Varaðu þig á „raust ókunnugra“
Varaðu þig á „raust ókunnugra“
„Ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“ — JÓHANNES 10:5.
1, 2. (a) Hvernig bregst María við þegar Jesús kallar hana með nafni og hvernig kemur það heim og saman við það sem Jesús hafði sagt nokkru áður? (b) Hvað gerir okkur kleift að halda okkur nálægt Jesú?
HINN upprisni Jesús horfir á konuna þar sem hún stendur nálægt tómri gröf hans. Hann þekkir hana vel. Þetta er María Magdalena. Hann hafði rekið illa anda út af henni um tveimur árum áður. Alla tíð síðan hefur hún fylgt honum og postulum hans og séð þeim fyrir daglegum nauðsynjum. (Lúkas 8:1-3) En núna grætur María. Hún er buguð af sorg. Hún hafði séð Jesú deyja og núna er líkami hans jafnvel horfinn. Jesús spyr hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“ Hún telur hann grasgarðsvörðinn og svarar: „Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.“ Þá segir Jesús: „María!“ Hún þekkir strax þetta kunnuglega ávarp. „Rabbúní!“ segir hún yfir sig glöð og kemur nær honum. — Jóhannes 20:11-18.
2 Þessi frásaga lýsir á hrífandi hátt því sem Jesús sagði nokkru áður. Þá líkti hann sjálfum sér við fjárhirði og fylgjendum sínum við sauði. Hann sagði að fjárhirðirinn kalli á sauðina með nafni og að þeir þekki rödd hans. (Jóhannes 10:3, 4, 14, 27, 28) María þekkti hirði sinn, Krist, líkt og sauðir þekkja fjárhirðinn. Þannig er það líka meðal fylgjenda Jesú nú á dögum. (Jóhannes 10:16) Góð dómgreind í andlegum málum gerir okkur kleift að feta náið í fótspor Jesú Krists, góða hirðisins, líkt og vökult eyra sauðkindar gerir henni kleift að halda sig nálægt fjárhirðinum. — Jóhannes 13:15; 1. Jóhannesarbréf 2:6; 5:20.
3. Hvaða spurningar vakna varðandi líkingu Jesú um sauðabyrgið?
3 En samkvæmt þessari sömu líkingu er sauðkind ekki aðeins fær um að þekkja rödd vina heldur líka óvina. Þetta er mikilvægt þar sem andstæðingar okkar eru slungnir. Hverjir eru þeir? Hvernig starfa þeir? Hvernig getum við varist þeim? Til að fá svör við þessum spurningum skulum við skoða fleira sem Jesús segir í líkingunni um sauðabyrgið.
„Sá sem kemur ekki um dyrnar“
4. Hvern elta sauðirnir og hvern ekki samkvæmt líkingunni um fjárhirðinn?
4 Jesús segir: „Sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna. Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans. En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“ (Jóhannes 10:2-5) Taktu eftir að Jesús notar orðið „raust“ þrisvar sinnum. Tvisvar talar hann um raust fjárhirðisins en í þriðja skiptið um „raust ókunnugra“. Hverja á hann við?
5. Hvers vegna erum við ekki gestrisin við hina ókunnugu sem nefndir eru í 10. kafla Jóhannesar?
5 Hér á Jesús ekki við ókunnuga sem við ættum að sýna gestrisni en á frummáli Biblíunnar merkir orðið gestrisni „ást á ókunnugum“. (Hebreabréfið 13:2) Hinum ókunnuga í líkingu Jesú hefur ekki verið boðið. Hann „kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar“. Hann er „þjófur og ræningi“. (Jóhannes 10:1) Satan djöfullinn var sá fyrsti sem varð þjófur og ræningi samkvæmt orði Guðs. Rökin fyrir því er að finna í 1. Mósebók.
Þegar raust ókunnugra heyrðist í fyrsta sinn
6, 7. Hvers vegna er réttilega hægt að kalla Satan þjóf og ókunnugan?
6 Í 1. Mósebók 3:1-5 er því lýst hvernig raust ókunnugra heyrðist á jörðinni í fyrsta sinn. Frásagan er á þá leið að Satan hafi komið að máli við fyrstu konuna fyrir milligöngu höggorms og blekkt hana. Að vísu er ekki talað um Satan sem ,ókunnugan‘ í þessari frásögn. En það sem hann gerir sýnir að hann er á margan hátt eins og hinn ókunnugi í líkingu Jesú í 10. kafla Jóhannesar. Skoðum nokkrar hliðstæður.
