„Stundin er komin“
„Stundin er komin“
„Stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins.“ — JÓHANNES 13:1.
1. Hvað er rætt um manna á milli er dregur að páskum árið 33 og hvers vegna?
MEÐ skírn sinni árið 29 tók Jesús lífsstefnu sem leiddi til dauða, upprisu og dýrðar. Nú er komið vor árið 33. Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan æðstaráðið, hæstiréttur Gyðinga, ákvað að ráða Jesú af dögum. Vera má að Nikódemus, sem er einn af ráðsöldungunum og vinsamlegur gagnvart Jesú, hafi gert honum viðvart um þessa fyrirætlun, svo að Jesús fer frá Jerúsalem og heldur út í sveitina handan Jórdanar. Páskahátíðin er í nánd, margir af landsbyggðinni eru komnir til Jerúsalem og þar er mikið rætt meðal fólks hvað Jesús geri. Menn spyrja hver annan: „Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“ Æðstuprestarnir og farísearnir hafa aukið á spennuna með því að gefa út skipun um það að hver sem sjái Jesú skuli tilkynna hvar hann sé. — Jóhannes 11:47-57.
2. Hvað gerir María sem veldur deilum og hvernig bera orð Jesú vott um að hann er sér meðvita um tímann?
2 Hinn 8. nísan, sex dögum fyrir páska, er Jesús aftur kominn í grennd við borgina. Hann er í Betaníu, heimabæ Mörtu, Maríu og Lasarusar vina sinna, sem er í þriggja kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Það er komið föstudagskvöld og Jesús eyðir hvíldardeginum þar. Kvöldið eftir smyr María fætur hans með dýrri ilmolíu og lærisveinarnir finna að því. „Lát hana í friði,“ segir Jesús. „Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.“ (Jóhannes 12:1-8; Matteus 26:6-13) Jesús veit að ‚stund hans er komin til að fara burt úr þessum heimi til föðurins.‘ (Jóhannes 13:1) Fimm dögum síðar á hann að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Markús 10:45) Eftir þetta er enn meiri ákefð í kennslu Jesú og öllu sem hann gerir. Hann er okkur prýðisfordæmi er við bíðum þess eftirvæntingarfull að þetta heimskerfi líði undir lok. Lítum á atburði næsta dags.
Sigurreið Jesú inn í borgina
3. (a) Hvernig kemur Jesús inn í Jerúsalem sunnudaginn 9. nísan og hvað gera flestir sem safnast hafa kringum hann? (b) Hvað segir Jesús þegar farísearnir kvarta undan mannfjöldanum?
3 Sunnudaginn 9. nísan ríður Jesús inn í Jerúsalem eins og konungur. Hann ríður til borgarinnar á ösnufola eins og spáð var í Sakaría 9:9. Flestir, sem hafa safnast kringum hann, breiða yfirhafnir sínar á veginn en aðrir höggva lim af trjánum og strá fyrir framan hann. „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni [Jehóva],“ hrópa þeir. Nokkrir farísear í mannfjöldanum vilja að Jesús hasti á lærisveinana en hann svarar: „Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.“ — Lúkas 19:38-40; Matteus 21:6-9.
4. Af hverju kemst Jerúsalem í uppnám þegar Jesús ríður inn í hana?
4 Margir viðstaddra höfðu séð Jesú reisa Lasarus upp frá dauðum nokkrum vikum áður og nú segja þeir öðrum frá kraftaverkinu. Öll borgin kemst því í uppnám þegar Jesús ríður inn í hana. „Hver er hann?“ spyrja menn. Mannfjöldinn svarar: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“ Farísearnir, sem horfa upp á þetta, eru síður en svo ánægðir: „Allur heimurinn eltir hann,“ segja þeir mæðulega. — Matteus 21:10, 11; Jóhannes 12:17-19.
5. Hvað gerist í musterinu?
5 Kennarinn mikli fer rakleiðis í musterið til að kenna eins og hann er vanur þegar hann kemur til borgarinnar. Blindir og haltir koma til hans og hann læknar þá. Æðstuprestarnir og fræðimennirnir reiðast þegar þeir sjá þetta og heyra börnin í musterinu hrópa: „Hósanna syni Davíðs!“ „Heyrir þú, hvað þau segja?“ spyrja þeir. „Já,“ svarar Jesús, „hafið þér aldrei lesið þetta: ‚Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.‘“ Hann heldur áfram að kenna og virðir fyrir sér það sem fram fer í musterinu. — Matteus 21:14-16; Markús 11:11.
