Jehóva, Guð sannleikans
Jehóva, Guð sannleikans
„Þú hefur frelsað mig, ó Jehóva, Guð sannleikans.“ — SÁLMUR 31:5, NW.
1. Hvernig var ástandið á himni og jörð þegar engin ósannindi voru til?
EINU sinni voru ósannindi ekki til. Á himnum voru fullkomnar andaverur sem þjónuðu skapara sínum, ,Guði sannleikans‘. (Sálmur 31:5, NW) Það voru hvorki til ósannindi né blekkingar. Jehóva miðlaði sannleika til andasona sinna vegna þess að honum þótti vænt um þá og var mjög umhugað um velferð þeirra. Hið sama var að segja um jörðina. Er Jehóva hafði skapað fyrsta manninn og fyrstu konuna átti hann samskipti við þau eftir þeirri boðleið sem hann hafði valið. Allt sem hann sagði við þau var skýrt, áreiðanlegt og satt. Það hlýtur að hafa verið yndislegt.
2. Hver kom ósannindum af stað og hvers vegna?
2 En þegar fram liðu stundir gerðist einn af andasonum Jehóva svo óskammfeilinn að hefja sig upp sem guð í andstöðu við hann. Þessi andavera, síðar þekkt sem Satan djöfullinn, vildi að aðrir tilbæðu sig. Til að vinna að markmiði sínu og ná öðrum undir sína stjórn kom hann af stað ósannindum. Þannig varð hann bæði „lygari og lyginnar faðir“. — Jóhannes 8:44.
3. Hvernig brugðust Adam og Eva við lygum Satans og hverjar urðu afleiðingarnar?
3 Satan notaði höggorm þegar hann sagði Evu, fyrstu konunni, að hún myndi ekki deyja þó að hún virti að vettugi skipun Guðs og borðaði af forboðna ávextinum. Það var lygi. Hann sagði henni líka að með því að borða ávöxtinn yrði hún eins og Guð og myndi vita skyn góðs og ills. Það var líka lygi. Þó að þetta væri í fyrsta sinn sem logið var að Evu hlýtur hún að hafa skilið að það sem hún heyrði höggorminn segja var ekki í samræmi við það sem Guð hafði sagt Adam, manninum hennar. En hún ákvað samt að trúa Satan í stað Jehóva. Satan hafði algerlega blekkt hana og hún tók af ávextinum og át. Adam át síðan líka af ávextinum. (1. Mósebók 3:1-6) Líkt og Eva hafði Adam aldrei heyrt lygi áður. En ólíkt Evu lét hann ekki blekkjast. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Hann sýndi með verknaði sínum að hann hafnaði skapara sínum. Þetta hafði hörmulegar afleiðingar fyrir mannkynið. Vegna óhlýðni Adams breiddist synd og dauði — ásamt spillingu og ómældum þjáningum — til allra afkomenda hans. — Rómverjabréfið 5:12.
4. (a) Af hvaða toga voru lygarnar í Eden? (b) Hvað verðum við að gera til að láta ekki Satan afvegaleiða okkur?
4 Ósannindi breiddust einnig út. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að lygarnar í Edengarðinum voru aðför að sannsögli Jehóva. Satan fullyrti að Guð væri svikull og rændi fyrstu hjónin einhverju góðu. Þannig var því auðvitað ekki farið. Adam og Eva höfðu ekkert gagn af óhlýðni sinni. Þau dóu, rétt eins og Jehóva hafði sagt. En þrátt fyrir það hélt Satan áfram að gera ærumeiðandi árásir á Jehóva og öldum síðar var Jóhannesi postula meira að segja innblásið að skrifa að Satan ,afvegaleiði alla heimsbyggðina‘. (Opinberunarbókin 12:9) Til að láta Satan ekki afvegaleiða okkur verðum við að treysta því fullkomlega að Jehóva sé sannorður og treysta orði hans í hvívetna. Hvernig geturðu byggt upp og styrkt traust þitt á Jehóva og staðið enn betur að vígi gegn blekkingum og lygum andstæðings hans?
