Líturðu aðra sömu augum og Jehóva?
Líturðu aðra sömu augum og Jehóva?
„Til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.“ — 1. KOR. 12:25.
1. Hvernig leið þér þegar þú komst inn í andlegu paradísina á sínum tíma?
ÞEGAR við snerum baki við hinum illa heimi og fórum að umgangast þjóna Jehóva glöddumst við örugglega að finna kærleikann og umhyggjuna meðal þeirra. Hvílíkur munur að vera meðal fólks sem er ekki ruddalegt, hatursfullt og deilugjarnt eins og er áberandi í heimi Satans. Við gengum inn í andlega paradís þar sem ríkir friður og eining. — Jes. 48:17, 18; 60:18; 65:25.
2. (a) Hvað getur haft áhrif á álit okkar á öðrum? (b) Hvað gætum við þurft að gera?
2 En þar sem við erum ófullkomin gætum við með tímanum farið að einblína á galla trúsystkina okkar í stað þess að sjá heildarmyndina og horfa á kosti þeirra eins og Jehóva gerir. Með öðrum orðum gleymum við að líta þau sömu augum og Jehóva. Ef það gerist er kominn tími til að líta í eigin barm og leiðrétta okkur svo að við sjáum trúsystkini okkar í réttu ljósi. — 2. Mós. 33:13.
Hvernig lítur Jehóva á trúsystkini okkar?
3. Við hvað er kristna söfnuðinum líkt í Biblíunni?
3 Eins og fram kemur í 1. Korintubréfi 12:2-26 líkir Páll postuli söfnuði hinna andasmurðu við líkama sem hefur „marga limi“. Þeir sem mynda söfnuðinn hafa bæði ólíka hæfileika og persónueinkenni, rétt eins og líffæri líkamans eru ólík. En Jehóva lætur sér þessa fjölbreytni vel líka. Hann elskar alla í söfnuðinum og metur þá að verðleikum. Páll hvetur okkur því til að ‚bera sameiginlega umhyggju hvert fyrir öðru‘. Þetta getur reynst erfitt vegna þess að persónuleiki annarra getur verið ólíkur okkar.
4. Af hverju gætum við þurft að breyta um sýn á trúsystkini okkar?
4 Við gætum meira að segja haft tilhneigingu til að einblína á veikleika trúsystkina okkar. Það er rétt eins og við horfum í gegnum myndavél með aðdráttarlinsu og sjáum aðeins lítið svæði. Jehóva horfir hins vegar gegnum gleiðlinsu sem sér bæði myndefnið og umhverfi þess. Okkur hættir kannski til að sjá bara eitthvað sem okkur geðjast ekki að en Jehóva sér manninn allan, þar á meðal kosti hans. Því meir sem við leggjum okkur fram um að líkjast Jehóva þeim mun betur stuðlum við að kærleika og einingu innan safnaðarins. — Ef. 4:1-3; 5:1, 2.
5. Af hverju eigum við ekki að dæma aðra?
5 Jesús vissi mætavel að ófullkomnum mönnum hættir til að vera dómharðir. „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir,“ sagði hann. (Matt. 7:1) Samkvæmt frummálinu segir: „Hættið að dæma“. Jesús vissi að margir af áheyrendum hans voru gagnrýnir á aðra. Getur hugsast að við séum þannig? Ef við höfum tilhneigingu til þess að gagnrýna aðra ættum við að leggja hart að okkur til að breyta því svo að við verðum ekki sjálf dæmd. Höfum við nokkurn rétt til að dæma einhvern sem Jehóva notar til ákveðinna starfa eða halda því fram að hann eigi ekki heima í söfnuðinum? Ákveðinn bróðir hefur kannski einhverja galla en varla ættum við að hafna honum ef Jehóva heldur áfram að nota hann. (Jóh. 6:44) Trúum við því að Jehóva leiði söfnuð sinn? Treystum við að hann geri nauðsynlegar breytingar þegar hann telur tímabært, ef einhverra breytinga er þörf? — Lestu Rómverjabréfið 14:1-4.
