Hjálpaðu öðrum að hegða sér eins og Jehóva er samboðið
Hjálpaðu öðrum að hegða sér eins og Jehóva er samboðið
‚Höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess að þér mættuð . . . hegða yður eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 1:9, 10.
1, 2. Hvað getur verið gleðigjafi okkar öðru fremur?
„VIÐ búum í hjólhýsi úti í sveit. Með því að lifa einföldu lífi gefst okkur meiri tími til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fólk. Við höfum hlotið þá blessun að mega hjálpa mörgum að vígjast Jehóva.“ — Suður-afrísk hjón sem eru boðberar í fullu starfi.
2 Geturðu ekki fallist á að það sé gleðigjafi að hjálpa öðrum? Sumir reyna að liðsinna sjúkum, bágstöddum og einmana og hafa ánægju af. Sannkristnir menn þykjast vissir um að þekkingin á Jehóva Guði og Jesú Kristi sé það besta sem þeir geta gefið fólki. Það er hið eina sem getur orðið til þess að fólk taki við lausnarfórn Jesú, eignist gott samband við Guð og eigi eilíft líf í vændum. — Postulasagan 3:19-21; 13:48.
3. Hvers konar aðstoð ættum við að gefa gaum?
3 En er ástæða til að liðsinna þeim sem eru nú þegar á „veginum“ í þjónustu Guðs? (Postulasagan 19:9) Eflaust læturðu þér mjög annt um þá en þú áttar þig kannski ekki alveg á því hvað þú getur gert til að aðstoða þá betur eða styðja þá til langs tíma. Kannski finnst þér þú ekki vera í aðstöðu til að gera mikið þeim til hjálpar og það dregur úr gleði þinni. (Postulasagan 20:35) Við getum fræðst sitthvað um þetta tvennt í Kólossubréfinu.
4. (a) Við hvaða aðstæður skrifaði Páll Kólossubréfið? (b) Hvernig kom Epafras við sögu?
4 Þegar Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Kólossu sat hann í stofufangelsi í Róm en mátti þó fá gesti. Eins og við er að búast notaði hann hið takmarkaða frelsi, sem hann hafði, til að boða Guðsríki. (Postulasagan 28:16-31) Trúbræður hans gátu heimsótt hann og voru kannski stundum í haldi með honum. (Kólossubréfið 1:7, 8; 4:10) Einn þeirra var kappsfullur boðberi er Epafras hét. Hann var frá borginni Kólossu á hásléttunni í Frýgíu í Litlu-Asíu (nú í Tyrklandi). Epafras átti þátt í stofnun safnaðar í Kólossu og lagði hart að sér fyrir söfnuðina í grannborgunum Laódíkeu og Híerapólis. (Kólossubréfið 4:12, 13) Af hverju fór hann til Rómar til að hitta Pál og hvað má læra af viðbrögðum Páls?
Hjálp handa Kólossumönnum
5. Af hverju skrifaði Páll Kólossumönnum?
5 Epafras lagði á sig hina erfiðu ferð til Rómar til að ráðfæra sig við Pál um ástandið í söfnuðinum í Kólossu. Hann greindi honum frá trú, kærleika og boðunarstarfi kristinna manna þar. (Kólossubréfið 1:4-8) En hann hlýtur að hafa tjáð honum áhyggjur sínar af skaðlegum áhrifum sem ógnuðu andlegu hugarfari Kólossumanna. Páll skrifaði þá innblásið bréf þar sem hann hrekur sumt af því sem falskennarar boðuðu. Einkum beindi hann athyglinni að aðalhlutverki Jesú Krists. * Var hjálp hans einungis fólgin í því að halda sannleika Biblíunnar á loft? Með hvaða öðrum hætti gat hann hjálpað Kólossumönnum og hvað getum við lært af því?
6. Hvað lagði Páll áherslu á í bréfinu til Kólossumanna?
6 Snemma í bréfinu benti Páll á það hvers konar hjálp okkur gæti yfirsést. Hér var um að ræða hjálp sem hægt var að veita úr fjarlægð, enda voru þeir Páll og Epafras býsna langt frá Kólossu. Páll sagði: „Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.“ Já, það var beðið sérstaklega fyrir kristnum mönnum í Kólossu. Páll bætti við: „Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ — Kólossubréfið 1:3, 9.
7, 8. Hvað nefnum við oft í einkabænum okkar og safnaðarbænum?
7 Við vitum að Jehóva „heyrir bænir“ svo að við getum treyst því að hann hlustar fúslega á bænir okkar sem eru í samræmi við vilja hans. (Sálmur 65:3; 86:6; Orðskviðirnir 15:8, 29; 1. Jóhannesarbréf 5:14) En hvernig eru bænir okkar þegar við biðjum fyrir öðrum?
