Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Reyndu að líta aðra sömu augum og Jehóva

Reyndu að líta aðra sömu augum og Jehóva

Reyndu að líta aðra sömu augum og Jehóva

„Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á.“ — 1. SAMÚELSBÓK 16:7.

1, 2. Hvernig litu Jehóva og Samúel ólíkt á Elíab, og hvað má læra af því?

ÞAÐ var á 11. öld f.o.t. sem Jehóva sendi spámanninn Samúel til að sinna leynilegu verkefni. Hann átti að fara í hús manns er Ísaí hét og smyrja einn af sonum hans til væntanlegs konungsembættis í Ísrael. Þegar Samúel sá Elíab, frumgetinn son Ísaí, taldi hann víst að hann hefði fundið hinn útvalda. En Jehóva sagði: „Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:6, 7) Samúel hafði ekki litið Elíab sömu augum og Jehóva. *

2 Það er ósköp auðvelt fyrir menn að leggja rangt mat á aðra. Annars vegar gætum við látið blekkjast af mönnum sem koma vel fyrir en eru í rauninni samviskulausir. Hins vegar gætum við verið ströng og ósveigjanleg í mati okkar á einlægu fólki sem fer í taugarnar á okkur vegna einhvers persónueinkennis.

3, 4. (a) Hvað ættu báðir að vera tilbúnir til að gera ef árekstur verður milli tveggja kristinna manna? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur þegar við verðum mjög ósátt við trúsystkini okkar?

3 Það veldur oft vanda ef við erum dómhvöt — jafnvel í garð fólks sem við höfum þekkt árum saman. Kannski hefurðu lent í alvarlegri deilu við trúbróður sem var einu sinni náinn vinur þinn. Langar þig til að það grói um heilt með ykkur? Hvernig geturðu stuðlað að því?

4 Hvernig væri að skoða bróður þinn eða systur vel og lengi með jákvæðu hugarfari og gera það með hliðsjón af orðum Jesú: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann“? (Jóhannes 6:44) Spyrðu þig síðan: ‚Af hverju dró Jehóva þessa manneskju til sonar síns? Hvaða mannkosti hefur hún? Hef ég vanmetið kosti hennar eða ekki tekið eftir þeim? Hvers vegna urðum við vinir á sínum tíma? Hvað laðaði mig að þessari manneskju?‘ Kannski finnst þér erfitt í fyrstu að sjá eitthvað jákvætt í fari hennar, ekki síst ef þú hefur verið særður eða gramur um tíma. En þetta er mikilvægt skref til þess að það grói um heilt með ykkur. Við skulum líta á kosti tveggja manna til að sýna fram á hvernig þetta er hægt. Báðir höfðu sína galla sem fólk einblínir stundum á. Þetta eru Jónas spámaður og Pétur postuli.

Heiðarlegt mat á Jónasi

5. Hvaða verkefni fékk Jónas og hvernig brást hann við?

5 Jónas var spámaður í norðurríkinu Ísrael á dögum Jeróbóams konungs annars, Jóassonar. (2. Konungabók 14:23-25) Dag nokkurn sagði Jehóva Jónasi að fara frá Ísrael til Níníve sem var höfuðborg hinnar voldugu Assýríu. Verkefni hans var það að vara íbúana við því að hinni miklu borg yrði eytt. (Jónas 1:1, 2) En Jónas hljópst á brott í stað þess að hlýða fyrirmælum Guðs. Hann steig á skip sem var á leið til Tarsis, fjarri Níníve. — Jónas 1:3.

6. Af hverju valdi Jehóva Jónas til að fara til Níníve?

6 Hvað kemur upp í huga þér þegar minnst er á Jónas? Hugsarðu um hann sem óhlýðinn spámann? Við fyrstu sýn gæti það virst rétt ályktun. En ætli Guð hafi valið Jónas til spámennsku sökum óhlýðni hans? Auðvitað ekki. Jónas hlýtur að hafa haft einhverja æskilega eiginleika. Lítum á spámannsferil hans.

7. Við hvaða kringumstæður hafði Jónas þjónað Jehóva í Ísrael og hvaða áhrif hefur það á álit þitt á honum?

7 Jónas hafði þjónað trúfastur sem spámaður í Ísrael sem var vægast sagt erfitt boðunarsvæði. Spámaðurinn Amos, sem var uppi um svipað leyti og Jónas, lýsti Ísraelsmönnum þess tíma sem skemmtanaglöðum efnishyggjumönnum. * Alls konar illska óð uppi í landinu en Ísraelsmönnum stóð algerlega á sama. (Amos 3:13-15; 4:4; 6:4-6) En dag eftir dag sinnti Jónas verkefni sínu dyggilega og prédikaði fyrir þeim. Ef þú ert boðberi fagnaðarerindisins veistu hve erfitt það er að tala við fólk sem er sjálfsánægt og sinnulaust. Við gerum okkur grein fyrir veikleikum Jónasar en við skulum ekki gleyma trúfesti hans og þolgæði er hann prédikaði fyrir trúlausum Ísraelsmönnum.

