Öryggi í hættulegum heimi
Öryggi í hættulegum heimi
ÞAÐ getur kostað mann lífið að ganga um jarðsprengjusvæði. Óneitanlega væri það mikils virði að hafa kort sem allar jarðsprengjur væru merktar inn á. Og segjum sem svo að þú hefðir fengið þjálfun í sprengjuleit. Hvort tveggja gæti dregið stórlega úr hættunni á limlestingu eða dauða.
Það má líkja Biblíunni við jarðsprengjukort og sprengjuleitarþjálfun. Viturlegar ráðleggingar hennar eru ómetanleg hjálp til að forðast hættur og takast á við vandamál lífsins.
Taktu eftir hughreystandi loforði Biblíunnar í Orðskviðunum 2:10, 11: „Speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig.“ Viskan og hyggindin, sem hér eru nefnd, eru ekki frá mönnum komin heldur Guði. „Sá sem á [visku Guðs] hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ (Orðskviðirnir 1:33) Skoðum nánar hvernig Biblían getur aukið öryggi okkar og forðað okkur frá alls konar vandamálum.
Að afstýra banaslysum
Samkvæmt tölum, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti fyrir skömmu, láta um 1.171.000 manns lífið í umferðarslysum í heiminum á hverju ári. Að auki slasast næstum 40 milljónir og rétt rúmlega 8 milljónir hljóta varanlega fötlun.
Þó svo að umferðin verði aldrei hættulaus með öllu er hægt að auka öryggi sitt talsvert með því að hlýða umferðarlögum. Biblían bendir okkur á að ‚hlýða yfirvöldunum‘ sem setja umferðarlögin og framfylgja þeim. (Rómverjabréfið 13:1) Ökumenn draga úr slysahættu með því að virða þessa ábendingu.
Virðing fyrir lífinu er annar hvati góðrar umferðarmenningar. Biblían ávarpar Jehóva Guð og segir að ‚hjá honum sé uppspretta lífsins.‘ (Sálmur 36:10) Lífið er gjöf Guðs og við megum ekki taka hana frá öðrum eða lítilsvirða lífið, þar á meðal okkar eigið. — 1. Mósebók 9:5, 6.
Við sýnum meðal annars virðingu fyrir mannslífinu með því að gæta þess að allur öryggisbúnaður bílsins sé í lagi og að ekki leynist óeðlilegar hættur á heimili okkar. Mikið var lagt upp úr öryggi á öllum sviðum lífsins í Forn-Ísrael. Húsþakið var algengur samverustaður fjölskyldunnar og lögmál Guðs kvað á um að gera þyrfti brjóstrið um það. „Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu . . . ef einhver kynni að 5. Mósebók 22:8) Eigandinn var ábyrgur ef öryggisreglum var ekki fylgt og einhver datt ofan af þakinu. Meginreglan að baki þessu ákvæði gæti eflaust dregið úr slysum bæði á vinnustað og í tómstundum.
detta ofan af því.“ (Hættulegar fíknir
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að meira en einn milljarður manna í heiminum reyki og að rekja megi um fjórar milljónir dauðsfalla á ári til tóbaks. Búist er við að talan hækki í 10 milljónir á næstu 20 til 30 árum. Að auki munu milljónir reykingamanna og fíkniefnaneytenda eyðileggja heilsuna og spilla lífsgæðum sínum sökum fíknarinnar.
Reykingar og fíkniefnaneysla eru ekki nefndar beinum orðum í Biblíunni. Hins vegar vara meginreglur hennar eindregið við slíku. Síðara Korintubréf 7:1 ráðleggur til dæmis: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál.“ Tóbak og fíkniefni innihalda fjölda skaðlegra efna sem saurga líkamann. Og Guð vill að líkami okkar sé ‚heilagur‘ sem merkir að hann sé hreinn. (Rómverjabréfið 12:1) Þú hlýtur að fallast á að þessar meginreglur gera lífið hættuminna ef eftir þeim er farið.