7 Jesús segir að hinn ókunnugi nálgist fórnarlömb sín í sauðabyrginu á óheiðarlegan hátt. Að sama skapi nálgaðist Satan fórnarlamb sitt óbeint og notaði til þess höggorm. Þessi slóttuga aðferð leiddi í ljós hvernig Satan er í raun og veru — útsmoginn og læðist að fórnarlömbum sínum. Og hinn ókunnugi hefur í hyggju að ræna réttmætan eiganda sauðum sínum. Hann er meira segja að verri en þjófur því að markmið hans er að „slátra og eyða“. (Jóhannes 10:10) Satan var líka þjófur. Þegar hann tældi Evu rændi hann hollustu hennar frá Guði. Og, það sem meira er, Satan var valdur að dauða manna. Hann er morðingi.
8. Hvernig afbakaði Satan orð og hvatir Jehóva?
8 Undirferli Satans kom fram í því hvernig hann afbakaði orð Jehóva og hvatir. „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ spurði hann Evu. Satan þóttist vera hneykslaður eins og hann væri að segja: „Hvernig gat Guð verið svona ósanngjarn?“ Hann bætti við: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast.“ Taktu eftir orðunum: „Guð veit.“ Satan var í raun að segja: „Ég veit það sem Guð veit. Ég þekki hvatir hans og þær eru vondar.“ (1. Mósebók 2:16, 17; 3:1, 5) Því miður hlustuðu Eva og Adam á raust hins ókunnuga og kölluðu yfir sig og afkomendur sína mikla ógæfu. — Rómverjabréfið 5:12, 14.
9. Hvers vegna ættum við að búast við að raust ókunnugra heyrist nú á dögum?
9 Satan notar svipaðar aðferðir til að afvegaleiða fólk Guðs nú á dögum. (Opinberunarbókin 12:9) Hann er „lyginnar faðir“ og þeir sem reyna að afvegaleiða fólk Guðs eins og hann eru börn hans. (Jóhannes 8:44) Skoðum dæmi um hvernig raust ókunnugra heyrist á okkar dögum.
Hvernig heyrist raust ókunnugra nú á dögum?
10. Nefndu dæmi um það hvernig raust ókunnugra heyrist.
10 Villandi kenningar. Páll postuli segir: „Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum.“ (Hebreabréfið 13:9) Hvernig kenningar eru það? Þar sem þær geta ,afvegaleitt okkur‘ er ljóst að Páll átti við kenningar sem grafa undan trú okkar. Hver útbreiðir slíkar framandi kenningar? Páll sagði við hóp kristinna öldunga: „Úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:30) Líkt og var á dögum Páls reyna sumir sem voru eitt sinn hluti af kristna söfnuðinum að afvegaleiða sauðina með því að koma með „rangsnúna kenningu“ — hálfsannleika og beinar lygar. Þeir nota ,uppspunnin orð‘ eins og Pétur postuli segir, orð sem eru einskis virði. — 2. Pétursbréf 2:3.
11. Hvernig afhjúpar 2. Pétursbréf 2:1, 3 aðferðir og markmið fráhvarfsmanna?
11 Pétur talar um að fráhvarfsmenn muni ,smeygja inn háskalegum villukenningum‘ og afhjúpar þar með aðferðir þeirra enn frekar. (2. Pétursbréf 2:1, 3) Fráhvarfsmenn nálgast okkur pukurslega, rétt eins og þjófurinn í líkingu Jesú kemur ekki „um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar“. (Galatabréfið 2:4; Júdasarbréfið 4) Hvert er markmið þeirra? Pétur segir einnig að ,þeir muni hafa okkur að féþúfu‘ eða misnota með öðrum hætti. Fráhvarfsmenn ætla sér „að stela og slátra og eyða“ þó að þeir haldi öðru fram. (Jóhannes 10:10) Varaðu þig á þessum ókunnugu mönnum.
12. (a) Hvernig getur félagsskapur gert okkur berskjalda fyrir raust ókunnugra? (b) Hvað er líkt með aðferðum Satans og aðferðum ókunnugra nú á dögum?
1. Korintubréf 15:33) Mundu að Satan talaði við Evu en hún var óreyndari en Adam. Hann taldi henni trú um að Jehóva hefði skert frelsi hennar úr hófi fram sem var alrangt. Jehóva elskaði mennina, sem hann hafði skapað, og bar hag þeirra fyrir brjósti. (Jesaja 48:17) Ókunnugir reyna eins nú á dögum að telja ykkur unglingunum trú um að kristnir foreldrar ykkar skerði frelsi ykkar fram úr hófi. Hvernig koma áhrif þeirra fram? Kristin stúlka viðurkennir: „Ég veiktist svolítið í trúnni um nokkurt skeið sökum skólafélaganna. Þeir sögðu í sífellu að trúfélagið mitt væri strangt og ósanngjarnt.“ Sannleikurinn er hins vegar sá að foreldrarnir elska þig. Láttu því ekki afvegaleiðast eins og Eva þegar skólafélagarnir reyna að fá þig til að vantreysta foreldrum þínum.
