Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öflum okkur þekkingar — nú og að eilífu

Öflum okkur þekkingar — nú og að eilífu

Öflum okkur þekkingar — nú og að eilífu

ÞÝSKI læknirinn Ulrich Strunz skrifaði bókaröð sem hann kallaði Forever Young. Í þessum bókum færði hann rök fyrir því að líkamleg hreyfing, næringarrík fæða og heilbrigður lífsstíll stuðli að betri heilsu og hugsanlega lengra lífi. Hann lofar lesendum samt ekki að þeir geti bókstaflega lifað að eilífu með því að fara að ráðum hans.

Hins vegar er til ein tegund þekkingar sem gefur fyrirheit um eilíft líf. Og ef þú myndir lifa að eilífu gætirðu aflað þér gagnlegrar þekkingar um alla eilífð. Jesús sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Fyrst skulum við skilgreina hugtakið „eilíft líf“ og kanna síðan hvers konar þekking veitir eilíft líf og hvar þessa þekkingu er að finna.

Í Biblíunni kemur fram að Guð muni bráðlega breyta jörðinni í bókstaflega paradís sem skapar rétt skilyrði fyrir langlífi. Til að þessi paradís verði að veruleika þarf að grípa til róttækra aðgerða, ekki ósvipað flóðinu sem varð á dögum Nóa. Í Matteusi, kafla 24, versi 37 til 39, er þess getið að Jesús hafi borið okkar daga saman við ,daga Nóa‘ þegar fólk gerði sér ekki grein fyrir hættunni. Það virti líka að vettugi boðskapinn sem Nói prédikaði. Síðan kom ,dagurinn er Nói gekk í örkina‘ og allir sem höfðu hafnað viðvörunum hans fórust í flóðinu. Nói og þeir sem voru með honum í örkinni lifðu flóðið af.

Jesús sagði að svipaður „dagur“ myndi renna upp á okkar tímum. Þeir sem nýta sér þá þekkingu, sem fylgir þeim atburði, lifa ekki aðeins af heldur hafa einnig von um að lifa að eilífu. Auk þess verða hinir dánu, sem Guð geymir í minni sínu, reistir upp til lífs með þá von að þurfa aldrei aftur að deyja. (Jóhannes 5:28, 29) Það er athyglisvert að skoða hvernig Jesús orðaði þetta. Hann sagði við Mörtu í sambandi við upprisu hinna dánu: „Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Allt bendir til að þessi „dagur“ sé mjög nálægur og það þýðir að þú munir hugsanlega „aldrei að eilífu deyja“. — Jóhannes 11:25-27.

Síðan spurði Jesús Mörtu: „Trúir þú þessu?“ Hún svaraði: „Já, herra.“ Hvernig myndir þú svara ef Jesús spyrði þig þessarar spurningar? Kannski ættirðu erfitt með að trúa því að það væri mögulegt að þurfa aldrei að deyja. En þó að þú værir þeirrar skoðunar myndirðu vafalaust vilja trúa því. Hugsaðu þér hve mikið þú gætir lært ef þú myndir „aldrei að eilífu deyja“! Ímyndaðu þér hvernig það væri ef þú gætir notið þess að læra og gera allt sem þú vildir gera núna en mátt ekki vera að. Hugsaðu þér að fá að hitta aftur ástvini sem þú varst búinn að missa. Hvaða þekking getur gert þetta mögulegt og hvernig getur þú öðlast hana?

Við getum öðlast þekkingu sem veitir eilíft líf

Er það utan seilingar að afla okkur þekkingar á Guði og Kristi? Nei. Það er að vísu alltaf hægt að afla sér meiri þekkingar á verkum skaparans en þegar Jesús tengdi „þekkingu“ við „eilíft líf“ átti hann ekki við þekkingu á stjörnufræði eða annarri vísindagrein. Í Orðskviðunum, kafla 2, versi 1-5, kemur fram að ‚orðin‘ og ‚boðorðin‘ í Biblíunni eru grunnurinn að ‚þekkingu á Guði‘. Og í Jóhannesi 20:30, 31 kemur fram að það sem ritað hefur verið um Jesú er nóg til að við getum ,átt líf‘.

Þekkingin, sem Biblían veitir um Jehóva og Jesú Krist, nægir þér sem sagt til að vita hvað þú þarft að gera til að öðlast eilíft líf. Biblían er einstök bók. Skaparinn innblés mönnum að skrifa hana á þann hátt að jafnvel fólk með litla menntun og takmarkaða möguleika gæti aflað sér nægrar þekkingar til að fá eilíft líf. Sömuleiðis geta þeir sem hafa miklar námsgáfur og nægan tíma og tækifæri alltaf lært eitthvað nýtt af Ritningunni. Þar sem þú getur lesið þessa grein hefurðu greinilega hæfileika til að læra. En hvernig ættirðu að nota þennan hæfileika?

Það hefur komið í ljós að skilvirkasta leiðin til að afla sér þessarar þekkingar, hvar sem er í heiminum, er að fá einhvern sem hefur þegar öðlast góðan skilning á Biblíunni til að leiðbeina manni við biblíunámið. Vottar Jehóva eru fúsir til að heimsækja þig og ræða um Biblíuna, líkt og Nói lagði sig fram um að miðla samtímamönnum sínum þekkingu. Sem umræðugrundvöll mætti nota bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur? eða bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. * Þó að þú eigir kannski erfitt með að trúa því að í paradís á jörð muni trúfast fólk „aldrei að eilífu deyja“ geta þessar biblíulegu umræður vakið með þér traust á þetta fyrirheit. Hvað ættirðu þá að gera ef þig langar til að lifa að eilífu eða þú vilt athuga hvort það sé skynsamlegt að trúa því? Þá ættirðu að grípa tækifærið og biðja einhvern um að aðstoða þig við biblíunámið.

