Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Óttastu Jehóva og uppskerðu hamingju

Óttastu Jehóva og uppskerðu hamingju

Óttastu Jehóva og uppskerðu hamingju

„Sæll er sá maður, sem óttast Drottin.“ — SÁLMUR 112:1.

1, 2. Hvað áhrif getur guðsótti haft?

HAMINGJAN er ekki auðfundin. Sönn hamingja er undir því komin að velja rétt, breyta vel og forðast illt. Jehóva, skapari okkar, hefur gefið okkur orð sitt Biblíuna til að kenna okkur að gera lífið sem farsælast. Með því að leita eftir leiðsögn hans og fylgja henni sýnum við að við óttumst hann og það er uppskriftin að hamingju og lífsfyllingu. — Sálmur 23:1; Orðskviðirnir 14:26.

2 Í þessari grein lítum við á biblíuleg dæmi og nútímadæmi sem sýna hvernig ósvikinn guðsótti gefur okkur styrk þegar reynt er að fá okkur til að gera rangt og veitir okkur hugrekki til að gera rétt. Í greininni kemur fram að guðsótti getur veitt okkur hamingju með því að fá okkur til að leiðrétta ranga stefnu eins og Davíð konungur þurfti að gera. Einnig verður sýnt fram á að ótti Jehóva er dýrmæt arfleifð sem foreldrar geta gefið börnum sínum. Orð Guðs fullyrðir: „Sæll er sá maður, sem óttast Drottin.“ — Sálmur 112:1.

Að endurheimta hamingjuna

3. Hvað hjálpaði Davíð að rétta sig við eftir að hann syndgaði?

3 Í greininni á undan voru nefnd þrjú dæmi þar sem Davíð sýndi ekki tilhlýðilegan guðsótta og syndgaði. Hann var engu að síður guðhræddur maður eins og sjá má af viðbrögðum hans við ögun Jehóva. Hann bar djúpa lotningu fyrir Jehóva svo að hann viðurkenndi sekt sína, leiðrétti stefnu sína og endurheimti gott samband við hann. Brot hans ollu honum og öðrum vissulega þjáningum en Jehóva studdi hann engu að síður og blessaði hann af því að hann iðraðist í einlægni. Kristnir menn nú á tímum, sem syndga alvarlega, geta leitað hughreystingar í fordæmi Davíðs.

4. Hvernig getur guðsótti hjálpað fólki að endurheimta hamingjuna?

4 Lítum á Sonju sem dæmi. * Hún var boðberi í fullu starfi en lenti í vondum félagsskap og gerði sig seka um ókristilega breytni með þeim afleiðingum að það þurfti að víkja henni úr söfnuðinum. Þegar hún kom til sjálfrar sín gerði hún allt sem í hennar valdi stóð til að endurheimta sambandið við Jehóva og hún var að lokum tekin aftur inn í söfnuðinn. Sonja hafði aldrei glatað lönguninni til að þjóna Jehóva. Seinna meir gerðist hún aftur boðberi í fullu starfi. Síðar giftist hún góðum safnaðaröldungi og þjónar nú með honum í söfnuðinum. Sonja harmar það að hafa villst um stund út af braut kristninnar en fagnar því að hún skyldi óttast Guð því að það hjálpaði henni að snúa aftur.

Það er betra að þjást en syndga

5, 6. Hvernig og hvers vegna þyrmdi Davíð lífi Sáls tvívegis?

5 Það er auðvitað miklu betra ef guðsóttinn kemur í veg fyrir að maður syndgi yfirleitt. Það sýndi sig hjá Davíð. Einu sinni var Sál á hælum Davíðs með þrjú þúsund manna lið og fór þá inn í helli — en Davíð og menn hans höfðu einmitt falið sig í hellinum. Menn Davíðs hvöttu hann til að drepa Sál. Var ekki Jehóva að gefa svarinn óvin hans í hendur honum? Davíð læddist hljóðlega að Sál og skar lafið af skikkju hans. En þar sem Davíð óttaðist Guð fékk hann samviskubit yfir því að hafa gert þetta þótt það væri fremur saklaust. Davíð átaldi æsta menn sína og sagði: „Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða.“ * — 1. Samúelsbók 24:2-8.

