Óttastu Jehóva og haltu hans boðorð
Óttastu Jehóva og haltu hans boðorð
„Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — PRÉDIKARINN 12:13.
1, 2. (a) Hvernig getur ótti verndað okkur fyrir tjóni á líkama og heilsu? (b) Hvers vegna leitast skynsamir foreldrar við að vekja hjá börnum sínum heilnæman ótta?
„HUGREKKI er lífinu hættulegt en óttinn því til verndar,“ er haft eftir Leonardo da Vinci. Mannalæti eða fífldirfska blindar menn fyrir hættum en óttinn minnir þá aftur á móti á að fara varlega. Ef við til dæmis komum út á bjargbrún og sjáum hve langt niður við gætum fallið hörfa flest okkar ósjálfrátt aftur á bak. Á sambærilegan hátt stuðlar heilnæmur ótti ekki aðeins að góðu sambandi við Guð, eins og við sáum í greininni hér að framan, heldur minnkar hann líka líkurnar á að við verðum fyrir meiðslum.
2 Menn þurfa hins vegar að læra að óttast margar þær hættur sem fylgja nútímalífsháttum. Lítil börn geta auðveldlega lent í alvarlegu slysi af því að þau þekkja ekki hætturnar sem stafa af rafmagni eða borgarumferð. * Skynsamir foreldrar reyna að vekja hjá börnum sínum heilnæman ótta með því að vara þau stöðugt við hættunum í kringum þau. Foreldrar vita að þessi ótti getur hæglega bjargað lífi barnanna.
3. Hvers vegna og hvernig varar Jehóva okkur við andlegum hættum?
3 Jehóva er á sama hátt annt um velferð okkar. Hann er kærleiksríkur faðir og notar orð sitt og skipulag til að kenna okkur að gera það sem okkur er gagnlegt. (Jesaja 48:17) Þessi kennsla frá Guði felst að hluta til í því að vara okkur „stöðugt“ við andlegum tálgryfjum til þess að við lærum smám saman að óttast slíkar hættur. (2. Kroníkubók 36:15; 2. Pétursbréf 3:1) Frá upphafi mannkynssögunnar til okkar daga hefði mátt forðast margar andlegar hörmungar og afstýra miklum þjáningum ‚hefði fólk aðeins glætt hjá sér slíkt hugarfar að það hefði óttast Guð og varðveitt skipanir hans.‘ (5. Mósebók 5:29) Hvernig getum við á þessum ‚örðugu tíðum‘ vitað hvernig við getum glætt hjá okkur slíkt hugarfar að við óttumst Guð og höldum okkur frá andlegum hættum? — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
Forðumst hið illa
4. (a) Hvaða hatur ættu kristnir menn að rækta með sér? (b) Hvað finnst Jehóva um synduga hegðun? (Sjá neðanmálsgreinina.)
4 „Að óttast [Jehóva] er að hata hið illa,“ segir Biblían skýrt og skorinort. (Orðskviðirnir 8:13) Biblíuorðabók lýsir þessu hatri sem „tilfinningabundinni afstöðu til persónu eða hlutar sem maður er á móti, hefur ógeð á, fyrirlítur og vill ekki hafa neitt samband við eða snerta á nokkurn hátt.“ Guðsótti felur þess vegna í sér að finna hið innra fyrir óbeit eða viðbjóði á öllu því sem er illt í augum Jehóva. * (Sálmur 97:10) Hann knýr okkur til að snúa okkur frá hinu illa rétt eins og við myndum hörfa frá bjargbrún þegar óttinn, sem okkur er meðfæddur, hringir hjá okkur bjöllu. „Fyrir ótta [Jehóva] forðast menn hið illa,“ segir Biblían. — Orðskviðirnir 16:6.
5. (a) Hvernig getum við eflt guðsótta okkar og hatur á hinu illa? (b) Hvað kennir saga Ísraelsþjóðarinnar okkur í þeim efnum?
