Höfuðþættir bóka Haggaí og Sakaría
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir bóka Haggaí og Sakaría
ÁRIÐ 520 f.Kr. er runnið upp. Liðin eru 16 ár síðan Gyðingar lögðu grunninn að musteri Jehóva í Jerúsalem, eftir heimkomuna frá Babýlon. En endurbyggingunni er ekki lokið og lagt hefur verið bann við frekari framkvæmdum. Jehóva vekur þá upp Haggaí spámann til að flytja orð sitt og Sakaría tveim mánuðum síðar.
Haggaí og Sakaría hafa eitt markmið — að hvetja þjóðina til að hefjast handa á nýjan leik við að endurreisa musterið. Það tekst og musterið er fullgert fimm árum síðar. Boðskap spámannanna tveggja er að finna í biblíubókunum sem nefndar eru eftir þeim. Haggaí lauk bók sinni árið 520 f.Kr. og Sakaría tveim árum síðar. Guð hefur falið okkur verk að vinna, líkt og spámönnunum tveim, og við þurfum að ljúka því áður en núverandi heimskerfi líður undir lok. Verkefnið er að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum. Könnum nú hvaða hvatningu við getum sótt í bækur þeirra Haggaí og Sakaría.
„TAKIÐ EFTIR, HVERNIG FYRIR YÐUR FER!“
Á 112 daga tímabili flytur Haggaí hvetjandi boðskap í fjórum þáttum. Fyrstu boðin eru svohljóðandi: „Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan! — segir Drottinn.“ (Haggaí 1:7, 8) Þjóðin bregst vel við. Næstu boð hafa að geyma eftirfarandi loforð: „Ég [Jehóva] mun fylla hús þetta dýrð.“ — Haggaí 2:7.
Þriðju boðin bera með sér að fólkið og allt verk, sem það vinnur, er „óhreint“ í augum Jehóva vegna þess að það hefur vanrækt byggingu musterisins. En Jehóva lofar að veita þjóðinni blessun frá þeim degi sem hún hefst handa við verkið. Samkvæmt fjórðu boðunum ætlar Jehóva að eyðileggja „vald hinna heiðnu konungsríkja“ og fara með Serúbabel landsjóra eins og „innsiglishring“. — Haggaí 2:14, 19, 22, 23.
Biblíuspurningar og svör:
2:6, 7, 21, 22 — Hver eða hvað hrærir þjóðirnar og hver eru áhrifin? Jehóva ‚hrærir allar þjóðir‘ með því að láta boða boðskapinn um ríkið út um allan heim. Boðunarstarfið hefur einnig þau áhrif að „gersemar allra þjóða“ safnast inn í hús Jehóva og fylla það dýrð. Þegar fram líða stundir mun „Drottinn allsherjar . . . hræra himin og jörð, haf og þurrlendi“ með þeim afleiðingum að heimskerfið líður undir lok eins og það leggur sig. — Hebreabréfið 12:26, 27.
2:9 — Á hvaða hátt var „hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri . . . en hin fyrri var“? Nefna má að minnsta kosti þrennt: hve lengi musterið stóð, hver kenndi þar og hverjir komu þangað til að tilbiðja Jehóva. Hið mikilfenglega musteri Salómons stóð í 420 ár, frá 1027 til 607 f.Kr., en hið síðara var notað í meira en 580 ár, frá því að byggingu þess lauk 515 f.Kr. uns því var eytt árið 70 e.Kr. Messías — Jesús Kristur — kenndi auk þess í síðara musterinu og fleiri komu þangað til að tilbiðja Guð en í fyrra musterinu. — Postulasagan 2:1-11.
Lærdómur:
1:2-4. Þótt boðunarstarfið mæti andstöðu ættum við ekki að hætta að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘ og fara að sinna eigin hagsmunum. — Matteus 6:33.
1:5, 7. Það er skynsamlegt að ‚taka eftir hvernig fyrir okkur fer‘ og hugleiða hvaða áhrif líferni okkar hefur á sambandið við Guð.
1:6, 9-11; 2:14-17. Gyðingar á dögum Haggaí voru iðnir við að sinna eigin málum en fengu lítið í aðra hönd. Þeir vanræktu musterið og fyrir vikið hlutu þeir ekki blessun Guðs. Við ættum að láta þjónustuna við Guð ganga fyrir, þjóna honum af allri sálu og vera minnug þess að „blessun Drottins, hún auðgar,“ hvort sem við höfum mikið eða lítið handa á milli. — Orðskviðirnir 10:22.