6 Öðru sinni hafði Sál slegið upp búðum fyrir nóttina og sofnað ásamt mönnum sínum því að „þungur svefn frá Drottni var á þá siginn“. Davíð og Abísaí, hinn hvatvísi systursonur hans, læddust inn í miðjar búðirnar og stóðu yfir Sál þar sem hann svaf. Abísaí vildi ólmur gera út af við Sál í eitt skipti fyrir öll en Davíð hélt aftur af honum og spurði: „Hver leggur svo hönd á Drottins smurða, að hann sleppi hjá hegningu?“ — 1. Samúelsbók 26:9, 12.

7. Hvað forðaði Davíð frá því að syndga?

7 Davíð fékk tvisvar tækifæri til að bana Sál. Af hverju notaði hann þau ekki? Af því að hann óttaðist Jehóva meira en Sál. Þar sem Davíð óttaðist Guð var hann tilbúinn til að þjást ef hann þyrfti, frekar en að syndga. (Hebreabréfið 11:25) Hann treysti fullkomlega á umhyggju Jehóva fyrir sér og öllum öðrum þjónum sínum. Hann vissi að það yrði honum til gæfu og blessunar ef hann hlýddi Jehóva og treysti. Hins vegar myndi hann kalla yfir sig vanþóknun hans með því að óhlýðnast. (Sálmur 65:5) Hann vissi einnig að Jehóva myndi standa við loforð sitt um að gera hann að konungi og að hann myndi ryðja Sál úr vegi með einhverjum hætti þegar það væri tímabært. — 1. Samúelsbók 26:10.

Guðsótti stuðlar að hamingju

8. Hvernig eru viðbrögð Davíðs við prófraunum okkur til fyrirmyndar?

8 Við sem erum kristin megum búast við háði, ofsóknum og öðrum prófraunum. (Matteus 24:9; 2. Pétursbréf 3:3) Stundum getum við jafnvel orðið fyrir erfiðleikum í samskiptum við trúsystkini. Við vitum hins vegar að Jehóva sér allt, heyrir bænir okkar og lagfærir málin samkvæmt vilja sínum þegar það er tímabært. (Rómverjabréfið 12:17-21; Hebreabréfið 4:16) Við óttumst því ekki andstæðinga okkar heldur Guð og treystum að hann veiti okkur lausn. Við hefnum okkar ekki sjálf frekar en Davíð og við víkjum ekki frá réttlátum meginreglum til að komast hjá þjáningum. Til langs tíma litið er það okkur til farsældar. Hvernig þá?

9. Nefndu dæmi sem sýnir að guðsótti getur stuðlað að hamingju þrátt fyrir ofsóknir.

9 „Mér verður hugsað til móður einnar og dóttur hennar á unglingsaldri,“ segir gamalreyndur trúboði í Afríku. „Vegna hlutleysis síns neituðu þær að kaupa flokksskírteini í stjórnmálaflokki. Hópur karlmanna réðst á þær með hrottalegum hætti og sagði þeim svo að koma sér heim. Á heimleiðinni reyndi móðirin að hugga grátandi dóttur sína sem átti erfitt með að skilja af hverju þetta hefði gerst. Þær fundu ekki til mikillar gleði á þeirri stundu en þær höfðu hreina samvisku. Síðar voru þær ákaflega ánægðar yfir að þær skyldu hafa hlýtt Guði. Ef þær hefðu keypt skírteinin hefði mannfjöldinn orðið himinlifandi. Karlarnir hefðu gefið þeim gosflöskur og dansað í kringum þær alla leiðina heim. En stúlkan og móðir hennar hefðu verið manna vansælastar, vitandi að þær hefðu látið undan.“ Guðsóttinn hlífði þeim við því.

10, 11. Hvaða blessun hlaust af guðhræðslu konu einnar?

10 Guðsótti stuðlar einnig að hamingju þegar reynir á virðingu okkar fyrir heilagleika lífsins. Mary átti von á þriðja barninu þegar læknir hvatti hana til að láta eyða fóstrinu. „Þú ert í lífshættu,“ sagði hann. „Það gætu komið upp fylgikvillar hvenær sem er og þú gætir dáið innan sólarhrings. Þá myndi barnið deyja líka. Það er að minnsta kosti ekki öruggt að barnið verði heilbrigt.“ Mary hafði verið í biblíunámi hjá vottum Jehóva en var enn ekki skírð. „Ég var samt búin að ákveða að þjóna Jehóva,“ segir hún, „og ég var staðráðin í því að hlýða honum, hvað sem á gengi.“ — 2. Mósebók 21:22, 23.