Hættulegar venjur
Margir sýna lítið hóf í mat og drykk. Ofát getur valdið sykursýki, krabbameini og hjartasjúkdómum. Ofdrykkja hefur ýmsar óæskilegar afleiðingar, svo sem drykkjusýki, skorpulifur, sundruð heimili og umferðarslys. Og hinar öfgarnar eru líka hættulegar því að megrunarþráhyggja getur valdið lífshættulegri átröskun, svo sem lystarstoli.
Biblían gefur skýr og einföld ráð um hófsemi í mat og drykk þó að hún sé ekki kennslubók í læknisfræði. „Heyr þú, son minn, og ver vitur og stýr hjarta þínu rétta leið. Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.“ (Orðskviðirnir 23:19-21) Biblían segir samt sem áður að fólk eigi að njóta þess að borða og drekka. „En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — Prédikarinn 3:13.
Biblían hvetur til hófs og jafnvægis í sambandi við líkamsrækt og bendir á að ‚líkamleg æfing sé nytsamleg í sumu.‘ Síðan bætir hún við að ‚guðhræðslan sé til allra hluta nytsamleg og hafi fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Guðhræðsla getur verið nytsamleg á marga vegu. Hún er andlega auðgandi og hlúir að kærleika, gleði, friði og sjálfstjórn sem hvert um sig stuðlar að jákvæðni og heilbrigði. — Galatabréfið 5:22, 23.
Sárar afleiðingar siðleysis
Milljónir manna hafa kastað af sér öllum siðferðishömlum. Alnæmisfaraldurinn er ein af afleiðingum þess. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að meira en 16 milljónir manna hafi dáið úr alnæmi frá því að faraldurinn braust út, og að hér um bil 34 milljónir séu HIV-smitaðar. Margir hafa smitast sökum lauslætis, við það að deila sprautunálum með smituðum fíkniefnaneytendum eða við blóðgjafir.
Af öðrum afleiðingum lauslætis má nefna kynfæraáblástur, lekanda, lifrarbólgu B og C og sýfílis. Þó svo að þessi læknisfræðiheiti hafi ekki verið notuð á biblíutímanum var vitað hvaða líffæri sumir samræðissjúkdómar þess tíma lögðust á. Til dæmis tala Orðskviðirnir 7:23 um að ‚örin fari gegnum lifur manns‘ og á þá við hinar skelfilegu afleiðingar lauslætis. Algengt er að sýfílis leggist á lifrina, sem og auðvitað lifrarbólga. Sú ráðlegging Biblíunnar að ‚halda sér frá blóði og saurlifnaði‘ er bæði tímabær og kærleiksrík. — Postulasagan 15:28, 29.
Fégræðgin er snara
Margir taka mikla áhættu í fjármálum í von um skjótfenginn gróða. Því miður endar það oft með því að menn tapa stórfé eða verða jafnvel gjaldþrota. Biblían ráðleggur þjóni Guðs hins vegar að ‚leggja hart að sér og gera það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.‘ (Efesusbréfið 4:28) Óvíst er að sá sem leggur hart að sér verði nokkurn tíma ríkur. En hann býr yfir hugarró og sjálfsvirðingu og er jafnvel aflögufær til að geta lagt góðu málefni lið.
Biblían segir í viðvörunartón: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir . . . valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Því er ekki að neita að mörgum, sem ‚vilja verða ríkir,‘ tekst það. En það er stundum dýrkeypt. Margir fórna heilsunni, fjölskyldunni, andlegu hugarfari sínu og jafnvel góðum nætursvefni. — Prédikarinn 5:11.
Vitur maður veit að „enginn þiggur líf af eigum sínum.“ (Lúkas 12:15) Peningar og einhverjar eignir eru nauðsynlegar víðast hvar. Biblían segir reyndar að ‚silfrið (peningarnir) veiti forsælu‘ en bætir við að ‚yfirburðir þekkingarinnar séu þeir að spekin haldi lífinu í þeim sem hana á.‘ (Prédikarinn 7:12) Rétt þekking og viska getur reynst haldgóð undir öllum kringumstæðum, ólíkt peningum, en einkum þó til að auka öryggi okkar og heill. — Orðskviðirnir 4:5-9.
