Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einkanám sem gerir okkur hæf til að kenna

Einkanám sem gerir okkur hæf til að kenna

Einkanám sem gerir okkur hæf til að kenna

„Stunda [„hugleiddu,“ NW] þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós. Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.

1. Hvað er hægt að segja um tímasetningu og einkanám?

„ÖLLU er afmörkuð stund,“ segir í Prédikaranum 3:1. Þetta á sannarlega við um einkanám. Mörgum finnst erfitt að hugleiða andleg mál ef staður eða tími henta ekki vel. Ertu til dæmis ákafur í að nema þegar þú kemur þreyttur heim úr vinnu og ert nýbúinn að borða góða máltíð? Ertu ólmur að nema þegar þú ert búinn að koma þér fyrir í uppáhaldshægindastólnum fyrir framan sjónvarpið? Það er ólíklegt. Hvað er til ráða? Það er augljóst að við verðum að velja hentugan stað og tíma til náms svo að við höfum sem mest gagn af erfiði okkar.

2. Hvenær er oft hentugast að nema?

2 Mörgum finnst best að nema snemma á morgnana því að þá eiga þeir yfirleitt gott með að einbeita sér. Aðrir taka sér smátíma til náms í hádegishléinu. Davíð konungur í Ísrael til forna nefnir tímasetningu í tengslum við mikilvægar andlegar iðkanir. Hann segir: „Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.“ (Sálmur 143:8) Spámaðurinn Jesaja gerði sér einnig grein fyrir gildi náms og sagði: „Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.“ Kjarni málsins er sá að við verðum að nema og tjá okkur innilega við Jehóva þegar hugurinn er vel vakandi, hvenær dags sem það kann að vera. — Jesaja 50:4, 5; Sálmur 5:4; 88:14.

3. Við hvaða aðstæður er best að nema?

3 Annað sem stuðlar að áhrifaríku námi er að sitja ekki í þægilegasta stólnum eða sófanum því að það skerðir einbeitinguna. Hugurinn verður að fá örvun þegar við nemum og of mikil þægindi virðast hafa gagnstæð áhrif. Einnig er æskilegt að velja kyrrlátan stað fyrir nám og hugleiðingu. Það gefur ekki góða raun að nema þegar kveikt er á útvarpi eða sjónvarpi eða þegar börn keppast um athygli okkar. Jesús fór á kyrrlátan stað þegar hann langaði til að hugleiða. Hann talaði einnig um gildi þess að fara á afvikinn stað til að biðjast fyrir. — Matteus 6:6; 14:13; Markús 6:30-32.

Einkanám sem gerir okkur hæf til að svara

4, 5. Á hvaða hátt er Kröfubæklingurinn gagnlegur?

4 Einkanám er ánægjulegt þegar við notum hin ýmsu hjálpargögn til að rannsaka gaumgæfilega ákveðið viðfangsefni, einkum þegar við leitum svara við einlægum spurningum annarra. (1. Tímóteusarbréf 1:4; 2. Tímóteusarbréf 2:23) Margir stíga sín fyrstu skref í biblíunámi með því að fara yfir bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur?, * en hann er fáanlegur á 261 tungumáli. Hann er einfaldur en nákvæmur og styðst algerlega við Biblíuna. Lesandinn er fljótur að átta sig á hvaða kröfur Guð gerir til þeirra sem vilja tilbiðja hann á réttan hátt. Það er hins vegar ekki pláss í bæklingnum fyrir nákvæma umfjöllun um hvert atriði. Hvernig getur þú fundið meira efni sem hjálpar biblíunemanda þínum að fá svör við spurningum sínum ef hann biður um nánari skýringu á því sem þið eruð að ræða?

5 Þeir sem hafa geisladiskinn Watchtower Library (Varðturnsbókasafnið) á máli sem þeir skilja geta auðveldlega nálgast mikið magn upplýsinga í tölvu. En hvað um þá sem geta ekki nýtt sér þennan möguleika? Við skulum skoða tvö umræðuefni í Kröfubæklingnum og sjá hvernig við getum dýpkað skilning okkar og gefið nákvæmari svör, sérstaklega ef einhver spyr: Hver er Guð eða hvernig var Jesús í raun og veru? — 2. Mósebók 5:2; Lúkas 9:18-20; 1. Pétursbréf 3:15.

Hver er Guð?

6, 7. (a) Hvaða spurning vaknar um Guð? (b) Hvað vanrækti prestur í fyrirlestri?