8. Hvað blasti við ísraelskum spámanni í Níníve?

8 Að prédika í Níníve var enn erfiðara verkefni. Þangað voru um 800 kílómetrar og Jónas þurfti að fara fótgangandi. Þetta var mánaðarlangt ferðalag og mjög erfitt. Þegar þangað kæmi átti spámaðurinn að prédika fyrir Assýringum sem voru illræmdir fyrir grimmd sína. Hrottalegar pyndingar voru algengur þáttur í hernaði þeirra. Þeir gortuðu jafnvel af villimennskunni. Engin furða að Níníve skyldi vera kölluð ‚hin blóðseka borg.‘ — Nahúm 3:1, 7.

9. Hvaða eiginleika sýndi Jónas þegar sjómennirnir voru í lífshættu í fárviðri?

9 Jónas var tregur mjög að hlýða fyrirskipun Jehóva svo að hann tók sér far með skipi sem flutti hann í áttina frá Níníve. En Jehóva gafst ekki upp á spámanni sínum og sendi annan í hans stað heldur gerði ráðstafanir til að koma vitinu fyrir hann. Hann lét mikinn storm skella á þegar skipið var komið á haf út. Það kastaðist til og frá í öldurótinu. Saklausir menn voru í lífshættu af völdum Jónasar. (Jónas 1:4) Hvað gerði spámaðurinn? Hann vildi ekki að sjómennirnir á skipinu týndu lífi fyrir hans sök svo að hann sagði þeim: „Takið mig og kastið mér í sjóinn, mun þá hafið kyrrt verða fyrir yður.“ (Jónas 1:12) Hann hafði enga ástæðu til að ætla að Jehóva myndi bjarga honum þegar sjómennirnir köstuðu honum loks fyrir borð. (Jónas 1:15) En hann var fús til að fórna lífinu til að sjómennirnir færust ekki. Ber þetta ekki vott um hugrekki, auðmýkt og kærleika?

10. Hvað gerðist eftir að Jehóva fól Jónasi aftur að fara til Níníve?

10 Jehóva bjargaði Jónasi að lokum. Var Jónas nú orðinn óhæfur til að þjóna Guði nokkurn tíma framar sem fulltrúi hans? Nei, Jehóva sýndi spámanninum þá miskunn og þann kærleika að senda hann til Níníve að prédika eins og til hafði staðið. Þegar Jónas kom þangað sýndi hann það hugrekki að segja borgarbúum að Guð hefði tekið eftir magnaðri illsku þeirra og borgin yrði lögð í eyði eftir 40 daga. (Jónas 1:2; 3:4) Nínívemenn iðruðust er þeir heyrðu skýran boðskap Jónasar og borginni var þyrmt.

11. Hvað er til merkis um að Jónas lærði sína lexíu?

11 Jónas sá málin enn ekki í réttu ljósi. En Jehóva var þolinmóður við hann og kenndi honum með sýnidæmi að hann horfi ekki aðeins á útlitið heldur líti á hjartað. (Jónas 4:5-11) Heiðarleg frásögn Jónasar sjálfs er til vitnis um að hann lærði sína lexíu. Það er til frekara sannindamerkis um auðmýkt hans að hann skyldi segja hreinskilnislega og í smáatriðum frá göllum sínum. Það þarf hugrekki til að viðurkenna mistök sín!

12. (a) Hvernig vitum við að Jesús hefur sömu skoðun og Jehóva á fólki? (b) Hvernig ættum við að líta á fólkið sem við boðum fagnaðarerindið? (Sjá rammagrein á bls. 14.)

12 Öldum síðar lét Jesús Kristur jákvæð orð falla um einn atburð í ævi Jónasar. Hann sagði: „Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.“ (Matteus 12:40) Eftir að Jónas verður reistur upp frá dauðum uppgötvar hann að Jesús líkti dvöl sinni í gröfinni við þennan dapurlega tíma í ævi hans. Það er einkar ánægjulegt að Guð skuli ekki gefast upp á þjónum sínum þegar þeim verður á. Sálmaritarinn skrifaði: „Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:13, 14) En þessi „mold“ — þar á meðal ófullkomnir menn nú á tímum — getur áorkað miklu með stuðningi heilags anda Guðs!

