Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ritað oss til uppfræðingar“

„Ritað oss til uppfræðingar“

„Ritað oss til uppfræðingar“

„AÐ TAKA saman margar bækur, á því er enginn endir.“ (Prédikarinn 12:12) Þessi orð eru jafnsönn nú og þegar þau voru skrifuð því að gríðarlegt magn af prentuðu máli flæðir yfir okkur. En hvernig getur vandfýsinn lesandi ákveðið hvað sé þess virði að lesa?

Þegar fólk veltir fyrir sér hvort það eigi að lesa ákveðna bók hefur það oft áhuga á að fá upplýsingar um höfund hennar. Í bókum er gjarnan klausa frá útgefendum um höfundinn, æskustöðvar hans, menntun og fyrri verk. Fólki finnst mikilvægt að vita hver höfundurinn er. Til dæmis skrifuðu konur fyrr á öldum oft undir karlkyns dulnefni til að lesendur myndu ekki fyrir fram telja bókina síðri aðeins vegna þess að hún væri skrifuð af konu.

Eins og bent var á í greininni á undan hunsa sumir Hebresku ritningarnar. Þeim finnst guðinn, sem talað er um þar, vera grimmur guð sem eyðir óvinum sínum miskunnarlaust. * Skoðum nánar hvað Hebresku ritningarnar og Grísku ritningarnar segja okkur um höfund Biblíunnar.

Um höfundinn

Í Hebresku ritningunum stendur að Guð hafi sagt við Ísraelsþjóðina: „Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:6) Um 500 árum seinna skrifaði biblíuritarinn Jakob: „Hjá honum [Guði] er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ (Jakobsbréfið 1:17) En hvers vegna finnst þá sumum eins og Guð Hebresku ritninganna sé ólíkur Guði Grísku ritninganna?

Ein ástæðan er sú að mismunandi eiginleikar Guðs koma fram í hinum ýmsu biblíubókum. Í 1. Mósebók er til dæmis sagt að Guði hafi ‚sárnað í hjarta sínu‘, að hann sé ‚skapari himins og jarðar‘ og „dómari alls jarðríkis“. (1. Mósebók 6:6; 14:22; 18:25) Eiga þessar ólíku lýsingar við eina og sama guðinn? Já, svo sannarlega.

Lýsum þessu með dæmi. Í dómssalnum er héraðsdómari ef til vill þekktur fyrir að fylgja lögunum fast eftir. Börnin hans þekkja hann hins vegar sem ljúfan og góðan pabba. Nánum vinum hans finnst hann vera þægilegur í viðmóti og hafa gott skopskyn. Dómarinn, pabbinn og vinurinn eru allir sama persónan. Mismunandi hliðar á persónuleika hans koma hins vegar í ljós við mismunandi aðstæður.

Í Hebresku ritningunum er Jehóva lýst sem ‚miskunnsömum og líknsömum Guði, þolinmóðum og gæskuríkum‘. En samt lesum við líka að hann ‚láti synda þó eigi með öllu óhegnt‘. (2. Mósebók 34:6, 7) Þessi tvö persónueinkenni endurspegla það sem nafn Guðs þýðir. Nafnið „Jehóva“ þýðir bókstaflega „hann lætur verða“. Það felur í sér að Guð getur orðið hvaðeina sem hann þarf til að uppfylla loforð sín. (2. Mósebók 3:13-15) En hann er samt sami guðinn. Jesús sagði: „Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn.“ — Markús 12:29.

Eru Hebresku ritningarnar orðnar úreltar?

Það er ekki óalgengt að skipta þurfi út gömlum kennslubókum þegar nýjar rannsóknir líta dagsins ljós eða skoðanir manna breytast. Komu Grísku ritningarnar þannig í staðinn fyrir Hebresku ritningarnar? Nei.

Ef Jesús hefði viljað að frásagan af þjónustu sinni og skrif lærisveinanna hefðu komið í staðinn fyrir Hebresku ritningarnar hefði hann vafalaust gefið það til kynna. Rétt áður en hann steig upp til himna segir hins vegar í frásögn Lúkasar: „Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum [í Hebresku ritningunum] og útlagði fyrir [tveim lærisveina sinna] það, sem um hann er í öllum ritningunum.“ Seinna birtist Jesús trúföstum postulum sínum ásamt öðrum. „Hann sagði við þá: ‚Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum.‘“ (Lúkas 24:27, 44) Varla hefði Jesús enn verið að vitna í Hebresku ritningarnar undir lok jarðneskrar þjónustu sinnar ef þær hefðu verið orðnar úreltar.

Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur héldu fylgjendur Jesú áfram að nota Hebresku ritningarnar. Þeir notuðu þær til að benda á spádóma sem enn áttu eftir að uppfyllast, til að nýta sér gagnlegar meginreglur úr Móselögunum og til að lesa trústyrkjandi frásögur af duglegum þjónum Guðs til forna. (Postulasagan 2:16-21; 1. Korintubréf 9:9, 10; Hebreabréfið 11:1–12:1) „Sérhver ritning,“ skrifaði Páll postuli, „er innblásin af Guði og nytsöm.“ * (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvaða gagn getum við haft af Hebresku ritningunum nú á dögum?