Jehóva þekkir sannleikann
5, 6. (a) Hvaða þekkingu hefur Jehóva? (b) Hvernig er þekking manna í samanburði við þekkingu Jehóva?
5 Biblían talar hvað eftir annað um Jehóva sem skapara alls. (Efesusbréfið 3:9) Það er hann sem ,gerði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er‘. (Postulasagan 4:24) Þar sem Jehóva er skaparinn þekkir hann sannleikann um allt. Lýsum þessu með dæmi. Hugsaðu þér mann sem hannar og byggir eigið hús. Hann festir sjálfur hverja einustu spýtu og neglir hvern einasta nagla. Hann þekkir hvern krók og kima í húsinu og veit betur en nokkur annar hvernig það er úr garði gert. Fólk þekkir mjög vel það sem það hannar og smíðar. Á svipaðan hátt veit skaparinn allt sem hægt er að vita um sköpunarverk sitt.
6 Spámaðurinn Jesaja lýsir á mjög fallegan hátt hve umfangsmikil þekking Jehóva er. Við lesum: „Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum? Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann? Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?“ (Jesaja 40:12-14) Jehóva er „Guð, sem allt veit“, og hann hefur ,fullkomna þekkingu‘. (1. Samúelsbók 2:3; Jobsbók 36:4; 37:16) Það er ekki mikið sem við vitum í samanburði við hann! Þrátt fyrir þá miklu þekkingu, sem maðurinn hefur viðað að sér, nær skilningur hans á efnisheiminum ekki einu sinni að ,ystu takmörkum vega Guðs‘. Það er eins og „lágt hvísl“ í samanburði við „þrumu máttarverka“ Jehóva. — Jobsbók 26:14.
7. Hvað vissi Davíð um þekkingu Jehóva og hverju verðum við að gera okkur grein fyrir?
7 Þar sem Jehóva skapaði okkur er rökrétt að álykta sem svo að hann þekki okkur vel. Davíð konungur gerði sér grein fyrir þessu. Hann skrifaði: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú. Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.“ (Sálmur 139:1-4) Auðvitað gerði Davíð sér ljóst að menn hafa frjálsan vilja. Jehóva hefur gefið okkur frelsi til að hlýða sér eða óhlýðnast. (5. Mósebók 30:19, 20; Jósúabók 24:15) En hvað sem því líður þekkir Jehóva okkur mun betur en við sjálf. Hann vill okkur allt það besta og hann er í aðstöðu til að leiðbeina okkur. (Jeremía 10:23) Það er ekki til sá kennari, sérfræðingur eða ráðgjafi sem er hæfari en Jehóva til að kenna okkur sannleikann og gera okkur vitur og hamingjusöm.
Jehóva er sannorður
8. Hvernig vitum við að Jehóva er sannorður?
8 Það er eitt að vita sannleikann en allt annað að segja alltaf sannleikann, að vera sannorður. Satan djöfullinn ákvað til dæmis að ,vera ekki í sannleikanum‘. (Jóhannes 8:44) Jehóva er hins vegar „ríkur að . . . sannleika“. (2. Mósebók 34:6, NW) Ritningin vitnar hvað eftir annað um sannsögli Jehóva. Páll postuli fullyrti að það sé ,óhugsandi að Guð fari með lygi‘ og að Guð ,ljúgi ekki‘. (Hebreabréfið 6:18; Títusarbréfið 1:2) Heiðarleiki er mikilvægur þáttur í persónuleika Guðs. Við getum reitt okkur á Jehóva og treyst honum þar sem hann er sannorður — hann blekkir aldrei trúa þjóna sína.
9. Hvernig tengist nafn Jehóva sannleika?
9 Nafn Jehóva vitnar jafnvel um að hann er sannorður en það merkir „hann lætur verða“. Það sýnir að hann uppfyllir smám saman allt sem hann lofar. Enginn annar er í þeirri aðstöðu. Þar sem Jehóva er æðstur getur ekkert komið í veg fyrir að tilgangur hans nái fram að ganga. Og hann er ekki aðeins
sannorður heldur er hann líka sá eini sem hefur mátt og visku til að láta allt sem hann segir verða að veruleika.10. (a) Hvernig varð Jósúa vitni að því að Jehóva er sannorður? (b) Hvaða loforð Jehóva hefur þú séð uppfyllast?
