Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farðu rétt með orð Guðs

Farðu rétt með orð Guðs

Farðu rétt með orð Guðs

„Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:15.

1, 2. (a) Til hvers þurfa handverksmenn verkfæri? (b) Hvaða starf vinna kristnir menn og hvernig sýna þeir að þeir leita fyrst ríkis Guðs?

HANDVERKSMAÐUR þarf verkfæri til að stunda iðn sína. En hann getur ekki notað hvaða verkfæri sem er. Hann þarf að hafa réttu verkfærin og beita þeim af kunnáttu. Ef þú værir að smíða geymsluskúr og ætlaðir að negla saman tvö borð væri ekki nóg að hafa aðeins hamar og nagla. Þú þyrftir líka að kunna að reka nagla í spýtu án þess að beygja hann. Það er erfitt að kafreka nagla ef maður kann ekki að fara með hamar. En ef maður hefur réttu verkfærin og kann að beita þeim getur maður skilað af sér góðu verki.

2 Kristnir menn hafa verk að vinna. Og þetta er afar mikilvægt verk. Jesús Kristur hvatti fylgjendur sína til að leita fyrst ríkis Guðs. (Matteus 6:33) Hvernig getum við gert það? Í fyrsta lagi með því að boða Guðsríki af kappi og gera menn að lærisveinum. Í öðru lagi með því að byggja boðunarstarfið alfarið á orði Guðs. Og í þriðja lagi með góðri breytni. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Postulasagan 8:25; 1. Pétursbréf 2:12) Til að ná árangri í þessu kristna starfi og njóta þess þurfum við að hafa hentug verkfæri og kunna að beita þeim. Páll postuli er prýðisdæmi um kristinn verkamann, og hann hvatti trúsystkini sín til að líkja eftir sér. (1. Korintubréf 11:1; 15:10) Hvað getum við lært af Páli, samverkamanni okkar?

Páll — kostgæfinn boðberi Guðsríkis

3. Hvers vegna er óhætt að segja að Páll postuli hafi verið kostgæfinn verkamaður Guðsríkis?

3 Hvers konar verkamaður var Páll? Óhætt er að segja að hann hafi verið kostgæfinn. Hann vann þrotlaust að því að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið á stóru svæði við Miðjarðarhaf. Þessi óþreytandi postuli sagði um ötult starf sitt: „Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 9:16) Var Páli einungis umhugað um að bjarga sjálfum sér? Nei, hann var ekki eigingjarn maður heldur vildi að aðrir fengju að njóta góðs af fagnaðarerindinu. Hann sagðist gera allt vegna fagnaðarerindisins til þess að hann fengi hlutdeild í því með öðrum. — 1. Korintubréf 9:23.

4. Hvaða verkfæri er mikilvægast fyrir kristna menn?

4 Páll postuli var hógvær verkamaður og gerði sér því grein fyrir að hann gæti ekki reitt sig eingöngu á eigin hæfileika. Rétt eins og trésmiður þarf hamar þurfti Páll réttu verkfærin til að innprenta áheyrendum sínum sannindi Guðs. Hvaða verkfæri notaði hann fyrst og fremst? Það var orð Guðs, Heilög ritning. Biblían er sömuleiðis helsta verkfærið sem við notum til að gera fólk að lærisveinum.

5. Hvað annað þurfum við að gera en að vitna í Biblíuna til að ná árangri í boðunarstarfinu?

5 Páll vissi að hann þurfti að gera fleira en að vitna í orð Guðs til að fara rétt með það. Hann þurfti líka að reyna að sannfæra fólk. (Postulasagan 28:23) Hvernig? Hann notaði ritað orð Guðs fagmannlega svo að fólk tæki við sannleikanum um ríkið. Hann rökræddi við fólk. Í þrjá mánuði talaði hann djarfmannlega í samkundunni í Efesus „og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki“. Sumir „brynjuðu sig og vildu ekki trúa“ en aðrir hlustuðu. Starf Páls í Efesus varð til þess að ‚orð Drottins breiddist út og efldist í krafti hans‘. — Postulasagan 19:8, 9, 20.

