Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Fylgið mér‘

‚Fylgið mér‘

‚Fylgið mér‘

„Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:21.

1, 2. Af hverju er fullkomið fordæmi Jesú sem kennari ekki það háleitt að við getum ekki fylgt því?

JESÚS KRISTUR er mesti kennari sem uppi hefur verið. Þar að auki var hann fullkominn og syndgaði aldrei á æviskeiði sínu sem maður. (1. Pétursbréf 2:22) En þýðir það að fordæmi hans sem kennari sé svo háleitt að við ófullkomnir menn getum ekki fylgt því? Nei, alls ekki.

2 Eins og við sáum í greininni á undan byggðist kennsla Jesú á kærleika. Og öll getum við ræktað með okkur kærleika. Orð Guðs hvetur okkur oft til að efla kærleika okkar til annarra. (Filippíbréfið 1:9; Kólossubréfið 3:14) Jehóva ætlast aldrei til þess að sköpunarverur sínar geri eitthvað sem þær eru ekki færar um. Þar sem „Guð er kærleikur“ og hann skapaði okkur eftir sinni mynd er hægt að segja að hann hafi hannað okkur til að sýna kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8; 1. Mósebók 1:27) Þegar við lesum orð Péturs postula í steftexta greinarinnar getum við því verið full öryggis. Við getum fetað vandlega í fótspor Krists. Við getum meira að segja hlýtt boði Jesú sjálfs um að ‚fylgja sér.‘ (Lúkas 9:23) Nú skulum við skoða hvernig við getum líkt eftir kærleikanum sem Kristur sýndi; í fyrsta lagi gagnvart sannleikanum sem hann kenndi og í öðru lagi gagnvart fólkinu sem hann kenndi.

Byggjum upp kærleika til sannleikans sem við lærum

3. Hvers vegna finnst sumum erfitt að læra, en hvaða hvatningu er að finna í Orðskviðunum 2:1-5?

3 Til að elska sannleikann, sem við kennum öðrum, verðum við sjálf að hafa yndi af því að læra hann. Í heimi nútímans er ekki auðvelt að temja sér slíkt viðhorf. Þættir eins og ófullnægjandi skólaganga og slæmir ávanar, sem fólk temur sér í æsku, gera það að verkum að mörgum finnst leiðinlegt að læra. Það er hins vegar nauðsynlegt að við lærum af Jehóva. Orðskviðirnir 2:1-5 segja: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.“

4. Hvað þýðir það að ‚hneigja‘ hjartað og hvers konar viðhorf getur hjálpað okkur til þess?

4 Taktu eftir því að í versum 1 til 4 erum við hvað eftir annað hvött til að leggja eitthvað á okkur. Við eigum ekki aðeins að ‚veita viðtöku,‘ og ‚geyma‘ heldur einnig að ‚leita‘ og ‚grafast eftir.‘ En hvað á að fá okkur til að gera allt þetta? Taktu eftir orðunum ‚hneig hjarta þitt að hyggindum.‘ Uppsláttarrit segir að þessi hvatning „sé ekki aðeins einlæg bón um athygli heldur sé verið að fara fram á ákveðið viðhorf: að við séum móttækileg fyrir kennslunni.“ Og hvað getur gert okkur móttækileg og auðfús til að læra það sem Jehóva kennir okkur? Viðhorf okkar. Við þurfum að líta á ‚þekkinguna á Guði‘ eins og ‚silfur,‘ og ‚fólginn fjársjóð.‘

5, 6. (a) Hvað getur gerst með tímanum og hvernig getum við komið í veg fyrir það? (b) Af hverju ættum við að halda áfram að auka við þann fjársjóð þekkingar sem við höfum fundið í Biblíunni?