Hversu langan tíma tekur það? Í fyrrnefndum 32 blaðsíðna bæklingi eru ekki nema 16 stuttir kaflar. Hann er fáanlegur á hundruðum tungumála. Ef þú getur tekið frá um það bil eina klukkustund í viku tekur það aðeins nokkra mánuði að fræðast um mikilvæg biblíuleg málefni með því að nota bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Þessi rit hafa auðveldað mörgum að afla sér þekkingar og læra að elska Guð. Skaparinn umbunar þeim sem elska hann einlæglega og gefur þeim kost á eilífu lífi.

Þessi lífgandi þekking er okkur innan seilingar og hún stendur okkur til boða. Biblían hefur verið þýdd í heild eða að hluta á rúmlega 2000 tungumál. Vottar Jehóva í 235 löndum geta útvegað biblíutengd rit og aðstoðað fólk við að afla sér þessarar þekkingar.

Sjálfsnám

Samband þitt við Guð er einkamál milli þín og hans. Þú einn getur viðhaldið því og styrkt það og hann einn getur veitt þér eilíft líf. Þú ættir því að halda áfram að rannsaka orð hans. Þér gæti fundist auðveldara að taka frá tíma fyrir nám ef þú fengir einhvern til að heimsækja þig reglulega.

Þar sem Biblían og biblíunámsrit innihalda „þekking á Guði“ er mjög skynsamlegt að fara vel með þau. (Orðskviðirnir 2:5) Þá geturðu átt þau árum saman. Þeir sem búa í þróunarlöndunum hafa hugsanlega ekki notað margar kennslubækur í skóla og líklega lært aðallega með því að hlusta og taka eftir. Í Benín eru til dæmis töluð yfir 50 tungumál. Það er ekki óalgengt að fólk tali fjögur eða fimm tungumál reiprennandi þó að það hafi aldrei haft undir höndum kennslubók í þessum tungumálum. Það er blessun að geta lært með því að hlusta, taka eftir og einbeita sér. Engu að síður geta bækur hjálpað fólki mikið við nám.

Jafnvel þótt þú búir þröngt skaltu reyna að finna Biblíunni og biblíutengdum ritum góðan stað. Hafðu þau á aðgengilegum stað þar sem þau skemmast ekki.

Fjölskyldunám

Sértu foreldri ættirðu að hafa áhuga á að hjálpa börnum þínum að öðlast sömu þekkingu og þú ert að afla þér. Í þróunarlöndum eru foreldrar vanir að kenna börnunum það sem þau þurfa á að halda í lífinu. Það getur meðal annars verið að elda, safna viði, sækja vatn, yrkja jörðina, veiða eða prútta á markaðinum. Þetta er nauðsynleg menntun fyrir lífið. En margir foreldrar fræða börnin ekki um þá þekkingu sem getur leitt til eilífs lífs.

Hverjar svo sem aðstæður þínar eru finnst þér örugglega að þú hafir ekki mikinn tíma aflögu. Skaparinn gerir sér einnig grein fyrir þessu. Taktu eftir því sem hann sagði fyrir löngu um að kenna börnum vegi sína: „Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:7) Með þetta að leiðarljósi væri gott að búa til sína eigin fræðsluáætlun eins og eftirfarandi:

1. „Þegar þú ert heima“: Leitastu við að ræða reglulega, kannski vikulega, við börnin um Biblíuna heima hjá þér, alveg eins og einhver hefur hugsanlega rætt við þig. Vottar Jehóva gefa út biblíutengd rit sem henta vel til að kenna börnum á öllum aldri.

2. „Þegar þú ert á ferðalagi“: Talaðu við börnin óformlega um Jehóva, rétt eins og þú fræðir þau um lífið eða veitir þeim leiðbeiningar á óformlegan máta.

3. „Þegar þú leggst til hvíldar“: Biddu á hverju kvöldi með börnum þínum.

4. „Þegar þú fer á fætur“: Margar fjölskyldur hafa notið góðs af því að líta á einn ritningarstað á hverjum morgni. Vottar Jehóva nota til þess bæklinginn Rannsökum daglega ritningarnar. *

Margir foreldrar í þróunarlöndum leggja mikið á sig til að sjá til þess að eitt barnanna fái góða menntun. Þá getur barnið hugsað um foreldrana þegar þeir verða eldri. En ef þú rannsakar Biblíuna og hjálpar öllum börnum þínum að gera það líka öðlist þið þekkingu sem gerir þér og allri fjölskyldunni kleift að lifa að eilífu.

Mun sá dagur koma að við eigum eftir að vita allt? Nei. Á meðan jörðin heldur áfram ferð sinni um hinn endalausa alheim höldum við áfram að afla okkur þekkingar. Prédikarinn 3:11 segir: „Allt hefir [Guð] gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ Ánægjan af því að afla sér þekkingar tekur aldrei enda.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Bæði ritin eru gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 23 Gefinn út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 5]

„Það er hið eilífa líf að þekkja . . .“

[Myndir á blaðsíðu 7]

Hjálpaðu fjölskyldunni að afla sér þekkingar, nú og að eilífu.