10 Jósúa, ásamt mörgum öðrum, varð vitni að merkisatburðum sem báru vitni um að Jehóva er sannorður. Jósúa var í Egyptalandi þegar Jehóva lét plágurnar tíu ganga yfir Egypta eftir að hafa sagt þær fyrir hverja af annarri. Jósúa varð meðal annars vitni að því þegar Jehóva uppfyllti loforð sín um að frelsa Ísraelsmenn úr Egyptalandi og leiða þá inn í fyrirheitna landið þar sem hann yfirbugaði öfluga óvinaheri Kaananíta. Undir lok ævi sinnar sagði Jósúa við öldunga Ísraels: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ (Jósúabók 23:14) Þú hefur auðvitað ekki orðið vitni að sömu kraftaverkum og Jósúa. En hefurðu ekki samt séð hvernig loforð Guðs hafa ræst?
Jehóva opinberar sannleikann
11. Hvað ber vott um að Jehóva langi til að koma sannleikanum til mannkynsins?
11 Ímyndaðu þér foreldri sem hefur mikla þekkingu en talar sjaldan við börnin sín. Ertu ekki þakklátur fyrir að Jehóva skuli ekki vera þannig? Í kærleika sínum talar Jehóva til okkar mannanna, og hann gerir það örlátlega. Biblían talar um að hann kenni okkur. (Jesaja 30:20) Ástúðleg umhyggja hans nær jafnvel til þeirra sem eru ófúsir að hlusta. Esekíel fékk til dæmis það verkefni að prédika fyrir þeim sem Jehóva vissi að yrðu ekki móttækilegir. Jehóva sagði: „Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.“ Síðan aðvaraði hann: „Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.“ Þetta var erfitt verkefni en Esekíel sinnti því trúfastlega og endurspeglaði þannig umhyggju Jehóva. Ef þér finnst boðunarstarfið erfitt og þú reiðir þig á Guð geturðu verið viss um að hann styrki þig líkt og Esekíel. — Esekíel 3:4, 7-9.
12, 13. Hvernig hefur Guð átt samskipti við mennina?
12 Jehóva vill „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Hann hefur talað fyrir munn spámanna, engla og jafnvel sonar síns, Jesú Krists. (Hebreabréfið 1:1, 2; 2:2) Jesús sagði við Pílatus: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ Pílatus fékk ómetanlegt tækifæri til að læra sannleikann um hjálpræðisleið Jehóva beint frá syni hans. En Pílatus var ekki sannleikans megin og vildi ekki fá kennslu frá Jesú. Þess í stað spurði hann kaldhæðnislega: „Hvað er sannleikur?“ (Jóhannes 18:37, 38) En dapurlegt! Margir hlustuðu samt á sannleikann sem Jesús boðaði. Hann sagði við lærisveinana: „Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ — Matteus 13:16.
13 Jehóva hefur varðveitt sannleikann í Biblíunni og gert hann aðgengilegan fyrir fólk hvarvetna. Biblían opinberar hlutina eins og þeir eru í raun og veru. Hún segir frá eiginleikum Guðs, tilgangi hans og fyrirskipunum ásamt hinu raunverulega ástandi mannkyns. Jesús sagði í bæn til Jehóva: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Biblían er því einstök bók. Hún er eina bókin sem skrifuð var undir innblæstri þess Guðs sem þekkir alla hluti. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hún er dýrmæt gjöf til mannkyns og þjónar Guðs meta hana mikils. Það er viturlegt af okkur að lesa í henni á hverjum degi.
