Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vegir Jehóva eru réttir

Vegir Jehóva eru réttir

Vegir Jehóva eru réttir

„Vegir Drottins eru réttir. Hinir réttlátu ganga þá öruggir.“ — HÓSEA 14:10.

1, 2. Hvernig hófu Ísraelsmenn göngu sína en hvernig fór fyrir þeim?

JEHÓVA sá til þess að Ísraelsmenn hæfu göngu sína á réttum vegi á dögum spámannsins Móse. Á áttundu öld f.Kr. höfðu þeir hins vegar farið svo út af sporinu að Guð leit á þá sem grófa syndara. Þetta kemur greinilega fram í 10. til 14. kafla hjá Hósea.

2 Hjörtu Ísraelsmanna voru orðin óheil. Íbúar tíuættkvíslaríkisins höfðu „plægt guðleysi“ og uppskorið ranglæti. (Hósea 10:1, 13) „Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn,“ sagði Jehóva. (Hósea 11:1) Hann hafði frelsað Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi en þeir höfðu endurgoldið honum með lygum og blekkingum. (Hósea 12:1) Þess vegna hvatti hann þá: „Þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti.“ — Hósea 12:7.

3. Hvernig myndi fara fyrir Samaríu en hvernig gátu Ísraelsmenn hlotið miskunn?

3 Hin uppreisnargjarna Samaría og konungurinn þar hljóta voveifleg endalok. (Hósea 13:11; 14:1) Snemma í síðasta kafla Hóseabókar eru Ísraelsmenn hvattir til að ‚snúa við til Drottins, Guðs síns‘. Guð ætlaði að miskunna þeim ef þeir iðruðust og bæðust fyrirgefningar. Þeir yrðu auðvitað að viðurkenna að vegir Jehóva væru réttir og ganga þá. — Hósea 14:2-7, 10.

4. Hvaða meginreglur ætlum við að skoða í spádómsbók Hósea?

4 Í þessum hluta spádómsbókar Hósea er að finna margar meginreglur sem geta hjálpað okkur að ganga með Guði. Við lítum á eftirfarandi: (1) Jehóva ætlast til þess að við þjónum sér án hræsni. (2) Jehóva sýnir fólki sínu tryggan kærleika. (3) Við þurfum að vona stöðugt á Jehóva. (4) Vegir Jehóva eru alltaf réttir. (5) Syndarar geta snúið aftur til Jehóva.

Jehóva ætlast til þess að við þjónum sér án hræsni

5. Hvernig ætlast Jehóva til að við þjónum sér?

5 Jehóva ætlast til þess að við þjónum sér hræsnislaust og í hreinleika. En Ísrael var orðinn eins og „gróskumikill [„úrkynja“, NW ] vínviður “. Landsmenn höfðu reist sér mörg ölturu til falskrar tilbeiðslu. Þessir fráhvarfsmenn höfðu jafnvel reist sér merkissteina en þar er hugsanlega átt við broddsúlur sem ætlaðar voru til óhreinnar guðsdýrkunar. Jehóva ætlaði að rífa niður ölturun og brjóta merkissteinana. — Hósea 10:1, 2.

6. Hvað þurfum við að forðast til að ganga með Guði?

6 Hræsni á ekki heima meðal vígðra þjóna Guðs. En hvað hafði gerst hjá Ísraelsmönnum? Hjörtu þeirra voru orðin óheil og full af hræsni. Þeir höfðu gengist undir sáttmála við Jehóva og þjóðin var vígð honum en hann fann þá seka um hræsni. Hvað getum við lært af þessu? Ef við höfum vígt okkur Guði megum við ekki vera hræsnarar. „Andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans,“ segja Orðskviðirnir 3:32. Til að ganga með Guði verðum við að fara eftir slíkum viðvörunum og sýna kærleika „af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú“. — 1. Tímóteusarbréf 1:5.

Guð sýnir fólki sínu tryggan kærleika

7, 8. (a) Undir hvaða kringumstæðum getum við notið tryggrar ástar Guðs? (b) Hvað ættum við að gera ef við höfum drýgt alvarlega synd?

7 Ef við tilbiðjum Jehóva hræsnislaust og á réttan hátt njótum við gæsku hans og tryggrar ástar. Hinum þrjósku Ísraelsmönnum var sagt: „Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut.“ — Hósea 10:12.

8 Staðan væri allt önnur ef Ísraelsmenn iðruðust og leituðu Jehóva. Þá myndi hann fúslega ‚láta réttlætið rigna þeim í skaut‘. Ef við höfum drýgt alvarlega synd skulum við leita Jehóva, biðja hann að fyrirgefa okkur og leita síðan hjálpar hjá öldungum safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:13-16) Við skulum einnig leita leiðsagnar heilags anda Guðs því að „sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf“. (Galatabréfið 6:8) Ef við ‚sáum í andann‘ höldum við áfram að njóta tryggrar ástar Guðs.

9, 10. Hvernig á Hósea 11:1-4 við Ísrael?