Ráð fyrir daglegt líf

Kynþáttafordómar eru vaxandi vandamál nú á dögum. Tuttugu og eins árs maður frá Eþíópíu býr í borg í Austur-Evrópu. Hann segir: „Ef okkur langar að fara eitthvað verðum við að fara nokkrir saman. Ef við erum í hópi verður kannski ekki ráðist á okkur.“ Hann heldur áfram og segir: „Við getum ekki farið út eftir klukkan sex á kvöldin, sérstaklega ekki í neðanjarðarlestina. Þegar fólk horfir á okkur sér það bara húðlitinn okkar.“ Er eitthvað rætt um þetta flókna vandamál í Hebresku ritningunum?

Ísraelsmönnum til forna var sagt: „Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ (3. Mósebók 19:33, 34) Já, í Ísrael fortíðar kváðu lögin á um að innflytjendum eða útlendingum væri sýnd virðing og þessi lög eru geymd í Hebresku ritningunum. Ertu ekki sammála því að ef fólk nú á dögum fylgdi meginreglunni sem birtist í þessum lögum gæti verið hægt að binda enda á kynþáttafordóma?

Þótt Hebresku ritningarnar gefi ekki ítarlegar leiðbeiningar um fjármál er þar að finna hagnýt ráð um skynsamlega notkun peninga. Til dæmis segir í Orðskviðunum 22:7: „Lánþeginn verður þræll lánsalans.“ Margir fjármálaráðgjafar eru sammála um að það geti haft hörmulegar afleiðingar að eyða um efni fram, til dæmis með óskynsamlegri notkun kreditkorta.

Efnishyggja er mjög útbreidd og menn keppast við að safna sér auði sama hvað það kostar. Salómon konungur, einn ríkasti maður sögunnar, lýsti þessu vel þegar hann skrifaði: „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi.“ (Prédikarinn 5:9) Þetta eru viturleg orð.

Björt framtíðarvon

Í allri Biblíunni er aðeins eitt stef: Guðsríki undir stjórn Jesú Krists mun upphefja drottinvald Guðs og helga nafn hans. — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15.

Í Hebresku ritningunum fáum við að vita hvernig lífið verður undir stjórn Guðsríkis. Þessi vitneskja hughreystir okkur og færir okkur nær Jehóva Guði, honum sem veitir huggun. Til dæmis sagði Jesaja spámaður fyrir að það myndi ríkja friður milli manna og dýra: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ (Jesaja 11:6-8) Þetta eru dásamlegar framtíðarhorfur.

Og hvað um þá sem verða fyrir fordómum vegna kynþáttar eða þjóðernis, þá sem eru haldnir alvarlegum sjúkdómum eða búa við bágan efnahag án þess að fá nokkru um það ráðið? Í Hebresku ritningunum segir um Jesú Krist: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.“ (Sálmur 72:12, 13) Þessi loforð eru afar hughreystandi því að þeir sem leggja traust sitt á þau geta horft björtum augum til framtíðar. — Hebreabréfið 11:6.

Það er engin furða að Páli postula hafi verið innblásið að skrifa: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Já, Hebresku ritningarnar eru enn hluti af innblásnu orði Guðs, Biblíunni. Efni þeirra á sannarlega erindi til okkar. Það er von okkar að þú leggir þig fram við að læra meira um það sem öll Biblían kennir og færir þig þannig nær höfundi hennar, Jehóva Guði. — Sálmur 119:111, 112.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í þessari grein er Gamla testamentið nefnt Hebresku ritningarnar. (Sjá rammagreinina „Gamla testamentið eða Hebresku ritningarnar á bls. 6) Sömuleiðis nota Vottar Jehóva heitið Grísku ritningarnar um Nýja testamentið.

^ gr. 13 Í Hebresku ritningunum er að finna fjölmargar meginreglur sem nýtast okkur nú til dags. En taka skal fram að kristnir menn eru ekki undir lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse.

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

Gamla testamentið eða hebresku ritningarnar?

Heitið „gamla testamento“ kemur fyrir í 2. Korintubréfi 3:14 í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Í því versi er gríska orðið diaþeʹke þýtt „testamento“. Margar nýrri þýðingar eins og Biblían 1981 þýða orðið diaþeʹke hins vegar „sáttmála“ en ekki „testamenti“. Hvers vegna?

Orðabókarhöfundurinn Edward Robinson segir: „Þar sem gamli sáttmálinn er í Mósebókunum, er [diaþeʹke] notað um sáttmálsbókina, rit Móse, þ.e.a.s. lögmálið.“ Í 2. Korintubréfi 3:14 var Páll postuli að tala um Móselögin, en þau eru aðeins hluti af Ritningunum sem til voru fyrir daga kristninnar.

En hvað á þá að kalla fyrstu 39 bækur Biblíunnar? Jesús Kristur og fylgjendur hans gáfu aldrei í skyn að þessi hluti Biblíunnar væri gamall eða úreltur heldur kölluðu þeir þessar bækur ‚ritningarnar‘ og ‚helgar ritningar‘. (Matteus 21:42; Rómverjabréfið 1:2) Í samræmi við það kalla Vottar Jehóva Gamla testamentið Hebresku ritningarnar því að þessi hluti Biblíunnar var aðallega skrifaður á hebresku. Sömuleiðis kalla þeir Nýja testamentið Grísku ritningarnar vegna þess að þeir sem skrifuðu þann hluta Biblíunnar undir innblæstri voru grískumælandi.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Sami maðurinn getur verið þekktur allt í senn sem dómari, kærleiksríkur faðir og vinur.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Jesús notaði Hebresku ritningarnar á þjónustuferli sínum.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að taka réttar ákvarðanir?