5 Við getum eflt þennan heilnæma ótta og hatur á hinu illa með því að hugleiða þær skaðlegu afleiðingar sem syndin hefur óhjákvæmilega í för með sér. Biblían fullvissar okkur um að við uppskerum það sem við sáum — hvort sem við sáum í holdið eða í andann. (Galatabréfið 6:7, 8) Það er ástæðan fyrir því að Jehóva lýsti á ljóslifandi hátt óumflýjanlegum afleiðingum þess að hafa að engu boð hans og hverfa frá sannri tilbeiðslu. Án verndar Guðs hefði hin litla og berskjaldaða Ísraelsþjóð orðið algerlega upp á náð og miskunn grimmra og öflugra nágranna komin. (5. Mósebók 28:15, 45-48) Sorglegar afleiðingar af óhlýðni Ísraels voru nákvæmlega skráðar í Biblíunni okkur „til viðvörunar“ til þess að við gætum lært þessa lexíu og ræktað með okkur ótta við Guð. — 1. Korintubréf 10:11.
6. Nefndu nokkur dæmi úr Ritningunni sem við getum hugleitt til að læra enn betur að óttast Guð. (Sjá neðanmálsgrein.)
6 Auk þess að segja frá því sem kom fyrir Ísrael sem heild greinir Biblían frá reynslu einstaklinga sem létu afbrýðisemi, siðleysi, græðgi eða hroka ná tökum á sér. * Sumir þessara manna höfðu þjónað Jehóva árum saman, en á úrslitastundu í lífi þeirra reyndist guðsótti þeirra ekki nægilega sterkur og þeir uppskáru beiskan ávöxt. Ef við hugleiðum vandlega slík dæmi í Ritningunni getur það gert okkur enn einbeittari í því að verða ekki á sams konar mistök. Væri ekki sorglegt að bíða með að taka til sín ráðleggingar Guðs uns við lendum sjálf í ógæfu? Gagnstætt því sem almennt er álitið er reynslan — sér í lagi reynslan af undanlátssemi við sjálfan sig — ekki besti skólinn. — Sálmur 19:8.
7. Hverjum býður Jehóva inn í óeiginlegt tjald sitt?
7 Önnur öflug ástæða fyrir því að rækta með sér guðsótta er löngunin til að varðveita samband sitt við Guð. Við óttumst það að gera Jehóva á móti skapi vegna þess að við metum mikils vináttu hans. Hvern lítur Guð á sem Sálmur 15:1, 2) Ef við metum mikils slíkt trúnaðarsamband við skapara okkar, gætum við þess að vera flekklaus í augum hans.
vin sinn, er hann myndi bjóða inn í óeiginlegt tjald sitt? Einungis þann „er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti.“ (8. Hvernig tóku sumir Ísraelsmenn á dögum Malakís vináttu við Guð sem sjálfsagðan hlut?
8 Því miður tóku sumir Ísraelsmenn á dögum Malakís vináttu við Guð sem sjálfsagðan hlut. Í stað þess að óttast og heiðra Jehóva fórnfærðu þeir sjúkum og höltum skepnum á altari hans. Óttaleysi þeirra við Guð endurspeglaðist líka í viðhorfi þeirra til hjónabandsins. Þeir skildu við eiginkonur æsku sinnar fyrir smávægilegar sakir til þess að kvænast yngri konum. Malakí sagði þeim að Jehóva hataði „hjónaskilnað“ og að það hugarfar þeirra að telja sig geta brugðist þannig trúnaði hefði gert þá fjarlæga Guði sínum. Hvernig gæti Guð haft velþóknun á fórnum þeirra þegar altarið var í óeiginlegri merkingu hulið tárum — beiskum tárum yfirgefinna eiginkvenna þeirra? Svo svívirðilegt virðingarleysi við staðla hans fékk Jehóva til að spyrja: „Hvar er þá lotningin [„óttinn,“ NW] sem mér ber?“ — Malakí 1:6-8; 2:13-16.
9, 10. Hvernig getum við sýnt að við metum mikils vináttu Jehóva?
