Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að afbera ‚flein í holdinu‘

Að afbera ‚flein í holdinu‘

Að afbera ‚flein í holdinu‘

„Náð mín nægir þér.“ — 2. KORINTUBRÉF 12:9.

1, 2. (a) Af hverju ættu prófraunir og vandamál ekki að koma okkur á óvart? (b) Hvers vegna getum við verið hughraust í prófraunum?

„ALLIR, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hvers vegna? Vegna þess að Satan heldur því fram að menn þjóni Guði aðeins af eigingjörnum hvötum og svífst einskis til að sanna mál sitt. Jesús aðvaraði trúfasta postula sína einu sinni: „Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.“ (Lúkas 22:31) Hann vissi mætavel að Guð leyfir Satan að reyna okkur með ýmsum þrautum og þjáningum. Það merkir auðvitað ekki að allir erfiðleikar, sem við lendum í, séu komnir beint frá Satan eða illu öndunum. (Prédikarinn 9:11) Hins vegar skirrist Satan einskis til að brjóta niður ráðvendni okkar.

2 Biblían bendir á að prófraunir eigi ekki að koma okkur á óvart. Ekkert sem fyrir kann að koma er ókunnugt eða óvænt. (1. Pétursbréf 4:12) ‚Bræður okkar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum‘ og við. (1. Pétursbréf 5:9) Satan leggst af fullum þunga á alla þjóna Guðs nú á tímum. Hann nýtur þess að kvelja okkur með eins mörgum vandamálum og hann getur. Hann beitir heimskerfi sínu þannig að hver sá ‚fleinn,‘ sem við kunnum að hafa í holdinu, þjaki okkur sem mest. (2. Korintubréf 12:7) En Satan þarf ekki að takast að brjóta niður ráðvendni okkar. Jehóva ‚sér um að við fáum staðist‘ freistingar og hið sama gildir um erfiðleika sem eru eins og fleinn í holdi okkar. — 1. Korintubréf 10:13.

Hvernig afberum við flein í holdi?

3. Hverju svaraði Jehóva þegar Páll bað hann að taka fleininn úr holdi hans?

3 Páll postuli sárbændi Guð um að taka fleininn frá sér. „Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér,“ sagði hann. Hvernig svaraði Jehóva bón Páls? „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ (2. Korintubréf 12:8, 9) Við skulum brjóta þetta svar til mergjar og kanna hvernig það getur hjálpað okkur í baráttunni við erfið vandamál sem að okkur steðja.

4. Hvernig hafði Páll notið góðs af náð Jehóva?

4 Við tökum eftir að Guð hvatti Pál til að vera þakklátur fyrir þá náð sem honum hefði verið sýnd fyrir milligöngu Krists. Páll hafði vissulega hlotið mikla og margvíslega blessun. Jehóva veitti honum þann heiður að vera lærisveinn Jesú, þótt hann hefði áður verið stækur andstæðingur fylgjenda hans. (Postulasagan 7:58; 8:3; 9:1-4) Síðan veitti hann Páli mörg og spennandi verkefni og sérréttindi. Lærdómurinn, sem við getum dregið af þessu, er augljós. Jafnvel þegar verst gengur höfum við margt til að vera þakklát fyrir. Látum prófraunirnar aldrei verða til þess að við gleymum hinni miklu gæsku Jehóva. — Sálmur 31:20.

5, 6. (a) Hvernig kenndi Jehóva Páli að máttur sinn ‚fullkomnist í veikleika‘? (b) Hvernig sannaði Páll að Satan sé lygari?

5 Náð Jehóva nægir einnig á annan hátt því að hann er meira en nógu máttugur til að hjálpa okkur að standast prófraunir. (Efesusbréfið 3:20) Hann kenndi Páli að máttur sinn ‚fullkomnist í veikleika.“ Hvernig þá? Með því að veita honum nægan styrk til að standast prófraunina. Þolgæði Páls og algert traust til Jehóva sýndi öllum að máttur Jehóva sigraði fyrir hönd þessa veikburða og synduga manns. En hvaða áhrif skyldi þetta hafa haft á djöfulinn sem fullyrðir að menn þjóni Guði einungis þegar allt leikur í lyndi? Ráðvendni Páls var eins og löðrungur í andlit rógberans!

