Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Nálægðu þig Guði‘

‚Nálægðu þig Guði‘

‚Nálægðu þig Guði‘

„Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:8.

1, 2. (a) Hvað fullyrða margir? (b) Til hvers hvatti Jakob og hvers vegna var þörf á því?

„GUÐ með oss.“ Þessi orð hafa prýtt bæði þjóðartákn og hermannabúninga. Orðin „Guði treystum vér“ standa á ótal peningum og seðlum. Margir segjast eiga náið samband við Guð. En þú fellst áreiðanlega á að raunverulegt samband við Guð útheimti miklu meira en að tala um það eða veifa slagorðum.

2 Af Biblíunni má sjá að menn geta átt samband við Guð. En það kostar viðleitni. Einstaka smurður kristinn maður á fyrstu öld þurfti að styrkja samband sitt við Jehóva Guð. Kristni umsjónarmaðurinn Jakob þurfti að vara suma við holdlegum tilhneigingum þeirra og því að glata andlegum hreinleika. Jafnhliða þessum ráðleggingum hvatti hann eindregið: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:1-12) Hvað átti Jakob við með orðinu „nálægið“?

3, 4. (a) Á hvað kann orðið „nálægið“ að hafa minnt suma lesendur Jakobsbréfsins á fyrstu öld? (b) Af hverju megum við treysta að það sé hægt að nálgast Guð?

3 Jakob notaði orð sem margir lesenda hans hljóta að hafa þekkt. Í Móselögunum voru sérstök fyrirmæli til presta um það hvernig þeir ættu að „nálgast“ Jehóva fyrir hönd þjóðar hans. (2. Mósebók 19:22) Þetta hefur kannski minnt lesendur Jakobsbréfsins á að það sé ekki sjálfsagt mál að nálgast Jehóva því að hann gegnir æðstu tignarstöðu í alheiminum.

4 En eins og biblíufræðingur bendir á „lýsir hvatningin [í Jakobsbréfinu 4:8] sterkri bjartsýni.“ Jakob vissi að Jehóva hafði alltaf boðið ófullkomnum mönnum hlýlega að nálgast sig. (2. Kroníkubók 15:2) Fórn Jesú opnaði mönnum svo aðgang að Jehóva í víðari skilningi. (Efesusbréfið 3:11, 12) Núna hefur milljónum manna opnast leiðin til að nálgast Guð! En hvernig getum við notfært okkur þetta einstaka tækifæri? Við skulum skoða stuttlega þrjár leiðir til að nálgast Jehóva Guð.

Haltu áfram að kynnast Guði

5, 6. Hvernig er drengurinn Samúel dæmi um hvað sé fólgið í því að „þekkja“ Guð?

5 Jesús sagði samkvæmt Jóhannesi 17:3: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um að „þekkja“ Guð? Margir fræðimenn benda á að frumgríska orðið lýsi áframhaldandi ferli sem geti jafnvel leitt til náinna kynna.

6 Að kynnast Guði náið var ekki ný hugmynd á dögum Jesú. Við lesum til dæmis í Hebresku ritningunum að Samúel ‚hafi ekki enn þekkt Drottin‘ þegar hann var drengur. (1. Samúelsbók 3:7) Merkti það að Samúel hafi vitað fátt um Guð sinn? Nei, foreldrar hans og prestarnir hafa áreiðanlega kennt honum margt. En fræðimaður bendir á að hægt sé að nota hebreska orðið í þessu versi um „mjög náin kynni.“ Samúel var enn ekki búinn að kynnast Jehóva náið, eins og hann gerði síðar sem talsmaður hans. Þegar Samúel óx úr grasi kynntist hann Jehóva vel og eignaðist náið persónulegt samband við hann. — 1. Samúelsbók 3:19, 20.

7, 8. (a) Hvers vegna ættum við ekki að láta hinar djúpstæðari kenningar Biblíunnar vaxa okkur í augum? (b) Hvaða djúpstæðar biblíukenningar ættum við að rannsaka?

7 Ert þú að afla þér þekkingar á Jehóva til að kynnast honum náið? Til að gera það þarftu að ‚sækjast eftir‘ andlegu fæðunni sem Guð lætur í té. (1. Pétursbréf 2:2) Láttu þér ekki nægja að þekkja undirstöðuatriðin. Leitastu heldur við að fræðast um hinar djúpstæðari kenningar Biblíunnar. (Hebreabréfið 5:12-14) Læturðu þessar kenningar vaxa þér í augum og gerir ráð fyrir að þær séu ofvaxnar skilningi þínum? Ef svo er skaltu muna að það er Jehóva ‚sem kennir okkur.‘ (Jesaja 30:20) Hann kann að koma djúpstæðum sannindum á framfæri við ófullkomna menn. Og hann getur blessað einlæga viðleitni þína til að skilja það sem hann er að kenna þér. — Sálmur 25:4.