9 Nú á tímum sér Jehóva líka hugarangur margra saklausra maka og barna sem eru niðurbrotin vegna sjálfselsku og siðleysis eiginmanna og feðra eða jafnvel eiginkvenna og mæðra. Það hryggir hann svo sannarlega. Vinur Guðs mun líta málin sömu augum og Guð, kappkosta að styrkja hjúskap sinn, hafna veraldlegum hugsunarhætti sem gerir lítið úr mikilvægi hjónabandsins og ‚flýja saurlifnaðinn.‘ — 1. Korintubréf 6:18.
10 Í hjónabandi, eins og á öllum öðrum sviðum lífsins, mun hatur á því sem er illt í augum Jehóva, ásamt innilegu þakklæti fyrir vináttu hans, færa okkur hylli Jehóva og velþóknun. Pétur postuli sagði með áhersluþunga: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Í Biblíunni höfum við mörg dæmi sem sýna hvernig guðsótti fékk fólk til að breyta rétt við ýmsar erfiðar kringumstæður.
Þrír sem óttuðust Guð
11. Við hvaða kringumstæður var Abraham sagður „óttast Guð“?
11 Í Biblíunni er nefndur einn maður sem Jehóva sjálfur kallaði vin sinn — ættfaðirinn Abraham. (Jesaja 41:8) Guðsótti Abrahams varð fyrir prófraun þegar Guð bað hann að fórna einkasyni sínum, Ísak, en það var af Ísak sem niðjar Abrahams áttu að verða að mikilli þjóð eins og Guð hafði heitið. (1. Mósebók 12:2, 3; 17:19) Skyldi „Guðs vinur“ standast þessa sársaukafullu prófraun? (Jakobsbréfið 2:23) Á því andartaki, sem Abraham hóf upp hnífinn til að deyða Ísak, sagði engill Jehóva: „Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ — 1. Mósebók 22:10-12.
12. Hver var hvötin að baki guðsótta Abrahams og hvernig getum við sýnt sams konar anda?
12 Þó að Abraham hefði áður sannað sig vera mann sem óttaðist Jehóva, sýndi hann við þetta tækifæri guðsótta sinn á framúrskarandi hátt. Fúsleiki hans til að fórna Ísak var miklu meira en sýning á tilhlýðilegri virðingu. Það sem að baki bjó hjá Abraham var afdráttarlaust traust á að himneskur faðir hans myndi standa við fyrirheit sitt með því að reisa Ísak upp frá dauðum ef nauðsyn krefði. Eins og Páll skrifaði var Abraham „þess fullviss, að [Guð] er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“ (Rómverjabréfið 4:16-21) Erum við reiðubúin til að gera vilja Guðs jafnvel þegar það krefst meiriháttar fórna? Treystum við því til fulls að slík hlýðni sé til hagsbóta þegar til langs tíma er litið, í þeirri vissu að Jehóva „umbuni þeim, er hans leita“? (Hebreabréfið 11:6) Það er sannur guðsótti. — Sálmur 115:11.
13. Hvers vegna gat Jósef með réttu lýst sjálfum sér sem manni er ‚óttaðist Guð‘?
1. Mósebók 39:7-12) Jósef gat með réttu lýst sjálfum sér sem manni er ‚óttaðist Guð.‘ — 1. Mósebók 42:18.
13 Tökum til skoðunar annað dæmi um guðsótta að verki — þann sem Jósef sýndi. Jósef var þræll á heimili Pótífars og þar var daglega þrýst á hann að drýgja hór. Auðsjáanlega var engin leið fyrir hann að komast hjá að hitta eiginkonu húsbónda síns sem látlaust var með umleitanir um ósiðsamleg kynni við hann. Það endaði með því, þegar hún „greip í skikkju hans,“ að hann „flýði og hljóp út.“ Hvað knúði hann til að snúa samstundis baki við hinu illa? Það sem réði þar hvað mestu var vafalaust óttinn við Guð, löngunin til að forðast að „aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði.“ (14. Hvernig endurspeglaði miskunnsemi Jósefs sannan guðsótta?