6 Kafli 2 í Kröfubæklingnum svarar mikilvægri spurningu: Hver er Guð? Þetta er undirstöðuatriði því að það er ekki hægt að tilbiðja hinn sanna Guð ef maður þekkir hann ekki eða efast um tilvist hans. (Rómverjabréfið 1:19, 20; Hebreabréfið 11:6) Fólk um allan heim hefur samt sem áður fjölmargar hugmyndir um það hver Guð sé. (1. Korintubréf 8:4-6) Hver einasta trúarstefna hefur ólík svör við þessari spurningu. Flest trúarbrögð kristna heimsins líta á Guð sem þrenningu. Vel kunnur prestur í Bandaríkjunum flutti fyrirlestur sem bar stefið: „Þekkir þú Guð?“ Hann vitnaði nokkrum sinnum í Hebresku ritningarnar en nafn Guðs kom samt sem áður aldrei fyrir í ræðunni. Auðvitað notaði hann biblíuþýðingu þar sem búið var að skipta nafninu Jehóva eða Jahve út fyrir titilinn „Drottinn“ sem er tvíræður og þar að auki ekki nafn.

7 Prestinum yfirsást sannarlega veigamikið atriði er hann vitnaði í Jeremía 31:33, 34: „Þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: ,Lærið að þekkja Drottin,‘ [á hebresku: „þekkja Jehóva“] því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir — segir Drottinn [á hebresku: Jehóva].“ Nafni Guðs, Jehóva, sem auðkennir hann, hafði verið sleppt úr þýðingunni sem presturinn notaði. — Sálmur 103:1, 2, NW.

8. Hvað lýsir vel mikilvægi þess að nota nafn Guðs?

8 Sálmur 8:10 lýsir vel hvers vegna það er svo mikilvægt að nota nafn Jehóva: „Jahve, drottinn vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“ (Biblían 1908) Berum þetta saman við eftirfarandi: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!“ (Biblían 1981) Ef við leyfum orði Guðs að upplýsa okkur getum við öðlast ,þekkingu á Guði‘ eins og kom fram í námsgreininni á undan. En hvaða biblíunámsgagn svarar greiðlega spurningum okkar um mikilvægi nafns Guðs? — Orðskviðirnir 2:1-6.

9. (a) Hvaða rit getur hjálpað okkur að útskýra hvers vegna það er mikilvægt að nota nafn Guðs? (b) Hvernig hafa margir biblíuþýðendur sýnt nafni Guðs lítinn sóma?

9 Bæklingurinn Nafn Guðs sem vara mun að eilífu kemur að góðu gagni en hann hefur verið þýddur á 69 tungumál. * Kaflinn „Nafn Guðs — merking þess og framburður“ (blaðsíðu 6-11) sýnir svo ekki verður um villst að hebreska fjórstafanafnið kemur nær 7000 sinnum fyrir í hinum forna hebreska texta. Prestar og þýðendur gyðingdómsins og kristna heimsins hafa hins vegar vísvitandi fellt það úr stærstum hluta biblíuþýðinga sinna. * Hvernig geta þeir sagst þekkja Guð og þóst eiga gott samband við hann ef þeir vilja ekki nota nafn hans? Nafn Guðs gerir okkur kleift að skilja ásetning hans og hver hann er. Fyrirmyndarbæn Jesú hefst á orðunum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ Hvaða gildi hafa þessi orð ef nafn Guðs er ekki einu sinni notað? — Matteus 6:9; Jóhannes 5:43; 17:6.

Hver er Jesús Kristur?

10. Hvernig getum við fengið nákvæma mynd af lífi og þjónustu Jesú?

10 Þriðji kaflinn í Kröfubæklingnum heitir: „Hver er Jesús Kristur?“ Í aðeins sex greinum fær lesandinn heildarmynd af Jesú, uppruna hans og tilganginum með komu hans til jarðar. Ef þig langar hins vegar til að fá nákvæma mynd af lífi hans er ekki til betri bók — fyrir utan guðspjöllin sjálf — en Mesta mikilmenni sem lifað hefur sem hefur verið þýdd á 111 tungumál. * Þessi bók er byggð á guðspjöllunum fjórum og hefur að geyma nákvæma frásögn í tímaröð af lífi Jesú Krists og kenningum hans. Henni er skipt í 133 kafla sem fjalla um atburði í lífi Jesú og þjónustu. Undir flettunni „Jesús Kristur“ í 2. bindi Innsýnarbókarinnar er fjallað um ævi hans frá öðru sjónarhorni.

11. (a) Hvernig skera vottar Jehóva sig úr varðandi trú sína á Jesú? (b) Nefndu dæmi um ritningarstaði sem hrekja þrenningarkenninguna og hvaða rit getur hjálpað okkur að þessu leyti?