6 Páll var fyrrverandi bandamaður Satans í baráttunni gegn Guði og hafði ofsótt kristna menn grimmilega. Hann hafði verið kappsfullur farísei og hafði eflaust búið við ýmis lífsþægindi þar eð hann var fæddur inn í forréttindastétt. Núna þjónaði hann Jehóva og Kristi sem „sístur postulanna.“ (1. Korintubréf 15:9) Sem slíkur beygði hann sig auðmjúkur undir forræði hins stjórnandi ráðs frumkristna safnaðarins. Og hann var trúfastur þrátt fyrir fleininn í holdinu. Satan til mikillar skapraunar dvínaði kostgæfni Páls ekki þrátt fyrir prófraunir lífsins. Páll missti aldrei sjónar á þeirri von að hann fengi hlutdeild með Kristi í ríkinu á himnum. (2. Tímóteusarbréf 2:12; 4:18) Enginn fleinn í holdinu var svo kvalafullur að hann gæti dregið úr kostgæfni hans. Megum við einnig viðhalda kostgæfninni. Með því að halda okkur uppi í prófraunum veitir Jehóva okkur þá virðingu að eiga þátt í að sanna að Satan sé lygari. — Orðskviðirnir 27:11.

Ráðstafanir Jehóva eru ómissandi

7, 8. (a) Hvernig styrkir Jehóva þjóna sína núna? (b) Hvers vegna er daglegur lestur og nám í Biblíunni nauðsynlegt til að afbera flein í holdinu?

7 Jehóva notar heilagan anda, orð sitt og hið kristna bræðrafélag til að styrkja trúa þjóna sína nú á tímum. Við getum varpað byrðum okkar á hann í bæn, líkt og Páll postuli gerði. (Sálmur 55:23) Það er ekki víst að hann losi okkur við prófraunirnar en hann getur gefið okkur visku til að takast á við þær, jafnvel þær sem eru okkur sérstaklega þungar í skauti. Hann getur líka veitt okkur sálarþrek — „ofurmagn kraftarins“ — til að hjálpa okkur að þrauka. — 2. Korintubréf 4:7.

8 Hvernig fáum við slíka hjálp? Við verðum að nema orð Guðs dyggilega því að þar finnum við örugga huggun frá honum. (Sálmur 94:19) Í Biblíunni lesum við hjartnæm áköll þjóna Guðs. Viðbrögð Jehóva og hughreystandi orð eru okkur íhugunarefni. Biblíunám styrkir okkur þannig að „ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ Við þurfum að nærast reglulega á orði Guðs, ekki síður en við þurfum að borða daglega. Gerum við það? Ef svo er finnum við hvernig „ofurmagn kraftarins“ hjálpar okkur að afbera sérhvern táknrænan flein sem kvelur hold okkar núna.

9. Hvernig geta öldungar stutt við bakið á þeim sem eiga í erfiðleikum?

9 Guðhræddir kristnir öldungar geta verið eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum“ þegar erfiðleikar steðja að okkur. Öldungar, sem vilja vera eins og hér er lýst, biðja Jehóva í auðmýkt og einlægni að gefa sér „lærisveina tungu“ svo að þeir hafi vit á að svara hinum þjáðu með réttum orðum. Orð öldunganna geta verið eins og svalandi regn sem sefar hugann þegar við eigum erfitt. Öldungarnir hughreysta niðurdregna og styðja þannig trúsystkini sín sem eru að lýjast eða missa kjarkinn út af einhverjum fleini í holdinu. — Jesaja 32:2; 50:4; 1. Þessaloníkubréf 5:14.

10, 11. Hvernig geta þjónar Guðs uppörvað þá sem eiga í erfiðum prófraunum?

10 Allir þjónar Jehóva tilheyra sameinaðri, kristinni fjölskyldu hans. Við erum „hver um sig annars limir“ og okkur ‚ber að elska hver annan.‘ (Rómverjabréfið 12:5; 1. Jóhannesarbréf 4:11) Hvernig efnum við þessa skyldu? Samkvæmt 1. Pétursbréfi 3:8 gerum við það með því að vera „samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir [og] miskunnsamir“ við öll trúsystkini okkar, jafnt ung sem aldin. Og við getum sýnt þeim sérstaka athygli sem eru með einstaklega kvalafullan flein í holdi sér. Hvernig?

