Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitaðu Jehóva sem prófar hjörtun

Leitaðu Jehóva sem prófar hjörtun

Leitaðu Jehóva sem prófar hjörtun

„Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.“ — AMOS 5:4.

1, 2. Við hvað er átt þegar Biblían segir að Jehóva ‚líti á hjartað‘?

JEHÓVA GUÐ sagði Samúel spámanni: „Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Í hvaða skilningi lítur Jehóva á hjartað?

2 Í Ritningunni er hjartað oft haft til tákns um það sem maðurinn er hið innra — langanir hans, hugsanir, tilfinningar og kenndir. Þegar Biblían talar um að Guð líti á hjartað er átt við að hann horfi ekki aðeins á ytra útlit heldur einbeiti sér að því hvernig maðurinn er í raun og veru.

Guð rannsakar Ísrael

3, 4. Hvernig var ástandið í tíuættkvíslaríkinu Ísrael samkvæmt Amosi 6:4-6?

3 Hvað sá Jehóva, sem prófar hjörtun, þegar hann fylgdist með tíuættkvíslaríkinu Ísrael á dögum Amosar? Amos 6:4-6 talar um menn sem „hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni. Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð. Þeir drekka vínið úr skálum.“

4 Fljótt á litið virðist þetta lýsa góðu ástandi. Hinir ríku eiga heima í vel búnum húsum, njóta þess besta í mat og drykk og skemmta sér við hljóðfæraleik. Þeir eiga ,legubekki af fílsbeini‘. Fornleifafræðingar hafa fundið fagurlega útskorna muni úr fílabeini í Samaríu, höfuðborg Ísraelsríkis. (1. Konungabók 10:22) Að öllum líkindum hafa margir þeirra skreytt húsgögn og veggklæðningar.

5. Hvað mislíkaði Guði í fari Ísraelsmanna á dögum Amosar?

5 Hafði Jehóva eitthvað á móti því að Ísraelsmenn lifðu þægilegu lífi, gæddu sér á ljúffengum mat, drykkju dýrindisvín og hlustuðu á fallega tónlist? Auðvitað ekki. Það er nú einu sinni hann sem sér manninum ríkulega fyrir öllu slíku til nautnar. (1. Tímóteusarbréf 6:17) Jehóva mislíkaði að fólk skyldi hvorki elska meðbræður sína né sýna honum virðingu. Honum mislíkuðu rangar langanir þess og illt hjarta.

6. Hvernig var andlegt ástand Ísraels á dögum Amosar?

6 Þeir sem ‚lágu flatir á hvílbeðjum sínum, átu lömb af sauðahjörðinni, drukku vín og rauluðu undir með hörpunni‘ vissu ekki hvað var í vændum. Þeir ‚ímynduðu sér að hinn illi dagur væri hvergi nærri‘. Þeir hefðu átt að taka mjög nærri sér hvernig ástatt var í Ísrael en ‚eyðing Jósefs rann þeim ekki til rifja‘. (Amos 6:3-6) Jehóva horfði ekki aðeins á efnislega velmegun þjóðarinnar heldur sá að Jósef, það er að segja Ísrael, var ömurlega á sig kominn andlega. Þrátt fyrir það var fólk áhyggjulaust og hélt uppteknum hætti. Margir sýna sams konar hugarfar nú á tímum. Þeir viðurkenna kannski að við lifum á erfiðum tímum en raunir annarra skipta þá litlu sem engu máli svo lengi sem þær snerta þá ekki persónulega. Þeir sýna engan áhuga á andlegum málum.

Ísrael — hnignandi þjóð

7. Hvernig færi fyrir þjóðinni ef hún sinnti ekki viðvörunum Guðs?

7 Í spádómsbók Amosar er dregin upp mynd af hnignandi þjóð, þó svo að allt sé slétt og fellt á yfirborðinu. Jehóva ætlar að selja hana í hendur óvinum hennar þar sem hún sinnir ekki viðvörunum hans og breytir ekki hugsunarhætti sínum. Assýringar munu koma og hrifsa þá af fílabeinsbekkjunum og þvinga þá í ánauð. Þá verða öll þægindi úr sögunni.