5 Það er ekki erfitt að tileinka sér þetta viðhorf. ‚Þekkingin á Guði,‘ sem þú hefur aflað þér, felur sennilega í sér þann sannleika að tilgangur Jehóva sé að láta trúfast mannkyn lifa að eilífu í paradís á jörð. (Sálmur 37:28, 29) Fyrst þegar þú lærðir þennan sannleika leistu örugglega á hann sem ósvikinn fjársjóð, þekkingu sem fyllti huga þinn og hjarta von og gleði. En núna? Hefur þakklæti þitt fyrir þennan fjársjóð dvínað með tímanum? Reyndu þá að gera tvennt. Byrjaðu á því að endurvekja þakklæti þitt. Minntu sjálfan þig reglulega á það hvers vegna þú kannt að meta þau sannindi sem Jehóva hefur kennt þér, líka þau sem þú lærðir fyrir mörgum árum.

6 Í öðru lagi skaltu halda áfram að auka við fjársjóðinn. Ef þú græfir upp dýrmætan gimstein myndirðu tæplega stinga honum í vasann og ganga sáttur í burtu? Myndirðu ekki frekar grafa dýpra og sjá hvort þú fyndir fleiri? Orð Guðs er fullt af sannindum sem eru eins og gimsteinar og gullmolar. Það skiptir ekki máli hvað þú ert búinn að finna marga, þú getur alltaf fundið fleiri. (Rómverjabréfið 11:33) Þegar þú grefur upp sannleiksmola skaltu spyrja sjálfan þig: ‚Hvað gerir þetta að fjársjóði? Gefur þetta mér dýpri innsýn í persónuleika Jehóva eða tilgang hans? Veitir þetta mér hagnýta leiðsögn sem getur hjálpað mér að feta í fótspor Jesú?‘ Ef þú hugleiðir spurningar sem þessar hjálpar það þér að efla kærleika þinn til sannleikans sem Jehóva hefur kennt þér.

Sýnum að við elskum sannleikann sem við kennum

7, 8. Hvernig getum við sýnt öðrum að við elskum sannleikann sem við höfum lært í Biblíunni? Nefndu dæmi.

7 Hvernig getum við sýnt, þegar við kennum öðrum, að við elskum sannleikann sem við höfum lært í orði Guðs? Ef við fylgjum fordæmi Jesú reiðum við okkur algerlega á Biblíuna þegar við prédikum og kennum. Núna að undanförnu hefur fólk Guðs um allan heim verið hvatt til að nota Biblíuna meira í boðunarstarfinu. Þegar þú ferð eftir þessari tillögu skaltu leita leiða til að láta húsráðandann vita að þú kunnir sjálfur að meta það sem þú ert að sýna honum í Biblíunni. — Matteus 13:52.

8 Systir í söfnuðinum ákvað til dæmis eftir hryðjuverkaárásirnar á New York að sýna fólki sem hún hitti í boðunarstarfinu Sálm 46:2, 12. Fyrst spurði hún fólk hvernig því gengi að takast á við eftirköst hörmunganna. Hún hlustaði á svör þess, tók undir og sagði síðan: „Má ég sýna þér ritningarstað sem hefur virkilega hjálpað mér á þessum erfiðu tímum?“ Mjög fáir neituðu og hún átti góð samtöl við marga. Þegar þessi sama systir talar við ungt fólk segir hún oft: „Ég hef verið að kenna boðskap Biblíunnar í 50 ár og veistu hvað? Ég hef aldrei staðið frammi fyrir neinu vandamáli sem þessi bók getur ekki hjálpað mér að leysa.“ Ef við erum einlæg og áhugasöm, þegar við komum að máli við fólk, sýnum við því að við elskum og kunnum að meta það sem við höfum lært í orði Guðs. — Sálmur 119:97, 105.

9, 10. Af hverju er mikilvægt að nota Biblíuna þegar við svörum spurningum um trú okkar?

9 Þegar fólk spyr okkur spurninga um trú okkar fáum við upplagt tækifæri til að sýna að við elskum orð Guðs. Ef við fylgjum fordæmi Jesú byggjum við svör okkar ekki á eigin hugmyndum heldur notum Biblíuna. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Hefurðu áhyggjur af því að einhver spyrji þig spurningar sem þú getur ekki svarað? Við skulum skoða tvennt sem þú getur gert.