8 Væri ekki ráð að líta í eigin barm og kanna hvernig þú hugsar um sum af hinum djúpstæðu sannindum í orði Guðs? (1. Korintubréf 2:10) Þetta eru ekki þurr fræði í líkingu við þau sem ætla má að guðfræðingar og prestar deili um, heldur lifandi kenningar sem veita hrífandi innsýn í huga og hjarta hins kærleiksríka föður okkar. Lausnargjaldið, ‚leynd speki Guðs,‘ og hinir ýmsu sáttmálar sem hann hefur notað í þágu þjóna sinna og til að hrinda ásetningi sínum í framkvæmd — þessi viðfangsefni og mörg önnur álíka eru ánægjuleg og gefandi náms- og rannsóknarefni fyrir hvern og einn. — 1. Korintubréf 2:7.

9, 10. (a) Hvers vegna er dramb hættulegt og hvað hjálpar okkur að forðast það? (b) Af hverju ættum við að kappkosta að vera lítillát varðandi þekkinguna á Jehóva?

9 Þegar þú kafar dýpra ofan í andleg sannindi þarftu að vara þig á hættunni sem fylgir þekkingu — drambi. (1. Korintubréf 8:1) Dramb er hættulegt því að það gerir fólk fráhverft Guði. (Orðskviðirnir 16:5; Jakobsbréfið 4:6) Mundu að enginn maður hefur ástæðu til að gorta af þekkingu sinni. Grípum til dæmis niður í inngangsorð bókar sem leggur mat á nýjustu vísindaframfarir mannkyns: „Því meir sem við vitum, þeim mun betur gerum við okkur grein fyrir hve lítið við vitum. . . . Allt sem við höfum lært er smáræði í samanburði við það sem við eigum ólært.“ Auðmýkt sem þessi kemur þægilega á óvart. Við höfum enn ríkari ástæðu til að vera auðmjúk gagnvart þekkingunni á Jehóva Guði því að þar er um óþrjótandi þekkingarsjóð að ræða. Hvernig þá?

10 Taktu eftir ýmsum ummælum Biblíunnar um Jehóva. „Harla djúpar [eru] hugsanir þínar.“ (Sálmur 92:6) „Speki [Jehóva] er ómælanleg.“ (Sálmur 147:5) „Speki [Jehóva] er órannsakanleg.“ (Jesaja 40:28) „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ (Rómverjabréfið 11:33) Ljóst er að við vitum aldrei allt sem hægt væri að vita um Jehóva. (Prédikarinn 3:11) Hann hefur kennt okkur margt frábært en það verður eftir sem áður óendanlegt sem við eigum ólært um hann. Finnst þér það ekki hrífandi tilhugsun? Vekur hún ekki með þér auðmýkt? Þegar við lærum skulum við því nota þekkinguna til að nálægja okkur Jehóva og hjálpa öðrum að gera það einnig — en aldrei til að upphefja okkur yfir aðra. — Matteus 23:12; Lúkas 9:48.

Sýndu Jehóva kærleika þinn í verki

11, 12. (a) Hvaða áhrif ætti sönn þekking, sem við öflum okkur um Jehóva, að hafa á okkur? (b) Hvað ræður því hvort kærleikur manns til Guðs er ósvikinn?

11 Páll postuli benti á tengsl þekkingar og kærleika er hann skrifaði: „Þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind.“ (Filippíbréfið 1:9) Í stað þess að blása okkur upp af stolti ætti hver einasta dýrmæt staðreynd, sem við lærum um Jehóva og ásetning hans, að styrkja kærleikann til föður okkar á himnum.

12 Margir elska reyndar ekki Guð þó að þeir haldi því fram. Þeir bera kannski einlægar og sterkar tilfinningar í hjarta sér sem er bæði gott og hrósvert ef þær byggjast á nákvæmri þekkingu. En það er í sjálfu sér ekki hið sama og raunverulegur kærleikur til Guðs. Hvers vegna? Sjáðu hvernig orð Guðs skilgreinir slíkan kærleika: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Kærleikurinn til Jehóva er því aðeins sannur að hann birtist í hlýðni og í verki.

13. Hvernig er guðsótti okkur hjálp til að sýna Jehóva kærleika okkar?

13 Guðsótti hjálpar okkur að hlýða Guði. Guðsótti er djúp lotning og virðing fyrir Guði sem er sprottin af því að kynnast honum, að fræðast um óendanlegan heilagleika hans, dýrð, mátt, réttlæti, visku og kærleika. Þessi ótti er forsenda þess að nálægjast hann. Sálmur 25:14 segir jafnvel: „Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann.“ Við getum eignast náið samband við ástkæran föður okkar á himnum ef við óttumst á heilbrigðan hátt að misþóknast honum. Guðsóttinn er okkur hjálp til að fylgja hinum viturlegu ráðum í Orðskviðunum 3:6: „Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Hvað merkir þetta?

