Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Er hugsanlegt að menn geti syndgað og dáið eftir að lokaprófið hefur farið fram við endi þúsundáraríkisins?
Tvö vers í Opinberunarbókinni varpa ljósi á þetta: „Dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“ (Opinberunarbókin 20:14) „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Við skulum taka eftir tímasetningunni. „Dauðanum og Helju“ er kastað í eldsdíkið eftir að þeir sem lifa af Harmagedón, þeir sem rísa upp frá dauðum og þeir sem fæðast eftir Harmagedón hafa verið dæmdir samkvæmt „því sem ritað var í bókunum“, en þar er átt við ítarlegar leiðbeiningar Guðs til manna í þúsundáraríkinu. (Opinberunarbókin 20:12, 13) Jóhannes postuli segir frá annarri sýn í 21. kafla Opinberunarbókarinnar sem rætist í þúsundáraríki Jesú Krists. Þessi sýn rætist þó ekki að fullu fyrr en þúsund ára dómsdeginum er lokið. Jesús hefur þá afhent föður sínum ríkið svo að Jehóva býr í fullum skilningi með mönnum án þess að nokkur tengiliður komi til. Hann býr þá til frambúðar með ‚fólki sínu‘ í óeiginlegri merkingu. Þá hefur það ræst að fullu að „dauðinn mun ekki framar til vera“. Mannkynið er orðið fullkomið vegna þess að lausnarfórn Krists hefur verið beitt til fullnustu í þágu manna. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Dauðinn, sem er nefndur í ritningarstöðunum hér að ofan, er því dauðinn af völdum Adams en fórn Krists hefur gert þann dauða að engu. (Rómverjabréfið 5:12-21) Þegar dauðinn, sem mannkynið erfði frá Adam, er orðinn að engu verða mennirnir alveg eins og Adam var þegar hann var skapaður. Adam var fullkominn en það þýddi ekki að hann gæti ekki dáið. Jehóva sagði honum að hann mætti ekki borða af „skilningstrénu góðs og ills“ og bætti við: „Jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Hér var átt við dauða vegna vísvitandi syndar. Mennirnir verða eftir sem áður með frjálsan vilja eftir að lokaprófið hefur farið fram við endi þúsundáraríkisins. (Opinberunarbókin 20:7-10) Þeir geta valið sjálfir hvort þeir halda áfram að þjóna Jehóva eða ekki. Við getum ekki fullyrt að enginn maður eigi nokkurn tíma eftir að snúa baki við Guði líkt og Adam gerði.
Hvað myndi gerast ef einhver kysi að gera uppreisn eftir að lokaprófið hefur farið fram og dauðinn og Helja eru ekki lengur til? Þá verður Adamsdauðinn horfinn. Og Helja, sameiginleg gröf manna sem eiga von um upprisu, verður ekki til lengur. Jehóva getur engu að síður afmáð uppreisnarseggi með því að senda þá í eldsdíkið þaðan sem ekki er von um upprisu. Það yrði sams konar dauði og Adam og Eva dóu, ekki dauðinn sem menn erfðu frá Adam.
En það er engin ástæða til að búast við því að þetta gerist. Þeir sem standast lokaprófið verða frábrugðnir Adam að einu mikilvægu leyti. Þeir hafa verið prófaðir til fullnustu. Það er öruggt að lokaprófið verður rækilegt vegna þess að Jehóva veit hvernig hann á að rannsaka menn til hlítar. Við megum treysta að allir sem gætu átt eftir að misnota valfrelsi sitt munu falla á lokaprófinu. Þó að þeir sem standast lokaprófið geti fræðilega séð gert uppreisn gegn Guði og tortímst er afar ósennilegt að það gerist.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Í hvaða skilningi verða allir menn sambærilegir við Adam eftir að lokaprófið hefur farið fram?