6. Hvernig er koma Jesú til Jerúsalem ólík því sem verið hafði og af hverju?
6 Koma Jesú þessu sinni er harla ólík því sem var hálfu ári áður. Þá kom hann „ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun,“ til að halda laufskálahátíðina í Jerúsalem. (Jóhannes 7:10) Og hann gerði alltaf ráðstafanir til að komast óhultur undan þegar lífi hans var ógnað. En núna kemur hann fyrir opnum tjöldum inn í borgina þótt gefin hafi verið út tilskipun um handtöku hans! Jesús var ekki vanur að auglýsa að hann væri Messías. (Jesaja 42:2; Markús 1:40-44) Hann sóttist ekki eftir því að fá háværa auglýsingu eða að afbakaðar frásögur um hann gengju mann frá manni. Núna lýsir mannfjöldinn opinskátt yfir því að hann sé konungur og frelsari — Messías — og hann tekur ekki í mál að þagga niður í fólki þótt trúarleiðtogarnir heimti það. Af hverju breytir hann um stíl? Af því að „stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur,“ eins og hann lýsir yfir næsta dag. — Jóhannes 12:23.
Dirfska og lífgandi kennsla
7, 8. Hvað gerir Jesús 10. nísan árið 33, svipað og hann gerði á páskum árið 30?
7 Er Jesús kemur til musterisins mánudaginn 10. nísan tekur hann til hendinni í samræmi við það sem hann hafði séð daginn áður. Hann ‚rekur út þá sem eru að selja þar og kaupa og hrindir um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn.‘ Hann fordæmir hina seku og segir: „Er ekki ritað: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.“ — Markús 11:15-17.
8 Þessi tiltekt Jesú er svipuð þeirri sem hann gerði í musterinu þrem árum áður, á páskum árið 30. En núna er fordæmingin hvassari því að hann kallar kaupmennina ‚ræningja.‘ (Lúkas 19:45, 46; Jóhannes 2:13-16) Þeir eru réttnefndir ræningjar af því að þeir heimta okurverð fyrir fórnardýr sem fólk þarf að kaupa. Æðstuprestarnir, fræðimennirnir og fyrirmenn þjóðarinnar frétta hvað Jesús hefur gert og leita enn á ný færis að ráða hann af dögum. En þeir sjá enga leið til þess því að fólkið hrífst af kenningu hans og eltir hann á röndum til að heyra hann kenna. — Markús 11:18; Lúkas 19:47, 48.
9. Hverju lýsir Jesús og hvað býður hann áheyrendum sínum í musterinu?
9 Jesús heldur áfram að kenna í musterinu og segir: „Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.“ Hann veit að hann á aðeins fáeina daga ólifaða sem maður. Hann lýsir því hvernig hveitikorn þarf að deyja til að bera ávöxt sem er sambærilegt við það að hann skuli þurfa að deyja til að veita öðrum eilíft líf. Síðan býður hann áheyrendum að fylgja sér og segir: „Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.“ — Jóhannes 12:23-26.
10. Hvernig hugsar Jesús um hinn kvalafulla dauða sem bíður hans?
10 Jesú er hugsað til hins kvalafulla dauða sem bíður hans aðeins fjórum dögum síðar, og hann heldur áfram: „Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu?“ En hann getur ekki umflúið það sem bíður hans. „Nei,“ segir hann, „til þessa er ég kominn að þessari stundu.“ Hann er fullkomlega samþykkur ráðstöfun Guðs í heild sinni og staðráðinn í að láta vilja hans ráða gerðum sínum uns hann deyr fórnardauða. (Jóhannes 12:27) Hann er okkur góð fyrirmynd í því að lúta vilja Guðs í einu og öllu.
11. Hvað kennir Jesús mannfjöldanum sem heyrir röddina af himni?
11 Jesús hefur þungar áhyggjur af þeim áhrifum sem dauði hans kann að hafa á orðstír föðurins og biður: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Mannfjöldanum til undrunar heyrist rödd af himni: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ Kennarinn mikli notar tækifærið til að segja mannfjöldanum hvers vegna röddin hafi heyrst, hvaða afleiðingar dauði sinn hafi og hvers vegna menn þurfi að iðka trú. (Jóhannes 12:28-36) Síðustu tveir dagar í lífi Jesú hafa verið annasamir. En morgundagurinn er örlagaríkur.
Fordæmingardagur
12. Hvernig reyna trúarleiðtogarnir að leiða Jesú í gildru þriðjudaginn 11. nísan og hvernig tekst þeim til?
12 Jesús heldur enn á ný í musterið til að kenna þriðjudaginn 11. nísan. Nú eru fjandsamlegir áheyrendur á staðnum. Æðstuprestarnir og öldungar lýðsins krefja hann skýringa á því sem hann gerði daginn áður. „Með hvaða valdi gjörir þú þetta?“ spyrja þeir. „Hver gaf þér þetta vald?“ Andstæðingar kennarans mikla eru höggdofa á svari hans. Hann segir þrjár dæmisögur sem afhjúpa illsku þeirra. Tvær fjalla um víngarð og ein um brúðkaupsveislu. Trúarleiðtogarnir reiðast og vilja handsama hann en óttast mannfjöldann sem álítur Jesú spámann. Þeir reyna því að ginna hann til að segja eitthvað sem þeir geti látið handtaka hann fyrir. En Jesús þaggar niður í þeim með svörum sínum. — Matteus 21:23–22:46.