11 Við ættum að leggja okkur öll fram um að vera næm fyrir þjáningum þeirra. Ef við erum harðbrjósta, kuldaleg eða áhugalaus gætum við óafvitandi ýtt undir kvöl þeirra. Við ættum að vera vakandi fyrir því hvað þau eru að takast á við og gæta að því hvað við segjum, hvernig við segjum það og hvernig við komum fram. Með því að vera jákvæð og uppörvandi getum við linað svolítið sársaukann af þeim fleini sem þau eru með í holdinu. Þannig getum við kannski verið þeim til huggunar og styrktar. — Kólossubréfið 4:11.

Það sem sumir hafa gert til að afbera flein í holdi

12-14. (a) Hvað gerði kristin kona sem átti í baráttu við krabbamein? (b) Hvernig studdu og uppörvuðu trúsystkini hana?

12 ‚Fæðingarhríðirnar‘ aukast dag frá degi eftir því sem líður á hina síðustu daga. (Matteus 24:8) Það má því búast við að allir jarðarbúar lendi í ýmsum prófraunum, en ekki síst trúir þjónar Jehóva sem leitast við að gera vilja hans. Lítum til dæmis á kristna konu sem er boðberi í fullu starfi. Hún greindist með krabbamein og það þurfti að fjarlægja munnvatnskirtla og eitla með skurðaðgerð. Þegar þau hjónin fengu að vita að hún væri með þennan sjúkdóm sneru þau sér tafarlaust til Jehóva í langri og innilegri bæn. Hún sagði síðar frá því að þau hafi fundið fyrir ótrúlegum friði. En það skiptust á skin og skúrir hjá henni, einkum í tengslum við aukaverkanir af læknismeðferðinni.

13 Systirin tókst á við vandann með því að fræðast eins mikið um krabbamein og hún hafði tök á. Hún ráðfærði sig við lækna. Hún leitaði uppi frásögur fólks í Varðturninum og Vaknið! og fleiri ritum sem lýstu því hvernig aðrir höfðu tekist tilfinningalega á við þennan sjúkdóm. Og hún las ýmsa kafla í Biblíunni þar sem fram kemur hvernig Jehóva getur haldið fólki sínu uppi í erfiðleikum, og margt fleira.

14 Í grein um örvæntingu var vitnað í þessi viturlegu orð: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ NW] fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.“ (Orðskviðirnir 18:1) Lesendum var síðan ráðlagt að einangra sig ekki. * Systirin segir: „Margir sögðust biðja fyrir mér og margir hringdu til mín. Tveir öldungar hringdu reglulega til að kanna hvernig mér liði. Mér voru gefin blóm og ég fékk ógrynni af kortum. Sumir elduðu jafnvel handa mér. Og margir buðust til að keyra með mig í reglulega læknismeðferð sem ég fékk.“

15-17. (a) Hvernig tókst systir nokkur á við erfiðleika sem hlutust af umferðarslysum? (b) Hvernig studdi söfnuðurinn hana?

15 Systir í söfnuði Votta Jehóva í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum lenti í tveim umferðarslysum. Hún hafði þjáðst af liðagigt í 25 ár en nú meiddist hún á hálsi og öxlum sem gerði illt verra. „Ég átti mjög erfitt með að halda uppi höfðinu og bera nokkuð þyngra en fimm pund,“ segir hún. „En innilegar bænir til Jehóva hafa styrkt mig ósegjanlega. Hið sama er að segja um greinarnar í Varðturninum sem við höfum numið. Ein þeirra fjallaði um Míka 6:8 og benti á að það að fram ganga í lítillæti fyrir Guði merki að þekkja takmörk sín. Þá áttaði ég mig á því að ég ætti ekki að verða niðurdregin þó að líðan mín væri þannig að ég gæti ekki varið eins miklum tíma í boðunarstarfið og ég vildi. Aðalatriðið er að þjóna honum af hreinu tilefni.“

16 Hún heldur áfram: „Öldungarnir hrósuðu mér alltaf fyrir að sækja samkomur og fara út í boðunarstarfið. Börnin föðmuðu mig að sér. Brautryðjendurnir voru einstaklega þolinmóðir og breyttu oft um áætlun þegar ég átti slæma daga. Þegar veðrið var slæmt fóru þeir með mig í endurheimsóknir eða buðu mér að vera með á biblíunámskeiðum sem þeir sáu um. Og þar sem ég gat ekki borið starfstösku settu hinir boðberarnir ritin mín í töskuna sína þegar við fórum saman út í boðunarstarfið.“

17 Við tökum eftir hvernig safnaðaröldungar og trúsystkini hjálpuðu þessum tveim systrum að afbera raunir sínar. Þau buðu fram vinsamlega og raunhæfa hjálp sniðna að andlegum, líkamlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra. Er þetta ekki hvatning fyrir þig til að hjálpa öðrum bræðrum og systrum sem eiga við erfiðleika að stríða? Börn og unglingar geta einnig hjálpað öðrum í söfnuðinum sem eru með flein í holdi sér. — Orðskviðirnir 20:29.

