Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sjá, þessi er vor Guð“

„Sjá, þessi er vor Guð“

„Sjá, þessi er vor Guð“

Efni þessara tveggja námsgreina er byggt á bókinni Nálægðu þig Jehóva sem gefin var út í tengslum við umdæmismót sem haldin voru um heim allan árið 2002-3. — Sjá greinina „Hún fyllti tómarúm í hjarta mér“ á bls. 20.

„Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn!“ — JESAJA 25:9.

1, 2. (a) Hvernig talaði Jehóva um ættföðurinn Abraham og hvaða spurningu kann það að vekja? (b) Hvernig fullvissar Biblían okkur um að það sé hægt að eiga náið samband við Guð?

‚ÁSTVINUR minn.‘ Þannig talaði Jehóva, skapari himins og jarðar, um ættföðurinn Abraham. (Jesaja 41:8) Hugsaðu þér — lítilmótlegur maður átti vináttusamband við alheimsdrottin! En þér er ef til vill spurn hvort þú getir átt svona náið samband við Guð.

2 Biblían fullvissar okkur um að það sé hægt að eiga náið samband við Guð. Abraham fékk það vegna þess að hann „trúði Guði“. (Jakobsbréfið 2:23) Ráðvandir menn nú á tímum eru einnig „alúðarvinir“ Jehóva. (Orðskviðirnir 3:32) Biblían hvetur okkur í Jakobsbréfinu 4:8: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ Ljóst er að Jehóva kemur til móts við okkur ef við nálægjum okkur honum. En merkja þessi innblásnu orð að við, syndugir og ófullkomnir menn, eigum frumkvæðið? Alls ekki. Það er aðeins hægt að eiga náið samband við Jehóva, Guð kærleikans, af því að hann hefur sjálfur gert tvær mikilvægar ráðstafanir til þess. — Sálmur 25:14.

3. Hvað tvennt hefur Jehóva gert til að við getum átt vináttusamband við sig?

3 Í fyrsta lagi sendi Jehóva Jesú til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga“. (Matteus 20:28) Lausnarfórnin gerir okkur kleift að eiga náið samband við Guð. „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 4:19) Þar sem Guð elskaði okkur „að fyrra bragði“ var það hann sem lagði grunninn að því að við gætum orðið vinir sínir. Í öðru lagi hefur Jehóva opinberað sig okkur. Vinátta byggist alltaf á því að þekkja hina persónuna, dá hana og meta að verðleikum. Lítum aðeins nánar á þetta. Við gætum aldrei átt náið samband við Jehóva ef hann væri fjarlægur Guð og óþekkjanlegur. En Jehóva felur sig ekki heldur vill hann að við kynnumst sér. (Jesaja 45:19) Hann opinberar sig í orði sínu, Biblíunni, með hugtökum sem við getum skilið. Það sannar bæði að hann elskar okkur og vill að við kynnumst sér og elskum sem föður á himnum.

4. Hvernig hugsum við um Jehóva þegar við kynnumst eiginleikum hans betur?

4 Hefurðu séð lítið barn benda vinunum á pabba sinn og segja með einlægri gleði og stolti: „Þetta er pabbi minn“? Tilbiðjendur Jehóva Guðs hafa ríka ástæðu til að bera sömu tilfinningar til hans. Biblían boðar þann tíma þegar trúfast fólk segir: „Sjá, þessi er vor Guð.“ (Jesaja 25:8, 9) Því meiri innsýn sem þú færð í eiginleika Jehóva, þeim mun sterkari verður sú tilfinning að þú eigir besta föður og nánasta vin sem hugsast getur. Já, ef við berum skyn á eiginleika Jehóva höfum við margar ástæður til að nálægja okkur honum. Við skulum því athuga hvernig Biblían opinberar höfuðeiginleika Jehóva — mátt, réttlæti, visku og kærleika. Við fjöllum um þrjá þeirra í þessari grein.

„Mikill að mætti“

5. Hvers vegna er viðeigandi að Jehóva einn skuli nefndur hinn „alvaldi“ og hvernig notar hann hinn mikla mátt sinn?

5 Jehóva er „mikill að mætti“. (Jobsbók 37:23) Jeremía 10:6 segir: „Enginn er þinn líki, Drottinn! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns.“ Jehóva býr yfir ótakmörkuðum mætti, ólíkt öllum sköpunarverum sínum. Þess vegna er hann einn nefndur hinn „alvaldi“. (Opinberunarbókin 15:3) Hann notar hinn mikla mátt sinn til að skapa, eyða, vernda og endurnýja. Lítum á tvö dæmi — sköpunarmátt hans og verndarmátt.

