ímynda sér að þeir eigi persónulega þátt í uppfyllingunni. Til dæmis benda þeir á Opinberunarbókina 11:3, 7, 8 þar sem talað er um tvo votta er spá í ‚borginni miklu sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.‘ Er vitnisburði vottanna tveggja lýkur eru þeir drepnir af grimmu villidýri sem stígur upp úr undirdjúpi.

Að sögn tímaritsins The New York Times Magazine hinn 27. desember 1998 hefur leiðtogi eins trúflokks „sagt fylgjendum sínum að hann sé annar vottanna tveggja sem ákveðið sé að kunngeri eyðingu jarðar og komu Drottins — og að Satan drepi hann síðan á strætum Jerúsalem.“ Eins og við er að búast hafa ísraelsk yfirvöld nokkrar áhyggjur af þessu. Þau óttast að einhverjir öfgamenn reyni að „uppfylla“ spádóminn upp á eigin spýtur — og stofni jafnvel til vopnaðra átaka ef með þurfi. En Guð þarf ekki „hjálp“ manna til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd. Allir spádómar Biblíunnar uppfyllast á tilsettum tíma hans og á þann hátt sem hann hefur ákveðið.

Opinberunarbókin var skrifuð í táknum. Samkvæmt fyrsta versi bókarinnar vildi Jesús opinbera „þjónum sínum“ (ekki heiminum í heild) það sem verða átti innan skamms. Þjónar eða fylgjendur Krists þurfa á heilögum anda Guðs að halda til að skilja Opinberunarbókina, og þeir sem þóknast Guði fá anda hans. Ef okkur er ætlað að skilja Opinberunarbókina bókstaflega geta jafnvel trúlausir menn skilið hana. Þá þyrftu kristnir menn ekki að biðja um heilagan anda til að skilja bókina. — Matteus 13:10-15.

Við höfum séð biblíuleg rök fyrir því að þriðja árþúsundin frá fæðingu Jesú hafi hafist haustið 1999 og að hvorki 1. janúar árið 2000 né 1. janúar 2001 hafi sérstaka þýðingu. En það er ákveðin árþúsund sem kristnir menn hafa sérstakan áhuga á. Hvaða árþúsund er það, ef ekki sú þriðja? Því er svarað í síðustu greininni í þessari syrpu.

[Neðanmáls]

^ Sjá rammagreinina „2000 eða 2001?“ á bls. 5.

^ Samkvæmt tímareikningi þessara fræðimanna hefði þriðja árþúsundin hafist árið 1995 eða 1996.

^ Nánari upplýsingar er að finna í handbókinni Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 1094-5, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammagrein á blaðsíðu 5]

2000 eða 2001?

Við skulum taka dæmi til að glöggva okkur á því hvers vegna sumir segja að þriðja árþúsundin frá fæðingu Jesú hefjist 1. janúar árið 2001. Segjum að þú sért að lesa 200 blaðsíðna bók. Þegar þú ert kominn efst á blaðsíðu 200 ertu búinn að lesa 199 síður og átt eina eftir. Þú lýkur ekki lestri bókarinnar fyrr en þú ert búinn að lesa 200. blaðsíðuna á enda. Á sambærilegan hátt eru liðin 999 ár af núverandi árþúsund hinn 31. desember 1999, samkvæmt skilningi flestra, og eitt ár er eftir þar til henni lýkur. Samkvæmt því hefst þriðja árþúsundin 1. janúar árið 2001. En það þýðir ekki að þá séu liðin nákvæmlega 2000 ár frá fæðingu Jesú eins og fram kemur í greininni.

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

Tilurð tímatalsins sem miðað er við fæðingu Krists

Það var snemma á sjöttu öld okkar tímatals sem Jóhannes páfi fyrsti fól munki, er Díónýsíus Exíguus hét, að búa til reiknireglur sem kirkjurnar gætu stuðst við til að reikna út hvenær halda skyldi páska.

Díónýsíus taldi tímann aftur á bak fram yfir dauða Jesú og til fæðingar hans, að því er hann hélt, og númeraði svo árin frá þeim tíma. Hann kallaði ár tímabilsins frá fæðingu Jesú „A.D.“ (Anno Domini — „á því herrans ári.“) Hann ætlaði sér einungis að finna örugga aðferð til að reikna út páska hvert ár, en um leið kom hann óvart fram með þá hugmynd að miða ártal við fæðingu Krists.

Þótt flestir fræðimenn séu sammála um að Jesús hafi ekki fæðst það ár sem Díónýsíus byggði útreikninga sína á, getum við notað tímatal hans til að tímasetja atburði í aldanna rás og sjá innbyrðis samhengi þeirra.