Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn tilbiðja í anda og sannleika

Kristnir menn tilbiðja í anda og sannleika

Kristnir menn tilbiðja í anda og sannleika

„Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ — JÓHANNES 4:24.

1. Hvers konar tilbeiðsla er Guði þóknanleg?

JESÚS KRISTUR, eingetinn sonur Jehóva, tók skýrt fram hvers konar tilbeiðsla væri föður hans þóknanleg. Hann vitnaði hlýlega fyrir samverskri konu við brunn í grennd við borgina Síkar og sagði þá: „Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:22-24) Hvernig ber okkur að skilja þessi orð?

2. Á hverju byggðu Samverjar tilbeiðslu sína?

2 Samverjar aðhylltust ýmsar rangar trúarskoðanir. Þeir viðurkenndu aðeins fyrstu fimm bækur Heilagrar ritningar sem innblásnar — og þá eingöngu sína eigin útgáfu af þeim sem kölluð er Samverska fimmbókaritið. Gyðingum hafði verið trúað fyrir þekkingu á Ritningunni en Samverjar þekktu ekki Guð í raun og veru. (Rómverjabréfið 3:1, 2) Trúfastir Gyðingar og fleiri gátu notið velþóknunar Jehóva. En hvað þurftu þeir að gera til þess?

3. Hvað er nauðsynlegt til að tilbiðja Guð „í anda og sannleika“?

3 Hvað þurftu Gyðingar, Samverjar og aðrir að gera forðum daga til að þóknast Jehóva? Þeir urðu að tilbiðja hann „í anda og sannleika.“ Hið sama er að segja um okkur. Við þurfum vissulega að vera kostgæfin í þjónustunni við Guð og þjóna honum af innilegum kærleika og trú. En til að tilbiðja Guð í anda þarf andi hans að hvíla yfir okkur og við þurfum að fylgja handleiðslu andans fúslega. Við þurfum að laga hugarfar okkar að anda hans með því að kynna okkur orð hans vel og fara eftir því. (1. Korintubréf 2:8-12) Við þurfum líka að tilbiðja Jehóva í sannleika til að tilbeiðsla okkar sé honum þóknanleg. Hún þarf að samræmast því sem orð hans, Biblían, opinberar um hann og ásetning hans.

Það er hægt að finna sannleikann

4. Hvernig líta sumir á sannleika?

4 Sumir heimspekilega þenkjandi menn halda því fram að alger sannleikur sé utan seilingar okkar mannanna. Sænski rithöfundurinn Alf Ahlberg skrifaði jafnvel: „Margar heimspekilegar spurningar eru þess eðlis að ógerlegt er að veita ákveðið svar við þeim.“ En er sannleikurinn alltaf afstæður eins og sumir halda fram? Ekki að sögn Jesú Krists.

5. Til hvers kom Jesús í heiminn?

5 Við skulum ímynda okkur að við séum áhorfendur að eftirfarandi atburði: Þetta er snemma árs 33 og Jesús stendur frammi fyrir Pontíusi Pílatusi, landstjóra Rómverja. Hann segir Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ „Hvað er sannleikur?“ spyr Pílatus. En hann bíður ekki eftir nánari skýringu frá Jesú. — Jóhannes 18:36-38.

6. (a) Hvernig hefur „sannleikur“ verið skilgreindur? (b) Hvaða verkefni fól Jesús fylgjendum sínum?

6 „Sannleikur“ hefur verið skilgreindur sem „frásögn sem skýrir frá því sem gerðist í raun og veru, það sem er satt og rétt; sannindi.“ (Íslensk orðabók, 3. útgáfa) En var það sannleikur í almennum skilningi sem Jesús bar vitni um? Nei, hann var með ákveðinn sannleika í huga sem hann fól fylgjendum sínum að boða því að hann sagði þeim: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Sannir fylgjendur Jesú áttu að boða „sannleika fagnaðarerindisins“ út um alla jörðina áður en heimskerfið liði undir lok. (Galatabréfið 2:14) Þannig myndu orð Jesú uppfyllast er hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Það er því mikilvægt að þekkja þá sem kenna öllum þjóðum sannleikann, sem prédika fagnaðarerindið um ríkið.

Hvernig getum við lært sannleikann?

