Hvað getur sameinað fólk um allan heim?
Hvað getur sameinað fólk um allan heim?
HVERJU sem þú trúir ertu líklega sammála því að það hljóti að vera til sannleikselskandi fólk í flest öllum trúarbrögðum. Meðal hindúa, kaþólikka, gyðinga og annarra er að finna fólk sem metur sannleikann mjög mikils og er tilbúið til að leita hans. En trúarbrögð virðast samt sundra mannkyninu. Sumir nota trúna jafnvel til illra verka. Verður nokkurn tíma hægt að sameina einlægt og sannleikselskandi fólk af öllum trúarbrögðum? Getur það tekið höndum saman um ákveðið markmið eða stefnu?
Það er sorglegt að sjá að trúarbrögð stuðla í auknum mæli að sundrungu. Lítum á nokkur dæmi. Hindúar og búddhatrúarmenn berjast á Srí Lanka. Mótmælendur, kaþólikkar og gyðingar hafa úthellt blóði í fjölmörgum átökum. „Kristnir menn“ og múslímar berjast í Bosníu, Indónesíu, Kosovo og Tsjetsjeníu. Og í mars árið 2000 létust 300 Nígeríubúar á tveim dögum í trúarerjum. Trúarhatur hefur svo sannarlega kynt undir grimmdina í þessum átökum.
Einlægu fólki verður oft hverft við þegar það sér þau illskuverk sem framin eru í nafni trúarinnar. Margir kirkjugestir eru til dæmis hneykslaðir á því að sumar kirkjur skuli umbera klerka sem misnotað hafa börn kynferðislega. Öðrum þykir skammarlegt að hinir svonefndu kristnu sértrúarflokkar skuli vera sundraðir í afstöðunni til samkynhneigðar og fóstureyðinga. Trúarbrögð hafa augljóslega ekki sameinað mannkyn. En eins og eftirfarandi dæmi sýna er samt að finna einlægt og sannleikselskandi fólk í mörgum trúarbrögðum.
Þau þráðu að heyra sannleikann
Fidelia tilheyrði kaþólskri kirkjudeild í La Pas í Bólivíu og var einlæg og sannfærð í trúnni. Hún tilbað Maríulíkneski og setti bestu kerti sem hún gat keypt fram fyrir róðukrossinn. Í hverri viku lét hún prestinn fá mikið af mat til að gefa fátækum. En fimm af börnum Fideliu dóu áður en hægt var að skíra þau. Þegar presturinn sagði henni að þau þjáðust öll í dimmum forgarði vítis skildi hún ekki hvernig það gat verið fyrst Guð er kærleiksríkur.
Tara er læknir og var alin upp sem hindúi í Katmandú í Nepal. Hún fylgdi aldagömlum siðum forfeðranna og tilbað guði sína í musterum hindúa og hafði líkneski á heimili sínu. En hún stóð ráðþrota frammi fyrir spurningum eins og þessum: Af hverju þjást svona margir? Og af hverju deyr fólk? Trúin veitti henni ekki fullnægjandi svör.
Panya var hins vegar alin upp sem búddhatrúarmaður í Bangkok í Taílandi. Honum var kennt að þjáningar væru afleiðingar verka sem framin hefðu verið í fyrri lífum og að hægt væri að fá lausn undan þjáningum með því að losa sig við allar
fýsnir. Líkt og öðrum einlægum búddhatrúarmönnum var honum kennt að bera djúpa virðingu fyrir visku munkanna í gulu skikkjunum sem komu heim til hans á hverjum morgni og báðu um ölmusugjafir. Hann stundaði hugleiðslu og safnaði búddhalíkneskjum í þeirri trú að þau veittu honum vernd. Eftir að hann lamaðist fyrir neðan mitti í alvarlegu slysi heimsótti hann munkaklaustrin í einlægri von um yfirnáttúrulegan bata. En hann fékk hvorki bata né andlega upplýsingu en kynntist þess í stað spíritisma og fór að stunda hann.Virgil fæddist í Bandaríkjunum og í framhaldsskóla gekk hann til liðs við hreyfingu blökkumanna sem játa múhameðstrú. Hann útbreiddi rit hreyfingarinnar af kappi og í þeim kom fram að hvíti maðurinn væri djöfullinn. Það var talin ástæðan fyrir því að hvítir menn frömdu svona mörg grimmdarverk gegn svörtum. Þó að Virgil hafi verið sannfærður í sinni trú skildi hann ekki hvernig allir hvítir menn gætu verið vondir eða af hverju prédikunin snerist alltaf svona mikið um peninga.
Charo var einlægur mótmælandi þó að hún hafi alist upp í Suður-Ameríku þar sem flestir eru kaþólikkar. Hún var fegin að vera laus við alla skurðgoðadýrkunina umhverfis sig. Charo naut þess að fara í kirkju á hverjum sunnudegi og hlusta á kraftmikla messu þar sem hún hrópaði „hallelúja“ og tók þátt í trúarlegum söng og dansi sem kom í kjölfarið. Hún trúði því einlæglega að hún væri frelsuð og endurfædd. Hún borgaði kirkjunni tíund og þegar uppáhaldssjónvarpsprédikari hennar bað um framlög þá sendi hún honum peninga handa börnum í Afríku. En þegar hún spurði prestinn af hverju kærleiksríkur Guð kvelji sálir í helvíti sá hún að hann hafði engin almennileg svör. Seinna komst hún líka að því að framlög hennar voru ekki notuð til að hjálpa börnum í Afríku.
Þó að þessar fimm manneskjur hafi átt ólíkan bakgrunn áttu þær eitt sameiginlegt. Þær elskuðu sannleikann og leituðu einlæglega að svörum við spurningum sínum. En var hægt að sameina þetta fólk í sannri tilbeiðslu? Um það verður rætt í næstu grein.
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
G.P.O., Jerúsalem
[Mynd á blaðsíðu 4]
Getur fólk af ólíkum uppruna sameinast?