11 Aðaldeilumál kristna heimsins varðandi Jesú snýst um það hvort hann sé „sonur Guðs“ jafnframt því að vera „Guð sonurinn.“ Með öðrum orðum er þetta deilumál um þrenninguna sem Catechism of the Catholic Church kallar „meginráðgátu kristinnar trúar.“ Vottar Jehóva eru hins vegar á öndverðum meiði við trúarbrögð kristna heimsins. Þeir trúa því að Jesús hafi verið skapaður af Guði en sé ekki Guð. Bæklingurinn Ættum við að trúa á þrenninguna? fjallar um þetta mál á frábæran hátt en hann hefur verið gefinn út á 95 tungumálum. * Þar eru fjölmargir ritningarstaðir notaðir til að hrekja þrenningarkenninguna, þeirra á meðal eru Markús 13:32 og 1. Korintubréf 15:24, 28.

12. Að hvaða spurningu ættum við að gefa gaum?

12 Umfjöllunin hér á undan um Guð og Jesú Krist sýnir okkur hvernig við getum numið með það fyrir augum að hjálpa þeim sem eru ókunnugir sannleika Biblíunnar að fá nákvæma þekkingu. (Jóhannes 17:3) En hvað um þá sem hafa tilheyrt kristna söfnuðinum í mörg ár? Þurfa þeir að halda áfram einkanámi í orði Jehóva þrátt fyrir þekkinguna sem þeir hafa aflað sér?

Hvers vegna að ,hafa gát á sjálfum okkur‘?

13. Hvaða röngu afstöðu gætu sumir haft til einkanáms?

13 Sumir sem hafa verið vottar Jehóva í mörg ár reiða sig kannski algerlega á biblíuþekkinguna sem þeir fengu fyrstu árin í sannleikanum. Það er auðvelt að hugsa sem svo: „Ég þarf ekki að nema eins mikið og þeir nýju. Ég hef lesið Biblíuna og biblíutengd rit svo oft í gegnum árin.“ Þetta er svipað og að segja: „Ég þarf ekki að hugsa svo mikið um mataræðið því ég hef borðað svo margar máltíðir á liðnum árum.“ Við vitum að líkaminn þarf að fá stöðuga næringu til að vera heilbrigður og hana fær hann úr næringarríkum mat. Þetta á ekkert síður við um andlega heilsu okkar og styrk. — Hebreabréfið 5:12-14.

14. Hvers vegna verðum við að hafa stöðuga gát á okkur?

14 Allir, hvort sem þeir hafa numið Biblíuna í lengri eða skemmri tíma, þurfa því að fara eftir orðum Páls til Tímóteusar sem var þá orðinn þroskaður og áreiðanlegur öldungur: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15, 16) Hvers vegna ættum við að íhuga orð Páls vandlega? Páll sagði einnig að við ættum í baráttu við „vélabrögð djöfulsins“ og „andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ Pétur postuli sagði í viðvörunartón að djöfullinn væri „leitandi að þeim, sem hann geti gleypt“ og þessir ,þeir‘ gætu verið eitthvert okkar. Andvaraleysi okkar getur einmitt verið það sem hann leitar að. — Efesusbréfið 6:11, 12; 1. Pétursbréf 5:8.

15. Hvaða andlegu varnir höfum við og hvernig er hægt að viðhalda þeim?

15 Hvernig getum við þá varist? Páll postuli segir: „Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ (Efesusbréfið 6:13) Styrkur þessa andlega alvæpnis er ekki aðeins háður því hvernig það var í byrjun heldur einnig reglulegu viðhaldi. Alvæpni Guðs verður því að fela í sér þann skilning sem við fáum jafnt og þétt á orði Guðs. Þetta segir okkur hversu mikilvægt það er að vera vel upplýst um skilning okkar á sannleikanum eins og Jehóva opinberar hann í orði sínu og fyrir atbeina hins trúa og hyggna þjónshóps. Reglubundið einkanám í Biblíunni og biblíutengdum ritum er nauðsynlegt til að viðhalda andlegum herklæðum okkar. — Matteus 24:45-47; Efesusbréfið 6:14, 15.

16. Hvað getum við gert til að ganga úr skugga um að ,skjöldur trúarinnar‘ sé í góðu ásigkomulagi?

16 Páll leggur áherslu á „skjöld trúarinnar“ sem er mikilvægur þáttur andlegu herklæðanna. Með þessum skildi getum við varist eldlegum skeytum Satans og slökkt þau, en þau eru bæði fólgin í röngum ásökunum og fráhvarfskenningum. (Efesusbréfið 6:16) Það er þess vegna áríðandi að athuga hve sterkur trúarskjöldur okkar er og hvað við þurfum að gera til að halda honum við og styrkja hann. Þú gætir til dæmis spurt: ,Hvernig undirbý ég mig fyrir hið vikulega biblíunám með hjálp Varðturnsins? Hef ég numið þannig að ég geti hvatt aðra „til kærleika og góðra verka“ á samkomunni með því að gefa vel ígrunduð svör? Fletti ég upp þeim ritningarstöðum, sem vísað er til en ekki vitnað í, og les þá? Hvet ég aðra með því að taka góðan þátt í samkomunum?‘ Við þurfum að melta hina föstu andlegu fæðu vel til að hún gagnist okkur sem best. — Hebreabréfið 5:14; 10:24.