8 Trúlega hugsum við oft til ‚bræðra okkar um allan heim‘ og biðjum fyrir þeim. (1. Pétursbréf 5:9) Kannski biðjum við til Jehóva fyrir bræðrum okkar og fleirum á hamfara- og hörmungasvæðum. Þegar lærisveinar á fyrstu öld fréttu af hungursneyð í Júda hljóta þeir að hafa beðið ótal sinnum fyrir bræðrum sínum þar, jafnvel áður en þeir sendu þeim fé til hjálpar. (Postulasagan 11:27-30) Á kristnum samkomum á okkar dögum er oft beðið fyrir öllu bræðrafélaginu eða stórum hópi bræðra, og allir þurfa að skilja bænina til að geta sagt „amen.“ — 1. Korintubréf 14:16.
Vertu nákvæmur í bænum þínum
9, 10. (a) Hvaða dæmi sýna að það er viðeigandi að biðja fyrir ákveðnum einstaklingum? (b) Var beðið sérstaklega fyrir Páli?
9 En Biblían nefnir mörg dæmi um bænir fyrir tilteknum einstaklingum. Rifjaðu upp orð Jesú í Lúkasi 22:31, 32. Postularnir 11, sem voru trúfastir, voru með honum og þeir myndu allir þurfa á stuðningi Guðs að halda í þeim erfiðleikum sem framundan voru, svo að Jesús bað fyrir þeim. (Jóhannes 17:9-14) En hann bað sérstaklega fyrir einum lærisveini — Pétri. Lítum á önnur dæmi: Elísa bað Guð sérstaklega að hjálpa þjóni sínum. (2. Konungabók 6:15-17) Jóhannes postuli bað þess að Gajusi mætti farnast vel bæði líkamlega og andlega. (3. Jóhannesarbréf 1, 2) Og ýmsar aðrar bænir voru bornar fram í þágu sérstakra hópa. — Jobsbók 42:7, 8; Lúkas 6:28; Postulasagan 7:60; 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.
10 Bréf Páls beina athygli að markvissum bænum fyrir ákveðnum einstaklingum. Hann bað aðra um að biðja fyrir sér og félögum sínum. Við lesum í Kólossubréfinu 4:2, 3: „Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð. Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.“ Og líttu á fleiri dæmi í Rómverjabréfinu 15:30; 1. Þessaloníkubréfi 5:25; 2. Þessaloníkubréfi 3:1 og Hebreabréfinu 13:18.
11. Fyrir hverjum bað Epafras meðan hann var í Róm?
11 Hið sama er að segja um félaga Páls í Róm. „Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann . . . berst jafnan fyrir yður í bænum sínum.“ (Kólossubréfið 4:12) Orðið, sem þýtt er „berst,“ getur lýst átökum íþróttamanns á kappleikjum fornaldar. Bað Epafras bara innilega fyrir öllu bræðrafélaginu um allan heim eða kannski fyrir tilbiðjendum Guðs í allri Litlu-Asíu? Páll gefur í skyn að hann hafi beðið sérstaklega fyrir kristnum mönnum í Kólossu. Epafras þekkti aðstæður þeirra. Við þekkjum þá ekki alla með nafni og við vitum ekki hvaða vandamál þeir áttu við að glíma, en við skulum hugsa okkur nokkra möguleika. Ungi maðurinn Línus átti kannski í höggi við ríkjandi heimspeki samtíðarinnar og Rúfus þurfti að streitast gegn gyðingdómnum sem hann hafði stundað áður. Eiginmaður Persisar var ekki í trúnni og hún þarfnaðist þolgæðis og visku til að ala börnin upp í Drottni. Og Asýnkrítus var haldinn ólæknandi sjúkdómi og þarfnaðist hughreystingar. Epafras þekkti fólkið í heimasöfnuði sínum og bað innilega fyrir því af því að þeim Páli var mikið í mun að safnaðarmenn hegðuðu sér eins og Jehóva var samboðið.
12. Hvernig getum við verið markviss í einkabænum okkar?
12 Sérðu hvernig við getum líkt eftir þessu og hjálpað öðrum? Eins og nefnt hefur verið eru bænir á kristnum samkomum oft almenns eðlis af því að áheyrendur eru margir og ólíkir. En einkabænir og fjölskyldubænir geta verið markvissar. Kannski biðjum við Guð að leiðbeina farandhirðum og umsjónarmönnum og blessa þá, en getum við ekki stundum nefnt farandhirðinn, sem er að heimsækja söfnuðinn, með nafni eða þá bóknámsstjórann okkar? Umhyggja Páls fyrir heilsu Tímóteusar og Epafrodítusar kemur greinilega fram í Filippíbréfinu 2:25-28 og 1. Tímóteusarbréfi 5:23. Getum við sýnt sömu umhyggju fyrir heilsutæpum safnaðarmönnum sem við þekkjum með nafni?