9 Við getum treyst að Jehóva sé alltaf kærleiksríkur í samskiptum við þjóna sína. Við sjáum rök fyrir því í Hósea 11:1-4 þar sem stendur: „Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn. . . . Þeir færðu Baölunum sláturfórnir og skurðgoðunum reykelsisfórnir. Ég kenndi Efraím [Ísraelsmönnum] að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá. Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu.“

10 Jehóva líkir Ísraelsmönnum við lítið barn. Hann kenndi þeim að ganga og tók þá á arma sér. Hann dró þá að sér með „taugum kærleikans“. Þarna er dregin upp heillandi mynd af foreldri sem er að hjálpa litlu barni að stíga fyrstu skrefin. Foreldrið teygir út handleggina í átt að barninu. Það lætur barnið halda í band svo að það detti síður. Þannig er ást Jehóva á þér. Hann gleðst yfir því að mega leiða þig með „taugum kærleikans“.

11. Hvernig var Guð eins og „sá sem lyftir upp okinu“?

11 Í samskiptum við Ísraelsmenn var Guð „eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu“. Hann var eins og maður sem lyftir upp oki á dráttardýri eða færir það til svo að skepnan geti étið án hindrunar. Það var ekki fyrr en Ísraelsmenn brutu af sér þetta ok að þeir lentu undir þjakandi oki óvina sinna. (5. Mósebók 28:45, 48; Jeremía 28:14) Vonandi lendum við aldrei í klónum á erkióvini okkar, Satan, og undir þjakandi oki hans. Höldum heldur áfram að ganga með Guði kærleikans.

Vonaðu stöðugt á Jehóva

12. Hvað er nauðsynlegt samkvæmt Hósea 12:7 til að halda áfram að ganga með Guði?

12 Til að halda áfram að ganga með Guði verðum við að vona stöðugt á hann. Ísraelsmönnum var sagt: „Þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn.“ (Hósea 12:7) Ísraelsmenn gátu sýnt merki um iðrun og afturhvarf til Jehóva með því að ástunda miskunnsemi og réttlæti og „vona stöðugt“ á Guð sinn. Við verðum að vera staðráðin í að sýna miskunn og réttlæti og vona stöðugt á Guð, óháð því hve lengi við höfum gengið með honum. — Sálmur 27:14.

13, 14. Hvernig heimfærir Páll Hósea 13:14 og hvaða ástæðu veitir það okkur til að vona á Jehóva?

13 Spádómur Hósea um Ísraelsmenn gefur okkur sérstakt tilefni til að vona á Guð. Jehóva talar um að „frelsa þá frá Heljar valdi“ og „leysa þá frá dauða“. Síðan spyr hann: „Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel?“ (Hósea 13:14) Jehóva ætlaði ekki að frelsa Ísraelsmenn frá dauða á þeim tíma en í framtíðinni myndi hann útrýma dauðanum endanlega og gera sigur hans að engu.

14 Páll vitnar í spádóm Hósea í bréfi til andasmurðra kristinna manna og segir: „Þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“ (1. Korintubréf 15:54-57) Jehóva vakti Jesú upp frá dauðum. Það er afar hughreystandi og trygging fyrir því að þeir sem Guð varðveitir í minni sér verði reistir upp. (Jóhannes 5:28, 29) Er þetta ekki ærin ástæða til að vona á Jehóva? En það er fleira en upprisuvonin sem hvetur okkur til að ganga með Guði.

Vegir Jehóva eru alltaf réttir

15, 16. Hverju var spáð um Samaríu og hvernig rættist það?

15 Við erum sannfærð um að vegir Jehóva séu réttir og það hjálpar okkur að halda áfram að ganga með honum. Samaríubúar gengu ekki á réttlátum vegum Guðs og þurftu að taka afleiðingum syndar sinnar og trúleysis. Þeim var boðað: „Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.“ (Hósea 14:1) Söguheimildir staðfesta að Assýringar, sem unnu Samaríu, gátu framið slík grimmdarverk sem hér er lýst.

16 Samaría var höfuðborg tíuættkvíslaríkisins en hér er nafnið notað um ríkið í heild. (1. Konungabók 21:1) Salmaneser fimmti Assýríukonungur settist um Samaríu árið 742 f.Kr. Þegar hún féll árið 740 f.Kr. voru mörg af fyrirmennum borgarinnar flutt í útlegð til Mesópótamíu og Medíu. Óvíst er hvort það var Salmaneser fimmti eða arftaki hans, Sargon annar, sem vann borgina. (2. Konungabók 17:1-6, 22, 23; 18:9-12) Hvort heldur sem var er þess getið í annálum Sargons að 27.290 Ísraelsmenn hafi verið fluttir í útlegð til Medíu og til staða við ofanverða Efrat.

17. Hvað ættum við frekar að gera en fyrirlíta mælikvarða Guðs?

17 Samaríubúar guldu þess dýru verði að hafa ekki gengið á réttlátum vegum Jehóva. Það hefði líka sorglegar afleiðingar fyrir okkur sem erum vígð honum að iðka synd og fyrirlíta réttláta mælikvarða hans. Förum aldrei út á þessa óguðlegu braut. Breytum heldur í samræmi við leiðbeiningar Péturs postula: „Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við. En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.“ — 1. Pétursbréf 4:15, 16.