7. Hvernig geturðu sýnt fram á að Jehóva sé höfundur sannleikans?

7 Jehóva er höfundur sannleikans um sig og ásetning sinn. Sálmaritarinn Davíð kallaði Jehóva meira að segja „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:6; 43:3, NW) Jesús leit á orð föður síns sem sannleika og sagði: „Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af Guði fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.“ (Jóhannes 6:45; 17:17; Jesaja 54:13) Það er því ljóst að þeir sem leita sannleikans verða að fá kennslu hjá Jehóva, hinum mikla fræðara. (Jesaja 30:20, 21) Þeir sem leita sannleikans þurfa að „öðlast þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:5) Og hann hefur í kærleika sínum kennt sannleikann eða komið honum á framfæri með ýmsum hætti.

8. Með hvaða hætti hefur Guð kennt sannleikann og komið honum á framfæri?

8 Guð lét Ísraelsmönnum lögmálið í té fyrir milligöngu engla, svo að dæmi sé tekið. (Galatabréfið 3:19) Í draumi lofaði hann ættfeðrunum Abraham og Jakobi ákveðinni blessun. (1. Mósebók 15:12-16; 28:10-19) Hann talaði jafnvel af himni ofan, til dæmis þegar Jesús lét skírast, og þessi hrífandi orð heyrðust á jörð: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Við getum líka verið þakklát fyrir að Guð skuli hafa komið sannleikanum á framfæri með því að veita biblíuriturunum innblástur. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við getum þess vegna ‚trúað á sannleikann‘ með því að kynna okkur orð Guðs. — 2. Þessaloníkubréf 2:13.

Sannleikurinn og sonur Guðs

9. Hvernig hefur Guð notað son sinn til að opinbera sannleikann?

9 Guð notaði son sinn, Jesú Krist, öðrum fremur til að opinbera mannkyni sannleikann. (Hebreabréfið 1:1-3) Enginn maður hafði nokkurn tíma flutt sannleikann eins og Jesús gerði. (Jóhannes 7:46) Hann opinberaði meira að segja sannleikann, sem hann fékk frá föður sínum, eftir að hann steig upp til himna. Til dæmis var Jóhannesi postula gefin „opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms.“ — Opinberunarbókin 1:1-3.

10, 11. (a) Hverju tengist sannleikurinn sem Jesús bar vitni um? (b) Hvernig gerði Jesús sannleikann að veruleika?

10 Jesús sagði Pontíusi Pílatusi að hann hefði komið til jarðar til að bera sannleikanum vitni. Meðan Jesús þjónaði á jörð opinberaði hann að þessi sannleikur tengdist því hvernig Guðsríki, með sjálfan hann sem konung, myndi réttlæta drottinvald Jehóva. En Jesús þurfti að gera fleira en að prédika og kenna til að bera sannleikanum vitni. Hann gerði þennan sannleika að veruleika með því að uppfylla hann. Páll postuli skrifaði þar af leiðandi: „Enginn skyldi . . . dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn [„veruleikinn,“ NW] er Krists.“ — Kólossubréfið 2:16, 17.

11 Sannleikurinn varð meðal annars að veruleika þegar Jesús fæddist í Betlehem eins og spáð hafði verið. (Míka 5:2; Lúkas 2:4-11) Sannleikurinn varð líka að veruleika þegar Messías kom í lok ‚árasjöundanna‘ 69 eins og Daníel hafði spáð. Það gerðist þegar Jesús bauð sig Guði með því að láta skírast og var smurður heilögum anda nákvæmlega á réttum tíma, árið 29. (Daníel 9:25; Lúkas 3:1, 21, 22) Sannleikurinn varð enn fremur að veruleika þegar Jesús upplýsti menn og boðaði Guðsríki. (Jesaja 9:1, 2, 6, 7; 61:1, 2; Matteus 4:13-17; Lúkas 4:18-21) Og sannleikurinn birtist einnig með dauða hans og upprisu. — Sálmur 16:8-11; Jesaja 53:5, 8, 11, 12; Matteus 20:28; Jóhannes 1:29; Postulasagan 2:25-31.

12. Hvers vegna gat Jesús sagst vera sannleikurinn?

12 Þar sem sannleikurinn fjallaði fyrst og fremst um Jesú gat hann sagt: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ (Jóhannes 14:6) Fólk hlýtur andlegt frelsi þegar það er „sannleikans megin“ með því að viðurkenna hlutverk Jesú í tilgangi Guðs. (Jóhannes 8:32-36; 18:37, Biblían 1912) Sauðumlíkir menn hljóta eilíft líf af því að þeir viðurkenna sannleikann og fylgja Kristi í trú. — Jóhannes 10:24-28.

13. Á hvaða þrem sviðum ætlum við að rannsaka sannleika Biblíunnar?

