Höfuðþættir Esekíelsbókar — fyrri hluti
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Esekíelsbókar — fyrri hluti
ÞETTA er árið 613 f.Kr. Jeremía spámaður er staddur í Júda og boðar þar djarfmannlega að Jerúsalem verði eydd og Júda leggist í eyði. Nebúkadnesar konungur í Babýlon hefur nú þegar hneppt marga Gyðinga í ánauð. Meðal þeirra eru unglingspiltarnir Daníel og þrír félagar hans. Þeir þjóna nú við kaldeísku hirðina. Flestir hinna útlægu Gyðinga eru við Kebarfljótið „í Kaldealandi“. (Esekíel 1:1-3) Jehóva lætur þá ekki vera án leiðsagnar heldur skipar Esekíel spámann sinn en hann er þá þrítugur að aldri.
Esekíel lýkur við að rita bók sína árið 591 f.Kr. og hún spannar 22 ára sögu. Hann er einkar nákvæmur ritari. Hann tímasetur spádómana ekki aðeins upp á mánuð og ár heldur einnig dag. Fyrsti hluti spádómsbókarinnar fjallar um fall og eyðingu Jerúsalem. Í öðrum hlutanum eru spádómar um grannþjóðirnar og í þeim þriðja er rætt um endurreisn tilbeiðslunnar á Jehóva. Í þessari grein er farið yfir Esekíel 1:1–24:27 þar sem fyrir koma sýnir, spádómar og látbragðsleikur um það sem á eftir að henda Jerúsalem.
„ÉG HEFI SKIPAÐ ÞIG VARÐMANN“
Esekíel sér mikilfenglega sýn um hásæti Jehóva og er síðan falið verkefni. Jehóva segir honum: „Ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.“ (Esekíel 3:17) Hann á að spá umsátrinu um Jerúsalem með látbragðsleik. Jehóva lætur hann flytja eftirfarandi boð varðandi Júda: „Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.“ (Esekíel 6:3) Hann segir landsmönnum: „Örlögin [það er að segja ógæfan] koma yfir þig.“ — Esekíel 7:7.
Árið 612 f.Kr. er Esekíel fluttur í sýn til Jerúsalem og sér þar viðurstyggilegt framferði í musteri Guðs. Jehóva sendir himneskar aftökusveitir (koma fram sem „sex menn“ í sýninni) til að fullnægja reiði sinni gagnvart fráhvarfsmönnunum. Þeim einum er þyrmt sem hafa „merki á enni“ sér. (Esekíel 9:2-6) En fyrst er „glóðum“ dreift út um borgina en þær tákna brennandi eyðingarboðskap Guðs. (Esekíel 10:2) Jehóva ætlar að láta athæfi hinna óguðlegu „koma þeim í koll“ en heitir að safna aftur saman hinum dreifðu Ísraelsmönnum. — Esekíel 11:17-21.
Andi Guðs flytur Esekíel aftur til Kaldeu. Þar sýnir spámaðurinn með látbragðsleik flótta Sedekía konungs og fólksins frá Jerúsalem. Hann fordæmir falsspámenn og -spákonur. Skurðgoðadýrkendum er hafnað. Júda er líkt við ónýtan vínvið. Í gátu er brugðið upp mynd af erni og vínviði til að sýna fram á að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir Jerúsalembúa að leita hjálpar hjá Egyptum. Gátunni lýkur með því að Jehóva lofar að gróðursetja grannan kvist á háu og gnæfandi fjalli. (Esekíel 17:22) Í Júda verður hins vegar „enginn veldissproti“. — Esekíel 19:14.
Biblíuspurningar og svör:
1:4-28 — Hvað táknar himnavagninn? Vagninn táknar himneskan hluta alheimssafnaðar Jehóva sem er skipaður trúum andaverum. Hann fær kraft sinn af heilögum anda. Sá sem stýrir vagninum er ólýsanlega dýrlegur og táknar Jehóva. Fallegur regnbogi er notaður til tákns um rósemd hans.
1:5-11 — Hverjar eru verurnar fjórar? Í annað sinn, sem Esekíel sér himnavagninn í sýn, segir hann að verurnar fjórar séu kerúbar. (Esekíel 10:1-11; 11:22) Þar kallar hann nautsandlitið „kerúbsandlit“. (Esekíel 10:14, Biblíurit, ný þýðing 1998) Það er við hæfi vegna þess að nautið er tákn afls og máttar og kerúbar eru máttugar andaverur.
2:6 — Af hverju er Esekíel margsinnis kallaður „mannsson“? Jehóva ávarpar spámanninn þannig til að minna hann á að hann sé gerður af holdi og blóði og til að hnykkja á þeim mikla mun sem er á honum og höfundi boðskaparins, Guði sjálfum. Jesús er sömuleiðis nefndur mannssonur meira en 80 sinnum í guðspjöllunum. Þannig var lögð áhersla á að sonur Guðs væri orðinn maður en væri ekki holdguð andavera.