13. Hvað ráðleggur Jesús áheyrendum í sambandi við fræðimennina og faríseana?
13 Fræðimennirnir og farísearnir þykjast kenna lögmál Guðs svo að Jesús hvetur áheyrendur sína: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ (Matteus 23:1-3) Kröftug fordæming þetta! En Jesús er ekki skilinn að skiptum við þá. Þetta er síðasti dagurinn sem hann kennir í musterinu og nú afhjúpar hann þá djarfmannlega og vægðarlaust.
14, 15. Hvernig fordæmir Jesús fræðimennina og faríseana vægðarlaust?
14 „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ segir Jesús sex sinnum. Þeir eru hræsnarar, eins og hann segir, af því að þeir læsa himnaríki fyrir mönnum og leyfa þeim ekki að komast inn sem vilja. Þessir hræsnarar fara um láð og lög til að snúa einum til sinnar trúar en um leið kalla þeir yfir hann eilífa tortímingu. Þeir vanrækja það sem „mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti,“ en leggja ofurkapp á að gjalda tíund. Hin innri rotnun er falin undir guðrækilegu yfirbragði svo að segja má að þeir ‚hreinsi bikarinn og diskinn utan, en séu að innan fullir yfirgangs og óhófs.‘ Þeir eru fúsir til að hlaða upp og skreyta grafir spámannanna til að beina athyglinni að góðverkum sínum, þó svo að þeir séu „synir þeirra, sem myrtu spámennina.“ — Matteus 23:13-15, 23-31.
15 Jesús fordæmir andstæðingana fyrir að hafa engin siðferðisgildi og segir: „Vei yður, blindir leiðtogar!“ Þeir eru siðblindir af því að þeir leggja meira upp úr gullinu í musterinu en andlegum gildum þessa tilbeiðsluhúss. En harðasta fordæmingin er eftir: „Höggormar og nöðru kyn,“ segir Jesús, „hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?“ Já, hann segir þeim að þeir eigi eilífa tortímingu í vændum sökum þess hve illir og óguðlegir þeir eru. (Matteus 23:16-22, 33) Verum jafnhugrökk þegar við boðum Guðsríki, þó svo að við þurfum stundum að afhjúpa fölsk trúarbrögð.
16. Hvaða þýðingarmikinn spádóm flytur Jesús á Olíufjallinu?
16 Jesús yfirgefur nú musterið. Degi er tekið að halla er hann gengur upp á Olíufjallið ásamt lærisveinunum. Þeir setjast í fjallshlíðina og Jesús flytur spádóminn um eyðingu musterisins og um tákn nærveru sinnar og endaloka heimskerfisins. Þessi spádómsorð teygja sig allt til okkar tíma. Um kvöldið segir hann lærisveinunum: „Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar.“ — Matteus 24:1-14; 26:1, 2.
Jesús ‚elskaði þá uns yfir lauk‘
17. (a) Hvaða lexíu kennir Jesús postulunum 12 við páskamáltíðina? (b) Hvaða minningarhátíð kynnir Jesús eftir að hafa sent Júdas Ískaríot burt?
17 Jesús sýnir sig ekki opinberlega í musterinu næstu tvo daga, 12. og 13. nísan. Trúarleiðtogarnir leita færis að ráða hann af dögum en hann vill ekki láta hindra sig í að halda páska með postulunum. Fjórtándi nísan rennur upp við sólsetur á fimmtudegi — síðasti dagurinn sem Jesús er maður hér á jörð. Hann er ásamt postulunum í húsi í Jerúsalem þar sem búið hefur verið til páskamáltíðar. Þeir halda páska saman og hann kennir postulunum 12 fagra lexíu í auðmýkt með því að þvo fætur þeirra. Júdas Ískaríot hafði fallist á að svíkja meistara sinn fyrir 30 silfurpeninga sem er þrælsverð samkvæmt Móselögunum. Eftir að hafa sent hann burt kynnir Jesús minningarhátíðina um dauða sinn. — 2. Mósebók 21:32; Matteus 26:14, 15, 26-29; Jóhannes 13:2-30.