13 Sannkristin trú er safn þeirra sanninda sem Jesús og innblásnir lærisveinar hans fluttu. Þeir sem ‚hlýða trúnni‘ halda því áfram að ‚lifa í sannleikanum.‘ (Postulasagan 6:7; 3. Jóhannesarbréf 3, 4) Hverjir lifa þá í sannleikanum núna? Hverjir kenna öllum þjóðum sannleikann í alvöru? Til að svara þessum spurningum skulum við einbeita okkur að frumkristnum mönnum og rannsaka biblíuleg sannindi varðandi (1) trúarskoðanir, (2) helgihald og (3) hegðun.

Sannleikurinn og trúarskoðanir

14, 15. Hvernig litu frumkristnir menn á Ritninguna og hvernig líta Vottar Jehóva á hana?

14 Frumkristnir menn höfðu ritað orð Jehóva í hávegum. (Jóhannes 17:17) Það var mælikvarði þeirra á trú og trúariðkanir. Klemens frá Alexandríu, sem var uppi á annarri og þriðju öld, sagði: „Þeir sem keppa eftir yfirburðum hætta ekki leitinni að sannleikanum fyrr en þeir hafa fengið sönnun fyrir því sem þeir trúa á í sjálfri Ritningunni.“

15 Vottar Jehóva hafa Biblíuna í hávegum líkt og frumkristnir menn. Þeir trúa að ‚sérhver ritning sé innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við skulum því líta á nokkrar trúarskoðanir frumkristinna manna og bera þær saman við það sem nútímaþjónar Jehóva hafa lært vegna þess að þeir leggja Biblíuna til grundvallar.

Sannleikurinn um sálina

16. Hver er sannleikurinn um sálina?

16 Frumkristnir menn kenndu sannleikann um sálina vegna þess að þeir trúðu orðum Ritningarinnar. Þeir vissu að ‚maðurinn varð lifandi sál‘ þegar Guð skapaði hann. (1. Mósebók 2:7) Þeir viðurkenndu einnig að mannsálin deyr. (Esekíel 18:4; Jakobsbréfið 5:20) Og þeir vissu mætavel að ‚hinir dauðu vita ekki neitt.‘ — Prédikarinn 9:5, 10.

17. Hvaða von hafa hinir dánu?

17 En lærisveinar Jesú á fyrstu öld höfðu líka þá öruggu von að hinir dánu, sem Guð geymir sér í minni, yrðu reistir upp frá dauðum. Páll postuli lýsti þessari von vel er hann sagði: „Þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Minucius Felix, sem játaði kristna trú, skrifaði síðar: „Hver er svo heimskur eða kjánalegur að voga sér að halda því fram að Guð, sem skapaði manninn í upphafi, geti ekki endurgert hann?“ Vottar Jehóva halda fram sama biblíusannleika og frumkristnir menn um mannssálina, dauðann og upprisuna. Lítum þessu næst á það hverjir Guð og Kristur eru.

Sannleikurinn og þrenningin

18, 19. Hvers vegna getum við sagt að þrenningarkenningin sé ekki biblíuleg?

18 Frumkristnir menn litu ekki á Guð, Krist og heilagan anda sem þrenningu. Alfræðibókin Encyclopaedia Britannica segir: „Orðið þrenning eða afdráttarlaus þrenningarkenning finnst ekki í Nýja testamentinu enda ætluðu Jesús og fylgjendur hans ekki að andmæla shema [hebreskri bæn] Gamla testamentisins: ‚Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!‘ (5. Mós. 6:4).“ Kristnir menn tilbáðu ekki rómversku þrenninguna né nokkra aðra guði. Þeir viðurkenndu orð Jesú þess efnis að þeir ættu að tilbiðja Jehóva einan. (Matteus 4:10) Og þeir trúðu orðum Krists er hann sagði: „Faðirinn er mér meiri.“ (Jóhannes 14:28) Vottar Jehóva nútímans hafa sömu afstöðu.

19 Fyrstu fylgjendur Jesú gerðu skýran greinarmun á Guði, Kristi og heilögum anda. Þeir skírðu lærisveina meira að segja (1) í nafni föðurins, (2) í nafni sonarins og (3) í nafni heilags anda en ekki í nafni þrenningar. Vottar Jehóva kenna sömuleiðis sannleika Biblíunnar og gera greinarmun á Guði, syni hans og heilögum anda. — Matteus 28:19.