6. Hvað sér Jehóva í fari þjóna sinna?
6 Jehóva hefur þann einstaka hæfileika að sjá hvað getur orðið úr hverju og einu okkar þegar við erum orðin fullkomin í nýja heiminum. Hann veit líka hvaða framförum við höfum tekið í þjónustu hans hingað til. Hann hefur því enga ástæðu til að einblína á hvern einasta veikleika sem við höfum. Við lesum í Sálmi 103:12: „Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.“ Við megum vera innilega þakklát fyrir það. — Sálm. 130:3.
7. Hvað má læra af því hvernig Jehóva leit á Davíð?
7 Við finnum sannanir í Biblíunni fyrir því að Jehóva hafi þann einstaka hæfileika að geta einbeitt sér að því góða í fari fólks. Hann kallaði Davíð þjón sinn og sagði svo: „[Hann] hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum.“ (1. Kon. 14:8) Við vitum auðvitað að Davíð gerði ýmislegt rangt. Jehóva kaus engu að síður að sjá hið góða í fari hans vegna þess að hann vissi að hjartalag hans var rétt. — 1. Kron. 29:17.
Líttu trúsystkini þín sömu augum og Jehóva
8, 9. (a) Hvernig getum við líkt eftir Jehóva? (b) Hvernig má lýsa þessu með dæmi og hvað má læra af því?
8 Jehóva sér hvað býr í hjörtum manna en við sjáum það ekki. Það er góð ástæða til að vera ekki dómhörð. Við vitum ekki alltaf hvað öðrum gengur til. Við ættum að reyna að líkja eftir Jehóva með því að einblína ekki á ófullkomleika annarra sem á eftir að hverfa með tíð og tíma. Væri ekki gott að setja sér það markmið að líkja eftir Jehóva að þessu leyti? Þannig stuðlum við að friðsamlegum samskiptum við bræður okkar og systur. — Ef. 4:23, 24.
9 Lýsum þessu með dæmi: Hugsum okkur hús sem er í niðurníðslu. Þakrennurnar eru að detta af, gluggarnir brotnir og loftklæðningar skemmdar sökum leka. Flestir sem horfa á húsið hugsa kannski sem svo að það ætti að rífa það; það stingur í augun. En svo kemur maður sem sér húsið allt öðrum augum. Hann horfir ekki aðeins á ytra útlit heldur gerir sér grein fyrir að húsið er traust og það er vel hægt að gera það upp. Hann kaupir það og gerir við augljósar skemmdir svo að útlit hússins stórbatnar. Þeir sem eiga leið hjá hafa nú orð á því hve húsið sé fallegt. Getum við líkt eftir manninum sem lagði vinnu í að gera upp húsið? Getum við horft á kosti trúsystkina okkar og möguleika þeirra á að taka framförum í trúnni í stað þess að einblína á galla þeirra? Ef við gerum það lærum við að elska bræður okkar og systur fyrir andlega fegurð þeirra, líkt og Jehóva gerir. — Lestu Hebreabréfið 6:10.
10. Hvernig geta leiðbeiningar Páls í Filippíbréfinu 2:3, 4 hjálpað okkur?
10 Páll postuli gaf góð ráð sem geta hjálpað okkur í samskiptum við alla aðra í söfnuðinum. Hann sagði: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ (Fil. 2:3, 4) Lítillæti hjálpar okkur að sjá aðra í réttu ljósi. Og ef við sýnum áhuga á öðrum og leitum að hinu góða í fari þeirra er það líka hjálp til að líta þá sömu augum og Jehóva gerir.
11. Hvaða breytingar hafa haft áhrif á marga söfnuði?
11 Breytingar, sem hafa orðið í heiminum á síðustu árum, hafa valdið því að fólk hefur flust búferlum í stórum stíl. Margar borgir eru nú byggðar fólki frá ýmsum löndum. Sumt af þessu aðflutta fólki hefur fengið áhuga á fagnaðarerindinu og tilbiður nú Jehóva ásamt okkur. Það er „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“. (Opinb. 7:9, Biblían 2007) Margir af söfnuðum okkar hafa þar af leiðandi fengið alþjóðlegt yfirbragð.
12. Í hvaða ljósi þurfum við að sjá hvert annað og af hverju getur það stundum verið hægara sagt en gert?
