Ólík viðhorf til vinnu
Ólík viðhorf til vinnu
„Að vinna — að vinna! Það er svo yndislegt að vita að við eigum það besta eftir ógert.“ — Katherine Mansfield, rithöfundur (1888-1923).
TEKUR þú undir þessa háleitu hugsjón höfundarins? Hvernig lítur þú á vinnu? Finnst þér kannski að vinnuvikan sé þrautarganga og helgarnar séu ljósu punktarnir í lífinu? Eða er vinnan orðin að slíkri ástríðu að það jaðrar við fíkn?
Flestir vinna stærstan hluta vökustunda sinna. Vinnan getur stjórnað því hvar við búum og hvers konar lífi við lifum. Margir hafa komist að raun um að vinnan er sá þáttur tilverunnar sem stjórnar hvað mestu í lífi þeirra allt frá því að þeir byrja að vinna og fram til starfsloka. Sumir fá mikið út úr vinnunni. Aðrir meta vinnuna eftir laununum eða upphefðinni. Enn aðrir líta svo á að vinnan sé aðeins til að drepa tímann eða sé jafnvel tímasóun.
Sumir lifa til að vinna en aðrir vinna til að lifa. Sumir deyja í eða vegna vinnu sinnar. Samkvæmt nýlegri skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna veldur vinna meiri sársauka og dauða „en stríð eða fíkniefna- og áfengisnotkun samanlagt“. Í Lundúnablaðinu The Guardian sagði: „Meira en tvær milljónir manna deyja af völdum vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma á ári hverju . . . Ryk, ýmis efni, hávaði og geislun valda krappameini, hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.“ Barnaþrælkun og nauðungavinna eru aðeins tvær aðrar ljótar hliðar á heimi atvinnulífsins.
Sálfræðingurinn Steven Berglas lýsir einnig ákveðinni tegund kulnunar í starfi. Hann talar um duglegan starfsmann sem hefur náð hátindi ferils síns en finnur aðeins fyrir „stöðugum kvíða, áhyggjum, depurð eða örvæntingu sem rekja má til þess að honum finnst hann vera fastur í vinnu eða starfsferli sem hann getur hvorki flúið né haft ánægju af“.
Vinnusemi eða vinnufíkn
Í heimi þar sem margir strita dægrin löng er gagnlegt að greina á milli vinnusemi og vinnufíknar. Margir vinnufíklar sjá vinnustaðinn sem athvarf í hættulegum og óútreiknanlegum heimi. Duglegir starfsmenn
líta hins vegar á vinnuna sem nauðsynlega og stundum gefandi skyldu. Vinnufíklar leyfa vinnunni að útiloka allt annað í lífinu. Hinir vinnusömu vita hvenær á að slökkva á tölvunni, setja sig í annan gír og vera viðstaddir brúðkaupsafmælið, svo dæmi sé tekið. Vinnufíklar njóta þess að vinna yfirvinnu og það örvar þá. Þannig er það ekki hjá hinum vinnusömu.Í samfélagi nútímans verða skilin milli þessa tveggja óskýr þar sem yfirvinna er álitin eftirsóknarverð. Nettengingar, farsímar og símboðar gera að verkum að mörkin milli vinnustaðarins og heimilisins verða óskýr. Þegar vinnustaðurinn getur verið hvar sem er og vinnutíminn hvenær sem er vinna sumir sér til óbóta.
Hvernig bregðast sumir við þessu óheilnæma viðhorfi? Félagsfræðingar hafa tekið eftir þeirri tilhneigingu hjá útkeyrðu fólki að koma með trúna inn á vinnustaðinn og sameina trúarlíf og vinnu. Dagblaðið San Francisco Examiner sagði frá því að „það sé orðið algengt í þjóðfélaginu að fólk sameini trú og vinnu“.
Í nýlegri frétt sagði um Kísildal, háborg tækninnar í Bandaríkjunum: „Á sama tíma og auðu bílastæðunum fjölgar á vinnustaðnum sökum uppsagna er erfitt að fá bílastæði þar sem kvöldnámskeið í Biblíunni eru haldin.“ Hvaða gildi svo sem þetta hefur finnst mörgum að Biblían hafi jákvæð áhrif á viðhorf sín til vinnu og það hefur stuðlað að heilbrigðari lífsviðhorfum.
Hvernig getur Biblían hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til vinnu? Eru einhverjar meginreglur í Biblíunni sem geta hjálpað okkur að standast það álag sem fylgir atvinnulífinu nú á dögum? Greinin á eftir fjallar um þessar spurningar.