Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs?

Hver getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs?

Hver getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs?

„Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:19.

1, 2. (a) Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að vita að við erum elskuð? (b) Hvaða kærleikur er verðmætastur fyrir okkur?

VITNESKJAN um að maður sé elskaður er ákaflega mikils virði. Fólk þrífst á kærleika allt frá vöggu til grafar. Hefurðu séð ungbarn hvíla ánægt og rólegt í faðmi móður sinnar? Hún brosir ástúðlega til barnsins og það starir í augu hennar og virðist hvorki heyra né sjá umheiminn. Eða manstu hvernig þér leið stundum á ólguskeiði unglingsáranna? (1. Þessaloníkubréf 2:7) Stundum vissirðu ekki einu sinni hvað þú vildir eða hvernig þér leið en eitt var öruggt — þú vissir að foreldrar þínir elskuðu þig. Var ekki verðmætt fyrir þig að vita að þú gast leitað til þeirra með hvaða vandamál eða spurningu sem var? Fátt er mikilvægara fyrir okkur á lífsleiðinni en vissan um það að einhver elski okkur, því að kærleikurinn staðfestir að við séum einhvers virði.

2 Hinn tryggi kærleikur foreldranna á vissulega drjúgan þátt í því að börnin dafni vel og þroskist andlega. En vissan um að Jehóva, faðirinn á himnum, elski okkur er enn þýðingarmeiri fyrir andlega velferð okkar og vellíðan. Sumir lesendur þessa tímarits fóru ef til vill á mis við móður- og föðurást á uppvaxtarárunum. Ef þú ert einn þeirra skaltu herða upp hugann því að tryggur kærleikur Guðs kemur til bjargar, þó svo að kærleika foreldranna hafi verið áfátt eða hann vantað.

3. Hvernig fullvissar Jehóva fólk sitt um að hann elski það?

3 Fyrir munn spámannsins Jesaja benti Jehóva á að móðir gæti „gleymt“ brjóstbarni sínu en að hann gleymdi aldrei fólki sínu. (Jesaja 49:15) Davíð tók í sama streng og sagði með trúartrausti: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Þetta er einkar traustvekjandi. Ef þú hefur vígt líf þitt Jehóva Guði ættirðu alltaf að hafa hugfast, óháð öðrum aðstæðum, að kærleikur hans er miklu sterkari en kærleikur manna.

‚Varðveittu þig í kærleika Guðs‘

4. Hvernig voru kristnir menn á fyrstu öld fullvissaðir um kærleika Guðs?

4 Hvenær kynntist þú kærleika Jehóva fyrst? Líklega varst þú svipað settur og kristnir menn á fyrstu öld. Fimmti kafli Rómverjabréfsins lýsir því mjög fallega hvernig syndarar, sem voru eitt sinn fjarlægir Jehóva Guði, kynntust kærleika hans. Við lesum í 5. versi: „Kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.“ Síðan er haldið áfram í 8. versi: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“

5. Hvernig áttaðir þú þig á kærleika Guðs og hvernig snart hann þig?

5 Heilagur andi Jehóva tók sömuleiðis að starfa í hjarta þér þegar þú kynntist sannleika Biblíunnar og fórst að iðka trú. Þá rann upp fyrir þér hve mikið Jehóva gerði með því að senda son sinn til að deyja fyrir þig. Þannig vakti hann þig til vitundar um það hve heitt hann elskar mannkynið. Varstu ekki djúpt snortinn og þakklátur þegar þú áttaðir þig á því að þótt þú værir fæddur syndari og fjarlægur Jehóva hefði hann opnað leið fyrir synduga menn til að réttlætast með eilíft líf í vændum? Fannstu ekki fyrir kærleika til hans? — Rómverjabréfið 5:10.

6. Hvers vegna gæti okkur fundist við vera fjarlæg Jehóva?

6 Þú laðaðist að kærleika Guðs og lagaðir þig að kröfum hans, og síðan vígðirðu honum líf þitt. Nú áttu frið við hann. En finnst þér Jehóva stundum vera fjarlægur? Það getur hent okkur öll. Hafðu samt alltaf hugfast að Guð breytist ekki. Kærleikur hans er stöðugur og staðfastur eins og sólin sem hættir aldrei að senda hlýja geisla sína til jarðar. (Malakí 3:6; Jakobsbréfið 1:17) Við getum hins vegar breyst — þó ekki sé nema um stund. Jörðin snýst um möndul sinn og er alltaf hjúpuð myrkri að hálfu. Eins er það með okkur að ef við snúum baki við Guði, þó ekki sé nema að takmörkuðu leyti, getum við fundið sambandið kólna. Hvað er hægt að gera til að bæta úr því?