14, 15. (a) Nefndu dæmi um ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir í daglega lífinu. (b) Hvernig getum við látið ákvarðanir okkar endurspegla guðsótta?

14 Þú þarft að taka bæði stórar og smáar ákvarðanir á hverjum degi. Hvers konar samræður ætlarðu til dæmis að eiga við vinnufélaga, skólafélaga og nágranna? (Lúkas 6:45) Ætlarðu að leggja þig vel fram við hvert það verk sem þú átt að vinna eða reynirðu að sleppa sem auðveldast frá því? (Kólossubréfið 3:23) Ætlarðu að auka tengslin við þá sem sýna Jehóva lítinn eða engan kærleika eða reynirðu að styrkja sambandið við þá sem eru andlega sinnaðir? (Orðskviðirnir 13:20) Hvað ætlarðu að gera, jafnvel í smáu, til að efla hag Guðsríkis? (Matteus 6:33) Ef þú lætur meginreglur Biblíunnar, eins og þær sem hér eru nefndar, ráða daglegum ákvörðunum þínum, þá ‚manstu til Jehóva á öllum vegum þínum.‘

15 Í hvert sinn sem við þurfum að taka ákvörðun ættum við að spyrja okkur efnislega: ‚Hvað myndi Jehóva vilja að ég gerði? Hvaða stefna myndi gleðja hann mest?‘ (Orðskviðirnir 27:11) Guðsótti, sem birtist með þessum hætti, er prýðisleið til að sýna Jehóva kærleika sinn. Guðsóttinn hjálpar okkur líka að halda okkur hreinum — andlega, siðferðilega og líkamlega. Höfum í huga að í versinu, þar sem Jakob hvetur kristna menn til að ‚nálægja sig Guði,‘ hvetur hann einnig: „Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ — Jakobsbréfið 4:8.

16. Hvað getum við aldrei gert með því að gefa Jehóva en hvers vegna eigum við samt að gera það?

16 Að sýna Jehóva kærleika er auðvitað miklu meira en að forðast hið illa. Kærleikur er manni einnig hvöt til að gera hið rétta. Hver eru til dæmis viðbrögð okkar við hinu feikilega örlæti Jehóva? Jakob skrifaði: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna.“ (Jakobsbréfið 1:17) Við auðgum Jehóva auðvitað ekki þegar við gefum honum af eigum okkar. Hann á hvort eð er alla hluti og allar auðlindir. (Sálmur 50:12) Og þegar við gefum Jehóva af tíma okkar og kröftum erum við ekki að fullnægja þörf sem hann getur ekki fullnægt með öðrum hætti. Hann gæti meira að segja látið steinana hrópa ef við neituðum að prédika fagnaðarerindið um ríkið! Hvers vegna eigum við þá að gefa Jehóva af fjármunum okkar, tíma og kröftum? Fyrst og fremst vegna þess að þannig sýnum við honum að við elskum hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. — Markús 12:29, 30.

17. Hvað getur verið okkur hvöt til að gefa Jehóva með gleði?

17 Við ættum að gefa Jehóva fúslega vegna þess að hann „elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Meginreglan í 5. Mósebók 16:17 getur hjálpað okkur að gefa með gleði: „Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér.“ Þegar við íhugum hve örlátur Jehóva hefur verið við okkur finnum við hjá okkur löngun til að gefa honum örlátlega. Slík gjafmildi gleður hjarta hans, ekki ósvipað og smágjöf sem ástfólgið barn gefur foreldri sínu. Við styrkjum tengslin við Jehóva með því að sýna honum kærleika okkar með þessum hætti.

Byggðu upp náið samband með bæninni

18. Hvers vegna er ástæða til að íhuga hvernig við getum bætt bænir okkar?

18 Þær stundir, sem við höfum til að biðja einslega til Jehóva, eru ómetanlegar — við höfum tækifæri til að eiga persónulegt trúnaðarsamtal við föður okkar á himnum. (Filippíbréfið 4:6) Þar eð bænin er mikilvæg leið til að nálægja sig Guði er það þess virði að staldra við og íhuga hvernig bænir okkar eru. Ekki svo að skilja að þær þurfi að vera fyrsta flokks dæmi um málsnilld og uppbyggingu heldur ættu þær að vera einlægar og koma frá hjartanu. Hvernig getum við bætt bænir okkar?