13. Hvað getur verið viðeigandi að nefna í einkabænum sínum?
13 Við megum að sjálfsögðu ekki skipta okkur af einkamálum annarra en það er engu að síður viðeigandi að sýna innilegan áhuga í bænum okkar á velferð þeirra sem við þekkjum og þykir vænt um. (1. Tímóteusarbréf 5:13; 1. Pétursbréf 4:15) Bróðir er kannski búinn að missa vinnuna og við getum ekki útvegað honum annað starf. En við getum nefnt hann með nafni í einkabænum okkar ásamt þeim erfiðleikum sem hann á í. (Sálmur 37:25; Orðskviðirnir 10:3) Þekkjum við systur sem farin er að reskjast en er einhleyp af því að hún er ákveðin í að giftast ‚aðeins í Drottni‘? (1. Korintubréf 7:39) Af hverju biðurðu ekki Jehóva í einkabænum þínum að blessa hana og hjálpa henni að halda áfram að þjóna honum dyggilega? Tveir öldungar hafa kannski þurft að leiðbeina bróður sem varð eitthvað á. Gætu þeir ekki báðir nafngreint hann af og til í einkabænum sínum?
14. Hvernig geta markvissar bænir hjálpað öðrum?
14 Það eru óendanlegir möguleikar á því að nefna fólk í einkabænum þínum sem þú veist að þarfnast stuðnings Jehóva, hughreystingar, visku, heilags anda eða einhvers af ávöxtum hans. Sökum fjarlægðar eða annarra aðstæðna finnst þér þú lítið geta gert til að hjálpa því beint eða efnislega. En gleymdu ekki að biðja fyrir bræðrum þínum og systrum. Þú veist að þau vilja hegða sér eins og Jehóva er samboðið en þarfnast sannarlega hjálpar til að halda því áfram. Bænir okkar eru ómetanleg hjálp. — Sálmur 18:3; 20:, 2,3; 34:16; 46:2; 121:1-3.
Styrktu aðra
15. Af hverju ættum við að hafa áhuga á síðasta hluta Kólossubréfsins?
15 Innilegar og markvissar bænir eru auðvitað ekki eina leiðin til að hjálpa öðrum, sérstaklega ástvinum þínum. Það er ljóst af Kólossubréfinu. Margir fræðimenn telja að Páll hafi einungis hnýtt kveðjuorðum aftan við ráðleggingar sínar og kenningarlegar leiðbeiningar. (Kólossubréfið 4:7-18) En við höfum komist að raun um að þessi síðasti hluti bréfsins inniheldur athyglisverðar leiðbeiningar og það má læra sitthvað fleira af þeim.
16, 17. Hvað má segja um bræðurna sem nefndir eru í Kólossubréfinu 4:10, 11?
16 Páll skrifaði: „Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum. Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar.“ — Kólossubréfið 4:10, 11.
17 Páll nafngreinir hér ákveðna bræður sem gefa átti sérstakan gaum. Hann sagði þá vera umskorna, það er að segja Gyðinga að uppruna. Í Róm voru margir umskornir Gyðingar og sumir þeirra voru orðnir kristnir. En þeir sem Páll nafngreinir höfðu liðsinnt honum. Eflaust hafa þeir óhikað umgengist kristna menn af heiðnum uppruna, og þeir hljóta að hafa prédikað fúslega fyrir heiðingjum ásamt Páli. — Rómverjabréfið 11:13; Galatabréfið 1:16; 2:11-14.
18. Hvernig hrósaði Páll sumum sem með honum voru?
18 Taktu eftir því sem Páll sagði: ‚Þeir hafa verið mér til huggunar.‘ Páll notar hér grískt orð sem kemur hvergi annars staðar fyrir í Biblíunni. Margir þýða það ‚huggun‘ eða ‚hughreysting.‘ En það er annað grískt orð (parakale’o) sem er oftast þýtt þannig og Páll notaði það annars staðar í Kólossubréfinu en ekki í 4. kafla versi 11. — Kólossubréfið 4:11; Matteus 5:4; Postulasagan 4:36; 9:31; 2. Korintubréf 1:4; Kólossubréfið 2:2; 4:8.
19, 20. (a) Hvert er inntak orðsins sem Páll notaði um hjálp bræðranna í Róm? (b) Hvernig hafa þeir hugsanlega hjálpað Páli?
19 Þeir sem Páll nafngreinir hljóta að hafa gert meira en að hughreysta hann með fallegum orðum. Gríska orðið, sem þýtt er „til huggunar“ í Kólossubréfinu 4:11, var stundum notað í veraldlegum textum um kvalastillandi lyf. Today’s English Version segir: „Þeir hafa verið mér mikil hjálp.“ Nýheimsþýðingin orðar þetta þannig: „Þeir hafa verið mér styrkjandi hjálp.“ Hvernig hafa þessir bræður getað aðstoðað Pál?