7. Hvernig getur sjálfsrannsókn hjálpað okkur að varðveita kærleika Guðs?

7 Ef við skynjum einhvern viðskilnað við kærleika Guðs ættum við að spyrja okkur: ‚Hef ég litið á kærleika Guðs sem sjálfsagðan hlut? Hef ég smám saman fjarlægst hinn lifandi og ástríka Guð og hefur trú mín veiklast á einhvern hátt? Hef ég snúið huganum að „holdinu“ í stað „andans“?‘ (Rómverjabréfið 8:5-8; Hebreabréfið 3:12) Ef við höfum fjarlægst Jehóva getum við bætt úr því og endurheimt hið hlýja samband við hann. Jakob hvetur okkur til að ‚nálægja okkur Guði og þá muni hann nálgast okkur.‘ (Jakobsbréfið 4:8) Hlýddu hvatningu Júdasar: „Þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs.“ — Júdasarbréfið 20, 21.

Breyttar aðstæður breyta ekki kærleika Guðs

8. Hvaða breytingar geta skyndilega skollið á?

8 Lífið er undirorpið alls konar breytingum í þessu heimskerfi. Salómon konungur benti á að ‚tími og tilviljun mæti öllum.‘ (Prédikarinn 9:11) Líf okkar getur gerbreyst á einni nóttu. Við erum stálslegin einn daginn en alvarlega veik þann næsta. Við virðumst hafa örugga vinnu einn daginn en erum atvinnulaus þann næsta. Ástvinur getur dáið fyrirvaralaust. Einn daginn búa kristnir menn í einhverju landi við frið en næsta dag brjótast út grimmilegar ofsóknir. Kannski sætum við röngum ákærum og megum þola órétt fyrir. Lífið er hvergi nærri kyrrsælt né öruggt. — Jakobsbréfið 4:13-15.

9. Hvers vegna er ráðlegt að skoða og íhuga hluta af 8. kafla Rómverjabréfsins?

9 Okkur gæti fundist við yfirgefin þegar dapurlegir atburðir eiga sér stað, og við gætum jafnvel ímyndað okkur að kærleikur Guðs til okkar hafi dvínað. Þar sem við erum öll undirorpin þess konar atburðum er rétt að hugleiða vandlega mjög svo hughreystandi orð Páls postula í 8. kafla Rómverjabréfsins. Hann talar þar til andasmurðra kristinna manna en í meginatriðum eiga orð hans einnig við hina aðra sauði sem eru lýstir réttlátir sem vinir Guðs líkt og Abraham var löngu fyrir tíma kristninnar. — Rómverjabréfið 4:20-22; Jakobsbréfið 2:21-23.

10, 11. (a) Hvaða sakir bera óvinir stundum upp á fólk Guðs? (b) Af hverju skipta þær kristna menn ekki máli?

10 Lestu Rómverjabréfið 8:31-34. Páll spyr: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ Vissulega eru Satan og illur heimur hans á móti okkur. Óvinir geta borið á okkar rangar sakir, jafnvel fyrir dómstólum. Kristnir foreldrar hafa verið sakaðir um að hata börnin sín af því að þeir leyfðu ekki að þau gengjust undir læknismeðferð sem brýtur í bága við lög Guðs eða að þau tækju þátt í heiðnum hátíðum. (Postulasagan 15:28, 29; 2. Korintubréf 6:14-16) Aðrir trúfastir kristnir menn hafa ranglega verið sakaðir um uppreisnaráróður af því að þeir vildu ekki drepa aðra menn í stríði eða taka þátt í stjórnmálum. (Jóhannes 17:16) Andstæðingar hafa útbreitt ærumeiðandi lygar í fjölmiðlum og jafnvel stimplað Votta Jehóva ranglega sem hættulega sértrúarreglu.

11 En gleymum ekki að sagt var á dögum postulanna: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Skipta þessar röngu ásakanir einhverju máli þegar allt kemur til alls? Það er Guð sem lýsir sannkristna menn réttláta vegna trúar þeirra á fórn Krists. Varla hættir hann að elska dýrkendur sína eftir að hafa gefið þeim dýrmætustu gjöf sem hann gat — elskaðan son sinn? (1. Jóhannesarbréf 4:10) Nú hefur Kristur verið reistur upp frá dauðum og er sestur við hægri hönd Guðs, og þar talar hann máli kristinna manna. Hver getur með réttu hrakið vörn Krists fyrir hönd fylgjenda hans eða véfengt hagstæðan dóm Guðs yfir trúföstum þjónum sínum? Enginn! — Jesaja 50:8, 9; Hebreabréfið 4:15, 16.

