Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Getur Satan djöfullinn lesið hugsanir fólks?
Þótt ekki sé hægt að fullyrða það með algerri vissu virðist ekki sem Satan og illir andar hans geti lesið hugsanir okkar.
Hugsum um þau heiti sem notuð eru til að lýsa Satan. Hann er kallaður Satan (andstæðingur), djöfull (rógberi), höggormur (táknrænt fyrir slægð), freistari og lygari. (Jobsbók 1:6; Matteus 4:3; Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 11:3; Opinberunarbókin 12:9) Ekkert þessara heita gefur í skyn að Satan geti lesið hugsanir.
En Jehóva Guð er aftur á móti sagður ‚rannsaka hjartað‘. (Orðskviðirnir 17:3; 1. Samúelsbók 16:7; 1. Kroníkubók 29:17) „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn,“ segir Hebreabréfið 4:13. „Allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ Það ætti ekki að koma okkur á óvart að Jehóva hafi gert Jesú, syni sínum, kleift að rannsaka hjörtun. Hinn upprisni Jesús sagði: „Ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.“ — Opinberunarbókin 2:23.
Biblían talar ekki um að Satan geti rannsakað huga og hjörtu manna. Þetta er þýðingarmikið af því að Páll postuli fullvissar okkur um að kristnum mönnum ,sé ekki ókunnugt um vélráð Satans‘. (2. Korintubréf 2:11) Við þurfum því ekki að óttast að Satan hafi einhvern sérstakan hæfileika sem við höfum enga vitneskju um.
En það þýðir samt ekki að andstæðingurinn geti ekki komið auga á veikleika okkar. Satan hefur getað rannsakað hátterni manna í aldaraðir. Hann þarf ekki að geta lesið hugsanir til að koma auga á hegðunarmynstur okkar, hlusta á það sem við tölum um og sjá hvernig skemmtiefni við sækjumst eftir og svo framvegis. Svipbrigði og líkamstjáning geta líka varpað ljósi á hugsanir okkar og tilfinningar.
Satan notar samt í stórum dráttum sömu aðferðirnar og hann notaði í Edengarðinum — lygar, blekkingar og villandi upplýsingar. (1. Mósebók 3:1-5) Þótt kristnir menn þurfi ekki að óttast það að Satan lesi hugsanir er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim hugsunum sem Satan gæti reynt að koma inn í huga þeirra. Hann vill að kristnir menn verði ,hugspilltir og sneyddir sannleikanum‘. (1. Tímóteusarbréf 6:5) Það er því ekki að furða að í heimi Satans sé að finna gífurlega mikið af spillandi upplýsingum og skemmtiefni. Til að geta staðið gegn því þurfa kristnir menn að vernda hugann með því að nota ,hjálm hjálpræðisins‘. (Efesusbréfið 6:17) Þeir gera það með því að fylla hugann af sannleika Biblíunnar og forðast óþarfa snertingu við óþverrann í heimi Satans.
Satan er öflugur óvinur. En við þurfum ekki að vera sjúklega hrædd við hann eða illa anda hans. Jakobsbréfið 4:7 segir: „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ Ef við förum eftir þessu getum við lýst því yfir, eins og Jesús, að Satan eigi ekki neitt í okkur. — Jóhannes 14:30.