Getur þú bætt heiminn?
Getur þú bætt heiminn?
„Stjórnmálin geta ekki styrkt innviði þjóðfélagsins. Þau eru ófær um að endurlífga hefðbundið siðgæði. Bestu stjórnarstefnur geta ekki endurkallað fyrri gildi um tilhugalíf og hjónaband, gert feður ábyrga fyrir börnum sínum, endurvakið þá hneykslun eða blygðun sem áður var . . . Löggjöf getur í langfæstum tilfellum upprætt hin siðferðilegu vandamál sem hrjá okkur.“
SVO mælti fyrrverandi aðstoðarmaður bandarísku stjórnarinnar. Finnst þér hægt að taka undir orð hans? Ef svo er, hver er þá lausnin á hinum mörgu vandamálum sem stafa af ágirnd, ástleysi í fjölskyldunni, lausung í siðferðismálum, fáfræði og öðrum öflum sem eru að eyðileggja innviði þjóðfélagsins? Sumir telja vandann óleysanlegan og lifa því lífinu sem best þeir geta. Aðrir vonast til þess að einn góðan veðurdag komi fram snjall leiðtogi, jafnvel trúarleiðtogi, sem geti hrifið fjöldann og vísað fólki réttan veg.
Fyrir tvö þúsund árum vildu menn gera Jesú Krist að konungi, kannski vegna þess að þeir áttuðu sig á því að hann var sendur af Guði og hafði til að bera þá mannkosti sem einkenna góðan stjórnanda. En Jesús fór þegar í stað af vettvangi þegar hann varð þess áskynja hvað menn ætluðust fyrir. (Jóhannes 6:14, 15) Hann sagði rómverskum landstjóra síðar að ‚ríki sitt væri ekki af þessum heimi.‘ (Jóhannes 18:36) En fáir taka sömu afstöðu og Jesús — jafnvel trúarleiðtogar sem segjast þó fylgja honum. Sumir þeirra hafa reynt að bæta heiminn, annaðhvort með því að hafa áhrif á veraldlega valdhafa eða með því að koma sjálfum sér í pólitísk embætti. Um það eru allmörg dæmi frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
Trúarleiðtogar reyna að bæta heiminn
Síðla á sjöunda áratugnum hófu guðfræðingar í Rómönsku Ameríku baráttu fyrir málstað fátækra og undirokaðra. Þeir settu fram svokallaða frelsunarguðfræði en þar var Kristur túlkaður sem pólitískur og efnahagslegur frelsari, ekki aðeins trúarlegur. Allmargir kirkjuleiðtogar í Bandaríkjunum vildu vinna gegn hnignandi siðferðisgildum og stofnuðu samtök sem þeir kölluðu Siðprúða meirihlutann (Moral Majority). Markmið þeirra var það að koma því fólki í pólitísk embætti sem gæti beitt sér fyrir heilbrigðum fjölskyldugildum með lagasetningu. Og í mörgum löndum múslíma hafa hópar reynt að draga úr spillingu og óhófi með því að hvetja til meiri fylgni við Kóraninn.
Finnst þér þessar tilraunir manna hafa bætt heiminn? Staðreyndir sýna að siðferði er á stöðugri niðurleið á heildina litið og bilið milli ríkra og fátækra breikkar, einnig í þeim löndum þar sem frelsunarguðfræðin var útbreidd.
Jerry Falwell, stofnandi Siðprúða meirihlutans, leysti samtökin upp árið 1989 þegar ljóst
var að þeim hafði ekki tekist að ná fram helstu markmiðum sínum í Bandaríkjunum. Önnur samtök hafa tekið við. En Paul Weyrich, höfundur hugtaksins „siðprúði meirihlutinn,“ skrifaði í tímaritinu Christianity Today: „Jafnvel þegar við sigrum í kosningum tekst okkur ekki að ná fram þeim stefnumálum sem við teljum mikilvæg.“ Hann bætti við að „menningin líkist æ meir opnu skólpræsi. Við horfum upp á ógnvekjandi, menningarlegt gjaldþrot sem er svo stórt í sniðum að stjórnmálin fá ekki rönd við reist.“Dálkahöfundurinn og rithöfundurinn Cal Thomas bendir á grundvallarveilu sem hann telur vera í þeirri hugsun að beita stjórnmálunum til að bæta þjóðfélagið: „Raunverulegar breytingar eiga sér stað í hjörtum einstakra manna en ekki í kosningum, vegna þess að helstu vandamál okkar eru ekki efnahagsleg eða pólitísk heldur siðferðileg og andleg.“
En hvernig er hægt að leysa siðferðileg og andleg vandamál í heimi sem hefur engin algild viðmið, heimi þar sem fólk ákveður sjálft hvað sé rétt og rangt? Hver getur breytt heiminum til hins betra ef velviljað fólk — trúarlega sinnað eða ekki — er ófært um það? Það er til svar við þessari spurningu eins og fram kemur í greininni á eftir, og það er meginástæðan fyrir því að Jesús sagði að ríki sitt væri ekki af þessum heimi.
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
Börn: UN photo; jörðin: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.