8. Hvernig hnignaði Ísrael trúarlega?

8 Af hverju er Ísraelsþjóðin svona illa á sig komin? Það má rekja allt aftur til ársins 997 f.o.t. þegar Rehabeam konungur tók við af Salómon föður sínum og tíu ættkvíslir Ísraels klufu sig frá Júda- og Benjamínsættkvísl. „Jeróbóam Nebatsson“ var fyrsti konungur tíuættkvíslaríkisins. (1. Konungabók 11:26) Hann sannfærði þjóðina um að það væri of erfitt að ferðast til Jerúsalem til að tilbiðja Jehóva. En Jeróbóam var ekki að hugsa um velferð þjóðarinnar heldur að reyna að verja sinn eigin hag. (1. Konungabók 12:26) Hann óttaðist að Ísraelsmenn myndu á endanum gerast hollir Júdaríkinu ef þeir héldu áfram að fara til Jerúsalem til að heiðra Jehóva á hinum árlegu hátíðum í musterinu. Í von um að geta komið í veg fyrir það setti hann upp tvo gullkálfa, annan í Dan og hinn í Betel. Þar með varð kálfadýrkun opinber trú Ísraels. — 2. Kroníkubók 11:13-15.

9, 10. (a) Hvaða trúarhátíðum kom Jeróbóam fyrsti á? (b) Hvernig leit Guð á trúarhátíðirnar sem haldnar voru í Ísrael á dögum Jeróbóams annars?

9 Jeróbóam reyndi að gefa nýju trúnni virðulegan blæ og kom á trúarathöfnum sem svipaði nokkuð til hátíðanna í Jerúsalem. Við lesum í 1. Konungabók 12:32: „Jeróbóam setti hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar, eins og hátíðina, sem haldin var í Júda, og hann gekk upp að altarinu. Þannig gjörði hann í Betel.“

10 Jehóva lagði aldrei blessun sína yfir slíkar falstrúarhátíðir. Hann lét Amos koma því skýrt á framfæri meira en öld síðar í stjórnartíð Jeróbóams annars sem tók við konungsembætti í tíuættkvíslaríkinu um árið 844 f.o.t. (Amos 1:1) Að sögn Amosar 5:21-24 sagði Guð: „Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar og hefi enga unun af hátíðasamkomum yðar. Þótt þér færið mér brennifórnir, þá hefi ég enga velþóknun á fórnargjöfum yðar, ég lít ekki við heillafórnum af alikálfum yðar. Burt frá mér með glamur ljóða þinna, ég vil ekki heyra hljóm harpna þinna. Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk.“

Hliðstæður við nútímann

11, 12. Hvað er hliðstætt með tilbeiðslu Ísraelsmanna forðum daga og þeirri tilbeiðslu sem stunduð er í kristna heiminum?

11 Ljóst er að Jehóva rannsakaði hjörtu þeirra sem tóku þátt í heiðnum hátíðum Ísraels og vildi ekkert með hátíðarhöldin né fórnirnar hafa. Nú á dögum hafnar hann sömuleiðis heiðnum hátíðarhöldum kristna heimsins, svo sem jólum og páskum. Dýrkendur Jehóva vita að réttlæti og ranglæti eiga ekki samleið og að ljós hefur ekkert samfélag við myrkur. — 2. Korintubréf 6:14-16.

12 Fleira er hliðstætt með tilbeiðslu kristna heimsins og kálfadýrkuninni í Ísrael. Tilbeiðslan í kristna heiminum er ekki sprottin af sönnum kærleika til Guðs, þó að sumir innan vébanda hans viðurkenni að orð Guðs sé sannleikur. Annars myndi kristni heimurinn vilja tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika“ vegna þess að þannig tilbeiðsla gleður Jehóva. (Jóhannes 4:24) Kristni heimurinn lætur ekki „réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk“ heldur útvatnar siðferðiskröfur Guðs í sífellu. Hann umber saurlifnað og aðrar grófar syndir og gengur jafnvel svo langt að leggja blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra!

„Elskið hið góða“

13. Af hverju þurfum við að fara eftir leiðbeiningunum í Amosi 5:15?

13 Jehóva segir öllum sem vilja þóknast honum: „Hatið hið illa og elskið hið góða.“ (Amos 5:15) Ást og hatur eru sterkar tilfinningar sem eiga upptök sín í hinu táknræna hjarta. Þar sem hjartað er svikult verðum við að gera allt sem við getum til að vernda það. (Orðskviðirnir 4:23; Jeremía 17:9) Ef við ölum með okkur óæskilegar langanir gætum við farið að elska hið illa og hata hið góða. Og ef við létum undan slíkum löngunum og færum að iðka synd væri til lítils að reyna að þjóna Guði af ofurkappi í von um að endurheimta velþóknun hans. Við skulum því biðja um hjálp Guðs til að ‚hata hið illa og elska hið góða‘.