12, 13. (a) Hvað getur ekki gert okkur viðskila við kærleika Guðs? (b) Hvert er markmið djöfulsins með þeim þrengingum sem hann leiðir yfir okkur? (c) Af hverju ganga kristnir menn með sigur af hólmi?

12 Lestu Rómverjabréfið 8:35-37. Getur nokkur annar eða nokkuð annað en við sjálf gert okkur viðskila við kærleika Jehóva og sonar hans, Jesú Krists? Satan getur látið fulltrúa sína á jörð gera kristnum mönnum margt til miska. Mörg trúsystkini okkar hafa verið ofsótt grimmilega víða um lönd alla síðastliðna öld. Sums staðar eru bræður okkar í daglegum fjárkröggum. Sumir þola hungurkvalir og eru klæðlitlir. Hvað gengur djöflinum til með því að valda þessu harðrétti? Markmiðið er að minnsta kosti að hluta til það að letja menn þess að tilbiðja Jehóva. Satan vill telja okkur trú um að kærleikur Guðs hafi kólnað. En er það svo?

13 Við höfum kynnt okkur ritað orð Guðs vandlega líkt og Páll sem vitnaði í Sálm 44:23. Við skiljum að það er vegna nafns Guðs sem við, sauðir hans, verðum fyrir þessu og að það tengist því að nafn hans sé helgað og drottinvald hans yfir alheimi réttlætt. Guð er ekki hættur að elska okkur en hann leyfir prófraunir sökum þessara stóru mála. Við megum treysta því að kærleikur Guðs til þjóna sinna, þar á meðal okkar, er óbreyttur, hversu erfitt sem við eigum. Þótt við virðumst lúta í lægra haldi göngum við með sigur af hólmi ef við erum ráðvönd, styrkt af loforðinu um órjúfanlegan kærleika Guðs.

14. Hvers vegna var Páll sannfærður um kærleika Guðs þrátt fyrir þær þrengingar sem kristnir menn geta orðið fyrir?

14 Lestu Rómverjabréfið 8:38, 39. Hvað sannfærði Pál um að ekkert gæti gert kristna menn viðskila við kærleika Guðs? Eflaust hefur persónuleg reynsla Páls í þjónustunni styrkt þá sannfæringu hans að erfiðleikar gætu engu breytt um kærleika Guðs til okkar. (2. Korintubréf 11:23-27; Filippíbréfið 4:13) Og Páll vissi um eilífan tilgang Jehóva og fyrri samskipti hans við fólk sitt. Getur dauðinn sigrað kærleika Guðs til þeirra sem hafa þjónað honum dyggilega? Engan veginn. Trúfastir menn lifa í fullkomnu minni Guðs þótt þeir deyi, og hann mun reisa þá upp í fyllingu tímans. — Lúkas 20:37, 38; 1. Korintubréf 15:22-26.

15, 16. Nefndu sumt sem getur aldrei fengið Guð til að hætta að elska trúa þjóna sína.

15 Ekkert ólán getur spillt kærleika Guðs til þjóna sinna, hvorki alvarlegt slys, banvænn sjúkdómur né fjárhagslegt áfall. Voldugir englar, eins og sá sem óhlýðnaðist og gerðist Satan, geta ekki komið í veg fyrir að Jehóva elski dygga þjóna sína. (Jobsbók 2:3) Ríkisstjórnir geta bannað þjóna Guðs, misþyrmt þeim, fangelsað þá og lýst þá óæskilega borgara. (1. Korintubréf 4:13) Þetta óréttmæta hatur þjóðanna getur gert menn andsnúna okkur en það getur ekki fengið alvald alheimsins til að snúa baki við okkur.

16 Kristnir menn þurfa ekki að óttast að „hið yfirstandandi“ sem Páll kallaði svo, það er að segja atburðir, ástand eða aðstæður í þessum heimi, né „hið ókomna“ í framtíðinni geti breytt kærleika Guðs til þjóna sinna. Tryggur kærleikur hans heldur okkur uppi þó að jarðnesk og himnesk öfl berjist gegn okkur. Hvorki „hæð né dýpt“ tálmar kærleika Guðs eins og Páll lagði áherslu á. Ekkert getur dregið okkur svo niður né virst svo yfirþyrmandi að við verðum viðskila við kærleika Guðs. Ekkert í sköpuninni getur rofið samband skaparans við trúa þjóna sína. Kærleikur hans bregst aldrei; hann er eilífur. — 1. Korintubréf 13:8.