14 Allnokkrum árum seinna stóð Jósef augliti til auglitis við bræður sína sem höfðu verið svo harðbrjósta að selja hann í þrældóm. Hann hefði hæglega getað nýtt sér sáran matvælaskort þeirra sem tækifæri til að hefna rangindanna sem þeir höfðu beitt hann. En hörkuleg framkoma við fólk endurspeglar ekki ótta við Guð. (3. Mósebók 25:43) Þar af leiðandi fyrirgaf Jósef miskunnsamlega bræðrum sínum þegar hann hafði séð nægilegar sannanir fyrir breyttu hjartalagi þeirra. Guðsótti mun fá okkur, eins og Jósef, til að sigra illt með góðu og þar að auki halda okkur frá því að falla í freistni. — 1. Mósebók 45:1-11; Sálmur 130:3, 4; Rómverjabréfið 12:17-21.
15. Hvers vegna hafði breytni Jobs glatt hjarta Jehóva?
15 Job var annað framúrskarandi dæmi um mann sem óttaðist Guð. Jehóva sagði við djöfulinn: „Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:8) Ráðvendni Jobs hafði í mörg ár glatt hjarta himnesks föður hans. Job óttaðist Guð af því að hann vissi að það var rétt og besta leiðin til að lifa lífinu. „Sjá, að óttast [Jehóva] — það er speki,“ sagði Job með áhersluþunga, „og að forðast illt — það er viska.“ (Jobsbók 28:28) Job var kvæntur og lét hvorki augun hvíla ósæmilega mikið á ungum konum né gældi í huga sér við hugsanlegar leiðir til framhjáhalds. Hann var auðugur maður en hafnaði því samt alveg að leggja traust sitt á auðinn, og hann forðaðist skurðgoðadýrkun í hvaða mynd sem var. — Jobsbók 31:1, 9-11, 24-28.
16. (a) Hvernig sýndi Job ástúðlega umhyggju? (b) Hvernig sýndi Job að hann var ekki tregur til að fyrirgefa?
16 Sá sem óttast Guð gerir meira en að snúa baki við hinu illa; hann gerir ekki síður það sem gott er. Job tók þar af leiðandi eftir blindum, fötluðum og fátækum og sýndi þeim góðvild. (3. Mósebók 19:14; Jobsbók 29:15, 16) Job gerði sér ljóst að ,hver sá sem heldur ástúðlegri umhyggju frá félaga sínum hættir líka að óttast hinn almáttuga.‘ (Jobsbók 6:14, NW) Það að halda ástúðlegri umhyggju frá einhverjum getur falið í sér að fyrirgefa honum ekki eða ala á gremju gagnvart honum. Eftir bendingu frá Guði bað Job fyrir félögum sínum þremur sem höfðu valdið honum svo miklu hugarangri. (Jobsbók 42:7-10) Gætum við sýnt sams konar sáttfýsi gagnvart trúbróður sem kann að hafa sært okkur á einhvern hátt? Einlæg bæn í þágu þess sem hefur gert á hlut okkar getur gert mikið til að hjálpa okkur að sigrast á gremju. Sú margþætta blessun, sem féll Job í skaut vegna guðsótta hans, gefur okkur góða hugmynd um ‚hversu mikil gæska Jehóva, er hann hefir geymt þeim er óttast hann,‘ í sannleika er. — Sálmur 31:20; Jakobsbréfið 5:11.
Ótti við Guð eða ótti við menn
17. Hvað getur ótti við menn gert okkur, en hvers vegna lýsir slíkur ótti skammsýni?
17 Ótti við Guð getur fengið okkur til að gera það sem rétt er, en á hinn bóginn getur ótti við menn grafið undan trú okkar. Af þessari ástæðu sagði Jesús við postulana þegar hann var að hvetja þá til að prédika fagnaðarerindið kappsamlega: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.“ (Matteus 10:28) Jesús sýndi fram á að það sé skammsýni að óttast menn af því að menn geta ekki eyðilagt möguleika okkar á lífi í framtíðinni. Auk þess óttumst við Guð vegna þess að við gerum okkur grein fyrir hinu ógurlega afli hans, en í samanburði við það verður samanlagður máttur allra þjóða sem hjóm eitt. (Jesaja 40:15) Við treystum eins og Abraham algerlega á mátt Jehóva til að reisa trúfasta þjóna sína upp frá dauðum. (Opinberunarbókin 2:10) Þar af leiðandi segjum við hiklaust: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ — Rómverjabréfið 8:31.