10 Undirbúðu þig sem best þú getur. Pétur postuli skrifaði: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Ert þú í stakk búinn til að svara fyrir trú þína? Ef einhver vill til dæmis vita af hverju þú tekur ekki þátt í einhverri óbiblíulegri hátíð eða hefð skaltu ekki láta þér nægja að segja aðeins, „Það samræmist ekki trú minni.“ Svar sem þetta gæti gefið til kynna að þú látir aðra taka ákvarðanir fyrir þig og þess vegna hljótir þú að tilheyra sértrúarreglu. Það gæti verið betra að segja: „Orð Guðs, Biblían, er á móti því“ eða: „Það er ekki Guði þóknanlegt“ og útskýra síðan af hverju.

11. Hvaða handbók getur hjálpað okkur að hafa tiltæk svör við spurningum um sannleikann í orði Guðs?

11 Ef þér finnst þú óundirbúinn væri tilvalið að nota tíma til að lesa í bókinni Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni). * Veldu fáein viðfangsefni sem líklegt er að fólk spyrji um og leggðu nokkur biblíuleg atriði á minnið. Hafðu Rökræðubókina og Biblíuna alltaf tiltæka. Hikaðu ekki við að nota þær báðar og segja að þú sért með handbók sem þú viljir nota til að hjálpa þér að finna svör Biblíunnar við spurningum.

12. Hvað getum við sagt ef við vitum ekki svarið við einhverri biblíuspurningu?

12 Reyndu að hafa ekki of miklar áhyggjur. Enginn ófullkominn maður hefur öll svör á reiðum höndum. Þegar einhver spyr þig spurningar um Biblíuna, sem þú getur ekki svarað, geturðu alltaf sagt eitthvað á þessa leið: „Þetta er athyglisverð spurning. Ef ég á að segja eins og er þá veit ég ekki svarið en ég er viss um að Biblían hefur eitthvað um málið að segja. Ég hef mjög gaman af því að rannsaka biblíutengd mál þannig að ég skal athuga þetta og láta þig síðan vita.“ Heiðarlegt og einlægt svar eins og þetta getur opnað leiðina að frekari samræðum. — Orðskviðirnir 11:2.

Kærleikur til fólksins sem við kennum

13. Af hverju ættum við að vera jákvæð í garð þeirra sem við prédikum fyrir?

13 Jesús sýndi fólkinu, sem hann kenndi, kærleika. Hvernig getum við líkt eftir honum að þessu leyti? Við ættum aldrei að vera kaldlynd gagnvart fólkinu í kringum okkur. ‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ vofir vissulega yfir og mörgum verður eytt. (Opinberunarbókin 16:14; Jeremía 25:33) En við vitum ekki hverjir lifa og hverjir deyja. Sá dómur á sér stað í framtíðinni og verður í höndum Jesú Krists sem Jehóva hefur skipað. Þangað til dóminum verður fullnægt lítum við svo á að allir geti orðið þjónar Jehóva. — Matteus 19:24-26; 25:31-33; Postulasagan 17:31.

14. (a) Hvernig gætum við rannsakað sjálf okkur til að sjá hvort við sýnum öðrum hluttekningu? (b) Á hvaða raunhæfan hátt getum við sýnt öðrum hluttekningu og persónulegan áhuga?

14 Við ættum að líkja eftir Jesú og leitast við að setja okkur í spor annarra. Við gætum spurt okkur: ‚Finn ég til með þeim sem hafa látið blekkjast af snjöllum lygum og svikabrögðum trúarbragðanna, stjórnmálaaflanna og viðskiptaheimsins. Ef þeir virðast sinnulausir gagnvart boðskapnum, sem við flytjum, reyni ég þá að skilja af hverju svo er? Geri ég mér grein fyrir því að ég eða aðrir, sem nú þjóna Jehóva trúfastlega, höfðu einu sinni svipuð viðhorf? Hef ég lagað kynninguna mína að þessum aðstæðum? Eða lít ég svo á að þessu fólki sé ekki viðbjargandi?‘ (Opinberunarbókin 12:9) Það er mun líklegra að fólk taki boðskap okkar vel ef það skynjar að við reynum að setja okkur í spor þess. (1. Pétursbréf 3:8) Og ef við setjum okkur í spor þeirra sem við hittum í boðunarstarfinu sýnum við meiri áhuga á högum þess. Við gætum skrifað spurningar og hugleiðingar þess niður. Þegar við komum aftur gætum við sýnt fólkinu að við höfum verið að hugsa um það sem það sagði síðast. Og ef það vantar einhverja aðstoð erum við ef til vill í aðstöðu til að bjóða fram hjálp okkar.