6, 7. Hve öflug er sólin og um hvaða mikilvægan sannleika vitnar hún?

6 Fyrir hverju finnurðu þegar þú stendur úti á sólbjörtum sumardegi? Þú finnur yl sólarinnar. En í rauninni eru það áhrifin af sköpunarmætti Jehóva sem þú finnur fyrir. Hversu öflug er sólin? Hitinn í miðju hennar er um 15 milljónir gráða á Celsíus. Ef þú gætir tekið brot á stærð við títuprjónshaus úr miðju sólarinnar og komið því fyrir hér á jörðinni væri þér ekki vært innan 140 kílómetra frá þessum agnarsmáa hitagjafa. Á hverri sekúndu sendir sólin frá sér orku sem samsvarar því að sprengdar væru mörg hundruð milljónir kjarnasprengna. En jörðin er á sporbaug um þennan ógurlega kjarnaofn í nákvæmlega réttri fjarlægð. Væri hún of nærri myndi allt vatn á jörðinni gufa upp en væri hún of fjarri myndi allt gaddfrjósa. Jörðin væri lífvana hvort heldur væri.

7 Margir líta á sólina sem sjálfsagðan hlut þó að líf þeirra sé undir henni komið. Þeir átta sig ekki á hvaða lærdóm má draga af henni. „Þú gjörðir ljós og sól,“ segir Biblían um Jehóva. (Sálmur 74:16) Já, sólin er Jehóva til heiðurs, honum „sem skapað hefir himin og jörð“. (Sálmur 146:6) Hún er þó aðeins eitt af ótal sköpunarverkum sem fræða okkur um feikilegan mátt Jehóva. Því meira sem við kynnum okkur sköpunarmátt hans þeim mun dýpri verður lotning okkar fyrir honum.

8, 9. (a) Hvernig er því lýst með hugnæmu myndmáli að Jehóva er fús til að vernda dýrkendur sína og annast þá? (b) Hvernig önnuðust fjárhirðar sauði sína á biblíutímanum og hvað lærum við af því um hinn mikla hirði?

8 Jehóva beitir einnig hinum mikla mætti sínum til að vernda þjóna sína og annast þá. Biblían notar sterkt en hugnæmt myndmál til að lýsa því hvernig Jehóva lofar að vernda og annast þjóna sína. Lítum til dæmis á Jesaja 40:11. Þar líkir Jehóva sjálfum sér við fjárhirði og fólki sínu við sauði. Við lesum: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“ Geturðu séð fyrir þér það sem lýst er í þessu versi?

9 Fá dýr eru eins hjálparvana og sauðkindin. Fjárhirðir á biblíutímanum þurfti að vera hugaður til að vernda sauði sína fyrir úlfum, ljónum og bjarndýrum. (1. Samúelsbók 17:34-36; Jóhannes 10:10-13) En stundum þurfti milda hönd til að annast sauðina og vernda þá. Hvernig verndaði hirðirinn nýfætt lamb þegar ær bar fjarri sauðabyrginu? Hann bar hjálparvana lambið jafnvel dögum saman „í fangi sínu“ — það er að segja í víðri fellingu í yfirhöfn sinni. En hvernig komst lambið í fang hirðisins? Kannski kom það til hans og nuddaði sér við fót hans. En það var hirðirinn sem þurfti að beygja sig niður til að taka lambið upp og koma því varlega fyrir í öruggum faðmi sínum. Þetta er hugljúf mynd af því hve fús hirðirinn mikli er til að annast þjóna sína og vernda þá.

10. Hvaða vernd veitir Jehóva nú á tímum og hvers vegna er hún sérstaklega mikilvæg?

10 Jehóva lætur sér ekki nægja að lofa þjónum sínum vernd. Á biblíutímanum sýndi hann líka með yfirnáttúrlegum hætti að hann er fær um „að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“. (2. Pétursbréf 2:9) Hvað um nútímann? Við vitum að Jehóva notar ekki mátt sinn til að verja okkur fyrir öllum raunum núna. Hann veitir okkur það sem mikilvægara er — andlega vernd. Guð kærleikans verndar okkur gegn andlegum skaða með því að láta okkur í té það sem við þurfum til að standast raunir og varðveita samband okkar við hann. Til dæmis segir í Lúkasi 11:13: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ Þessi öflugi andi getur hjálpað okkur að standast hverja raun og hvern þann vanda sem við blasir. (2. Korintubréf 4:7) Þannig vinnur Jehóva að því að varðveita líf okkar, ekki aðeins um fáein stutt ár heldur um alla eilífð. Með hliðsjón af því getum við litið á allar þjáningar í þessu heimskerfi sem ‚skammvinnar og léttbærar‘. (2. Korintubréf 4:17) Löðumst við ekki að Guði sem notar mátt sinn af slíkum kærleika í okkar þágu?