Sannleikurinn og skírnin

20. Hvaða þekkingu þurfa skírnþegar að hafa?

20 Jesús fól fylgjendum sínum það verkefni að gera fólk að lærisveinum með því að kenna því sannleikann. Fólk þarf að hafa undirstöðuþekkingu á Ritningunni til að geta látið skírast. Það þarf til dæmis að viðurkenna stöðu og vald föðurins og sonar hans, Jesú Krists. (Jóhannes 3:16) Skírnþegar þurfa jafnframt að skilja að heilagur andi er ekki persóna heldur starfskraftur Guðs. — 1. Mósebók 1:2, NW, neðanmáls.

21, 22. Hvers vegna er skírnin fyrir trúaða?

21 Frumkristnir menn skírðu aðeins uppfrætt og iðrandi fólk sem hafði vígst Guði skilyrðislaust til að gera vilja hans. Gyðingar og trúskiptingar, sem komu saman í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33, þekktu Hebresku ritningarnar. Er þeir heyrðu Pétur postula tala um Jesú Messías ‚veittu um þrjú þúsund manns orði hans viðtöku og voru skírðar.‘ — Postulasagan 2:41; 3:19–4:4; 10:34-38.

22 Kristin skírn er fyrir þá sem hafa tekið trú. Samverjar tóku við sannleikanum og „trúðu . . . Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur.“ (Postulasagan 8:12) Eþíópíski hirðmaðurinn var guðrækinn trúskiptingur sem þekkti til Jehóva, og hann lét skírast eftir að hafa tekið við skýringum Filippusar á uppfyllingu spádómanna um Messías. (Postulasagan 8:34-36) Pétur sagði Kornelíusi og öðru fólki af heiðnum uppruna að Guð ‚tæki opnum örmum hverjum þeim sem óttaðist hann og ástundaði réttlæti,‘ og að allir sem tryðu á Jesú Krist fengju syndafyrirgefningu. (Postulasagan 10:35, 43; 11:18) Allt kemur þetta heim og saman við fyrirmæli Jesú um að ‚gera menn að lærisveinum og kenna þeim að halda allt sem hann bauð.‘ (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8) Vottar Jehóva fylgja sömu reglu og taka þá eina til skírnar sem hafa undirstöðuþekkingu á Ritningunni og hafa vígst Guði.

23, 24. Hvert er hið rétta form kristinnar skírnar?

23 Alger niðurdýfing í vatn er hið rétta skírnarform trúaðra. Biblían segir að Jesús hafi ‚stigið upp úr vatninu‘ eftir að hann skírðist í Jórdan. (Markús 1:10) Þegar eþíópski hirðmaðurinn lét skírast stigu þeir Filippus „niður í vatnið“ og síðan „upp úr vatninu.“ (Postulasagan 8:36-40) Og Biblían líkir skírn við táknræna greftrun sem bendir einnig til þess að um algera niðurdýfingu sé að ræða. — Rómverjabréfið 6:4-6; Kólossubréfið 2:12.

24 The Oxford Companion to the Bible segir: „Lýsingar á einstökum skírnum í Nýja testamentinu benda til þess að hinir skírðu hafi verið kaffærðir í vatn.“ Franska verkið Larousse du XXe Siècle (París, 1928) segir: „Frumkristnir menn tóku niðurdýfingarskírn hvar sem vatn var að finna.“ Bókin After Jesus — The Triumph of Christianity segir: „Í sinni einföldustu mynd var [skírn] fólgin í trúarjátningu skírnþegans og síðan var hann færður algerlega í kaf í vatn í nafni Jesú.“ Og Íslenska alfræðibókin (3. bindi, bls. 237) segir: „S[kírn] var upphafl[ega] niðurdýfing.“

25. Hvað er fjallað um í greininni á eftir?

25 Þetta eru aðeins dæmi um trú og trúariðkanir frumkristinna manna sem finna má í Biblíunni. Hægt væri að nefna margt annað sem er hliðstætt með trú þeirra og Votta Jehóva. Í greininni á eftir fjöllum við um fleiri leiðir til að þekkja þá sem kenna fólki sannleikann.

Hverju svarar þú?

• Hvers konar tilbeiðslu vill Guð fá?

• Hvernig varð sannleikurinn að veruleika vegna Jesú Krists?

• Hver er sannleikurinn um sálina og dauðann?

• Hvernig fer kristin skírn fram og hvers er krafist af skírnþegum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðú 14]

Jesús sagði Pílatusi: ‚Ég er kominn til að bera sannleikanum vitni.‘

[Mynd á blaðsíðu 15]

Geturðu útskýrt hvers vegna Jesús sagði: ‚Ég er sannleikurinn‘?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hver er sannleikurinn um kristna skírn?