2:9–3:3 — Hvers vegna var bókrollan með harmljóðunum og andvörpunum sæt á bragðið í munni Esekíels? Það var afstaða spámannsins til verkefnis síns sem gerði bókrolluna sæta í munni hans. Hann var þakklátur fyrir að mega þjóna Jehóva sem spámaður.
4:1-17 — Lék Esekíel í raun og veru þáttinn um yfirvofandi umsátur Jerúsalem? Að Esekíel skyldi biðja um að mega nota annað eldsneyti við matargerð og að Jehóva skyldi leyfa það bendir til þess að spámaðurinn hafi í raun og veru leikið þetta. Hann lá á vinstri hliðinni til að tákna 390 ára misgerð tíuættkvíslaríkisins, frá því að hún hófst árið 997 f.Kr. þangað til Jerúsalem var eytt árið 607 f.Kr. Hann lá síðan á hægri hliðinni vegna 40 ára syndar Júda en það var tímabilið frá 647 f.Kr., þegar Jeremía var skipaður spámaður, fram til 607 f.Kr. Þessa 430 daga lifði Esekíel við nauman skammt af mat og vatni til tákns um hungrið sem myndi sverfa að meðan Jerúsalem væri umsetin.
5:1-3 — Hvaða þýðingu hafði það að Esekíel skyldi taka fáein af hárunum, sem hann átti að dreifa út í vindinn, og binda þau í skikkjulaf sitt? Þetta var gert til að sýna að hluti þjóðarinnar myndi snúa heim til Júda og endurreisa sanna tilbeiðslu eftir að útlegðarárin 70 væru á enda. — Esekíel 11:17-20.
17:1-24 — Hverjir eru ernirnir miklu, hvernig eru brumkvistir brotnir af sedrustré og hver er granni brumkvisturinn sem Jehóva gróðursetur? Ernirnir tveir tákna stjórnendur Babýlonar og Egyptalands. Sá fyrri kemur að toppi sedrustrésins sem táknar stjórnandann af konungsætt Davíðs. Hann brýtur af efstu brumkvistina með því að setja Sedekía til konungs í stað Jójakíns. Þrátt fyrir að Sedekía hafi unnið hollustueið leitar hann ásjár hjá hinum erninum en sá táknar stjórnanda Egyptalands. Allt kemur þó fyrir ekki og Sedekía er tekinn höndum og á að deyja í Babýlon. Jehóva brýtur af „einn grannan“ sem er konungur Messíasarríkisins. Hann er gróðursettur á „háu og gnæfandi fjalli“, Síonfjalli á himnum. Þar verður hann „dýrlegur sedrusviður“ og til blessunar fyrir jörðina. — Opinberunarbókin 14:1.
Lærdómur:
2:6-8; 3:8, 9, 18-21. Við ættum hvorki að láta hina óguðlegu hræða okkur né veigra okkur við að boða boðskap Guðs sem er meðal annars fólginn í viðvörun til þeirra. Við þurfum að vera hörð eins og demantur þegar við mætum áhugaleysi eða andstöðu. Við verðum samt að gæta þess að vera ekki hranaleg í framkomu, harðskeytt eða tillitslaus. Jesús kenndi í brjósti um þá sem hann prédikaði fyrir og við ættum sömuleiðis að boða trúna af því að við finnum til með fólki. — Matteus 9:36.
3:15. Eftir að Esekíel var kallaður til spámennsku dvaldi hann um tíma í Tel Abíb. Hann var „stjarfur af skelfingu“ í sjö daga meðan hann ígrundaði þann boðskap sem honum var falið að flytja. (Biblíurit, ný þýðing 1998) Ættum við ekki að gefa okkur tíma til rækilegs biblíunáms þannig að við getum skilið djúpstæð andleg sannindi?
4:1–5:4. Esekíel þurfti að vera bæði auðmjúkur og hugrakkur til að leika hinn tvíþætta látbragðsleik. Við ættum sömuleiðis að vera auðmjúk og hugrökk þegar við gerum skil þeim verkefnum sem Guð felur okkur.
7:4, 9; 8:18; 9:5, 10. Við þurfum ekki að hafa meðaumkun eða samúð með þeim sem Guð dæmir.
7:19. Peningar verða einskis virði þegar Jehóva fullnægir dómi yfir þessum heimi.
8:5-18. Við eyðileggjum samband okkar við Guð með því að gera fráhvarf frá trúnni. „Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun,“ segir í Orðskviðunum 11:9. Við ættum ekki einu sinni að láta okkur detta í hug að hlusta á fráhvarfsmenn.
9:3-6. Til að komast lifandi úr þrengingunni miklu þurfum við að fá merkið sem sýnir að við séum vígðir og skírðir þjónar Guðs og höfum tileinkað okkur kristinn persónuleika. (Matteus 24:21) Maðurinn með skriffærin táknar hina andasmurðu. Þeir hafa forgöngu um að setja merki á enni manna en það er gert með því að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum. Ef við viljum halda merkinu verðum við að styðja þá dyggilega í starfi.