15. Af hverju ættum við að leita að hinu góða í fari fólks og hvernig gætum við gert það?

15 Eins og Jesús leitum við að hinu góða í fari fólks. Einstæð móðir leggur sig alla fram við að ala upp börnin. Karlmaður vinnur hörðum höndum til að sjá fyrir fjölskyldunni. Öldruð manneskja hefur áhuga á andlegum málum. Tökum við eftir slíku í fari fólks sem við hittum og hrósum við því fyrir? Ef við gerum það vaknar gagnkvæmur skilningur sem gæti opnað okkur leið til að vitna um ríkið. — Postulasagan 26:2, 3.

Auðmýkt er nauðsynleg til að sýna kærleika

16. Af hverju er mikilvægt að vera vingjarnleg og kurteis við þá sem við prédikum fyrir?

16 Kærleikur til fólksins, sem við kennum, fær okkur til að fara eftir viturlegri áminningu Biblíunnar: „Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.“ (1. Korintubréf 8:1) Jesús hafði gríðarmikla þekkingu en var aldrei yfirlætislegur. Þegar þú segir öðrum frá trú þinni skaltu forðast þrætutón eða að láta eins og þú sért yfir aðra hafinn. Markmið okkar er að ná til hjartna fólksins og laða það að sannleikanum sem okkur þykir svo vænt um. (Kólossubréfið 4:6) Mundu að þegar Pétur sagði kristnum mönnum að vera ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni minnti hann okkur líka á að við ættum að gera það „með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Það eru meiri líkur á því að við löðum fólk að þeim Guði sem við tilbiðjum ef við erum vingjarnleg og kurteis.

17, 18. (a) Hvernig ættum við að bregðast við ef einhver gagnrýnir okkur fyrir að hafa ekki næga menntun til að kenna orð Guðs? (b) Hvers vegna er ekki nauðsynlegt að biblíunemendur kunni forn biblíumál?

17 Það er engin ástæða til að reyna að vekja hrifningu fólks með því að flíka þekkingu sinni eða menntun. Ef sumir á starfssvæðinu neita að hlusta á þá sem hafa ekki ákveðna háskólamenntun eða titil skaltu ekki láta það draga úr þér. Sumir settu út á það að Jesús hafði ekki farið í mikilsvirta rabbínaskóla þess tíma. En hann hlustaði ekki á þá og lét þessa algengu fordóma ekki hafa áhrif á sig með því að reyna að nota þekkingu sína til að vekja hrifningu annarra. — Jóhannes 7:15.

18 Auðmýkt og kærleikur eru mun mikilvægari fyrir kristna menn heldur en veraldleg menntun. Jehóva, hinn mikli fræðari, gerir okkur hæf til að sinna þessari þjónustu. (2. Korintubréf 3:5, 6) Og hvað sem sumir klerkar kristna heimsins segja þurfum við ekki að læra forn biblíumál til að geta kennt orð Guðs. Jehóva innblés mönnum að skrifa Biblíuna á svo skýru og auðskiljanlegu máli að nánast allir geta skilið sannleikann sem hún hefur að geyma. Þessi sannleikur er óbreyttur þótt hann hafi verið þýddur á hundruð tungumála. Þótt þekking á fornum tungumálum geti stundum verið gagnleg er hún ekki nauðsynleg. Ef við höfum mikla tungumálakunnáttu gætum við þar að auki orðið stolt og tapað eiginleika sem allir sannkristnir menn verða að hafa — námfýsi. — 1. Tímóteusarbréf 6:3, 4.