11 Mary hélt biblíunáminu áfram á meðgöngutímanum og annaðist fjölskylduna vel. Barnið fæddist svo í fyllingu tímans. „Fæðingin var heldur erfiðari en hinar tvær en að öðru leyti gekk hún slysalaust,“ segir Mary. Guðsóttinn hjálpaði henni að varðveita góða samvisku og áður en langt um leið lét hún skírast. Drengurinn óx úr grasi og lærði einnig að óttast Jehóva. Hann starfar núna við eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva.

Leitaðu styrks hjá Jehóva

12. Hvernig styrkti guðsóttinn Davíð?

12 Guðsóttinn hjálpaði Davíð ekki aðeins að forðast ranga breytni heldur styrkti hann líka til að vera ákveðinn og breyta viturlega þegar hann átti í vök að verjast. Davíð og menn hans leituðu skjóls fyrir Sál í eitt ár og fjóra mánuði í Siklag í Filisteu. (1. Samúelsbók 27:5-7) Einu sinni réðst ránsflokkur Amalekíta á borgina þegar karlmennirnir voru fjarverandi, brenndu hana og höfðu á brott með sér eiginkonur þeirra, börn og búpening. Davíð og menn hans grétu þegar þeir komu heim og sáu hvað gerst hafði. Sorgin breyttist síðan í reiði og menn Davíðs höfðu á orði að grýta hann. En Davíð örvænti ekki þótt að honum kreppti. (Orðskviðirnir 24:10) Hann „leitaði styrks hjá Drottni“ af því að hann óttaðist hann. Davíð og menn hans eltu uppi Amalekítana með hjálp Jehóva og endurheimtu allt. — 1. Samúelsbók 30:1-20, Biblíurit, ný þýðing 1994.

13, 14. Hvernig hjálpaði guðsóttinn ungri konu að taka réttar ákvarðanir?

13 Þjónar Guðs nú á dögum lenda oft í þeirri aðstöðu að verða að treysta honum og vera hugrakkir og einbeittir. Lítum á Kristinu sem dæmi. Sem unglingur var hún í biblíunámi hjá vottum Jehóva. En hana langaði til að verða konsertpíanóleikari og tók verulegum framförum í þá átt. Auk þess var hún feimin að fara í boðunarstarfið og var þess vegna hikandi við að axla þá ábyrgð sem fylgdi því að láta skírast. En þegar Kristina hélt áfram biblíunáminu fór hún að finna fyrir kraftinum í orði Guðs. Hún kynntist því hvað það er að óttast Jehóva og gerði sér ljóst að hann væntir þess að þjónar hans elski hann af öllu hjarta, huga, sál og mætti. (Markús 12:30) Það varð henni hvöt til að vígjast Jehóva og láta skírast.

14 Kristina bað Jehóva að hjálpa sér að taka framförum í trúnni. „Ég vissi að konsertpíanóleikari þarf að vera á endalausum ferðalögum og leika á allt að 400 tónleikum á ári,“ segir hún. „Ég ákvað þess vegna að gerast kennari til að sjá mér farborða og geta verið boðberi í fullu starfi.“ Þegar hér var komið sögu var búið að dagsetja fyrstu opinberu tónleika hennar í þekktasta tónlistarhúsi landsins. „Fyrstu opinberu tónleikarnir mínir urðu lokatónleikarnir,“ segir hún. Kristina er nú gift öldungi í söfnuðinum. Þau starfa saman á einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Hún fagnar því að Jehóva skyldi gefa sér kraft til að taka réttar ákvarðanir og að hún skuli geta notað tíma sinn og krafta í þjónustu hans.

Dýrmæt arfleifð

15. Hvaða arfleifð langaði Davíð til að gefa börnum sínum og hvernig gerði hann það?

15 „Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins,“ orti Davíð. (Sálmur 34:12) Sem föður var Davíð mikið í mun að gefa börnum sínum dýrmæta arfleifð — einlægan, öfgalausan og heilnæman ótta við Jehóva. Hann dró ekki upp þá mynd af Jehóva að hann væri kröfuharður og ógnvekjandi og væri sífellt að reyna að góma fólk fyrir einhver brot heldur lýsti hann, bæði í orði og verki, að Jehóva væri ástríkur, umhyggjusamur og miskunnsamur faðir barna sinna á jörð. „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum . . . hver fengi þá staðist?“ spurði Davíð. Hann lét í ljós að hann treysti að Jehóva væri ekki sífellt að einblína á mistök okkar og sagði: „Sýkna mig af leyndum brotum!“ Davíð var sannfærður um að Jehóva hefði velþóknun á orðum hans og hugsunum ef hann gerði sitt besta. — Sálmur 130:3; 19:13, 15.