18. Hvaða uppörvun er að finna í frásögum sem birst hafa í tímaritunum Vaknið! og Varðturninn?

18 Í tímaritunum Varðturninn og Vaknið! hafa birst margar ævisögur og frásagnir votta sem hafa átt í baráttu við ýmis vandamál og eiga enn. Ef þú lest þessar greinar að staðaldri sérðu að mörg trúsystkini þín um heim allan hafa haldið út gegnum fjárhagslegar þrengingar, ástvinamissi af völdum náttúruhamfara og hættur á stríðstímum. Aðrir eru óvinnufærir vegna langvinnra sjúkdóma. Margir geta ekki gert einföldustu hluti sem hraustu fólki finnst sjálfsagt. Veikindin eru þungur baggi fyrir þau, einkum þegar þau geta ekki tekið eins mikinn þátt í starfsemi safnaðarins og þau vildu. Þau eru innilega þakklát fyrir hjálp og stuðning trúsystkina sinna, bæði ungra og aldinna.

Þolgæði er gleðigjafi

19. Hvers vegna gat Páll fagnað þrátt fyrir veikleika og prófraunir sem voru eins og fleinn í holdi hans?

19 Páll fagnaði því að finna hvernig Guð styrkti hann. Hann sagði: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Korintubréf 12:9, 10) Páll talaði af eigin reynslu er hann sagði: „Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:11-13.

20, 21. (a) Hvers vegna getum við haft ánægju af því að íhuga „hið ósýnilega“? (b) Nefndu dæmi um „hið ósýnilega“ sem þú hlakkar til að sjá í jarðneskri paradís.

20 Með því að umbera táknræna fleina í holdinu sýnum við öllum að máttur Jehóva fullkomnast í veikleika okkar, og það getur veitt okkur mikla ánægju. Páll skrifaði: „Fyrir því látum vér ekki hugfallast . . . [heldur] endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Vér horfum . . . á . . . hið ósýnilega. Hið . . . ósýnilega [er] eilíft.“ — 2. Korintubréf 4:16-18.

21 Flestir þjónar Jehóva nú á tímum vonast eftir að lifa í jarðneskri paradís og njóta þeirrar blessunar sem hann hefur heitið. Þessi blessun er á vissan hátt ‚ósýnileg‘ núna. En þess er skammt að bíða að við sjáum þessa blessun með eigin augum og fáum að njóta hennar að eilífu. Ein blessunin er fólgin í því að við þurfum aldrei framar að búa við vandamál sem eru eins og fleinn í holdinu. Sonur Guðs mun „brjóta niður verk djöfulsins“ og ‚gera að engu þann sem hefur mátt dauðans.‘ — 1. Jóhannesarbréf 3:8; Hebreabréfið 2:14.

22. Hverju megum við treysta og í hverju ættum við að vera staðráðin?

22 Við skulum því halda áfram að þola hvern þann flein sem kvelur hold okkar núna. Líkt og Páll höfum við styrk til að gera það í þeim krafti sem Jehóva veitir örlátlega. Þegar hin jarðneska paradís er runnin upp munum við lofa Jehóva Guð daglega fyrir allar velgjörðir hans í okkar þágu. — Sálmur 103:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Sjá greinina „The Bible’s Viewpoint: How to Cope With Despair“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. maí 2000.

Hvert er svarið?

• Hvernig og hvers vegna reynir djöfullinn að brjóta niður ráðvendni sannkristinna manna?

• Hvernig ‚fullkomnast máttur Jehóva í veikleika‘?

• Hvernig geta öldungar og aðrir uppörvað þá sem eiga við erfið vandamál að etja?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Páll bað Guð þrívegis að taka frá sér fleininn í holdi hans.