18. Hvernig getum við gert Guð vegsamlegan?

18 Við ‚gerum Guð vegsamlegan‘ með því að ganga á réttlátum vegum hans en gera ekki eins og okkur sjálfum sýnist. Kain framdi morð af því að hann fór sínar eigin leiðir og hunsaði viðvörun Jehóva þess efnis að syndin væri að ná tökum á honum. (1. Mósebók 4:1-8) Bíleam þáði greiðslu frá Móabskonungi og reyndi árangurslaust að biðja Ísrael bölbæna. (4. Mósebók 24:10) Og Guð tók levítann Kóra af lífi ásamt fleirum þegar þeir gerðu uppreisn gegn Móse og Aroni. (4. Mósebók 16:1-3, 31-33) Við viljum hvorki ganga á „vegi Kains“ sem myrti bróður sinn, hrapa í „villu Bíleams“ né tortímast í „þverúð Kóra“. (Júdasarbréfið 11) En ef okkur verður á ætti spádómur Hósea að vera hughreystandi fyrir okkur.

Syndarar geta snúið aftur til Jehóva

19, 20. Hvaða fórnir gátu iðrandi Ísraelsmenn fært Guði?

19 Menn geta snúið aftur til Jehóva, jafnvel þótt þeir hafi drýgt alvarlega synd. Eftirfarandi hvatningu er að finna í Hósea 14:2, 3: „Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína. Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: ‚Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.‘“

20 Iðrandi Ísraelsmenn gátu fært Guði ‚ávöxt vara sinna‘. Þetta voru lofgerðarfórnir. Páll víkur að þessum spádómi þegar hann hvetur kristna menn til að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans“. (Hebreabréfið 13:15) Það er mikill heiður að fá að ganga með Guði og færa honum slíkar fórnir!

21, 22. Hvernig myndi Jehóva reisa iðrandi Ísraelsmenn við?

21 Ísraelsmenn, sem hættu röngu líferni og sneru aftur til Guðs, færðu honum ‚ávöxt vara sinna‘ og hann reisti þá við andlega eins og hann hafði lofað. Í Hósea 14:5-8 segir: „Ég [Jehóva] vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim. Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur. Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur. Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon.“

22 Iðrandi Ísraelsmenn myndu hljóta andlega lækningu og njóta kærleika Jehóva á nýjan leik. Jehóva yrði þeim eins og hressandi dögg og hann myndi blessa þá ríkulega. Fólk hans myndi verða eins og gróskumikið „olíutré“ og það myndi ganga á vegum hans. Hvers er krafist af okkur sem erum ákveðin í að ganga með Jehóva Guði?

Höldum áfram að ganga á hinum réttu vegum Jehóva

23, 24. Hvaða hvetjandi spádóm er að finna í Hóseabók og hvaða áhrif hefur hann á okkur?

23 Til að ganga með Guði verðum við að sýna ‚spekina að ofan‘ og gera alltaf það sem er rétt. (Jakobsbréfið 3:17, 18) Þetta er vel orðað í síðasta versinu í spádómi Hósea: „Hver er svo vitur, að hann skilji þetta, svo hygginn, að hann sjái það? Já, vegir Drottins eru réttir. Hinir réttlátu ganga þá öruggir, en hinir ranglátu hrasa á þeim.“ — Hósea 14:10.

24 Við skulum vera staðráðin í að ganga á hinum réttu vegum Guðs í stað þess að hafa visku og viðmið heimsins að leiðarljósi. (5. Mósebók 32:4) Hósea gerði það í ein 59 ár eða lengur. Hann flutti boðskap Guðs dyggilega, vitandi að hinir vitru og hyggnu myndu skilja orð hans. Hvað um okkur? Meðan Jehóva leyfir okkur að vitna um sig höldum við áfram að leita að fólki sem er nógu skynsamt til að taka á móti óverðskuldaðri gæsku hans. Og við fögnum því að mega gera þetta í náinni samvinnu við hinn ‚trúa og hyggna þjón‘. — Matteus 24:45-47.

25. Hvernig ætti spádómur Hósea að hjálpa okkur?

25 Umfjöllun okkar um spádóm Hósea ætti að hjálpa okkur að halda áfram að ganga með Guði í von um eilíft líf í nýja heiminum. (2. Pétursbréf 3:13; Júdasarbréfið 20, 21) Okkur er veitt unaðsleg von sem rætist hjá okkur, hverju og einu, ef við höldum áfram að sanna í orði og verki að við meinum það þegar við segjum að vegir Jehóva séu réttir.

Hvert er svarið?

• Hvernig kemur Jehóva fram við okkur ef við tilbiðjum hann í hreinleika?

• Af hverju ættum við að vona stöðugt á Jehóva?

• Af hverju ertu sannfærður um að vegir Jehóva séu réttir?

• Hvernig getum við haldið áfram að ganga á hinum réttu vegum Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Þiggðu aðstoð safnaðaröldunga.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Spádómur Hósea gefur okkur ástæðu til að treysta loforði Jehóva um upprisu.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Haltu áfram að ganga með Guði í von um eilíft líf.