Jehóva „hefir mætur á réttlæti“

11, 12. (a) Hvers vegna laðar réttlæti Jehóva okkur að honum? (b) Að hvaða niðurstöðu komst Davíð og af hverju eru þessi innblásnu orð hughreystandi?

11 Jehóva er alltaf réttlátur, sanngjarn og óhlutdrægur. Réttlæti hans er ekki kuldalegt, harðneskjulegt eða fráhrindandi heldur hlýlegur eiginleiki sem laðar okkur að honum. Biblían lýsir vel hinum hlýlega þætti þessa eiginleika. Við skulum skoða hvernig Jehóva beitir réttlæti sínu með þrennum hætti.

12 Í fyrsta lagi gerir réttlæti Jehóva að verkum að hann er trúr og hollur þjónum sínum. Sálmaritarinn Davíð kynnist þessum þætti í réttlæti Jehóva af eigin raun. Hvað kenndi reynslan honum og að hvaða niðurstöðu komst hann eftir af hafa kynnt sér vegi Guðs? Hann segir: „Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir.“ (Sálmur 37:28) Þetta er ákaflega hughreystandi. Guð yfirgefur ekki eitt andartak þá sem sýna honum hollustu. Þess vegna getum við reitt okkur á nálægð hans og ástríka umhyggju. Réttlæti hans er trygging fyrir því! — Orðskviðirnir 2:7, 8.

13. Hvernig birtist umhyggja Jehóva fyrir bágstöddum í lögmálinu sem hann gaf Ísraelsmönnum?

13 Í öðru lagi gerir réttlæti Guðs hann næman fyrir þörfum þjáðra. Umhyggja hans fyrir bágstöddum kemur greinilega fram í lögmálinu sem hann gaf Ísrael. Þar voru til dæmis ákvæði til að tryggja hag ekkna og munaðarleysingja. (5. Mósebók 24:17-21) Jehóva vissi hve erfitt slíkar fjölskyldur ættu þannig að hann gerðist föðurlegur dómari þeirra og verndari. (5. Mósebók 10:17, 18) Hann varaði Ísraelsmenn við að níðast á varnarlausum konum og börnum og kvaðst mundu heyra neyðarkvein þeirra. „Þá skal reiði mín upptendrast,“ segir hann eins og fram kemur í 2. Mósebók 22:22-24. Þó að reiði sé ekki einn af ráðandi eiginleikum Guðs fyllist hann réttlátri reiði yfir vísvitandi ranglæti, sérstaklega ef fórnarlömbin eru berskjalda. — Sálmur 103:6.

14. Hvaða einstakt merki sjáum við um óhlutdrægni Jehóva?

14 Í þriðja lagi fullvissar Biblían okkur um það í 5. Mósebók 10:17 að Jehóva ‚geri sér ekki mannamun og þiggi ekki mútur‘. Ólíkt mörgum áhrifa- og valdamönnum er ekki hægt að hafa áhrif á Jehóva með efnislegum auði eða ytra útliti. Hann er laus við hlutdrægni og mismunun. Og það er einstakt merki um óhlutdrægni hans að það séu ekki aðeins fáeinir útvaldir sem mega tilbiðja hann og eiga eilíft líf í vændum. Postulasagan 10:34, 35 segir: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Þetta er öllum opið, óháð þjóðfélagsstöðu, hörundslit eða dvalarlandi. Er það ekki réttlæti eins og það gerist best? Við löðumst óneitanlega að Jehóva þegar við fáum aukinn skilning á réttlæti hans.

‚Hvílíkt djúp speki Guðs!‘

15. Hvað er speki og hvernig sýnir Jehóva hana?

15 Páll postuli sagði fullur aðdáunar í Rómverjabréfinu 11:33: „Hvílíkt djúp . . . speki og þekkingar Guðs!“ Já, við getum ekki annað en fyllst lotningu þegar við ígrundum hina víðtæku speki Jehóva. En hvað er speki? Spekin virkjar þekkinguna, hyggindin og skilninginn svo að þau vinni saman. Jehóva býr að víðtækri þekkingu og djúpstæðum skilningi þannig að ákvarðanir hans eru alltaf þær bestu sem hugsast getur, og hann framkvæmir þær síðan eins og best verður á kosið.

16, 17. Hvernig vitna sköpunarverk Jehóva um visku hans? Nefndu dæmi.