12 Við getum þurft að leggja okkur enn betur fram um að sjá hvert annað í réttu ljósi í söfnuðinum okkar. Við þurfum að hafa í huga hvatningu Péturs um að bera „hræsnislausa bróðurelsku í brjósti“ og elska hvert annað „af heilu hjarta“. (1. Pét. 1:22) Í söfnuði þar sem fólk er af ýmsu þjóðerni getur verið hægara sagt en gert að sýna ósvikinn kærleika. Menning trúsystkina okkar getur verið harla ólík því sem við erum vön og hið sama er að segja um menntun þeirra, uppruna og fyrri lífskjör. Finnst þér erfitt að átta þig á hugsanagangi og viðbrögðum sumra? Kannski finnst þeim það sama um þig. En hvað sem því líður er okkur sagt að ‚elska allt bræðrafélagið‘. — 1. Pét. 2:17, NW.
13. Hvaða breytingar gætum við þurft að gera á hugsunarhætti okkar?
13 Við gætum þurft að breyta um hugsunarhátt til að láta bróðurkærleikann ná til allra 2. Korintubréf 6:12, 13.) Höfum við einhvern tíma staðið okkur að því að segja eitthvað þessu líkt: „Ég hef enga fordóma en . . .“ og byrjað svo að tíunda eitthvað neikvætt sem okkur finnst einkenna fólk af ákveðnu þjóðerni? Ef sú er raunin getur verið að við eigum eftir að losa okkur við einhverja djúpstæða fordóma. Við þurfum að spyrja okkur hvort við leggjum okkur að staðaldi fram við að kynnast fólki af öðrum menningaruppruna. Sjálfsrannsókn af þessu tagi getur auðveldað okkur að virða og meta trúsystkini okkar af öðru þjóðerni.
í söfnuðinum. Við þurfum að hafa rúmgott í hjörtum okkar. (Lestu14, 15. (a) Nefndu dæmi um menn sem breyttu um hugsunarhátt. (b) Hvernig getum við líkt eftir þeim?
14 Í Biblíunni er sagt frá fólki sem þurfti að breyta hugsunarhætti sínum. Pétur postuli var í þeim hópi. Þar sem hann var Gyðingur hafði hann gætt þess að fara ekki inn á heimili heiðinna manna. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig honum hefur verið innanbrjósts þegar hann var beðinn að heimsækja Kornelíus sem var óumskorinn heiðingi. En Pétur sá málið í réttu ljósi og gerði sér grein fyrir að það væri vilji Guðs að fólk af öllum þjóðum kæmi inn í kristna söfnuðinn. (Post. 10:9-35) Sál, sem síðar varð Páll postuli, þurfti einnig að snúa við blaðinu og losa sig við fordóma. Hann viðurkenndi að hann hefði hatað kristna menn svo „ákaflega“ að hann ofsótti söfnuð Guðs og vildi „eyða honum“. En þegar Drottinn Jesús leiðrétti Pál gerbreytti hann um afstöðu og tók jafnvel við leiðbeiningum frá þeim sem hann hafði áður ofsótt. — Gal. 1:13-20.
15 Enginn vafi leikur á því að við getum breytt viðhorfum okkar með hjálp anda Guðs. Ef við finnum einhver merki um fordóma í fari okkar skulum við vinna að því að uppræta þá og „varðveita einingu andans í bandi friðarins“. (Ef. 4:3-6) Í Biblíunni erum við hvött til að íklæðast „elskunni, sem er band algjörleikans“. — Kól. 3:14.
Líktu eftir Jehóva í boðunarstarfinu
16. Hvað vill Jehóva að fólk geri?
16 „Guð fer ekki í manngreinarálit,“ skrifaði Páll postuli (Rómv. 2:11) Jehóva vill að fólk af öllum þjóðum sameinist í tilbeiðslu á sér. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.) Þess vegna hefur hann látið boða „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ eilífan fagnaðarboðskap. (Opinb. 14:6) „Akurinn er heimurinn,“ sagði Jesús. (Matt. 13:38) Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig og þína nánustu?