6, 7. Hvernig vegsamaði Páll þjónustu sína og hvernig getum við gert slíkt hið sama?

6 Páll var kappsamur boðberi Guðsríkis og ‚vegsamaði þjónustu sína‘. (Rómverjabréfið 11:13) Hvernig? Hann hafði ekki áhuga á að upphefja sjálfan sig. Hann skammaðist sín ekki fyrir að vera þekktur sem samverkamaður Guðs heldur leit hann á boðunarstarfið sem æðsta heiður. Hann fór fagmannlega og vel með orð Guðs. Starf hans var árangursríkt og var öðrum hvatning til að gera þjónustu sinni enn betri skil. Þannig vegsamaðist þjónusta hans einnig.

7 Við getum vegsamað þjónustu okkar, líkt og Páll, með því að nota orð Guðs oft og vel. Það ætti alltaf að vera markmið okkar í boðunarstarfinu að koma einhverju úr Biblíunni á framfæri við eins marga og við getum. Hvernig getum við gert það á sannfærandi hátt? Við skulum skoða þrjár mikilvægar leiðir: (1) Beinum athygli að Biblíunni þannig að það veki virðingu fyrir henni. (2) Útskýrum og heimfærum með háttvísi það sem Biblían segir. (3) Rökræðum á sannfærandi hátt út frá Ritningunni.

8. Hvaða verkfæri höfum við í boðunarstarfinu nú á dögum og hvernig hefurðu notað þau?

8 Nú á tímum hafa boðberar Guðsríkis verkfæri sem Páll hafði ekki, svo sem bækur, tímarit, bæklinga, dreifimiða, smárit, hljóðsnældur og myndbönd. Á síðustu öld voru einnig notuð boðunarspjöld, grammófónar, hátalarabílar og útvarp. En Biblían er auðvitað besta verkfærið og við þurfum að nota þetta ómetanlega verkfæri bæði vel og rétt.

Boðunin þarf að byggjast á orði Guðs

9, 10. Hvað má læra af ráðleggingum Páls til Tímóteusar um rétta meðferð á orði Guðs?

9 Hvernig getum við notað orð Guðs á áhrifaríkan hátt? Með því að gera eins og Páll ráðlagði Tímóteusi, samverkamanni sínum: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Hvað er fólgið í því að fara rétt með orð sannleikans?

10 Gríska orðið, sem er þýtt ‚að fara rétt með‘, merkir bókstaflega ‚að skera beint‘ eða ‚að rista far í beina stefnu‘. Orðið kemur hvergi fyrir í kristnu Grísku ritningunum nema í leiðbeiningum Páls til Tímóteusar. Hægt er að nota orðið um það að rista beint plógfar á akri. Hlykkjótt plógfar væri gamalreyndum bónda til skammar. Tímóteus var minntur á að hann mætti ekki víkja frá hinni sönnu kenningu í orði Guðs ef hann vildi vera verkamaður sem ekki þurfti að skammast sín. Hann mátti ekki láta eigin skoðanir hafa áhrif á kennslu sína. Prédikun hans og kennsla átti að byggjast einvörðungu á Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 4:2-4) Þannig var hægt að hjálpa hjartahreinu fólki að tileinka sér sjónarmið Jehóva og varast veraldlega heimspeki. (Kólossubréfið 2:4, 8) Það er eins nú á tímum.

Við verðum að breyta vel

11, 12. Hvernig þurfum við að breyta til að fara rétt með orð Guðs?

11 Það er ekki nóg að fara rétt með orð Guðs með því að boða sannleika þess. Við verðum líka að breyta í samræmi við það. „Samverkamenn Guðs erum vér“ svo að við megum ekki vera hræsnarar. (1. Korintubréf 3:9) Orð Guðs segir: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma?“ (Rómverjabréfið 2:21, 22) Ein leið til að fara rétt með orð Guðs er því sú að gera eins og skrifað stendur: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:5, 6.