18. Hvernig umbunar Jehóva þeim sem óttast hann?
18 Hvort sem andstæðingur okkar er í fjölskyldunni eða er yfirgangsseggur í skólanum munum við komast að raun um að „í ótta [Jehóva] er öruggt traust.“ (Orðskviðirnir 14:26) Við getum beðið Guð um að styrkja okkur vitandi að hann bænheyri okkur. (Sálmur 145:19) Jehóva gleymir aldrei þeim sem óttast hann. Fyrir munn spámannsins Malakí veitir hann okkur þessa uppörvun: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ — Malakí 3:16.
19. Hvað munu menn hætta að óttast en hvers konar ótti varir að eilífu?
19 Sú stund er nærri þegar hver maður á jörðu tilbiður Jehóva og ótti við menn hverfur. (Jesaja 11:9) Ótti við hungur, sjúkdóma, glæpi og stríð verður einnig úr sögunni. En óttinn við Guð mun vara um alla eilífð þar sem trúfastir þjónar hans á himni og á jörð halda áfram að sýna honum viðeigandi virðingu, hlýðni og heiður. (Opinberunarbókin 15:4) Megum við öll, uns sú stund rennur upp, taka alvarlega til okkar hið innblásna ráð Salómons: „Lát eigi hjarta þitt öfunda syndara, heldur ástunda guðsótta á degi hverjum, því að vissulega er enn framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.“ — Orðskviðirnir 23:17, 18.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Þegar fullorðið fólk vinnur að staðaldri við hættulegar aðstæður hættir það stundum að óttast hætturnar. Þegar reyndur handverksmaður var spurður hvers vegna svona margir smiðir hefðu misst framan af fingri svaraði hann einfaldlega: „Þeir hætta að óttast þessar hraðgengu rafmagnssagir.“
^ gr. 4 Jehóva finnur sjálfur fyrir slíkri óbeit. Til dæmis talar Efesusbréfið 4:29 um sóðalegt málfar sem „skaðlegt orð.“ Gríska orðið, sem þýtt er „skaðlegt,“ á bókstaflega við rotnandi ávöxt, fisk eða kjöt. Slíkt orð lýsir á ljóslifandi hátt þeim viðbjóði sem við ættum að hafa á svívirðilegu eða ruddalegu tali. Í frummáli Biblíunnar er skurðgoðum oft lýst sem „saurugum.“ (5. Mósebók 29:17; Esekíel 6:9, NW) Þar sem okkur er eðlilegt að finnast saur fráhrindandi hjálpar slík lýsing okkur að skilja þá óbeitartilfinningu sem Guð hefur gagnvart hvers konar skurðgoðadýrkun.
^ gr. 6 Sem dæmi skaltu hugleiða frásagnir Biblíunnar af Kain (1. Mósebók 4:3-12); Davíð (2. Samúelsbók 11:2–12:14); Gehasí (2. Konungabók 5:20-27) og Ússía (2. Kroníkubók 26:16-21).
Manst þú?
• Hvernig lærum við að hata hið illa?
• Hvernig tóku sumir Ísraelsmenn á dögum Malakís vináttu við Jehóva sem sjálfsagðan hlut?
• Hvað getum við lært um guðsóttann af Abraham, Jósef og Job?
• Hvaða ótti mun aldrei verða að engu gerður og hvers vegna?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 13]
Skynsamir foreldrar innræta börnum sínum heilnæman ótta.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Líkt og ótti beinir okkur í burt frá hættu beinir guðsótti okkur frá því sem illt er.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Job varðveitti guðsótta sinn jafnvel þegar þrír falsvinir snerust gegn honum.
[Credit line]
Úr biblíuþýðingunni Vulgata Latina, 1795.