14, 15. (a) Hverjir gerðu gott í Ísrael, svo dæmi séu nefnd, en hvernig var farið með suma þeirra? (b) Hvernig getum við hvatt þá sem þjóna í fullu starfi?

14 Ekki gerðu þó allir Ísraelsmenn rangt í augum Jehóva. Hósea og Amos ‚elskuðu hið góða‘, svo dæmi sé tekið, og þjónuðu Guði dyggilega sem spámenn. Sumir unnu nasíreaheit. Nasírear forðuðust afurðir vínviðarins, einkanlega vín, allan þann tíma sem heitið var í gildi. (4. Mósebók 6:1-4) Hvernig litu aðrir Ísraelsmenn á fórnfýsi þeirra? Svarið afhjúpar hve trúarleg spilling þjóðarinnar var mikil. Amos 2:12 segir: „Þér gáfuð Nasíreunum vín að drekka og bönnuðuð spámönnunum að spá!“

15 Ísraelsmenn hefðu átt að skammast sín og langa til að breyta um lífsstefnu þegar þeir sáu hve trúfastir nasírearnir og spámennirnir voru. En í staðinn reyndu þeir að letja trúfasta menn þess að vegsama Guð. Við skulum aldrei hvetja fórnfúsa brautryðjendur, trúboða, farandhirða eða betelíta til að hætta að þjóna í fullu starfi til þess eins að taka aftur upp svokallað eðlilegt líf. Við skulum frekar hvetja þá til að halda áfram að vinna þetta góða starf.

16. Hvers vegna voru Ísraelsmenn betur á vegi staddir á dögum Móse en Amosar?

16 Þó að margir Ísraelsmenn á dögum Amosar væru í góðum efnum voru þeir ‚ekki ríkir hjá Guði‘. (Lúkas 12:13-21) Þau 40 ár, sem forfeður þeirra voru í eyðimörkinni, höfðu þeir ekki borðað annað en himnabrauðið manna. Þeir höfðu ekki gætt sér á alinautakjöti eða flatmagað á legubekkjum úr fílabeini. Móse hafði hins vegar sagt þeim réttilega: „Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. . . . Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort.“ (5. Mósebók 2:7) Já, Ísraelsmenn höfðu alltaf það sem þeir þurftu raunverulega á að halda í eyðimörkinni. En það besta var að þeir nutu kærleika Jehóva, verndar og blessunar.

17. Til hvers leiddi Jehóva Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið?

17 Jehóva minnti samtíðarmenn Amosar á að hann hefði leitt forfeður þeirra inn í fyrirheitna landið og hjálpað þeim að útrýma öllum óvinum þeirra. (Amos 2:9, 10) En hvers vegna hafði hann leitt þá út úr Egyptalandi og inn í fyrirheitna landið? Var það til þess að þeir gætu lifað í munaði og hafnað skapara sínum? Nei, hann gerði það til að þeir gætu tilbeðið hann sem andlega hrein og frjáls þjóð. En íbúar tíuættkvíslaríkisins hötuðu ekki hið illa og elskuðu ekki hið góða. Þeir dýrkuðu skurðgoð en ekki Jehóva Guð. Hvílík skömm!

Jehóva lætur þá svara til saka

18. Hvers vegna hefur Jehóva veitt okkur andlegt frelsi?

18 Guð ætlaði ekki að horfa fram hjá skammarlegu framferði Ísraelsmanna. Hann lét afstöðu sína skýrt í ljós þegar hann sagði: „Ég [hegni] yður fyrir allar misgjörðir yðar.“ (Amos 3:2) Þessi orð ættu að vekja okkur til umhugsunar um okkar eigin frelsun úr ánauð í Egyptalandi nútímans — hinu illa heimskerfi sem nú er. Jehóva hefur ekki frelsað okkur til þess að við getum keppt að eigingjörnum markmiðum heldur til þess að við getum lofað hann af heilum huga og stundað hreina tilbeiðslu sem frjálsir menn. Við þurfum öll að standa Guði reikningsskap fyrir það hvernig við notum frelsið sem hann gaf okkur. — Rómverjabréfið 14:12.