2:15, 18. (Biblían 2007) Jehóva hvatti Gyðinga til að horfa fram á veginn og hugsa um endurbyggingu musterisins en ekki einblína á fyrri vanrækslu. Við ættum líka að horfa fram á veginn varðandi tilbeiðslu okkar á Guði.
‚EKKI MEÐ KRAFTI HELDUR FYRIR ANDA MINN‘
Sakaría byrjar spámannsstarf sitt á því að hvetja Gyðinga til að snúa aftur til Jehóva. (Sakaría 1:3) Í framhaldinu sér hann átta sýnir sem staðfesta að Guð styður endurreisn musterisins. (Sjá rammann „Átta táknsögulegar sýnir Sakaría“.) Musterið verður endurbyggt en „ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda [Jehóva]“. (Sakaría 4:6) Maður, sem nefnist Kvistur, „mun byggja musteri Drottins“ og „verða prestur í hásæti sínu“. — Sakaría 6:12, 13, NW.
Sendinefnd kemur frá Betel til að spyrja prestana út í föstuhald til minningar um eyðingu Jerúsalem. Jehóva segir Sakaría að fólk skuli hætta að syrgja við fösturnar fjórar sem haldnar voru til að minnast ógæfu borgarinnar. Fösturnar eiga að verða að „gleði og að unaðslegum hátíðardögum“. (Sakaría 7:2; 8:19) Í næstu tveim yfirlýsingum þar á eftir er að finna dóma yfir þjóðum og falsspámönnum, spádóma um Messías og boðskap um endurreisn þjóðar Guðs. — Sakaría 9:1; 12:1.
Biblíuspurningar og svör:
2:5 — Af hverju er Jerúsalem mæld með mæliþræði? Þetta vísar greinilega til þess að reistur sé varnarmúr kringum borgina. Engillinn segir manninum með mæliþráðinn að Jerúsalem eigi að stækka og njóta verndar Jehóva. — Sakaría 2:7-9.
6:11-13 — Varð Jósúa bæði konungur og prestur þegar honum var fengin kóróna? Nei, hann var ekki af konungsætt Davíðs. Kórónan gerði hann hins vegar að spádómlegri fyrirmynd um Messías. (Hebreabréfið 6:20) Spádómurinn um „Kvist“ rætist á Jesú Kristi sem er konungur og prestur á himnum. (Jeremía 23:5) Jesús er æðstiprestur sannrar tilbeiðslu við andlegt musteri Jehóva líkt og Jósúa þjónaði heimkomnum Gyðingum sem æðstiprestur í hinu endurbyggða musteri.
8:1-23 — Hvenær rætast yfirlýsingarnar tíu sem nefndar eru í þessum versum? Á undan hverri þeirra stendur: „Svo segir Drottinn allsherjar“, og þær eru allar loforð frá honum um að þjóð hans skuli njóta friðar. Sumar þeirra rættust á sjöttu öld f.Kr. en allar hafa annaðhvort ræst eftir 1919 eða eru að rætast núna. *
8:3 — Hvers vegna er Jerúsalem kölluð „borgin trúfasta“? Áður en borgin var eydd árið 607 f.Kr. var hún sögð ‚ofríkisfull‘, byggð spilltum spámönnum og prestum og ótrúu fólki. (Sefanía 3:1; Jeremía 6:13; 7:29-34) En nú hafði musterið verið endurreist og fólkið hafði skuldbundið sig til að tilbiðja Jehóva. Jerúsalem var kölluð „borgin trúfasta“ vegna þess að þar var stunduð hrein og sönn tilbeiðsla.
11:7-14 — Hvað táknaði það að Sakaría skyldi brjóta stafina tvo sem kallaðir voru „Hylli“ og „Sameining“? Sakaría er lýst eins og hann sé sendur til að halda til haga „skurðarsauðunum“, það er að segja auðmjúku fólki sem leiðtogarnir arðrændu. Í þessu hlutverki er hann táknmynd um Jesú Krist sem var sendur til sáttmálaþjóðar Guðs en var hafnað. Að brjóta stafinn „Hylli“ var tákn um að Guð myndi fella úr gildi lagasáttmálann við Gyðinga og hætta að sýna þeim hylli. Að brjóta stafinn „Sameining“ táknaði að bræðraböndin milli Júda og Ísraels, sem byggðust á sannri tilbeiðslu, yrðu rofin.
12:11 — Hvert var „Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal“? Jósía Júdakonungur háði orustu við Nekó, faraó Egyptalands, „í Megiddódal“ og féll þar. Hann var syrgður með harmljóðum árum saman. (2. Kroníkubók 35:25) Hugsanlegt er að „Hadad-Rimmon-harmakveinið“ vísi til þess að þjóðin harmaði dauða hans.