Þegar viskan ein verndar
Í náinni framtíð afmáir Guð illa menn í ‚mikilli þrengingu.‘ Þá mun sönn viska ‚halda lífinu í þeim sem hana á‘ með áður óþekktum hætti. (Matteus 24:21) Biblían segir að fólk muni þá henda peningum út á strætin „sem saur.“ Af hverju? Af því að menn hafa rekið sig á það að þeir geta ekki keypt sér líf fyrir gull og silfur ‚á reiðidegi Jehóva.‘ (Esekíel 7:19) ‚Múgurinn mikli‘ sýndi hins vegar þá forsjálni að ‚safna sér fjársjóðum á himni‘ með því að setja andlegu málin á oddinn. Þetta fólk nýtur nú góðs af fyrirhyggjunni því að það fær eilíft líf í paradís á jörð. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 21:3, 4; Matteus 6:19, 20.
Hvernig getum við tryggt okkur þessa öruggu framtíð? Jesús svarar: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Milljónir manna hafa sótt þessa þekkingu í Biblíuna. Þeir búa við þokkalegan frið og öryggi núna og eiga sér unaðslega framtíðarvon. Eins og sálmaritarinn sagði ‚leggjast þeir í friði til hvíldar og sofna af því að Jehóva lætur þá búa óhulta í náðum.‘ — Sálmur 4:9.
Geturðu ímyndað þér einhverja aðra þekkingaruppsprettu sem getur aukið öryggi þitt að sama skapi og Biblían? Engin bók býr yfir sama myndugleika og Biblían og engin önnur bók getur vísað þér á öryggi í þeim áhættusama heimi sem við búum í. Væri ekki ráð að kynna sér hana betur?
[Rammagrein á blaðsíðu 6]
Bætt heilsa og öryggi — þökk sé Biblíunni
Ung kona er Jónína * hét notaði marijúana, tóbak, kókaín, amfetamín, LSD og önnur fíkniefni til að flýja veruleikann. Og hún drakk líka mikið. Hún segir að maðurinn sinn hafi ekki verið betur á vegi staddur. Framtíðin var ekki björt hjá þeim. Þá hitti Jónína votta Jehóva, fór að sækja samkomur þeirra og lesa tímaritin Varðturninn og Vaknið! Og hún sýndi manninum sínum þau. Þau fóru bæði að kynna sér Biblíuna með aðstoð vottanna. Þau kynntust þeim lífsreglum sem Jehóva setur fólki sínu og hættu að neyta ávana- og fíkniefna. „Við hófum nýtt líf sem hefur veitt okkur ólýsanlega gleði,“ skrifaði Jónína nokkrum árum síðar. „Ég er Jehóva þakklát fyrir að láta orð sitt hreinsa okkur og fyrir frelsið og heilbrigðið sem við njótum núna.“
Kristján sá um tölvukerfi fyrirtækis og er gott dæmi um gildi þess að vera heiðarlegur starfsmaður. Fyrirtækið, sem hann vann hjá, þurfti að kaupa nýjan tölvubúnað og vinnuveitandinn fól honum að semja um sanngjarnt verð. Kristján setti sig í samband við tölvusala og samdi um verð. En starfsmaður tölvusalans gerði þau mistök í skriflegu tilboði að gefa upp næstum þrem og hálfri milljón króna lægra verð en um hafði verið samið. Kristján hringdi til tölvusalans og lét vita af mistökunum. Framkvæmdastjórinn sagðist aldrei hafa orðið vitni að slíkum heiðarleika á 25 ára starfsferli sínum. Kristján sagði honum að samviska sín væri undir áhrifum Biblíunnar og það varð til þess að framkvæmdastjórinn pantaði handa samstarfsmönnum sínum 300 eintök af Vaknið! þar sem fjallað var um heiðarleika í viðskiptum. Og Kristjáni var umbunað fyrir heiðarleikann með stöðuhækkun.
[Neðanmáls]
^ gr. 30 Nöfnum er breytt.
[Mynd á blaðsíðu 7]
„Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ — JESAJA 48:17.