„Þannig skuluð þér biðja“
„Þannig skuluð þér biðja“
KANNTU faðirvorið utan að? Það er fyrirmyndarbæn sem Jesús Kristur kenndi. Í sinni vel þekktu fjallræðu sagði Jesús: „Þannig skuluð þér biðja.“ (Matteus 6:9) Þar sem Jesús innleiddi þessa bæn kalla sumir hana bæn Drottins en hún er betur þekkt sem faðirvorið. — Á latínu, Paternoster.
Milljónir manna um heim allan hafa lagt faðirvorið á minnið og fara oft með það, jafnvel daglega. Margir fara með þessa bæn í skólum eða við opinbera atburði. Hvers vegna er faðirvorið haft í svona miklum metum?
Guðfræðingurinn Kypríanus, sem var uppi á þriðju öld, skrifaði: „Hvaða bæn gæti haft meira andlegt gildi en sú sem Kristur gaf okkur . . . ? Hvaða bæn til föðurins gæti verið sannari en sú sem sonurinn, sem er sannleikurinn, færði okkur?“ — Jóhannes 14:6.
Í spurningakveri rómversk-kaþólsku kirkjunnar kemur fram að hún álítur faðirvorið vera „grundvallarbæn kristinna manna“. Alfræðiorðabókin The World Book Encyclopedia bendir á að þessi bæn eigi sér mikilvægan sess í öllum kristnum trúarbrögðum og segir hana vera eina af „grundvallaryfirlýsingum kristinnar trúar“.
Það verður samt að viðurkennast að margir sem fara með faðirvorið skilja það ekki alveg
til fulls. „Ef þú hefur alist upp á kristnu heimili geturðu líklega þulið faðirvorið án þess að draga andann,“ segir kanadíska dagblaðið Ottawa Citizen, „en þú gætir átt erfiðara með að segja það hægt og með góðum skilningi.“Er mikilvægt að skilja þær bænir sem við biðjum til Guðs? Hvers vegna kenndi Jesús okkur faðirvorið? Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Við skulum taka þessar spurningar til athugunar.