20 Páll mátti fá gesti en það var margt sem hann gat ekki gert, svo sem að kaupa nauðsynjar eins og matvæli og vetrarfatnað. Hvernig gat hann náð í bókrollur til rannsókna eða keypt ritföng? (2. Tímóteusarbréf 4:13) Geturðu ekki ímyndað þér bræðurna hjálpa Páli að afla sér nauðsynja, kaupa inn fyrir hann eða fara í sendiferðir? Kannski vildi hann fylgjast með ákveðnum söfnuði eða uppbyggja hann. En þar sem hann var í haldi átti hann ekki heimangengt svo að þessir bræður hafa kannski farið í hans stað, flutt skilaboð á milli og fært honum fréttir. Það hefur verið mjög styrkjandi fyrir hann.
21, 22. (a) Af hverju ættum við að hafa áhuga á orðunum í Kólossubréfinu 4:11? (b) Lýstu með dæmum hvernig við getum líkt eftir þeim sem voru með Páli.
21 Orð Páls um „styrkjandi hjálp“ gefa okkur vísbendingu um það hvernig við getum hugsanlega hjálpað öðrum. Þeir hegða sér eflaust eins og Jehóva er samboðið, fylgja siðferðiskröfum hans, sækja kristnar samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Þeir verðskulda hrós okkar fyrir það. En getum við gert meira til að styrkja þá eins og bræðurnir sem voru með Páli?
22 Þú veist kannski af systur sem hefur sýnt þá visku að fylgja 1. Korintubréfi 7:37 en á ekki nákomna ættingja í trúnni. Gætirðu boðið henni að vera með í einhverju sem þið fjölskyldan gerið, boðið henni að borða með ykkur eða í smáboð ásamt nokkrum vinum og ættingjum? Gætuð þið boðið henni með ykkur í frí eða ferðalag? Væri hægt að bjóða henni að koma með í innkaupaferð þegar vel stendur á? Það má að mestu leyti segja hið sama um ekkjur og ekkla, eða kannski fólk sem getur ekki lengur ekið bíl. Það gæti reynst auðgandi fyrir þig að heyra þau segja frá reynslu sinni eða fræðast af þeim um jafnsjálfsagða hluti og val á ávöxtum eða barnafötum. (3. Mósebók 19:32; Orðskviðirnir 16:31) Þetta getur styrkt vináttuböndin og þau leita þá kannski frekar til þín ef sækja þarf lyf í apótek eða eitthvað þvíumlíkt. Bræðurnir í Róm hljóta að hafa styrkt Pál og aðstoðað hann og þú getur gert hið sama fyrir bræður þína. Það styrkir kærleiksböndin og þann ásetning að þjóna Jehóva dyggilega saman, líkt og það gerði þá.
23. Hvað ættum við öll að gera?
23 Við getum öll velt fyrir okkur þeim dæmum sem nefnd eru í greininni. Þetta eru einungis dæmi en þau geta minnt okkur á ýmsar aðstæður þar sem við getum gert meira til að styrkja bræður okkar og systur. Það er ekki verið að hvetja okkur til að helga okkur mannúðarmálum. Það var ekki markmið bræðranna sem nefndir eru í Kólossubréfinu 4:10, 11. Þeir voru „samverkamenn . . . fyrir Guðs ríki“ og það var á þeim vettvangi sem þeir voru til styrktar. Reynum að líkja eftir því.
24. Hver er meginástæðan fyrir því að við biðjum fyrir öðrum og reynum að styrkja þá?
24 Ástæðan fyrir því að við nefnum aðra með nafni í einkabænum okkar og reynum að styrkja þá er þessi: Við trúum að bræður okkar og systur vilji ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Kólossubréfið 1:10) Þetta tengist öðru sem Páll minntist á í sambandi við bænir Epafrasar fyrir Kólossumönnum, það er að segja því að þeir mættu „standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ (Kólossubréfið 4:12) Hvernig getum við gert það? Skoðum málið.
[Neðanmáls]
^ Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 490-1 og „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial,“ bls. 226-8, gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Tókstu eftir þessu?
• Hvernig getum við hjálpað öðrum með einkabænum okkar?
• Í hvaða skilningi voru sumir „styrkjandi hjálp“ handa Páli?
• Við hvers konar aðstæður getum við veitt „styrkjandi hjálp“?
• Hvert er markmiðið með því að biðja fyrir bræðrum okkar og systrum og styrkja þau?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 23]
Geturðu boðið einhverjum öðrum í söfnuðinum með í skemmtiferðir fjölskyldunnar?
[Mynd credit line]
Með góðfúslegu leyfi Green Chimney’s Farm