Sjáum Pétur í réttu ljósi

13. Hvaða einkenni Péturs koma kannski upp í hugann en af hverju valdi Jesús hann sem postula?

13 Lítum nú á hitt dæmið, Pétur postula. Hvað myndirðu segja ef þú værir beðinn að lýsa Pétri? Myndi þér fyrst koma í hug að hann hafi verið fljótfær, bráðlátur eða jafnvel framhleypinn? Pétur var þannig stöku sinnum. En hefði Jesús valið Pétur sem einn af postulunum 12 ef hann hefði verið fljótfær, bráðlátur og framhleypinn í raun og veru? (Lúkas 6:12-14) Auðvitað ekki. Jesús horfði greinilega fram hjá þessum ágöllum og skynjaði mannkosti Péturs.

14. (a) Hvað kann að skýra hispursleysi Péturs? (b) Af hverju megum við vera þakklát fyrir að Pétur skyldi oft spyrja spurninga?

14 Pétur var stundum talsmaður hinna postulanna. Sumir gætu túlkað það sem merki um að hann hafi ekki verið hógvær. En er það víst? Sumir segja að Pétur hafi kannski verið elstur postulanna, hugsanlega eldri en Jesús. Ef það er rétt er það kannski skýringin á því hvers vegna Pétur var oft fyrstur til að tala. (Matteus 16:22) En við þurfum líka að líta á annað. Pétur var andlegur maður. Þekkingarþráin kom honum til að spyrja spurninga. Og það er okkur til góðs. Jesús sagði margt merkilegt þegar hann svaraði spurningum Péturs og það hefur varðveist í Biblíunni. Jesús var til dæmis að svara orðum Péturs þegar hann talaði um ‚trúa ráðsmanninn.‘ (Lúkas 12:41-44) Og hugsaðu aðeins um spurningu Péturs: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?“ Þetta var kveikjan að hinu styrkjandi loforði Jesú: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ — Matteus 15:15; 18:21, 22; 19:27-29.

15. Hvers vegna má segja að Pétur hafi sýnt sanna hollustu?

15 Annar af kostum Péturs var hollusta hans. Þegar margir af lærisveinunum yfirgáfu Jesú af því að þeir skildu ekki eina kenningu hans var það Pétur sem talaði fyrir munn postulanna 12 og sagði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:66-68) Þessi orð hljóta að hafa yljað Jesú um hjartaræturnar. Flestir af postulunum forðuðu sér þegar múgur manna kom til að handtaka Jesú. En Pétur fór í humáttina á eftir mannfjöldanum alla leið inn í hallargarð æðstaprestsins. Það var hugrekki en ekki hugleysi sem bjó að baki. Meðan Jesús var yfirheyrður slóst Pétur í hóp með Gyðingum sem voru að orna sér við eld. Einn af þjónum æðstaprestsins kannaðist við hann og sakaði hann um að hafa verið með Jesú. Pétur afneitaði að vísu meistara sínum en við skulum ekki gleyma að það var hollusta og umhyggja fyrir Jesú sem olli því að Pétur setti sig í þessa hættu — hættu sem fæstir af postulunum þorðu að taka. — Jóhannes 18:15-27.

16. Til hvers höfum við skoðað góða eiginleika Jónasar og Péturs?

16 Mannkostir Péturs vógu miklu þyngra en gallarnir. Hið sama má segja um Jónas. Við sjáum bæði Jónas og Pétur í jákvæðara ljósi en við gerðum kannski áður. Nú þurfum við að æfa okkur í að vera jákvæðari gagnvart bræðrum okkar og systrum í nútímanum. Það stuðlar að betri samskiptum við þau. Hvers vegna er þörf á því?

Lærdómurinn

17, 18. (a) Hvers vegna gæti komið til árekstra milli manna í söfnuðinum? (b) Hvað ráðleggur Biblían sem getur hjálpað okkur að setja niður ágreining við trúsystkini okkar?

17 Bæði karlar, konur og börn þjóna Jehóva nú á tímum. Þetta er fólk sem býr við ólíkan efnahag, á ólíka menntun að baki og er af mismunandi kynþáttum. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Kristni söfnuðurinn er sannarlega fjölskrúðugur. Þar sem við þjónum Jehóva í náinni snertingu hvert við annað er óhjákvæmilegt að það komi stundum til árekstra. — Rómverjabréfið 12:10; Filippíbréfið 2:3.

18 Við erum auðvitað ekki blind á galla bræðra okkar en við einblínum ekki heldur á þá. Við reynum að líkja eftir Jehóva en sálmaskáldið söng um hann: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálmur 130:3) Í stað þess að einblína á eðliseinkenni, sem gætu valdið sundrung á meðal okkar, ‚keppum við eftir því sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.‘ (Rómverjabréfið 14:19) Við reynum eftir bestu getu að líta fólk sömu augum og Jehóva, að horfa fram hjá göllunum og einbeita okkur að kostunum. Þetta hjálpar okkur síðan að ‚umbera hvert annað.‘ — Kólossubréfið 3:13.