Lærdómur:
1:2-6; 7:11-14. Jehóva hefur velþóknun á þeim sem taka ávítum, iðrast og snúa sér aftur til hans með því að tilbiðja hann af heilum huga. Hann snýr sér þá aftur til þeirra. Hann hlustar hins vegar ekki á áköll þeirra sem ‚gefa ekki gaum, þverskallast og gera eyru sín dauf‘ fyrir boðskap hans.
4:6, 7. Ekkert gat hindrað að andi Jehóva kæmi því til leiðar að musterið yrði endurreist. Við getum sigrast á öllum erfiðleikum í þjónustunni við Guð ef við trúum á hann. — Matteus 17:20.
4:10. Serúbabel og þjóð hans luku endurbyggingu musterisins undir vökulu auga Guðs og í samræmi við háleitar kröfur hans. Ófullkomnir menn geta staðið undir væntingum Jehóva.
7:8-10; 8:16, 17. Til að hljóta velþóknun Jehóva verðum við að ástunda réttlæti, kærleika og miskunnsemi og tala sannleika hvert við annað.
8:9-13. Jehóva blessar okkur þegar við erum hughraust og vinnum það verk sem hann hefur falið okkur. Blessunin er fólgin í friði, öryggi og sterkara sambandi við hann.
12:6. Þeir sem fara með forystu meðal þjóna Jehóva ættu að vera eins og „brennandi blys“, það er að segja einstaklega kostgæfir.
13:3. Hollusta okkar við hinn sanna Guð ætti að ganga fyrir hollustu við menn, hversu nákomnir sem þeir eru.
13:8, 9. Fráhvarfsmennirnir, sem Jehóva hafnaði, voru fjölmargir eða tveir hlutar landsmanna. Aðeins þriðjungur var hreinsaður í eldi. Jehóva hefur hafnað kristna heiminum og þar með meirihluta þeirra sem kalla sig kristna. Aðeins andasmurðir kristnir menn, sem eru lítill minnihluti, hafa ákallað nafn Jehóva og þegið hreinsun hans. Þeir og trúsystkini þeirra eru ekki aðeins vottar hans að nafninu til.
Knúin til verka
Hvaða áhrif hefur boðskapur Haggaí og Sakaría á okkur? Við höfum kynnt okkur hvernig þeir hvöttu Gyðinga til að leggja sitt af mörkum við að endurreisa musterið. Vekur það ekki löngun með okkur til að eiga sem mestan þátt í því að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum?
Sakaría spáði að Messías myndi ‚ríða asna‘, yrði svikinn fyrir „þrjátíu sikla silfurs“, yrði sleginn og að „hjörðin [myndi] tvístrast“. (Sakaría 9:9; 11:12; 13:7) Það hefur sterk áhrif á trú okkar að hugleiða hvernig spádómar Sakaría um Messías hafa ræst. (Matteus 21:1-9; 26:31, 56; 27:3-10) Við fáum enn meira traust á orði Jehóva og öllu sem hann hefur gert til að veita okkur hjálpræði. — Hebreabréfið 4:12.
[Neðanmáls]
[Rammi á blaðsíðu 27]
ÁTTA TÁKNSÖGULEGAR SÝNIR SAKARÍA
1:8-17: Veitir tryggingu fyrir því að musterið verði fullgert og Jerúsalem og aðrar Júdaborgir hljóti blessun.
2:1-4: Gefur fyrirheit um að „hornin, sem tvístruðu Júda,“ líði undir lok, það er að segja allar stjórnir sem standa gegn tilbeiðslunni á Jehóva.
2:5-17: Gefur til kynna að Jerúsalem stækki og Jehóva verndi hana eins og hann sé „eldveggur kringum hana“.
3:1-10: Sýnir að Satan stóð á bak við andstöðuna gegn endurreisn musterisins og að Jósúa æðstiprestur bjargist og hreinsist.
4:1-14: Veitir loforð um að fjallháar hindranir verði að engu og að Serúbabel landstjóri ljúki endurbyggingu musterisins.
5:1-4: Lýsir bölvun á hendur illvirkjum sem hafa ekki hlotið refsingu.
5:5-11: Boðar endalok allrar illsku.
6:1-8: Gefur fyrirheit um umsjón og vernd engla.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvert var markmiðið með boðskap Haggaí og Sakaría?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Í hvaða skilningi eru umsjónarmenn eins og „brennandi blys“?