Haltu fast í sannleikann
14. Nefndu sumt af því sem Jehóva segist ætla að gera. Hvers vegna ættum við að trúa honum?
14 Við ættum að taka það alvarlega sem Jehóva segir í orði sínu. Hann er sá sem hann segist vera og hann gerir það sem hann segist ætla að gera. Við höfum ærna ástæðu til að treysta Guði. Við getum trúað honum þegar hann segist ætla að láta „hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. (2. Þessaloníkubréf 1:8) Við getum líka treyst Jehóva þegar hann segir að hann elski þá sem leita réttlætis, veiti þeim eilíft líf sem iðka trú og útrými harmi, veini og jafnvel dauða. Jehóva undirstrikaði áreiðanleika síðasta loforðsins með eftirfarandi tilmælum til Jóhannesar postula: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ — Opinberunarbókin 21:4, 5; Orðskviðirnir 15:9; Jóhannes 3:36.
15. Nefndu sumar af lygum Satans.
Postulasagan 17:24-30) Satan reynir líka að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að andleg hugðarefni séu tímasóun. Ritningin fullvissar okkur á hinn bóginn um að ,Guð sé ekki ranglátur. Hann gleymi ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýndum nafni hans.‘ Hún tekur líka skýrt fram að „hann umbuni þeim, er hans leita“. — Hebreabréfið 6:10; 11:6.
15 Satan er alger andstæða Jehóva. Hann blekkir í stað þess að upplýsa. Markmið hans er að snúa fólki frá sannri tilbeiðslu og hann beitir alls konar lygum til að ná því markmiði. Til dæmis vill Satan telja okkur trú um að Guð sé fáskiptinn og ónæmur fyrir þjáningunum á jörðinni. Biblían bendir hins vegar á að Jehóva sé innilega annt um sköpunarverur sínar og harmi illsku og þjáningar. (16. Hvers vegna verða kristnir menn að vera árvakrir og halda fast í sannleikann?
16 Páll postuli segir um Satan: „Guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ (2. Korintubréf 4:4) Sumir láta algerlega blekkjast af Satan djöflinum líkt og Eva. Sumir feta í fótspor Adams sem lét ekki blekkjast heldur kaus af ásettu ráði að óhlýðnast. (Júdasarbréfið 5, 11) Það er því mikilvægt að kristnir menn séu árvakrir og haldi fast í sannleikann.
Jehóva krefst ,hræsnislausrar trúar‘
17. Hvað verðum við að gera til að hafa velþóknun Jehóva?
17 Jehóva er sannorður og ætlast til að tilbiðjendur sínir séu það líka. Sálmaritarinn skrifaði: „Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga? Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta.“ (Sálmur 15:1, 2) Gyðingunum hefur eflaust komið Síonfjall í hug er þeir sungu þennan sálm en Davíð konungur lét flytja sáttmálsörkina í tjald sem hann hafði reist þar. (2. Samúelsbók 6:12, 17) Fjallið og tjaldið kölluðu fram í hugann staðinn þar sem Jehóva bjó á táknrænan hátt. Þar gat fólk nálgast Guð til að biðja um velþóknun hans.
18. (a) Hvers er krafist af þeim sem vilja vera vinir Guðs? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?
18 Þeir sem langar að öðlast vináttu við Jehóva verða að ,tala sannleik af hjarta‘, ekki aðeins með vörunum. Sannir vinir Guðs verða að vera heiðarlegir í hjarta og hafa ,hræsnislausa trú‘ því að það er hjartað sem knýr mann til að vera heiðarlegur. (1. Tímóteusarbréf 1:5; Matteus 12:34, 35) Vinur Guðs er hvorki undirförull né svikull því að á „svikurum hefir Drottinn andstyggð“. (Sálmur 5:7) Vottar Jehóva um allan heim leggja hart að sér til að vera sannorðir eins og Guð þeirra. Næsta grein fjallar um það.
Hvernig svarar þú?
• Hvers vegna veit Jehóva sannleikann um allt?
• Hvað ber vitni um að Jehóva er sannorður?
• Hvernig hefur Jehóva opinberað sannleikann?
• Hvers er krafist af okkur í tengslum við sannleika?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 23]
Guð sannleikans gerþekkir það sem hann hefur skapað.
[Mynd á blaðíðu 24, 25]
Loforð Jehóva rætast.