Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrir og eftir — hún fékk kraft til að breyta sér

Fyrir og eftir — hún fékk kraft til að breyta sér

„Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður“

Fyrir og eftir — hún fékk kraft til að breyta sér

SANDRA býr í Mexíkó og segist hafa verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni. Höfnun og ástleysi hafði slæm áhrif á hana á unglingsárunum. Hún segir: „Þegar ég var unglingur fann ég fyrir stöðugum tómleika og varð neikvæð út í lífið og tilveruna.“

Þegar Sandra var í framhaldsskóla byrjaði hún að drekka áfengið sem faðir hennar átti heima fyrir. En síðan fór hún sjálf að kaupa sér áfengi og varð seinna meir áfengissjúklingur. „Ég hafði enga löngun til að lifa,“ viðurkennir hún. Í örvæntingu sinni byrjaði hún að nota eiturlyf. Hún segir: „Ég var með áfengi, pillur og svolítið marijúana í töskunni minni og það var það eina sem fékk mig til að gleyma vandamálunum.“

Sandra sökk enn dýpra í neyslu áfengis eftir að hún útskrifaðist úr læknaskóla. Hún reyndi að svipta sig lífi, en tilraunin mistókst.

Sandra leitaði til margra trúfélaga eftir andlegum og tilfinningalegum stuðningi en án árangurs. Eftir að hún hafði misst alla von og var að því komin að gefast upp kallaði hún aftur og aftur til Guðs: „Hvar ertu? Hvers vegna hjálparðu mér ekki?“ Sjálfsmat hennar var í algeru lágmarki þegar einn af vottum Jehóva talaði við hana. Eftir það fór hún að kynna sér Biblíuna. Sandra var djúpt snortin af orðunum í Sálmi 34:19 þar sem segir að Jehóva sé „nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta“.

Votturinn, sem fræddi Söndru um Biblíuna, sýndi henni fram á að Jehóva Guð veit að við erum berskjölduð vegna syndarinnar og ófullkomleikans sem við höfum erft frá Adam. Sandra gerði sér líka grein fyrir því að Guð skilur hvers vegna við getum ekki fylgt réttlátum stöðlum hans fullkomlega. (Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 3:23; 5:12, 18) Hún var ánægð að fá að vita að Jehóva einblínir ekki á veikleika okkar og ætlast ekki til meira af okkur en við getum. Sálmaritarinn spurði: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ — Sálmur 130:3.

Sannleikurinn, sem Biblían kennir um lausnarfórn Jesú Krists, yljaði Söndru um hjartarætur. Vegna þessarar fórnar sýnir Jehóva miskunn og veitir hlýðnum mönnum færi á að standa hreinir frammi fyrir sér, þótt ófullkomnir séu. (1. Jóhannesarbréf 2:2; 4:9, 10) Já, við getum hlotið „fyrirgefningu afbrota vorra“ og fengið þannig hjálp til að losna við þá tilfinningu að við séum einskis virði. — Efesusbréfið 1:7.

Sandra dró góðan lærdóm af fordæmi Páls postula. Páll kunni vel að meta að Guð skyldi fúslega fyrirgefa honum fyrri misgerðir og styðja hann í baráttunni gegn þrálátum veikleikum. (Rómverjabréfið 7:15-25; 1. Korintubréf 15:9, 10) Hann breytti um lífsstefnu, ‚lék líkama sinn hart og gerði hann að þræli sínum‘ til að geta gengið þá götu sem Guð hefur velþóknun á. (1. Korintubréf 9:27) Hann varð ekki þræll syndugra tilhneiginga.

Veikleikar Söndru þjökuðu hana en hún hélt áfram að berjast gegn þeim. Hún bað Jehóva einlæglega um miskunn og hjálp til að geta unnið bug á veikleikum sínum. (Sálmur 55:23; Jakobsbréfið 4:8) Hún fann að Guð hafði persónulegan áhuga á henni og gat þess vegna breytt um stefnu í lífinu. „Ég hef þá ánægju að vera í fullu starfi við að fræða aðra um Biblíuna,“ segir hún. Hún hefur líka getað hjálpað báðum systrum sínum að kynnast Jehóva. Og hún ‚gerir gott‘ með því að bjóða fram lækniskunnáttu sína á mótum Votta Jehóva. — Galatabréfið 6:10.

En hvað um ávana Söndru? Hún segir örugg í bragði: „Hugsun mín er skýr. Ég hvorki drekk, reyki né neyti eiturlyfja. Ég þarf ekki á þeim að halda. Ég hef fundið það sem ég leitaði að.“

[Innskot á blaðsíðu 31]

„Ég hef fundið það sem ég leitaði að.“

[Rammagrein á blaðsíðu 31]

Meginreglur Biblíunnar að verki

Hér fara á eftir nokkrar meginreglur Biblíunnar sem hafa hjálpað mörgum að brjótast úr viðjum fíknar:

„Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Guð blessar þá sem hafa hreinsað sig af allri saurgun, þá sem forðast óhreina hegðun.

„Að óttast Drottin er að hata hið illa.“ (Orðskviðirnir 8:13) Djúp lotning fyrir Guði hjálpar okkur að losna úr viðjum slæmra ávana, þar á meðal fíkniávana. Og auk þess að gleðja Jehóva er sá sem tekið hefur stakkaskiptum varinn gegn skaðlegum sjúkdómum.

„Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks.“ (Títusarbréfið 3:1) Í mörgum löndum er það brot á lögum að nota eiturlyf eða hafa þau í fórum sínum. Sannkristnir menn gera hvorugt.