Að byggja upp andlega sterka fjölskyldu
Að byggja upp andlega sterka fjölskyldu
„Alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:4.
1. Hver var ætlun Guðs með mannkynið en hvernig fór?
„VERIÐ frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ (1. Mósebók 1:28) Með þessum orðum Jehóva Guðs til Adams og Evu varð fjölskyldufyrirkomulagið til. (Efesusbréfið 3:14, 15) Fyrstu hjónin gátu horft fram veginn og séð jörðina fyrir sér fyllta stórfjölskyldu sinni. Þau gátu séð fyrir sér hvernig fullkomnir afkomendur byggju saman í paradís, sameinaðir í tilbeiðslunni á skaparanum. En Adam og Eva syndguðu og jörðin fylltist ekki réttlátu, guðhræddu fólki. (Rómverjabréfið 5:12) Fjölskyldulífinu hrakaði og hatur, ofbeldi og ‚kærleiksleysi‘ hafa náð yfirhöndinni, einkum á „síðustu dögum.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 1. Mósebók 4:8, 23; 6:5, 11, 12.
2. Hvaða hæfileika höfðu afkomendur Adams en hvað þurfti til að byggja upp andlega sterka fjölskyldu?
2 Adam og Eva voru sköpuð í mynd Guðs. Þótt Adam syndgaði leyfði Jehóva Guð honum að eignast börn. (1. Mósebók 1:27; 5:1-4) Afkomendur Adams höfðu siðferðisvitund líkt og faðir þeirra og gátu lært að gera greinarmun á réttu og röngu. Hægt var að fræða þá um tilbeiðslu á skaparanum og mikilvægi þess að elska hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:30; Jóhannes 4:24; Jakobsbréfið 1:27) Og það var hægt að kenna þeim að „gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði.“ (Míka 6:8) En þar sem þeir voru syndugir þurftu þeir að leggja sig vel fram og læra til að byggja upp andlega sterka fjölskyldu.
Kaupið upp tíma
3. Hvernig geta foreldrar ‚keypt upp tíma‘ til að ala börnin upp í kristinni trú?
3 Við lifum á erfiðum tímum og lífið er flókið, þannig að það kostar mikið erfiði að kenna börnunum að ‚elska Jehóva‘ og „hata hið illa.“ (Sálmur 97:10) Vitrir foreldrar ‚kaupa upp tíma‘ til að gera þessu erfiða verkefni skil. (Efesusbréfið 5:15-17, NW) Hvernig er það hægt? Í fyrsta lagi með því að ákveða hvað eigi að ganga fyrir í lífinu, og setja á oddinn ‚þá hluti sem máli skipta,‘ þar á meðal kennslu og uppeldi barnanna. (Filippíbréfið 1:10, 11) Í öðru lagi með því að einfalda líf sitt. Nauðsynlegt getur verið að setja til hliðar ýmislegt sem ekki skiptir raunverulegu máli. Þú getur þurft að losa þig við óþarfar eigur sem kostar tíma að viðhalda. Kristnir foreldrar sjá aldrei eftir því erfiði sem það útheimtir að ala börnin upp í guðhræðslu. — Orðskviðirnir 29:15, 17.
4. Hvernig er hægt að varðveita einingu fjölskyldunnar?
4 Það er mikils virði að nota tíma með börnunum, einkum við andlegar iðkanir, og það er einhver besta leiðin til að varðveita einingu fjölskyldunnar. En láttu ekki kylfu ráða kasti heldur taktu frá ákveðinn tíma til að vera með þeim. Og þá er ekki átt við það eitt að vera undir sama þaki þar sem hver gerir það sem honum sýnist. Börnin dafna við daglega, persónulega athygli. Þið þurfið að ver ósínk á ást og umhyggju. Áður en hjón ákveða að eignast börn þurfa þau að hugleiða þessa ábyrgð alvarlega. (Lúkas 14:28) Þá líta þau ekki á barnauppeldið sem leiðinlega kvöð heldur ánægjuleg sérréttindi. — 1. Mósebók 33:5; Sálmur 127:3.
Kennið í orði og með fordæmi
5. (a) Á hverju þarf að byrja til að kenna börnunum að elska Jehóva? (b) Hvað er foreldrum ráðlagt í 5. Mósebók 6:5-7?