16 Lítum á dæmi um hina miklu speki Jehóva. Sálmur 104:24 segir: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ Handaverk Jehóva vekja með okkur því meiri lotningu sem við kynnum okkur þau betur. Vísindamenn hafa lært ótal margt af því að rannsaka sköpunarverk hans. Innan verkfræðinnar eru jafnvel stundaðar svokallaðar lífhermirannsóknir þar sem leitast er við að herma eftir hönnunarlausnum náttúrunnar.

17 Kannski hefurðu einhvern tíma horft með undrun og aðdáun á köngulóarvef enda er hann mikið hönnunarundur. Næfurþunnir þræðirnir eru hlutfallslega sterkari en stál og seigari en trefjarnar í skotheldu vesti. Hversu sterkir eru þeir? Hugsaðu þér að köngulóarvefur sé stækkaður svo að hann samsvari stóru fiskineti. Slíkur vefur væri svo sterkur að hann gæti stöðvað farþegaþotu á flugi! Já, Jehóva hefur gert allt „með speki“.

18. Hvernig er það merki um visku Jehóva að hann skyldi nota menn til að skrifa orð sitt, Biblíuna?

18 Skýrustu merkin um visku Jehóva er að finna í orði hans, Biblíunni. Hin viturlegu ráð hennar vísa okkur farsælasta lífsveginn. (Jesaja 48:17) En óviðjafnanleg viska Jehóva birtist einnig í því hvernig Biblían var skrifuð. Í visku sinni kaus Jehóva að nota menn til að skrásetja orð sitt. Ætli Biblían höfðaði eins sterkt til okkar ef hann hefði notað engla til að skrifa hana? Englar hefðu auðvitað getað lýst Jehóva frá sínum háa sjónarhóli og lýst hollustu sinni við hann. En hefðum við getað sett okkur í spor fullkominna andavera sem standa okkur miklu framar að þekkingu, reynslu og krafti? — Hebreabréfið 2:6, 7.

19. Hvaða dæmi sýnir að það gerði Biblíuna einstaklega hlýlega og aðlaðandi að Guð skyldi nota menn til að skrifa hana?

19 Biblían er einstaklega hlýleg og aðlaðandi af því að Jehóva notaði menn til að skrifa hana. Ritararnir voru menn með tilfinningar eins og við. Þeir voru ófullkomnir og urðu fyrir sams konar álagi og prófraunum og við. Í sumum tilfellum skrifuðu þeir í fyrstu persónu og lýstu baráttu sinni og tilfinningum. (2. Korintubréf 12:7-10) Þeir skrifuðu því orð sem engill hefði aldrei getað sagt. Tökum sem dæmi orð Davíðs í Sálmi 51. Samkvæmt yfirskrift sálmsins orti Davíð hann eftir að hafa drýgt alvarlega synd. Hann úthellti hjarta sínu og lýsti djúpstæðum harmi sínum og sárbændi Guð um að fyrirgefa sér. Vers 4 og 5 segja: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.“ Í 7. versi segir: „Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ Nítjánda versið bætir við: „Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ Skynjarðu ekki angist ritarans? Gat nokkur lýst slíkum tilfinningum nema ófullkominn maður?

20, 21. (a) Hvers vegna er hægt að segja að Biblían innihaldi visku Jehóva þó að menn hafi skrifað hana? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

20 Með því að nota ófullkomna menn sem ritara lét Jehóva í té það sem við þurftum — rit sem er ‚innblásið af Guði‘ en ber jafnframt mannleg einkenni. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Heilagur andi leiðbeindi riturunum þannig að það var viska Jehóva en ekki þeirra eigin sem þeir settu á blað. Visku hans er fullkomlega treystandi. Hún er svo langt yfir okkar eigin visku hafin að Guð hvetur okkur: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Með því að fara eftir þessu viturlega ráði nálægjum við okkur hinum alvitra Guði.

21 Kærleikurinn er fegursti eiginleiki Jehóva og laðar okkur sterkast að honum. Í næstu grein er rætt um það hvernig hann hefur birt kærleika sinn.

Manstu?

Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert til þess að við getum eignast náið vináttusamband við sig?

Nefndu dæmi um sköpunarmátt Jehóva og verndarmátt.

Hvernig beitir Jehóva réttlæti sínu?

Hvernig birtist viska Jehóva bæði í sköpunarverkinu og Biblíunni?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Jehóva annast sauði sína blíðlega líkt og fjárhirðir sem ber lamb í fangi sér.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Viska Jehóva birtist í því hvernig Biblían er skrifuð.