Varðveittu ástúð Guðs að eilífu

17. (a) Af hverju er kærleikur Guðs „mætari en lífið“? (b) Hvernig sýnum við að við metum ástúðlega umhyggju Guðs mikils?

17 Hve mikils virði er kærleikur Guðs fyrir þig? Er þér innanbrjósts eins og Davíð sem skrifaði: „Miskunn [„ástúðleg umhyggja,“ NW] þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig. Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.“ (Sálmur 63:4, 5) Býður þessi heimur upp á nokkuð betra í lífinu en kærleika Guðs og dygga vináttu? Er gróðavænlegur starfsframi til dæmis betri en hugarró og hamingja sem sprottin er af nánu sambandi við Guð? (Lúkas 12:15) Sumir þjónar Jehóva hafa staðið frammi fyrir þeim afarkostum að hafna honum eða láta lífið ella. Þetta var hlutskipti margra votta Jehóva í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Með sárafáum undantekningum völdu bræður okkar að varðveita kærleika Guðs og taka dauða sínum ef svo færi. Þeir sem varðveita sig í kærleika hans geta treyst því að hann veiti þeim eilíft líf, en það getur heimurinn aldrei gert. (Markús 8:34-36) En það er meira í húfi en eilíft líf.

18. Af hverju er eilíft líf eftirsóknarvert?

18 Það er auðvitað ekki hægt að lifa að eilífu án Jehóva, en reyndu samt að ímynda þér hvernig það væri að lifa afar lengi án hans. Það yrði innantómt og tilgagnslítið. Jehóva hefur falið fólki sínu ánægjulegt verk að vinna á síðustu dögum. Við getum því treyst að eilífa lífið, sem hann lætur í té, verði uppfullt af hrífandi og verðugum verkefnum og lærdómi. (Prédikarinn 3:11) Hversu margt sem við lærum á árþúsundum framtíðarinnar getum við aldrei skilið „djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs“ til fullnustu. — Rómverjabréfið 11:33.

Faðirinn elskar þig

19. Hvernig hughreysti Jesús Kristur lærisveinana að skilnaði?

19 Hinn 14. nísan árið 33, síðasta kvöldið sem Jesús var með 11 trúföstum postulum sínum, sagði hann margt til að styrkja þá fyrir það sem framundan var. Allir höfðu þeir verið stöðugir með honum í prófraunum hans og höfðu fundið fyrir kærleika hans til þeirra. (Lúkas 22:28, 30; Jóhannes 1:16; 13:1) Þá sagði hann þeim: „Sjálfur elskar faðirinn yður.“ (Jóhannes 16:27) Þessi orð hljóta að hafa leitt lærisveinum hans fyrir sjónir hve vænt föðurnum á himnum þótti um þá.

20. Hvað ætlarðu að gera og hverju geturðu treyst?

20 Margir núlifandi menn hafa þjónað Jehóva trúfastir um áratuga skeið. Eflaust verða ýmsar fleiri þrengingar á vegi okkar áður en þetta illa heimskerfi tekur enda. Láttu slíkar þrengingar eða erfiðleika aldrei vekja með þér efasemdir um tryggð og kærleika Guðs. Það er varla hægt að ítreka nógsamlega að Jehóva elskar þig. (Jakobsbréfið 5:11) Höldum því öll áfram að hlýða boðum hans dyggilega eins og okkur ber. (Jóhannes 15:8-10) Notum hvert tækifæri til að lofa nafn hans. Verum einbeitt í því að nálægja okkur Jehóva í bæn og nema orð hans. Ef við gerum okkar ýtrasta til að þóknast honum njótum við friðar, hvað sem morgundagurinn ber í skauti sér, því að við vitum að kærleikur hans bregst aldrei.

Hvert er svarið?

• Á kærleika hvers þurfum við að halda til að varðveita andlegt og tilfinningalegt jafnvægi?

• Hvað getur aldrei valdið því að Jehóva hætti að elska þjóna sína?

• Hvers vegna er kærleikur Jehóva „mætari en lífið“?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Ef okkur finnst við verða viðskila við kærleika Guðs getum við bætt úr því.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Páll skildi hvers vegna hann var ofsóttur.