Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Loforðum hverra getur þú treyst?

Loforðum hverra getur þú treyst?

Loforðum hverra getur þú treyst?

„LOFORÐ hans var einatt mikið, einsog sjálfur hann; en efndin varð, rétt einsog hann er nú, engin.“ — Hinrik áttundi, eftir William Shakespeare. *

Þetta mikla loforð, sem Shakespeare vísaði til, var loforð enska kardínálans Tómasar Volseys sem lét mikið að sér kveða í stjórnmálum á Englandi á 16. öld. Sumir myndu segja að orð Shakespeares ættu vel við flest loforð sem þeir heyra nú á dögum. Hvað eftir annað eru fólki gefin stór loforð en þau eru sjaldan efnd. Það kemur því ekki á óvart að fólk verði tortryggið gagnvart öllum loforðum.

Sífelld vonbrigði

Þegar hræðileg átök áttu sér stað á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar lýsti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yfir að bosníski bærinn Srebrenica væri „öruggt svæði“. Þetta virtist vera áreiðanleg yfirlýsing og þúsundir múslímskra flóttamanna í Srebrenicu stóðu í þeirri trú. En þegar allt kom til alls reyndist þetta loforð um öryggi orðin tóm. (Sálmur 146:3) Í júlí árið 1995 voru sveitir Sameinuðu þjóðanna einfaldlega hraktar burt þegar árásarlið réðst á bæinn. Rúmlega 6000 múslímar hurfu sporlaust og að minnsta kosti 1200 múslímskir borgarar voru myrtir.

Svikin loforð blasa við alls staðar. Fólki finnst það vera svikið af „öllum þeim fölsku og misvísandi auglýsingum“ sem dynja yfir það. Það er vonsvikið vegna „svikinna kosningaloforða ótalmargra stjórnmálamanna“. (The New Encyclopædia Britannica, 15. bindi, bls. 37) Trúarleiðtogar, sem lofa að annast sauði sína og njóta trausts þeirra, misnota þá á andstyggilegan hátt. Jafnvel í starfsgreinum, sem lúta að kennslu og heilbrigðisþjónustu og ættu að einkennast af samúð og umhyggju fyrir öðrum, hafa sumir brugðist trausti fólks og misnotað eða jafnvel myrt skjólstæðinga sína. Það er því ekki að undra að Biblían skuli vara okkur við því að trúa öllu. — Orðskviðirnir 14:15.

Loforð sem eru uppfyllt

Auðvitað eru margir sem halda loforð sín og oft gera þeir það jafnvel þótt það kosti þá mikið. (Sálmur 15:4) Þeir eru menn á bak við orð sín. Aðrir gefa loforð af góðum ásetningi og ætla sér einlæglega að halda þau. Þeir vilja gjarnan standa við gefin loforð en geta það einfaldlega ekki. Aðstæður geta jafnvel gert göfugustu áform að engu. — Prédikarinn 9:11.

Hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera er staðreyndin sú að margir eiga mjög erfitt með að treysta loforðum. Þá vaknar spurningin: Eru einhver loforð sem við getum treyst? Já, við getum treyst þeim loforðum sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni. Hvernig væri að lesa það sem næsta grein segir um málið? Þú gætir komist að sömu niðurstöðu og milljónir manna, að við getum vissulega treyst loforðum Guðs.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Íslensk þýðing: Helgi Hálfdanarson.

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 3]

AP Photo/Amel Emric