19, 20. Hvers vegna ættum við að hugleiða málin áður en við biðjum og hvað er viðeigandi að hugleiða?

19 Við gætum reynt að hugleiða málin áður en við biðjum. Ef við hugsum okkur um fyrir fram getum við gert bænirnar markvissar og innihaldsríkar og forðast að endurtaka kunnugleg orðatiltæki sem koma greiðlega upp í hugann. (Orðskviðirnir 15:28, 29) Það gæti kannski verið gott að velta fyrir sér sumu af því sem Jesús nefndi í fyrirmyndarbæninni og hugleiða síðan hvernig það tengist aðstæðum okkar. (Matteus 6:9-13) Við gætum til dæmis spurt okkur hvaða smáhlutverki við vonumst til að gegna í því að gera vilja Jehóva hér á jörðinni. Gætum við sagt Jehóva að okkur langi til að koma að eins miklu gagni og við framast getum, og beðið hann að hjálpa okkur að vinna vel að hverju verkefni sem hann hefur falið okkur? Eru áhyggjur af efnislegum nauðsynjum að íþyngja okkur? Hvaða syndir þurfum við að fá fyrirgefnar og hverjum þurfum við að vera fúsari til að fyrirgefa? Hvaða freistingar sækja á okkur og gerum við okkur grein fyrir hve áríðandi það er að njóta verndar Jehóva?

20 Og kannski verður okkur hugsað til fólks sem við þekkjum og þarfnast hjálpar Jehóva sérstaklega. (2. Korintubréf 1:11) En við megum ekki gleyma að færa Jehóva þakkir. Við þurfum ekki annað en að hugsa okkur aðeins um til að finna ástæður til að þakka honum og lofa hann daglega fyrir ríkulega gæsku hans. (5. Mósebók 8:10; Lúkas 10:21) Með því að gera það verður auðveldara fyrir okkur að líta lífið jákvæðari og þakklátari augum.

21. Hvaða dæmi í Biblíunni geta hjálpað okkur þegar við nálgumst Jehóva í bæn?

21 Við getum einnig auðgað bænir okkar með námi. Í orði Guðs eru skráðar athyglisverðar bænir trúfastra karla og kvenna. Segjum til dæmis að alvarlegt vandamál blasi við sem gerir okkur kvíðin eða jafnvel uggandi um velferð okkar eða ástvina okkar. Þá gætum við lesið bæn Jakobs er hann bar fram áður en hann átti fund við Esaú, hefnigjarnan bróður sinn. (1. Mósebók 32:9-12) Eins gætum við íhugað bænina sem Asa konungur bað þegar milljón eþíópískra hermanna ógnaði þjóð Guðs. (2. Kroníkubók 14:11, 12) Ef vandamál steðjar að sem virðist ætla að kasta rýrð á nafn Jehóva, þá er bæn Elía frammi fyrir Baalsdýrkendunum á Karmelfjalli umhugsunarverð, eða þá bæn Nehemía um hið sorglega ástand Jerúsalem. (1. Konungabók 18:36, 37; Nehemíabók 1:4-11) Með því að lesa og hugleiða slíkar bænir getum við styrkt trú okkar og fengið hugmyndir um hvernig best sé að bera upp við Jehóva þær áhyggjur sem íþyngja okkur.

22. Hver er árstextinn 2003 og hvers gætum við spurt okkur af og til meðan árið er að líða?

22 Ljóst er að það er ekki til meiri heiður og ekkert göfugra markmið en að ‚nálægja sig Guði‘ eins og Jakob ráðleggur. (Jakobsbréfið 4:8) Gerum það með því að vaxa jafnt og þétt í þekkingu á Guði, með því að reyna að tjá honum kærleika okkar æ betur og með því að eiga sem nánast bænasamband við hann. Höldum áfram að líta í eigin barm árið 2003 og kanna hvort við erum að nálægja okkur Jehóva, með hliðsjón af Jakobsbréfinu 4:8 þangað sem árstextinn 2003 er sóttur. En hvað um seinni hluta setningarinnar? Í hvaða skilningi mun Jehóva ‚nálgast okkur‘ og hvaða blessun hefur það í för með sér? Greinin á eftir fjallar um það.

Manstu?

• Hvers vegna ættum við að taka það alvarlega að nálægja okkur Jehóva?

• Hvaða markmið gætum við sett okkur varðandi það að afla okkur þekkingar á Jehóva?

• Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva í sannleika?

• Hvernig getur bænin styrkt samband okkar við Jehóva?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 22]

Árstextinn 2003 verður: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — Jakobsbréfið 4:8.

[Mynd á blaðsíðu 18, 19]

Samúel kynntist Jehóva náið er hann komst til vits og ára.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Bæn Elía á Karmelfjalli er okkur góð fyrirmynd.