5 Til að kenna börnunum að elska Jehóva þarftu að elska hann sjálfur. Ef þú elskar Guð fylgirðu öllum fyrirmælum hans dyggilega. Ein fyrirmælin eru þau að ala börnin upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Guð ráðleggur foreldrum að vera börnunum góð fyrirmynd, skiptast á skoðunum við þau og kenna þeim. Fimmta Mósebók 6:5-7 segir: „Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Með tíðum hvatningum og endurtekningu geturðu innprentað börnunum boðorð Guðs. Þá skynja þau kærleika þinn til Jehóva og það stuðlar að því að þau þroska líka með sér náið samband við hann. — Orðskviðirnir 20:7.
6. Hvernig geta foreldrar nýtt sér það að börnin skulu læra það sem fyrir þeim er haft?
6 Börn eru námfús. Þau eru næm á orð þín og verk og fljót til að líkja eftir fordæmi þínu. Þegar þau sjá að þú ert ekki efnishyggjumaður er það hvatning fyrir þau til að fylgja leiðbeiningum Jesú. Þú kennir þeim að hafa ekki áhyggjur af efnislegum hlutum heldur ‚leita fyrst ríkis Guðs.‘ (Matteus 6:25-33) Með heilnæmum og uppbyggjandi samræðum um sannleika Biblíunnar, söfnuð Guðs og safnaðaröldungana kennirðu börnunum að virða Jehóva og meta andlegar ráðstafanir hans. Börnin eru glögg á það ef orð fara ekki saman við hegðun og viðhorf, svo að það er mikilvægt fyrir þig að sýna í verki hve mikils þú metur það sem andlegt er. Það er einkar ánægjulegt fyrir foreldra að sjá gott fordæmi sitt glæða með börnunum innilegan kærleika til Jehóva. — Orðskviðirnir 23:24, 25.
7, 8. Hvaða dæmi sýnir fram á gildi þess að kenna börnunum frá unga aldri, og hver á heiðurinn af hinum góða árangri?
7 Dæmi frá Venesúela sýnir vel fram á gildi þess að kenna börnunum vel allt frá unga aldri. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Hjónin Félix og Mayerlín eru brautryðjendur. Þegar þau eignuðust soninn Felito var þeim mikið í mun að ala hann upp sem tilbiðjanda Jehóva. Mayerlín fór að lesa fyrir hann úr Biblíusögubókinni minni sem gefin er út af vottum Jehóva. Felito virtist frá unga aldri þekkja Móse og fleiri persónur á myndum bókarinnar.
8 Felito var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að vitna upp á eigin spýtur. Hann varð fullgildur boðberi og lét síðar skírast. Seinna varð hann reglulegur brautryðjandi. „Við gerum okkur ljóst að framfarir sonar okkar eru Jehóva og leiðbeiningum hans að þakka,“ segja foreldrarnir.
Hjálpaðu börnunum að vaxa andlega
9. Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir andlegar leiðbeiningar hins trúa og hyggna þjónshóps?
9 Til eru ótal tímarit, hundruð bóka og þúsundir vefsetra á Netinu með ráðleggingum um barnauppeldi. „Oft stangast leiðbeiningarnar á,“ segir í sérútgáfu tímaritsins Newsweek um börn. „Og það er ákaflega miður þegar upplýsingar, sem maður hélt sig geta treyst, eru hreinlega rangar.“ Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að láta í té hafsjó leiðbeininga um andlegan vöxt fjölskyldunnar. Nýtirðu þér allt sem hann hefur látið hinn trúa og hyggna þjónshóp koma á framfæri? — Matteus 24:45-47.
10. Hvernig er gott fjölskyldunám gagnlegt bæði fyrir foreldrana og börnin?
10 Eitt, sem er afar mikilvægt, er stöðugt og reglulegt fjölskyldubiblíunám sem fram fer í þægilegu andrúmslofti. Nauðsynlegt er að undirbúa sig vel til að það sé fræðandi, hvetjandi og ánægjulegt. Með því að fá börnin til að opna sig geta foreldrarnir komist að raun um hvað býr í hugum þeirra og hjörtum. Ein leið til að kanna hvort fjölskyldunámið sé árangursríkt er sú að athuga hvort allir í fjölskyldunni hlakka til þess.
