Hönnun án hönnuðar?
Hönnun án hönnuðar?
NÆSTUM 150 ár eru liðin síðan Charles Darwin sló fram þeirri hugmynd að náttúruval hefði valdið því að hið flókna og fjölbreytta lífríki jarðar varð til. En þróunarkenning hans og þau tilbrigði við hana, sem nú er haldið á lofti, hafa upp á síðkastið sætt gagnrýni þeirra sem telja að hin hárnákvæma gerð lifandi vera bendi til þess að þær séu hannaðar með ákveðið markmið í huga. Fjöldi virtra vísindamanna er í hópi þeirra sem geta ekki fallist á að þróunarkenningin skýri tilurð hins gríðarlega tegundafjölda sem jörðin skartar.
Sumir af þessum vísindamönnum halda því fram að það sé önnur skýring á tilurð lífsins. Þeir benda á að það sé hannað af hugviti og fullyrða að líffræði, stærðfræði og heilbrigð skynsemi styðji þá ályktun. Og þeir hvetja til þess að fjallað sé um þessa hugmynd í kennslu raungreina í skólum. Þessi átök um þróunarkenninguna eru aðallega háð í Bandaríkjunum en svipuð þróun hefur átt sér stað á Englandi, í Hollandi, Pakistan, Serbíu og Tyrklandi.
Undarleg gloppa
Yfirleitt er þó áberandi gloppa í vandlega orðaðri málsvörn þeirra sem tala um hönnun í lífríkinu. Gloppan er fólgin í því að hönnuðurinn er aldrei nefndur á nafn. Heldurðu að hönnun sé möguleg án hönnuðar? Þeir sem halda því fram að lífríkið sé hannað „segja ekkert ákveðið um það hver eða hvað þessi hönnuður geti verið“. (The New York Times Magazine) Í grein í tímaritinu Time bendir Claudia Wallis á að talsmenn þess að lífríkið sé hannað „gæti þess að nefna Guð ekki í umræðunni“. Og í tímaritinu Newsweek kemur fram að „aldrei sé minnst á tilvist hönnuðarins né það hver hann sé“.
En þú gerir þér eflaust grein fyrir því að það er til lítils að reyna að sneiða hjá spurningunni um hönnuðinn. Sú skýring að alheimurinn og lífríkið sé hannað gengur varla upp ef því er haldið leyndu eða það er ekki einu sinni rætt hvort til sé hönnuður eða hver hann sé.
Umræðan um það hvort viðurkenna eigi að til sé hönnuður er að töluverðu leyti samtvinnuð eftirfarandi spurningum: Myndi það tálma menntun og framförum vísindanna ef menn viðurkenndu að til sé hönnuður sem er manninum æðri? Á aðeins að gera ráð fyrir skynsemigæddum hönnuði þegar engin önnur trúverðug skýring finnst? Og er rökrétt að álykta að það hljóti að vera til hönnuður ef alheimurinn og lífríkið er hannað? Fjallað er um þessar spurningar og fleiri í greininni á eftir.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Charles Darwin áleit að náttúruval væri orsök fjölbreytninnar í lífríkinu.
[Rétthafi]
Darwin: Af ljósmynd J. M. Cameron/U.S. National Archives photo.