17. Hvernig getum við hjálpað alls konar fólki?
17 Ekki geta allir flust til fjarlægra landa til að flytja fólki fagnaðarerindið. Hins vegar má vel vera að við séum í aðstöðu til að flytja boðskapinn til fólks frá öllum heimshornum sem býr á safnaðarsvæði okkar. Erum við vakandi fyrir því að vitna fyrir alls konar fólki, ekki aðeins þeim sem við höfum vitnað fyrir árum saman? Væri ekki þjóðráð að gera sér far um að ná til annarra sem hafa ekki fengið næg tækifæri til að heyra boðskapinn? — Rómv. 15:20, 21.
18. Hvaða umhyggju sýndi Jesús fyrir fólki?
18 Jesús vissi hve mikilvægt það var að ná til allra. Hann prédikaði ekki bara á takmörkuðu svæði. Í einni af frásögum Biblíunnar segir að hann hafi farið „um allar borgir og þorp“. Síðan segir: „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um“ fólkið og lét í ljós að það væri hjálparþurfi. — Matt. 9:35-37.
19, 20. Hvernig getum við líkt eftir umhyggju Jehóva og Jesú fyrir fólki af alls konar uppruna?
19 Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Sumir gera sér far um að boða fagnaðarerindið á stöðum þar sem frekar sjaldan er starfað. Þetta gætu verið viðskiptasvæði, almenningsgarðar, umferðarmiðstöðvar eða við fjölbýlishús þar sem aðgangur er ekki leyfður. Sumir hafa lagt það á sig að læra nýtt tungumál til að prédika fyrir málhópum sem hafa nýlega flust á svæðið eða fyrir hópum sem lítið hefur verið prédikað fyrir. Ef við lærum að heilsa fólki á móðurmáli þess getur það sent því þau skilaboð að við höfum áhuga á velferð þess. Ef við höfum ekki tök á að læra annað tungumál getum við kannski hvatt þá sem eru að því. Ekki viljum við vera neikvæð í þeirra garð eða vera með getsakir um hvers vegna þeir séu að leggja það á sig að prédika fyrir fólki frá öðrum löndum. Hvert einasta mannslíf er dýrmætt í augum Guðs og við viljum hafa sama viðhorf og hann. — Kól. 3:10, 11.
20 Ef við lítum aðra sömu augum og Guð hefur það í för með sér að við boðum öllum fagnaðarerindið, óháð aðstæðum þeirra. Sumir eru ef til vill heimilislausir, illa til reika eða lifa greinilega siðlausu lífi. Þó að einhverjir séu óvinsamlegir ættum við ekki að hugsa neikvætt um alla sem eru af sama þjóðerni. Páll varð stundum fyrir því að menn sýndu honum óvild en hann hætti samt ekki að prédika fyrir fólki sem var af sama uppruna og þeir. (Post. 14:5-7, 19-22) Hann treysti því að sumir myndu engu að síður taka við fagnaðarerindinu.
21. Af hverju er æskilegt að líta aðra sömu augum og Jehóva gerir?
21 Það er greinilegra en nokkru sinni fyrr að við þurfum að hafa rétt hugarfar — hugarfar Jehóva — í samskiptum við samlanda okkar í heimasöfnuðinum, trúsystkini af öðrum þjóðum og fólk á svæðinu. Því betur sem við getum líkt eftir Jehóva þeim mun betur stuðlum við að friði og einingu. Og þá verðum við í betri aðstöðu til að hjálpa öðrum að elska Jehóva Guð sem fer ekki í manngreinarálit heldur sýnir öllum ást og umhyggju enda eru þeir allir „handaverk hans“. — Job. 34:19.
Geturðu svarað?
• Hvernig ættum við ekki að líta á trúsystkini okkar?
• Hvernig getum við tileinkað okkur sama viðhorf og Jehóva til trúsystkina okkar?
• Hvernig eigum við að líta á trúsystkini af öðru þjóðerni?
• Hvernig getum við líkt eftir afstöðu Jehóva þegar við erum í boðunarstarfinu?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvernig geturðu kynnst fólki af öðrum menningaruppruna?
[Myndir á blaðsíðu 28]
Hvernig getum við komið fagnaðarerindinu til fleira fólks?