11. (a) Hvaða markmið geta foreldrar hjálpað börnunum að setja sér? (b) Hvaða árangri náði japönsk stúlka þegar hún setti sér markmið?
11 Biblíuleg markmið stuðla einnig að styrk fjölskyldunnar, og foreldrar ættu að hjálpa börnunum að setja sér slík markmið. Sem dæmi um viðeigandi markmið mætti nefna daglegan biblíulestur, það að verða reglulegur boðberi fagnaðarerindisins og stefna markvisst að vígslu og skírn. Einnig mætti nefna brautryðjandastarf, Betelstarf eða trúboðsstarf. Japanska stúlkan Ayumi einsetti sér í barnaskóla að vitna fyrir öllum í bekknum.
Hún fékk leyfi til að setja nokkur biblíutengd rit í bókasafn skólans til að vekja áhuga kennara og bekkjarsystkina sinna. Árangurinn varð 13 biblíunámskeið á þeim sex árum sem Ayumi var í barnaskóla. Einn af biblíunemendunum tók við sannleikanum og skírðist ásamt fleirum úr fjölskyldunni.12. Hvernig hafa börnin mest gagn af samkomunum?
12 Regluleg samkomusókn er einnig nauðsynleg til að fjölskyldan sé andlega heilbrigð. Páll postuli hvatti safnaðarmenn til að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar eins og sumra væri siður.‘ Við skulum ekki hafa þann sið að vanrækja samkomurnar því að þær eru mjög gagnlegar jafnt fyrir unga sem fullorðna. (Hebreabréfið 10:24, 25; 5. Mósebók 31:12) Foreldrar ættu að kenna börnunum að hlusta með athygli. Einnig er nauðsynlegt að búa sig undir samkomurnar því að við höfum mest gagn af þeim með því að taka þátt í þeim. Yngstu börnin geta byrjað að taka þátt í samkomunum með því að segja fáein orð eða lesa stutta setningu, en best er þó að kenna börnunum að leita að svörunum og endursegja þau með eigin orðum. Gefið þið foreldrarnir gott fordæmi með því að svara vel að staðaldri? Það er gott að allir í fjölskyldunni eigi hver sína biblíu, söngbók og eintak af því riti sem umræðurnar eru byggðar á.
13, 14. (a) Hvers vegna ættu foreldrar að fara með börnunum í boðunarstarfið? (b) Hvernig er hægt að gera boðunarstarfið gagnlegt og ánægjulegt fyrir börnin?
13 Vitrir foreldrar beina kröftum barnanna að því að þjóna Jehóva og hjálpa þeim Hebreabréfið 13:15) Aðeins með því að fara með börnunum út í boðunarstarfið geta foreldrarnir tryggt að þau fái nauðsynlega þjálfun til að þau ‚þurfi ekki að skammast sín og fari rétt með orð sannleikans.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Hvað um þig? Hjálparðu börnunum að búa sig undir boðunarstarfið ef þú ert foreldri? Ef þú gerir það hafa þau ánægju af boðunarstarfinu og sjá árangur af því.
að láta boðunarstarfið gegna stóru hlutverki í lífinu. (14 Af hverju er gott fyrir börn og foreldra að fara saman í boðunarstarfið? Þá sjá börnin gott fordæmi foreldranna og geta líkt eftir þeim. Og foreldrarnir taka eftir viðhorfum, framkomu og færni barnanna. Taktu þau með í hinar ýmsu greinar boðunarstarfsins. Láttu þau vera með eigin starfstösku ef mögulegt er og kenndu þeim að halda henni snyrtilegri og frambærilegri. Með stefnufastri kennslu og hvatningu læra þau að meta boðunarstarfið og líta á það sem leið til að sýna Guði og náunganum kærleika. — Matteus 22:37-39; 28:19, 20.