12:26-28. Esekíel átti að segja þeim sem gerðu gys að boðskap hans: „Á engu mínu orði [sem hann flutti í umboði Jehóva] mun framar frestur verða.“ Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa öðrum að setja traust sitt á Jehóva áður en hann bindur enda á núverandi heimskerfi.
14:12-23. Við berum sjálf ábyrgð á hjálpræði okkar. Enginn getur gert það fyrir okkur. — Rómverjabréfið 14:12.
18:1-29. Við þurfum að taka afleiðingum gerða okkar.
„AÐ RÚSTUM, RÚSTUM, RÚSTUM VIL ÉG GJÖRA ALLT“
Árið 611 f.Kr., sem er sjöunda útlegðarárið, koma nokkrir af öldungum Ísraels til Esekíels „til þess að ganga til frétta við Drottin“. Þeir fá að heyra langa sögu af uppreisn Ísraelsmanna og viðvörun þess efnis að Jehóva muni ‚draga sverð sitt úr slíðrum‘ og fara gegn þeim. (Esekíel 20:1; 21:3) Jehóva ávarpar höfðingja Ísraels (Sedekía) og segir: „Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! Þetta skal ekki lengur vera svo. Upp með hið lága, niður með hið háa! Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá [Jesús Kristur] kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.“ — Esekíel 21:26, 27.
Jerúsalem er ákærð. Flett er ofan af sekt Oholu (Ísraels) og Oholíbu (Júda). Ohola hefur nú þegar verið seld „í hendur friðla sinna, í hendur Assýringa“. (Esekíel 23:9) Og Oholíba þarf bráðlega að taka út dóm sinn. Árið 609 f.Kr. setjast Babýloníumenn um Jerúsalem og sitja um hana í 18 mánuði. Þegar borgin fellur verða Gyðingar of agndofa til að láta harm sinn í ljós. Esekíel á ekki að flytja hinum útlægu Gyðingum boðskap Guðs fyrr en hann fær fregnir af eyðingu borgarinnar frá ‚flóttamanninum‘. — Esekíel 24:26, 27.
Biblíuspurningar og svör:
21:3 — Hvert er ‚sverðið‘ sem Jehóva dregur úr slíðrum? Nebúkadnesar konungur og her hans er ‚sverðið‘ sem Jehóva notar til að fullnægja dómi yfir Jerúsalem og Júda. Það gæti einnig falið í sér voldugar andaverur sem mynda himneskan hluta alheimssafnaðar Guðs.
24:6-14 — Hvað táknar ryðið á pottinum? Hinni umsetnu Jerúsalem er líkt við stóran pott. Ryðið táknar siðspillingu borgarmanna — óhreinleikann, lauslætið og blóðsúthellingarnar sem þeir eru sekir um. Slíkur er óhreinleikinn að ryðflekkirnir losna ekki einu sinni af þó að potturinn standi tómur á kolunum og kynt sé rækilega undir.
Lærdómur:
20:1, 49. Viðbrögð öldunga Ísraels bera með sér að þeir voru efins um það sem Esekíel sagði. Efumst aldrei um að viðvaranir Guðs eigi við rök að styðjast.
21:18-22. Enda þótt Nebúkadnesar hafi stundað spásagnir var það Jehóva sem sá til þess að hinn heiðni valdhafi settist um Jerúsalem. Af þessu má sjá að illir andar geta ekki komið í veg fyrir að Jehóva fullnægi dómum sínum og noti til þess þá sem hann vill.
22:6-16. Jehóva hefur andstyggð á rógburði, lauslæti, mútuþægni og misbeitingu valds. Við ættum að vera staðráðin í að forðast syndir af því tagi.
23:5-49. Eftir að Ísraels- og Júdamenn stofnuðu til stjórnmálatengsla við aðrar þjóðir tóku þeir upp falska guðsdýrkun bandamanna sinna. Stofnum ekki til veraldlegra tengsla sem gætu spillt trú okkar. — Jakobsbréfið 4:4.
Lifandi og kröftugur boðskapur
Það má draga ágætan lærdóm af fyrstu 24 köflum Esekíelsbókar. Þar koma fram meginreglur sem sýna hvernig menn geta bakað sér vanþóknun Guðs eða hlotið miskunn hans, og hvers vegna okkur ber að aðvara hina óguðlegu. Spádómurinn um eyðingu Jerúsalem sýnir greinilega að Jehóva er Guð sem ‚boðar þjónum sínum nýja hluti áður en fyrir þeim vottar‘. — Jesaja 42:9.
Spádómar eins og finna má í Esekíel 17:22-24 og 21:26, 27 vísa til þess að Messíasarríkið yrði stofnsett á himnum. Innan tíðar nær vilji Guðs fram að ganga á jörð undir stjórn þessa ríkis. (Matteus 6:9, 10) Við getum hlakkað til þessarar blessunar með sterkri trú og sannfæringu. Já, „orð Guðs er lifandi og kröftugt“. — Hebreabréfið 4:12.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Hvað táknar himnavagninn?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Við viðhöldum ‚merkinu‘ meðal annars með því að taka dyggilega þátt í boðunarstarfinu.