19. Í hvaða skilningi er boðunarstarfið þjónusta?

19 Það leikur enginn vafi á því að kristin þjónusta okkar krefst auðmýktar. Að staðaldri mætum við mótlæti, áhugaleysi eða jafnvel ofsóknum. (Jóhannes 15:20) En með því að sinna þjónustu okkar trúföst erum við að vinna lífsnauðsynlegt starf. Ef við höldum áfram að þjóna öðrum auðmjúk í þessu starfi líkjum við eftir kærleikanum sem Jesús Kristur sýndi fólki. Þótt við þyrftum að prédika fyrir þúsund áhugalausum mönnum til að ná til eins sauðumlíks manns, væri það ekki þess virði? Jú, auðvitað. Með því að halda þessu verki staðfastlega áfram og gefast aldrei upp erum við trúfastlega að þjóna sauðumlíkum mönnum sem við eigum enn eftir að finna. Við getum verið viss um að Jehóva og Jesús sjá til þess að margir slíkir einstaklingar til viðbótar finnist og fái hjálp áður en endirinn kemur. — Haggaí 2:7.

20. Hvernig getum við kennt með fordæmi okkar?

20 Önnur leið til að sýna að við erum fús til að þjóna öðrum er að kenna með fordæmi okkar. Við viljum til dæmis kenna fólki að það sé besta lífsstefnan að þjóna Jehóva ‚hinum sæla Guði.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Getur fólk þá séð að við erum ánægð og okkur líður vel þegar það fylgist með hegðun okkar og samskiptum við nágranna, skólafélaga og vinnufélaga? Við kennum biblíunemendum líka að kristni söfnuðurinn sé kærleiksríkt athvarf í köldum og grimmum heimi. Sjá nemendur okkar greinilega að við elskum alla í söfnuðinum og leggjum hart að okkur til að halda frið hvert við annað? — 1. Pétursbréf 4:8.

21, 22. (a) Hvað gæti heiðarleg sjálfsrannsókn fengið okkur til að gera? (b) Um hvað verður fjallað í næstu greinum?

21 Jákvætt viðhorf til þjónustunnar gæti fengið okkur til að gera heiðarlega sjálfsrannsókn af og til. Margir komast þá að raun um að þeir eru í aðstöðu til að auka starf sitt með því að hefja þjónustu í fullu starfi eða flytja þangað sem þörfin er meiri. Aðrir hafa ákveðið að læra erlent tungumál til að þjóna vaxandi samfélagi innflytjenda á sínu svæði. Ef þessir möguleikar eru fyrir hendi hjá þér skaltu hugleiða þá vandlega og í bænarhug. Þeir sem setja þjónustuna í fyrsta sæti í lífinu uppskera mikla gleði, ánægju og hugarfrið. — Prédikarinn 5:11.

22 Við skulum því umfram allt halda áfram að líkja eftir Jesú Kristi með því að efla kærleika okkar til sannleikans sem við kennum og til fólksins sem við kennum. Ef við ræktum með okkur og sýnum kærleika á þessum tveimur sviðum hjálpar það okkur að leggja góðan grunn að því að verða kennarar sem líkjast Kristi. En hvernig getum við byggt á þeim grunni? Greinarnar á eftir ræða um nokkrar ákveðnar kennsluaðferðir sem Jesús notaði.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvaða fullvissu höfum við fyrir því að fordæmi Jesú sem kennari sé ekki svo háleitt að við getum ekki fylgt því?

• Hvernig getum við sýnt að við elskum sannleikann sem við höfum lært í Biblíunni?

• Af hverju er mikilvægt að vera auðmjúk þótt þekking okkar aukist?

• Nefndu nokkrar leiðir til að sýna þeim sem við leitumst við að kenna kærleika.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 14]

Gerðu það sem þú getur til að vera undirbúin.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Ef þú lítur á ‚þekkinguna á Guði‘ sem fjársjóð geturðu notað Biblíuna á áhrifaríkan hátt.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við sýnum fólki kærleika með því að segja því frá fagnaðarerindinu.