19. Hvað elskuðu flestir Ísraelsmenn samkvæmt Amosi 4:4, 5?

19 Því miður láta flestir íbúar Ísraels sem þeir heyri ekki kröftugan boðskap Amosar. Spámaðurinn dregur fram hversu andlega sjúkir þeir eru þegar hann segir í Amosi 4:4, 5: „Farið til Betel og syndgið, til Gilgal og syndgið enn þá meir! . . . Því að það er yðar yndi, Ísraelsmanna.“ Ísraelsmenn höfðu ekki glætt með sér réttar hvatir. Þeir höfðu ekki verndað hjartað og því fóru flestir að elska hið illa og hata hið góða. Þessir þrjósku kálfadýrkendur breyttu sér ekki. Jehóva ætlaði að láta þá svara til saka og þeir myndu deyja í syndum sínum.

20. Hvernig er hægt að fara eftir Amosi 5:4?

20 Það hefur varla verið auðvelt fyrir nokkurn mann, sem bjó í Ísrael á þeim tíma, að vera Jehóva trúr. Það er erfitt að synda á móti straumnum eins og kristnir menn, bæði ungir sem aldnir, þekkja mætavel. En sumir Ísraelsmenn stunduðu sanna tilbeiðslu af því að þeir elskuðu Guð og þá langaði til að þóknast honum. Eins og skráð er í Amosi 5:4 bauð Jehóva þeim hlýlega: „Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.“ Guð miskunnar sömuleiðis þeim sem iðrast nú á tímum og leita hans með því að afla sér nákvæmrar þekkingar á orði hans og gera síðan vilja hans. Þetta er ekki auðveld lífsstefna en hún leiðir til eilífs lífs. — Jóhannes 17:3.

Velmegun þrátt fyrir andlega hungursneyð

21. Hvaða hungursneyð leggst á þá sem stunda ekki sanna tilbeiðslu?

21 Þeir sem studdu ekki sanna tilbeiðslu áttu í vændum hungursneyð af versta tagi — andlega hungursneyð. „Þeir dagar munu koma,“ sagði Jehóva Guð, „að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins.“ (Amos 8:11) Andlegt hungur sverfur að kristna heiminum. Hjartahreinir menn innan hans hafa hins vegar komið auga á andlega velmegun þjóna Jehóva og streyma inn í söfnuð hans. Orð Jehóva lýsir vel muninum á ástandinu í kristna heiminum og stöðunni meðal þjóna hans: „Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna.“ — Jesaja 65:13.

22. Hvers vegna höfum við ástæðu til að gleðjast og fagna?

22 Kunnum við sem erum þjónar Jehóva að meta öll þau andlegu gæði sem við njótum? Langar okkur ekki til að hrópa af hjartans gleði þegar við nemum Biblíuna og biblíutengd rit og sækjum samkomur og mót? Við fögnum því að hafa góðan skilning á orði Guðs, þar á meðal spádóminum sem hann innblés Amosi að flytja.

23. Hvert er hlutskipti þeirra sem vegsama Guð?

23 Spádómur Amosar veitir öllum von sem elska Guð og langar til að lofa hann. Við sem elskum Guð njótum blessunar hans og bestu andlegu fæðu sem völ er á, og það er óháð efnahagsástandi og þrengingum sem við verðum fyrir í þessum hrjáða heimi. (Orðskviðirnir 10:22; Matteus 24:45-47) Jehóva á allan heiður skilinn fyrir að láta okkur ríkulega í té allt sem við þurfum. Við skulum því vera staðráðin í að lofa hann af heilu hjarta um alla eilífð. Og við verðum þeirrar gleði aðnjótandi ef við leitum Jehóva, hans sem prófar hjörtun.

Hvert er svarið?

• Hvernig var ástandið í Ísrael á dögum Amosar?

• Hvað er hliðstætt nú á tímum við ástandið í tíuættkvíslaríkinu Ísrael?

• Hvaða hungursneyð geisar núna en hverja snertir hún ekki?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 29]

Margir Ísraelsmenn bjuggu við munað en voru andlega fátækir.

[Myndir á blaðsíðu 30, 31]

Hvettu þá sem þjóna í fullu starfi til að halda því áfram.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Þjónar Jehóva búa við andlega velsæld.