12 Skaðlegur félagsskapur. Raust ókunnugra getur heyrst frá þeim sem við umgöngumst. Unglingar eru sérstaklega berskjalda fyrir skaðlegum félagsskap. (13. Hvaða viturlegu stefnu tók Davíð og hvernig getum við líkt eftir honum?
13 Sálmaritarinn Davíð segir um skaðlegan félagsskap: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.“ (Sálmur 26:4) Hefurðu tekið eftir þessu hjá ókunnugum? Þeir sigla undir fölsku flaggi, líkt og Satan gerði þegar hann notaði höggorm. Sumt siðlaust fólk notar Netið til að villa á sér heimildir og fela ætlanir sínar. Á spjallrásum þykjast öfuguggar jafnvel vera unglingar, til að tæla þig í gildru. Við hvetjum ykkur unga fólkið til að vera sérstaklega varkár svo að þið verðið ekki fyrir andlegu tjóni. — Sálmur 119:101; Orðskviðirnir 22:3.
14. Hvernig flytja fjölmiðlar stundum raust ókunnugra?
14 Rangar ásakanir. Þótt sumar fréttir um Votta Jehóva séu sanngjarnar láta fjölmiðlarnir stundum nota sig til að flytja rödd ókunnugra og fordóma þeirra. Í landi einu var því til dæmis ranglega haldið fram í frétt að vottarnir hefðu stutt stjórn Hitlers í síðari heimsstyrjöldinni. Í öðru landi voru vottarnir sakaðir um að vinna skemmdarverk á kirkjum. Í nokkrum löndum sökuðu fjölmiðlarnir vottana um að neita börnum sínum um læknismeðferð og einnig að hylma vísvitandi yfir alvarlegar syndir trúsystkina. (Matteus 10:22) En einlægt fólk, sem þekkir okkur persónulega, veit að slíkar ásakanir eru rangar.
15. Hvers vegna er óviturlegt að trúa öllu sem kemur fram í fjölmiðlum?
15 Hvað ættum við að gera ef við stöndum andspænis slíkum ásökunum sem ókunnugir koma á framfæri? Það er viturlegt að fara eftir ráðleggingunni í Orðskviðunum 14:15: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ Það er óviturlegt að taka allt gott og gilt sem kemur fram í fjölmiðlum. Við vantreystum auðvitað ekki öllu sem frá heiminum kemur en við gerum okkur grein fyrir að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
„Reynið andana“
16. (a) Hvernig sýnir atferli bókstaflegra sauða fram á sannleiksgildi orða Jesú í Jóhannesi 10:4? (b) Hvað hvetur Biblían okkur til að gera?
16 En hvernig getum við vitað fyrir víst hvort um vin eða óvin sé að ræða? Jesús sagði að sauðirnir fylgi hirðinum „af því að þeir þekkja raust hans“. (Jóhannes 10:4) Það er ekki ytra útlit hirðisins sem fær sauðina til að fylgja honum heldur rödd hans. Bók, sem fjallar um biblíulöndin, segir frá því þegar aðkomumaður staðhæfði eitt sinn að sauðir þekki fjárhirðinn af klæðnaði hans en ekki rödd. Fjárhirðir svaraði því til að það væri röddin sem þeir þekktu. Því til sönnunar skipti hann á fötum við hinn ókunnuga. Núna var aðkomumaðurinn klæddur eins og fjárhirðirinn og kallaði á sauðina en þeir komu ekki til hans. Þeir þekktu ekki röddina. En þegar fjárhirðirinn kallaði komu þeir strax til hans þó svo að hann væri í dulargervi. Einhver getur því litið út fyrir að vera fjárhirðir en sauðirnir líta ekki á það sem sönnun fyrir því að hann sé það. Sauðirnir reyna rödd þess sem kallar, ef svo má segja, og bera hana saman við rödd fjárhirðisins. Í orði Guðs er okkur sagt að gera það sama: „Reynið andana, hvort þeir séu frá Guði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1; 2. Tímóteusarbréf 1:13) Hvað hjálpar okkur til þess?
17. (a) Hvernig kynnumst við raust Jehóva? (b) Hvað getum við gert ef við þekkjum Jehóva?