12 Hvaða árangurs megum við vænta þegar við förum rétt með orð Guðs? Lítum á þau áhrif sem ritað orð Guðs getur haft á hjartahreint fólk.

Orð Guðs getur breytt fólki

13. Hvaða áhrif getur orð Guðs haft á fólk?

13 Boðskapurinn í orði Guðs hefur sterk áhrif á þá sem viðurkenna hann, og hann hjálpar þeim að breyta lífi sínu til muna. Páll hafði séð orð Guðs að verki og orðið vitni að góðum áhrifum þess á þá sem gerðust kristnir í Þessaloníku. Hann sagði þeim: „Þess vegna þökkum vér líka Guði án afláts, því að þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið.“ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Þessum kristnu mönnum þóttu rök manna máttlaus andspænis hinni miklu visku Guðs. Allir sannir fylgjendur Krists eru á sama máli. (Jesaja 55:9) Þessaloníkumenn ‚tóku á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu‘ og eru öðrum trúuðum mönnum til fyrirmyndar. — 1. Þessaloníkubréf 1:5-7.

14, 15. Hversu kröftugur er boðskapurinn í orði Guðs og hvers vegna?

14 Orð Jehóva Guðs er kraftmikið, rétt eins og höfundurinn. Það er frá „lifanda Guði“ sem ‚gerði himnana‘, og orð hans hefur alltaf ‚komið því til vegar sem hann fól því að framkvæma‘. (Hebreabréfið 3:12; Sálmur 33:6; Jesaja 55:11) Biblíufræðingur segir: „Guð aðskilur sig ekki frá orði sínu. Hann afneitar því ekki, rétt eins og það væri honum óviðkomandi. . . . Þess vegna er orð hans aldrei dautt, ósnortið af því hvað verður um það, því að það myndar einingarband við hinn lifandi Guð.“

15 Boðskapurinn í orði Guðs býr yfir gífurlegum krafti. Páll skrifaði: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ — Hebreabréfið 4:12.

16. Hvernig getur orð Guðs breytt manni algerlega?

16 Boðskapurinn í orði Guðs er ‚beittari hverju tvíeggjuðu sverði‘. Hann getur þrengt sér inn af margfalt meira afli en nokkurt tæki eða tól sem menn hafa yfir að ráða. Orð Guðs smýgur innst inn í manninn og getur breytt honum hið innra, haft áhrif á það hvernig hann hugsar og hvað hann elskar, og gert hann að verkamanni sem Guð hefur velþóknun á. Þetta er aldeilis öflugt verkfæri!

17. Lýstu hvernig orð Guðs getur breytt fólki.

17 Orð Guðs afhjúpar hvernig maðurinn er raunverulega innst inni, hvað svo sem hann heldur um sjálfan sig og leyfir öðrum að sjá. (1. Samúelsbók 16:7) Illur maður getur jafnvel falið sinn innri mann undir guðræknu eða göfugmannlegu yfirbragði. Illir menn sigla undir fölsku flaggi í óguðlegum tilgangi. Hrokafullir menn gera sér upp auðmýkt en þrá aðdáun annarra. Með því að afhjúpa hvað býr í hjartanu getur orð Guðs hins vegar fengið auðmjúkan mann til að afklæðast gamla persónuleikanum og „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans“. (Efesusbréfið 4:22-24) Orð Guðs getur líka breytt huglitlum manni í djarfan vott Jehóva og kostgæfinn boðbera Guðsríkis. — Jeremía 1:6-9.

18, 19. Lýstu með dæmi úr boðunarstarfinu eða greininni hvernig sannleikur Biblíunnar getur breytt afstöðu fólks.