17. (a) Með hvaða eitri reynir Satan að spilla andlegu hugarfari okkar? (b) Hvert er mótefnið gegn eitri Satans?

17 Satan þekkir veikleika hins fallna holds og vélabrögð hans eru lævís. Eitt af því sem hann gerir til að hafa slæm áhrif er að sjá til þess að greiður aðgangur sé að klámi í sjónvarpi, á Netinu, á myndböndum og á prenti. Kristnir menn hafa sumir hverjir leyft þessu eitri að smjúga í gegnum þá litlu vörn sem þeir hafa. Það hefur leitt til þess að þeir hafa misst þjónustusérréttindi í söfnuðinum eða hefur jafnvel haft enn alvarlegri afleiðingar. (Efesusbréfið 4:17-19) Hvert er mótefnið gegn andlegu eitri Satans? Við megum ekki vanrækja einkanám, safnaðarsamkomur og alvæpni Guðs. Í sameiningu hjálpar það okkur að gera greinarmun á réttu og röngu og að hata það sem Guð hatar. — Sálmur 97:10; Rómverjabréfið 12:9.

18. Hvernig getur ,sverð andans‘ hjálpað okkur í andlegu baráttunni?

18 Ef við höldum áfram að nema Biblíuna reglulega mun nákvæm þekking á henni veita okkur trausta vörn og við getum sótt fram með „sverði andans, sem er Guðs orð.“ Orð Guðs er „beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Efesusbréfið 6:17; Hebreabréfið 4:12) Með því að nota þetta ,sverð‘ af leikni getum við, þegar við verðum fyrir freistingum, afhjúpað það sem virðist vera skaðlaust eða jafnvel eftirsóknarvert en er í raun dauðagildra hins vonda. Biblíuþekking okkar og skilningur hjálpar okkur að hafna því sem rangt er og að gera það sem rétt er. Við þurfum því öll að spyrja okkur: ,Er sverðið mitt beitt eða bitlaust? Á ég erfitt með að rifja upp ritningarstaði sem geta styrkt mig í baráttunni?‘ Höldum áfram reglulegu einkanámi í Biblíunni og stöndum þannig gegn djöflinum. — Efesusbréfið 4:22-24.

19. Hvaða gagn höfum við af því að leggja okkur fram við einkanám?

19 Páll skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ Ef við leyfum þessum orðum Páls til Tímóteusar að hafa áhrif á okkur getum við eflst andlega og gert þjónustu okkar árangursríkari, og öldungar og safnaðarþjónar geta orðið söfnuðinum að enn meira gagni og allir geta verið sterkir í trúnni. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Matteus 7:24-27.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Þeir sem nýlega hafa fengið áhuga og eru að fara yfir Kröfubæklinginn halda yfirleitt áfram í bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Þessi rit eru gefin út af Vottum Jehóva. Þær tillögur, sem gefnar eru hér, stuðla að andlegum framförum biblíunemenda.

^ gr. 9 Gefinn út af Vottum Jehóva. Þeir sem eiga Insight on the Scriptures (Innsýn í Ritninguna) á máli sem þeir skilja geta skoðað 2. bindi undir flettunni „Jehóva.“

^ gr. 9 Nokkrar spænskar og katalónískar þýðingar eru undantekning frá þessu. Þar kemur hebreska fjórstafanafnið fyrir í myndunum „Yavé,“ „Yahveh,“ „Jahvè“ og „Jehová.“

^ gr. 10 Gefin(n) út af Vottum Jehóva.

^ gr. 11 Gefin(n) út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvers konar aðstæður stuðla að árangursríku einkanámi?

• Hvernig er farið með nafn Guðs í mörgum biblíuþýðingum?

• Hvaða ritningarstaði myndir þú nota til að afsanna þrenningarkenninguna?

• Hvað verðum við að gera til að verja okkur gegn vélabrögðum Satans þó svo að við höfum verið sannkristin í mörg ár?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 25]

Til að námið sé árangursríkt þarftu að velja góðan stað þar sem truflun er sem minnst.

[Myndir á blaðsíðu 29]

Er ‚sverðið‘ þitt beitt eða bitlaust?