17 Því betur sem við þekkjum raust Jehóva eða boðskap hans, þeim mun betur getum við greint raust ókunnugra. Biblían bendir á hvernig við öflum okkur slíkrar þekkingar. Hún segir: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér . . . : ,Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ (Jesaja 30:21) Þessi „orð“, sem við heyrum að baki okkur, koma frá orði Guðs. Í hvert sinn sem við lesum í orði Guðs er eins og við heyrum raust Jehóva, hins mikla hirðis. (Sálmur 23:1) Því meira sem við nemum Biblíuna þeim mun betur þekkjum við raust Guðs. Þessi nákvæma þekking gerir okkur síðan kleift að þekkja raust ókunnugra undir eins. — Galatabréfið 1:8.
18. (a) Hvað er fólgið í því að þekkja raust Jehóva? (b) Hvers vegna ættum við að hlýða raust Jesú samkvæmt Matteusi 17:5?
18 Hvað meira er fólgið í því að þekkja raust Jehóva? Auk þess að heyra verðum við að hlýða. Taktu aftur eftir því sem segir í Jesaja 30:21. Orð Guðs lýsir yfir: „Hér er vegurinn!“ Já, með námi í Biblíunni heyrum við leiðsögn Jehóva. Næst býður hann okkur: „Farið hann!“ Jehóva vill að við förum eftir því sem við heyrum. Þegar við tileinkum okkur það sem við lærum sýnum við að við heyrum ekki aðeins raust Jehóva heldur hlýðum henni líka. (5. Mósebók 28:1) Til að hlýða raust Jehóva verðum við einnig að hlýða Jesú því að Jehóva hefur sagt okkur að gera það. (Matteus 17:5) Hvað segir Jesús, góði hirðirinn, okkur að gera? Hann segir okkur að gera menn að lærisveinum og að treysta ,trúa og hyggna þjóninum‘. (Matteus 24:45; 28:18-20) Það hefur eilíft líf í för með sér að hlýða raust hans. — Postulasagan 3:23.
,Þeir flýja frá honum‘
19. Hvernig ættum við að bregðast við raust ókunnugra?
19 Hvernig ættum við því að bregðast við raust ókunnugra? Á sama hátt og sauðir gera. Jesús segir: „Ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum.“ (Jóhannes 10:5) Viðbrögðin eru tvíþætt. Í fyrsta lagi ,fylgjum við ekki‘ ókunnugum heldur höfnum þeim einarðlega. Á biblíugrísku er notað hér sterkasta orðalag sem til er til að lýsa höfnun. Í öðru lagi ,flýjum við frá honum‘ eða snúum baki við honum. Það eru einu réttu viðbrögðin við þeim sem kenna það sem er ekki í samræmi við raust góða hirðisins.
20. Hvernig eru viðbrögð okkar þegar við stöndum andspænis (a) svikulum fráhvarfsmönnum, (b) skaðlegum félagsskap, (c) fordómafullum fréttum fjölmiðla?
20 Þegar einhver reynir að koma fráhvarfshugmyndum á framfæri við okkur gerum við eins og orð Guðs segir: „[Hafið] gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.“ (Rómverjabréfið 16:17; Títusarbréfið 3:10) Kristnir unglingar fara líka eftir ráðleggingum Páls til Tímóteusar þegar skaðlegur félagsskapur er annars vegar: „Flý þú æskunnar girndir.“ Og þegar við heyrum rangar ásakanir í fjölmiðlum minnumst við orða Páls: „Þeir [sem hlusta á raust ókunnugra] munu . . . hverfa að ævintýrum. En ver þú algáður í öllu.“ (2. Tímóteusarbréf 2:22; 4:3-5) Hversu fögur sem raust ókunnugra hljómar flýjum við allt sem grefur undan trú okkar. — Sálmur 26:5; Orðskviðirnir 7:5, 21; Opinberunarbókin 18:2, 4.
21. Hvaða umbun bíður þeirra sem hafna raust ókunnugra?
21 Þegar andasmurðir kristnir menn vísa raust ókunnugra á bug eru þeir minnugir orða góða hirðisins í Lúkasi 12:32. Jesús segir þar við þá: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ Og ,aðrir sauðir‘ hlakka til að heyra orð Jesú: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ (Jóhannes 10:16; Matteus 25:34) Mikil umbun bíður okkar ef við höfnum „raust ókunnugra“.
Manstu?
• Hvernig kemur Satan heim og saman við lýsinguna á hinum ókunnuga í líkingu Jesú um sauðabyrgið?
• Hvernig ómar raust ókunnugra nú á dögum?
• Hvernig getum við borið kennsl á raust ókunnugra?
• Hvernig ættum við að bregðast við raust ókunnugra?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
María þekkti Krist.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hinn ókunnugi nálgast ekki sauðina á heiðarlegan hátt.