Haltu fjölskyldunni andlega sterkri
15. Hvað er meðal annars hægt að gera til að halda fjölskyldunni andlega sterkri?
15 Mikilvægt er að halda fjölskyldunni andlega sterkri. (Sálmur 119:93) Það má gera meðal annars með því að ræða saman um andleg mál hvenær sem tækifæri gefst. Farið þið yfir dagstextann með börnunum? Eruð þið vön að segja starfsfrásögur eða segja frá efni úr nýjasta Varðturninum eða Vaknið! þegar ‚þið eruð á ferðalagi‘? Munið þið eftir að þakka Jehóva í bænum ykkar fyrir hvern dag og allt sem hann hefur látið í té ‚þegar þið leggist til hvíldar og þegar þið farið á fætur‘? (5. Mósebók 6:6-9) Þegar börnin sjá kærleikann til Guðs endurspeglast í öllu sem þið gerið, þá hjálpar það þeim til að tileinka sér sannleikann.
16. Sýndu fram á gildi þess að hvetja börnin til að leita sjálf að upplýsingum.
16 Stundum þurfa börnin að fá leiðbeiningar um það hvernig þau geti ráðið fram úr vandamálum eða erfiðum aðstæðum. Í stað þess að segja þeim alltaf fyrir verkum væri gott að kenna þeim að leita sjálf að upplýsingum til að kynna sér afstöðu Guðs í málinu. Að kenna börnunum að nota þau rit og hjálpargögn, sem hinn ‚trúi þjónn‘ lætur í té, styrkir tengsl þeirra við Jehóva. (1. Samúelsbók 2:21) Og þau auðga fjölskylduna andlega þegar þau miðla öðrum af biblíurannsóknum sínum.
Reiðið ykkur á Jehóva
17. Af hverju ættu einstæðir foreldrar ekki að örvænta um það að þeim takist að ala börnin upp í sannleikanum?
17 Hvað um einstæða foreldra? Þeir eiga við ýmsar fleiri þrautir að glíma í sambandi við uppeldi barnanna. En missið ekki kjarkinn! Þið getið séð góðan árangur af erfiði ykkar eins og sannast af dæmi þeirra mörgu einstæðu foreldra sem hafa treyst Guði, hlýtt leiðbeiningum hans og komið andlega sterkum börnum til manns. (Orðskviðirnir 22:6) Einstæðir foreldrar í söfnuðinum þurfa auðvitað að reiða sig algerlega á Jehóva og treysta að hann hjálpi þeim. — Sálmur 121:1-3.
18. Hvaða þörfum barnanna þurfa foreldrar að sinna en á hvað ætti að leggja áherslu?
18 Vitrir foreldrar gera sér ljóst að ‚það hefur sinn tíma að hlæja og dansa.‘ (Prédikarinn 3:1, 4) Tómstundir og góð og heilnæm afþreying er nauðsynleg til að þroska huga og líkama barna. Uppbyggileg tónlist og lofsöngvar til Guðs hjálpa barninu að þroska með sér heilbrigt hugarfar sem getur átt drjúgan þátt í því að styrkja samband þess við hann. (Kólossubréfið 3:16) Æskan er líka tími til að þroska guðrækni fullorðinsáranna og búa sig undir að njóta tilverunnar að eilífu í paradís á jörð. — Galatabréfið 6:8.
19. Hvernig geta foreldrar treyst því að Jehóva blessi viðleitni þeirra til að ala börnin vel upp?
19 Jehóva vill að allar kristnar fjölskyldur séu andlega sterkar og sameinaðar. Ef við elskum Guð í alvöru og gerum okkar besta til að hlýða orði hans, þá blessar hann viðleitni okkar og veitir okkur þann styrk sem þarf til að fylgja innblásinni handleiðslu hans. (Jesaja 48:17; Filippíbréfið 4:13) Mundu að þú færð aðeins eitt tækifæri og takmarkaðan tíma til að kenna börnunum og ala þau upp. Gerðu þitt besta og farðu eftir ráðleggingum Biblíunnar. Þá mun Jehóva blessa viðleitni þína til að byggja upp andlega sterka fjölskyldu.
Hvað lærðum við?
• Af hverju er afar mikilvægt að kaupa upp tíma til að ala börnin upp?
• Hvers vegna er nauðsynlegt að foreldrarnir setji börnunum gott fordæmi?
• Nefndu nokkrar leiðir til að örva andlegan vöxt barnanna.
• Hvernig er hægt að halda fjölskyldunni andlega sterkri?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 30, 31]
Andlega sterkar fjölskyldur nema orð Guðs reglulega, sækja kristnar samkomur og taka sameiginlega þátt í boðunarstarfinu.