16, 17. Hvernig geta foreldrar kennt börnunum guðsótta?

16 Davíð er foreldrum góð fyrirmynd. „Foreldrar okkar höguðu uppeldinu þannig að við höfðum ánægju af því að vera í sannleikanum,“ segir Ralph sem starfar ásamt bróður sínum við eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva. „Þegar við vorum ungir höfðu þau okkur með í umræðum um starfsemi safnaðarins og við fengum jafn mikinn áhuga á sannleikanum og þau. Þau ólu okkur upp í þeirri trú að við gætum látið gott af okkur leiða í þjónustu Jehóva. Fjölskyldan bjó meira að segja í nokkur ár í landi þar sem er mikil þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins og við aðstoðuðum við að stofna nýja söfnuði.“

17 „Það voru ekki stífar reglur sem héldu okkur á réttri braut heldur sú staðreynd að Jehóva var raunverulegur í augum foreldra okkar og einstaklega ljúfur og góður. Þau lögðu sig fram við að kynnast Jehóva betur og þóknast honum og við lærðum af guðhræðslu þeirra og ást á Guði. Þegar við gerðum eitthvað af okkur létu þau okkur ekki fá á tilfinninguna að Jehóva elskaði okkur ekki lengur og þau skelltu ekki á okkur gerræðislegum hömlum í reiði. Yfirleitt settust þau hjá okkur og töluðu bara við okkur og stundum var mamma með tárin í augunum. Og þeim tókst að ná til hjartna okkar. Við lærðum af orðum þeirra og verkum að guðsóttinn er góður og að það er ekki byrði að vera vottur Jehóva heldur ánægjulegt og unaðslegt.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

18. Hvað öðlumst við ef við óttumst Guð?

18 „Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs, hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp“. Þetta voru meðal ‚síðustu orða Davíðs‘. (2. Samúelsbók 23:1, 3, 4) Salómon, sonur Davíðs og arftaki, lærði þetta greinilega því að hann bað Jehóva að gefa sér „gaumgæfið hjarta“ og hæfni til að „greina gott frá illu“. (1. Konungabók 3:9) Salómon vissi að guðsótti veitir mönnum visku og hamingju. Síðar dró hann saman inntak Prédikarans þegar hann sagði: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ (Prédikarinn 12:13, 14) Ef við förum eftir þessu komumst við að raun um að „laun auðmýktar, ótta Drottins“, eru ekki aðeins viska og hamingja heldur einnig „auður, heiður og líf“. — Orðskviðirnir 22:4.

19. Hvernig getum við skilið hvað „ótti Drottins“ er?

19 Við sjáum bæði af dæmum úr Biblíunni og nútímanum að tilhlýðilegur guðsótti gegnir jákvæðu hlutverki í lífi sannra þjóna Jehóva. Slíkur ótti getur hindrað okkur í að gera það sem er föðurnum á himnum á móti skapi. Hann getur einnig veitt okkur hugrekki til að horfast í augu við andstæðinga og styrk til að standast prófraunir og erfiðleika sem verða á vegi okkar. Hvort sem við erum ung eða gömul skulum við leggja okkur vel fram við nám í orði Guðs, hugleiða það sem við lærum og nálægja okkur honum með því að biðja oft og innilega til hans. Þá munum við bæði „öðlast þekking á Guði“ og „skilja, hvað ótti Drottins er“. — Orðskviðirnir 2:1-5.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nöfnum er breytt í þessari grein.

^ gr. 5 Hugsanlegt er að þetta sé eitt þeirra atvika sem varð kveikjan að því að Davíð orti Sálm 57 og 142.

Geturðu svarað?

Hvernig getur guðsótti

• hjálpað okkur að rétta okkur við eftir alvarlega synd?

• stuðlað að hamingju okkar í prófraunum og ofsóknum?

• styrkt okkur til að gera vilja Guðs?

• verið dýrmæt arfleifð handa börnum okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Guðsóttinn kom í veg fyrir að Davíð banaði Sál konungi.

[Myndir á blaðsíðu 30]

Guðsótti er dýrmæt arfleifð sem foreldrar geta gefið börnum sínum.