18 Krafturinn í orði Guðs hefur góð áhrif á fólk út um allan heim. Boðberar frá Pnom Pen í Kambódíu prédikuðu tvisvar í mánuði í héraði sem nefnist Kompong Cham. Prestur þar á svæðinu hafði heyrt aðra presta tala gegn vottum Jehóva og ákvað að hitta þá næst þegar þeir væru á ferðinni. Presturinn, sem er kona, lét rigna yfir þá spurningum um helgi- og hátíðisdaga og hlustaði með athygli á rök þeirra sem þeir studdu með biblíuvísunum. Að lokum sagði hún: „Nú veit ég að það sem hinir prestarnir sögðu um ykkur er ósatt. Þeir sögðu að þið notuðuð ekki Biblíuna en þið hafið ekki notað neitt annað en hana í dag!“

19 Konan hélt áfram að ræða við vottana um Biblíuna og lét ekki haggast þó að henni væri hótað að hún yrði sett af sem prestur. Hún sagði vinkonu sinni frá þessu og vinkonan fór þá að kynna sér Biblíuna með hjálp vottanna. Vinkonan hreifst svo af því sem hún var að læra að hún sagði einu sinni þegar hún var viðstödd guðsþjónustu í kirkjunni: „Komið og kynnið ykkur Biblíuna hjá Vottum Jehóva!“ Presturinn fyrrverandi og fleiri þáðu biblíunámskeið hjá vottunum skömmu síðar.

20. Hvernig er reynsla ganverskrar konu skýrt dæmi um kraftinn í orði Guðs?

20 Paulina býr í Gana og hún er annað dæmi um kraftinn í orði Guðs. Boðberi í fullu starfi fræddi hana um Biblíuna og notaði til þess bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. * Paulina var í fjölkvænishjónabandi og gerði sér grein fyrir að hún þyrfti að breyta því, en eiginmaðurinn og allir ættingjar hennar snerust gegn því af miklum ofsa. Afi hennar, sem var yfirdómari og öldungur í kirkjunni, reyndi að telja henni hughvarf með því að rangfæra Matteus 19:4-6. Hann hljómaði mjög sannfærandi en Paulina áttaði sig fljótt á því að hann væri að rangsnúa Biblíunni líkt og Satan gerði þegar hann freistaði Jesú Krists. (Matteus 4:5-7) Hún mundi hvað Jesús sagði skýrt og greinilega um hjónabandið, það að Guð hefði skapað karl og konu, ekki karl og konur, og að þau tvö en ekki þrjú ættu að verða eitt hold. Hún var óhagganleg í ákvörðun sinni og að lokum var henni veittur skilnaður eins og tíðkast þegar um fjölkvæni er að ræða. Skömmu síðar lét hún skírast sem hamingjusamur boðberi Guðsríkis.

Haltu áfram að fara rétt með orð Guðs

21, 22. (a) Í hverju ættum við að vera staðráðin þegar við boðum Guðsríki? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

21 Ritað orð Guðs er öflugt verkfæri sem við getum notað til að hjálpa öðrum að breyta ýmsu í lífi sínu svo að þeir geti nálægt sig Jehóva. (Jakobsbréfið 4:8) Verum staðráðin í að leggja okkur vel fram við að nota orð Guðs, Biblíuna, fagmannlega þegar við boðum Guðsríki, rétt eins og góður handverksmaður beitir verkfærum sínum af kunnáttu og leikni.

22 Hvernig getum við beitt Biblíunni enn betur til að gera fólk að lærisveinum? Til dæmis með því að þjálfa okkur í að sannfæra fólk. Lestu greinina á eftir en þar er bent á leiðir til að kenna öðrum og hjálpa þeim að taka við boðskapnum um ríkið.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvaða verkfæri hafa boðberar Guðsríkis í starfi sínu?

• Að hvaða leyti er Páll gott dæmi um verkamann Guðsríkis?

• Hvað er fólgið í því að fara rétt með orð Guðs?

• Hversu öflugt verkfæri er ritað orð Jehóva?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Nokkur verkfæri sem kristnir menn nota til að boða Guðsríki.