19. Hvað er hægt að gera til að útkljá alvarlegan ágreining?

19 Segjum nú að til misskilnings komi sem angrar okkur svo að hann stendur okkur fyrir þrifum? (Sálmur 4:5) Er eitthvað óútkljáð milli þín og trúbróður eða trúsystur? Væri þá ekki ráð að útkljá það? (1. Mósebók 32:13-15) Byrjaðu á því að snúa þér til Jehóva í bæn og biðja hann að leiðbeina þér. Hugsaðu síðan um mannkosti hins og talaðu við hann með hógværð og skynsemi. (Jakobsbréfið 3:13) Segðu honum að þig langi til að friðmælast við hann. Mundu eftir innblásnu ráði Biblíunnar: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ (Jakobsbréfið 1:19) Ábendingin um að vera „seinn til reiði“ merkir óbeint að þú gætir reiðst einhverju sem hinn segir eða gerir. Ef það gerist skaltu biðja Jehóva um hjálp til að hafa stjórn á þér. (Galatabréfið 5:22, 23) Leyfðu bróður þínum að tala út og hlustaðu vel. Gríptu ekki fram í, jafnvel þó að þú sért ósammála sumu sem hann segir. Hann hefur kannski rangt fyrir sér en þetta er engu að síður skoðun hans. Reyndu að sjá vandann frá bæjardyrum hans. Þú gætir þurft að sjá sjálfan þig með augum bróður þíns. — Orðskviðirnir 18:17.

20. Hvað fleira má gera til að ná sáttum?

20 Vertu vinsamlegur þegar kemur að þér að tala. (Kólossubréfið 4:6) Segðu bróður þínum hvað þú kannt að meta í fari hans. Biðstu afsökunar á því að hafa átt þátt í misskilningnum. Þakkaðu Jehóva ef auðmjúk viðleitni þín verður til þess að þið sættist. Ef ekki skaltu halda áfram að biðja Jehóva um leiðsögn og leita færis til að semja frið. — Rómverjabréfið 12:18.

21. Hvernig hefur þessi umfjöllun hjálpað þér að líta aðra sömu augum og Jehóva?

21 Jehóva elskar alla þjóna sína. Hann fagnar því að geta notað okkur öll í þjónustu sinni, þó að við séum ófullkomin. Við styrkjum kærleikann til bræðra okkar og systra með því að kynnast því betur hvernig hann lítur á fólk. Ef kærleikur okkar til trúsystkina hefur kólnað er hægt að glæða hann á ný. Það er okkur til mikillar blessunar ef við leggjum okkur einbeitt fram um að sjá aðra í jákvæðu ljósi — já, að líta þá sömu augum og Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Það sýndi sig síðar að Elíab, þótt myndarlegur væri, var ekki heppilegt konungsefni því að hann hrökklaðist hræddur undan þegar Filistarisinn Golíat skoraði Ísraelsmenn á hólm. — 1. Samúelsbók 17:11, 28-30.

^ gr. 7 Norðurríkið virðist hafa auðgast mjög í stjórnartíð Jeróbóams annars því að hann lagði undir sig svæði sem hafði tilheyrt ríkinu áður, og hefur líklega heimt þaðan skatt. — 2. Samúelsbók 8:6; 2. Konungabók 14:23-28; 2. Kroníkubók 8:3, 4; Amos 6:2.

Hvert er svarið?

• Hvernig lítur Jehóva á ófullkomleika dyggra þjóna sinna?

• Hvað geturðu talið upp jákvætt í fari Jónasar og Péturs?

• Hvernig ætlar þú að líta á trúsystkini þín?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 14]

Hugleiddu hvernig aðrir líta út í augum Guðs

Þegar þú hugleiðir frásögn Biblíunnar af Jónasi, finnst þér þá að þú þurfir að breyta um afstöðu til þeirra sem þú boðar fagnaðarerindið að staðaldri? Kannski virka þeir sjálfsánægðir eða sinnulausir eins og Ísraelsmenn voru, eða jafnvel andsnúnir boðskap Guðs. En hvernig líta þeir út í augum Jehóva Guðs? Það getur jafnvel gerst að framámenn í þessu heimskerfi snúist til fylgis við Jehóva, rétt eins og konungurinn í Níníve iðraðist við prédikun Jónasar. — Jónas 3:6, 7.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Líturðu aðra sömu augum og Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 12]

Jesús talaði jákvætt um Jónas.