18. Hvað kennir Jesús postulunum 11 og hvernig býr hann þá undir yfirvofandi burtför sína?
18 Eftir að Jesús hefur stofnað til minningarhátíðarinnar deila postularnir ákaft um það hver sé þeirra mestur. Í stað þess að ávíta þá leiðbeinir Jesús þeim þolinmóður um gildi þess að þjóna öðrum. Hann hrósar þeim fyrir að hafa staðið stöðugir með sér í þrengingum og gerir persónulegan sáttmála við þá um ríki. (Lúkas 22:24-30) Hann segir þeim að elska hver annan eins og hann hafi elskað þá. (Jóhannes 13:34) Hann dokar við í stofunni og býr þá undir yfirvofandi burtför sína. Hann fullvissar þá um vináttu sína, hvetur þá til að iðka trú og lofar þeim hjálp heilags anda. (Jóhannes 14:1-17; 15:15) Áður en þeir yfirgefa húsið biður hann til föður síns: „Stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.“ Jesús hefur búið postulana undir burtför sína og hann „elskaði þá uns yfir lauk.“ — Jóhannes 13:1; 17:1.
19. Af hverju sækir sár angist á Jesú í Getsemanegarðinum?
19 Það er hugsanlega komið töluvert fram yfir miðnætti er Jesús og 11 trúfastir postular hans koma í Getsemanegarðinn. Hann hefur oft komið þangað áður með postulunum. (Jóhannes 18:1, 2) Eftir nokkrar klukkustundir á hann að deyja eins og ótíndur glæpamaður. Tilhugsunin um það og þá háðung, sem það kann að kalla yfir nafn föðurins, er svo átakanleg að sviti hans verður eins og blóðdropar sem falla á jörðina er hann biðst fyrir. (Lúkas 22:41-44) „Stundin er komin,“ segir hann postulunum. „Sá er í nánd, er mig svíkur.“ Hann er enn að tala er Júdas Ískaríot birtist ásamt stórum flokki manna með blys, lampa og vopn. Þeir eru komnir til að handtaka Jesú. Hann veitir enga mótspyrnu. „Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ spyr hann. — Markús 14:41-43; Matteus 26:48-54.
Mannssonurinn er dýrlegur orðinn!
20. (a) Hvaða grimmd má Jesús þola eftir að hann er handtekinn? (b) Af hverju hrópar Jesús: „Það er fullkomnað,“ rétt áður en hann deyr?
20 Eftir handtökuna eru leidd fram ljúgvitni gegn Jesú, hann er sakfelldur af fordómafullum dómurum, dæmdur af Pontíusi Pílatusi, hæddur af prestum og mannfjölda og svívirtur og pyndaður af hermönnum. (Markús 14:53-65; 15:1, 15; Jóhannes 19:1-3) Um hádegisbil á föstudag er hann negldur á kvalastaur og líður óbærilegar kvalir þegar tognar á naglagötunum í höndum hans og fótum undan líkamsþunganum. (Jóhannes 19:17, 18) Um þrjúleytið síðdegis hrópar hann: „Það er fullkomnað.“ Já, hann hefur fullkomnað allt sem hann kom til að gera á jörð. Hann felur Guði anda sinn, lýtur höfði og deyr. (Jóhannes 19:28, 30; Matteus 27:45, 46; Lúkas 23:46) Á þriðja degi eftir það reisir Jehóva son sinn upp frá dauðum. (Markús 16:1-6) Fjörutíu dögum eftir upprisuna stígur Jesús upp til himna og tekur við dýrð af hendi Guðs. — Jóhannes 17:5; Postulasagan 1:3, 9-12; Filippíbréfið 2:8-11.
21. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?
21 Hvernig getum við ‚fetað í fótspor Jesú‘? (1. Pétursbréf 2:21) Við skulum leggja okkur kappsamlega fram, líkt og hann gerði, við að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum, og við skulum flytja orð Guðs djarfmannlega. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Postulasagan 4:29-31; Filippíbréfið 1:14) Missum aldrei sjónar á því hvar við stöndum í tímans rás og hættum aldrei að hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka. (Markús 13:28-33; Hebreabréfið 10:24, 25) Látum líf okkar og breytni stjórnast í einu og öllu af vilja Jehóva Guðs og vitundinni um að við lifum á tíma ‚endalokanna.‘ — Daníel 12:4.
Hvert er svarið?
• Hvaða áhrif hafði vitund Jesú um nálægð dauðans á síðustu þjónustudaga hans í musterinu í Jerúsalem?
• Hvað sýnir að Jesús ‚elskaði sína uns yfir lauk‘?
• Hvað segja síðustu ævistundir Jesú um hann?
• Hvernig getum við líkt eftir Kristi Jesú í þjónustu okkar?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 18]
Jesús „elskaði þá, uns yfir lauk.“